Hörmungar á hundavaði

„Erum við orðin svo rosalega úrkynjuð að hundspott eru farin að verða mikilvægari en manneskjan? Ég var að lesa um „andlát“ hunds sem kannski borðaði ekki nóg og elsku drengurinn burtkallaðist fyrir aldur fram og allar lýsingar voru eins og um manneskju væri að ræða. Hvaða lund þjónar þetta hundaæði annars? Hér áður fyrr átu dýr og drápust en nú búið að manngera þau. Og svo tekur náttúrlega steininn úr þegar hæstvirtur félagsmálaráðherra ætlar að leyfa óhamið hundafargan í fjölbýlishúsum þar sem réttur þeirra sem vonast eftir kyrrlátu ævikvöldi er fótum troðinn. Nei, nú er mér nóg boðið!“
Það hvein og hrikti í Aðalsteini vini mínum þegar hann hringdi í mig í vikunni, gjörsamlega tjúllaður. Þetta var of heitt mál til að senda mér skilaboð, hann þurfti að fylgja skoðunum sínum eftir með þrumuraust. Hvað gat ég sagt, annálaðar dýravinurinn? Samt hafði ég ákveðinn skilning á málflutningi hans.
„Jú, sjáðu til, það er víst margsannað mál að gæludýr vega upp á móti einmanaleika hjá gamla fólkinu, þau geta hjálpað fötluðum og barnlaust fólk fær gjarnan mikið upp úr því að eiga hund eða kött sem vin eða staðgengil fyrir barn,“ byrjaði ég varfærnislega.
„Mikið ertu bláeygur,“ spýtti Aðalsteinn Öfgar út úr sér. „Það er unga fólkið sem er með alla þessa hunda, meira að segja barnafólk, algjörlega ofurselt einhverri tísku sem krefur það um að kaupa hvolp fyrir hálfa milljón eða meira í harðvítugri samkeppni við vinafólkið á samfélagsmiðlum. Þessir svokölluðu hundaræktendur eru að útvega sér lífsviðurværi með því að dæla þessum kvikindum inn á markaðinn og skapa eftirspurn og þetta bætist bara við allar aðrar gerviþarfir sem uppvaxandi kynslóð er svo gegnsýrð af.“
Þetta var allt að fara í hund og kött hjá okkur félögunum, sama hvað ég reyndi að róa hann. Sjálfur þekki ég bara einn hund í minni fjölskyldu og hann er alveg yndislegur og það liggur við að maður sjái fyrir sér kyrrlátt ævikvöld klappandi svona greyi en ég met frelsið meira og er ekkert viss um að allir þessir hundar hafi það svo gott.
„Það er málið,“ tók Alli undir. „Ég var búinn að segja þér frá geltandi tvistgöndlinum hérna í næsta húsi við mig á Eyrinni. Eigandinn fer út í garð með hundinn á klukkutíma fresti frá því fyrir klukkan sjö á morgnana og fram yfir miðnætti til að reykja og á meðan geltir hundurinn stanslaust. Svo á gaurinn það til að fara út á kvöldin og þá skilur hann Ketil skræk eftir úti í glugga með opnanlegt fag upp á gátt og ýlfrið og kveinið og skrækirnir berast stundum tímunum saman út og alla leið inn til mín þótt ég sé kannski í norðurenda íbúðarinnar. Ég get ekki ímyndað mér að þessi hundur sé hamingjusamur og hann er sannarlega ekkert einsdæmi. Fyrst langaði mig að eitra fyrir honum en svo fattaði ég að þetta er ekki kvikindinu að kenna heldur eigandanum og ég hugsa stundum ljótt,“ viðurkenndi hann.
Aðalsteini þótti allt þetta hundafár vera komið út í... öfgar. Fólk væri líka farið að fá sér árásarhunda og alls kyns hættuleg afbrigði og ég krafti fjölskyldusameiningar hefðu verið flutt inn sködduð gæludýr frá stríðshrjáðum löndum og smám saman væru réttindi hunda að aukast í takt við stigvaxandi fjölda.
„Ég veit það eitt að ég fæ engan hljómgrunn ef ég kvarta yfir geltandi hundi nágrannans en ef ég myndi stilla hátölurunum út í glugga og spila The Wall í botni þá myndi löggan koma áður en fyrsta lagið væri búið og stinga mér í steininn. Og ef Sælandið ætlar að fylla öll fjölbýlishús af skrækjandi smákvikindum og ungverskum árásarhundum þá er gróflega brotið á réttindum hundlausra. Við verðum að berjast fyrir rétti fólks til að lifa í geltlausu umhverfi, allavega hafa þá sérstakar hundablokkir eða hverfi og aðrar algjörlega hundlausar. Annars flyt ég úr landi, til Portúgals eða eitthvað.“
Ég stillti mig um að benda honum á að víða í Portúgal gengju hundar lausir og villtir og í fínni hverfunum væru geltandi varðhundar á hverju strái. En hvað er þá til ráða fyrir Aðalstein Öfgar?
Stefán Þór Sæmundsson er kennari og mátulega mikill hundavinur


Tengslaröskun geðlæknisins

Nokkur grunnhugtök um vatn í jarðvegsauðlindinni

Rauðkál

Fíkn og viðhorf
