Fara í efni
Pistlar

Hinn fágæti rúmenareynir og ný ættkvísl reynitrjáa

TRÉ VIKUNNAR - LXXXII

Á Íslandi má finna mikinn fjölda af fallegum reynitegundum sem þrífast með mestu ágætum. Sumar þeirra eru vinsælli en aðrar. Í dag segjum við frá einni af þeim tegundum sem lent hafa undir radarnum hjá mörgum en mætti að ósekju hljóta meiri athygli. Kallast hún rúmenareynir. Tegundin er enn sem komið er fremur fágæt í ræktun en miðað við reynsluna úr Lystigarðinum á Akureyri er full ástæða til að rækta þetta tré meira en gert er.

Við notum tækifærið í leiðinni til að segja ykkur frá breytingum sem margir flokkunarfræðingar vilja gera á reyniættkvíslinni. Þar kemur rúmenareynir við sögu.

 

Rúmenareynir er mjög blómsæl tegund sem á skilið að vera ræktuð meira en raun ber vitni. Mynd: Sig.A.

Lýsing og heimkynni

Ekki eru til miklar upplýsingar um tegundina á tungumálum sem við fáum einhvern botn í. Kann það að stafa af því að rúmenareynir er ekki mikið ræktaður úti í hinum stóra heimi. Þar sem tegundin vex villt eru töluð tungumál sem stjórnarmenn í Skógræktarfélaginu kunna ekkert í. Þess vegna er ekki rúmt um úrræði þegar kemur að upplýsingaleit á þráðum netsins

Þær fáu heimildir, sem við höfum aðgang að, eru ekki einu sinni að fullu sammála um hvar tegundin vaxi villt. Þó er ljóst að hana er að finna í fjalllendi í Suðaustur-Evrópu, einkum í Karpatafjöllum. Rúmenareyni má finna í löndum eins og Búlgaríu og svo auðvitað í Rúmeníu, ef marka má World Flora Online. Á íslensku er þessi reynir kenndur við síðarnefnda landið. Að auki nefna sumar heimildir Króatíu, en aðrar nefna norðurhluta Grikklands, sem heimalönd rúmenareynis.

 

Kort af vefsjá World Flora OLine (WFO) af útbreiðslu rúmenareynis, Hedlundia borbasii, sem áður hét Sorbus borbasii. Þarna er hafður sá háttur á að merkja inn löndin þar sem tegundin þrífst, Rúmenía, Búlgaría og Grikkland. Rúmenareynir vex samt ekki allstaðar á þessu svæði. Í Grikklandi er tegundina aðeins að finna allra nyrst eða í fjöllunum við landamærin að Búlgaríu. Sumar heimildir nefna að tegundin sé einnig að finna í Króatíu en vísindamenn Kew Gardens hafna því, ef marka má kortið.

Þrátt fyrir þennan skort á erlendum heimildum er það ekki svo að við vitum ekkert um tréð. Tréð vex á Íslandi og hægt er að nýta þá reynslu til að lýsa því. Í Lystigarðinum myndar Rúmenareynir fremur lítið tré með löngum, bogadregnum og áberandi tenntum laufblöðum. Tréð á það til að blómstra mikið. Blómin eru hvít í þéttum klösum og fræflarnir eru áberandi langir. Tréð virðist prýðilega aðlagað íslensku loftslagi og það þroskar rauð eða dimmrauð ber á haustin.

Tvær myndir af berjum rúmenareynis þann 1. september 2024. Þarna eru þau enn græn en rauði liturinn er að myndast. Myndir: Sig.A.
 

Sama tré þann 26. september. Ekkert bólar á haustlitum en berin hafa þroskast. Mynd: Sig.A.

Rúmenareynir er blaðfallegur, blómsæll og laðar að sér fugla í berjaveislu á haustin. Stundum hanga berin langt fram eftir vetri á rúmenareyni. Laufkrónan er þétt og falleg. Hann ætti að getað hentað í garða á Íslandi og til skrauts í björtum og skýldum skógarjöðrum. Vöxturinn er það þéttur að vel má nota tegundina til að skerma af svæði. Þessi reynir er fremur lágvaxinn og er sagður geta orðið um 7-10 metrar á hæð eða jafnvel enn hærri í útlöndum og hann vill helst vera á björtum stað eins og aðrar reynitegundir.

 

Ber á rúmenareyni. Sjá má að nokkur hafa horfið af stilkunum. Þau hafa vafalítið orðið að fæðu fyrir þresti. Mynd: Sig.A.

Laufblöð

Til eru fjölmargar tegundir reynitrjáa í ræktun á Íslandi. Hægt er að skipta þeim í þrjá hópa eftir útliti laufblaða. Í fyrsta hópnum eru þá tegundir með fjöðruð blöð eins og við þekkjum svo vel hjá íslenska reyniviðinum eða ilmreyni, Sorbus aucuparia. Í öðrum hópnum eru reynitré með heil blöð eins og silfurreynirinn, S. intermedia, hefur. Í þriðja hópnum eru tegundir sem eru þarna mitt á milli. Tré vikunnar, rúmenareynir, er þar á meðal.

Á Íslandi eru fjölmargar tegundir í fyrsta hópnum þótt ilmreynir sé þeirra algengastur. Hjá þeim öllum er hvert laufblað samsett úr nokkrum smáblöðum. Á meðal þeirra tegunda sem ræktaðar eru á Íslandi úr þessum hópi trjáa eru nokkrar asískar tegundir. Við nefnum silfurreyni sem dæmi um tré í hóp númer tvö, enda hefur hann lengi verið í ræktun. Honum er að vísu sjaldan plantað um þessar mundir, því hann er dottinn úr tísku. Aðrar tegundir hafa leyst hann af hólmi.

Frægast þeirra trjáa, sem tilheyra þriðja hópnum, er gráreynir, S. hybrida, sem af flestum er talinn blendingur ilmreynis og silfurreynis. Tré vikunnar, rúmenareynir, er ein af þeim tegundum sem fylla þennan hóp. Af myndinni hér að neðan má sjá laust blaðpar næst blaðbotninum. Þar fyrir ofan er heilt blað, sem þó hefur töluverða skerðingu næst lausu bleðlunum.

 

Neðra og efra borð laufblaða rúmenareynis. Sjá má að eitt par smáblaða er alveg aðskilið frá blöðkunni en þar ofan við er blað sem er næstum aðskilið. Blaðið til hægri er óvenjulegt þar sem fliparnir skarast. Algengara er að þeir séu gagnstæðir. Neðra borðið er töluvert hært og því grátt á litinn. Efra borð blaðanna er grænt og glansandi. Sjá má að blaðstilkurinn er einnig mikið loðinn. Mynd: Sig.A.

Uppstokkun ættkvísla

Árið 2005 gaf hinn mikli reynispekingur Hugh McAllister út bók um reynitegundir með fjöðruð blöð. Það eru reynitegundir sem við settum í fyrsta hópinn hér að ofan. Í þeirri bók eru sett fram rök þess efnis að réttast væri að hafa slíkar plöntur í áfram í þeirri ættkvísl sem lengi hefur verið kölluð Sorbus. Hinar tegundirnar vildi McAllister færa úr ættkvíslinni. Samkvæmt tillögu hans áttu flestar reynitegundir með heil blöð (hópur tvö hér að ofan) að fara í ættkvísl sem hann nefndi Aria. Erkitréð í þeirri ættkvísl átti að vera Aria aria, sem hefur lengst af hefur gengið undir nafninu Sorbus aria og kallast seljureynir á íslensku. Ef við förum eftir þessu ætti silfurreynirinn ekki að heita Sorbus intermedia eins og við kölluðum hann hér að ofan, heldur Aria intermedia.

Svona breytingar eru ekki óumdeildar og ýmiss ljón eru í veginum enda hefur margur þurft að ræskja sig að minna tilefni. Það er alls ekki þannig að allir grasafræðingar séu farnir að skipta ættkvíslinni upp. Hér ofar notum við enn gömlu heitin og köllum allan reynivið Sorbus en líklegt er að það breytist smám saman.

 

Þrjú laufblöð reynitrjáa sem skordýralirfur hafa nartað í. Ef ekkert dýr étur af þínum trjám teljast þau varla partur af vistkerfinu. Lengst til vinstri er íslenskur ilmreynir. Lengst til hægri er silfurreynir. Á milli þeirra er gráreynir sem talinn er blendingur hinna tveggja tegundanna. Tilheyra þessi laufblöð einni, tveimur eða þremur ættkvíslum trjáa? Mynd: Sig.A.

Eitt af því sem mælir gegn þessari skiptingu er að þessi tré geta æxlast saman milli hópa. McAllister hefur bent á að þetta er ekki einsdæmi innan rósaættarinnar, Rosaceae, en reynir tilheyrir einmitt henni. Því telur hann að þetta sé ekki vandamál.

Þessar blendingstegundir eru gjarnan þannig að þær eru að mestu ófærar um kynæxslun. Það breytir samt ekki öllu, því margar þeirra geta stundað geldæxlun í stað kynæxlunar. Þannig er það trúlega með rúmenareyni en við getum ekki staðfest það. Slík tré köllum við gjarnan örtegundir. Örtegundir mynda fræ með geldæxlun þannig að allar plönturnar hafa nákvæmlega sama erfðaefnið.

 

Rúmenareynir er mikið augnayndi í fullum blóma eins og sjá má. Mynd: Sig.A.

Hedlundia Sennikov & Kurtto

Frá því McAllister setti fram sínar hugmyndir hafa vísindamenn velt vöngum yfir hvar flokka skuli þessar blendingstegundir. Nú virðast margir flokkunarfræðingar hafa dottið niður á sérstaka niðurstöðu. Þeir hafa tekið þessar tegundir sem eru mitt á milli reynitrjáa með heil laufblöð (Aria tegundir) og tegunda með fjöðruð lauf (Sorbus tegundir) og látið þær saman í sérstakan hóp (hópur þrjú hér ofar). Þessar tegundir mætti skrá sem Aria × Sorbus. Það nafn er samt ekki nafnið sem fræðingarnir nota, enda má það sjaldnast svo til ganga að eðlilegasta leiðin sé valin. Þess í stað settu þeir þessar tegundir saman í nýja ættkvísl sem kallast Hedlundia. Þeir félagar Alexander Nikolaevitsch Sennikov og Arto Kurtto eiga heiðurinn af þessu nafni eins og sjá má á fyrirsögninni. Nöfn þeirra er að finna á eftir hinu skáletraða nafni ættkvíslarinnar. Þeir stungu upp á þessu árið 2017 og nú virðast fleiri og fleiri grasa- og flokkunarfræðingar fallast á rök þeirra. Nánar má lesa um þessar breytingar hér.

Innan þessarar nýju ættkvíslar eru nú 48 skilgreindar tegundir sem eiga heimkynni sín í Evrópu, þar með talið í Skandinavíu og austur til Tyrklands, Kákasus, Krímskaga og austur til Mið-Asíu. Meðal tegunda eru nokkrar sem hafa verið ræktaðar hér á landi eins og gráreynir, Hedlundia hybrida, týrolareynir, H. austriaca og alpareynir, H. mougeotii. Hingað til hafa þær tegundir verið flokkaðar sem Sorbus hybrida, S. austriaca og S. mougeotii.

Þessi nýja ættkvísl er nefnd eftir sænskum reynisérfræðingi að nafni Teodor Hedlund (1861-1952). Eftir honum er ein reynitegund nefnd. Ber hún fræðiheitið Sorbus hedlundii. Hún er ein af þessum reynitegundum sem hafa heil blöð, svo ef til vill verður hún einhvern tímann færð í aðra ættkvísl og hugsanlega nefnd Aria hedlundii. Reyndar hafa fleiri tillögur verið nefndar en þær eru utan við efni þessa pistils. Hedlund á heiðurinn af hátt í 50 nöfnum á tegundum. Þar af eru níu tegundir sem nú hafa verið settar í þessa nýju ættkvísl, ef marka má WFO.

 

Hér má sjá að sum laufblöðin hafa ekki lausa bleðla. Það munar samt ekki miklu. Hér sést líka að blómin eru í flötum sveipum og veðrið er dæmigert fyrir Akureyri. Mynd: Sig.A.

Önnur heiti rúmenareynis

Nú snúum við okkur aftur að tegund vikunnar. Á íslensku er þessi tegund kölluð rúmenareynir, enda barst hún hingað frá Rúmeníu. Í flestum ritum er fræðiheitið enn sagt vera Sorbus borbasii Jáv. og það nafn er til dæmis notað á heimasíðu Lystigarðsins. Hið nýja nafn er Hedlundia borbasii. Auðvitað er það svo að þar sem þetta nafn er að finna er alveg óvíst að lesendur átti sig á því að þetta séu sama tegundin. Til að leysa þann vanda stendur gjarnan syn. Sorbus borbasii. Syn. Er þá stytting á orðinu synonym sem notað er yfir eldri heiti sem þá ber að líta á sem samheiti hins nýja heitis.
 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að lesa pistilinn

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00