Svefnsófi

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 74
Gunni bróðir, fimm árum eldri en ég, fékk svefnsófa í fermingargjöf. Ég man hvað það voru mikil og nýstárleg tíðindi í fjölskyldunni. Gott ef ekki forfrömun.
Ég hygg að óvenjulegur beddinn hafi verið sameiginleg gjöf frá öfum okkar og ömmum í báða leggi, enda var um töluferða fjárfestingu að ræða, en krakkar þyrftu á þessu að halda, því langur tími gormabreiðu dívananna væri liðinn.
En þeir voru smíðaðir heima, þessir nýju, opnanlegu. Það þótti fyrir mestu. Og bólstraðir að hætti heimamanna. Almennilega undir brík. En svo var þetta látið heita eitthvað meira. Gott ef ekki spónlagt og þaðan af betra.
Og þar kom að því að heila Syðri-Brekkan var svefnsófavædd á nokkrum vetrum. Og líklega gilti það sama um önnur hverfi á Akureyri. Harla dasaðir, smáðir og útmignir dívanar fóru á haugana eins og útsmáðir fulltrúar alltof gamalla tíma og áttu sér engan tilverurétt í nýjum veruleika opnanlegra svefnsófa.
Og ég man viðbrigðin.
Stundum fór ég inn í herbergi Gunna bróður, að honum forspurðum, eins og fyrir dáleiðslu eða alls þess ómeðvitaða í hjarta manns og huga sem þráir að sjá það skrýtna og óvenjulega, en með einni lítilvægri handahreyfingu lyftist lokið af svefnkistunni, og holrúmið undir niðri blasti við, sem gat svo hæglega gleypt allan heila koddann, lakið og sængina, eins og sakir galdurs, en þessu var hægt að henda ofan í hólfið úr einum og sama lófanum.
Ég varð auðvitað að prófa. Leggjast á hann flatur. Og mýktin undir hryggnum var náttúrlega engu lagi lík. Það stungust engir gormar undir bakstykkið, heldur lá búkurinn bara værðarlega ofan á einhverju draumkenndu skýi sem mátti heita plastfroða eða svampur, en hvorug orðin skildum við krakkarnir til fulls, sem breytti auðvitað litlu um það að maður margsofnaði á staðnum.
Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.
- Í NÆSTU VIKU: NJÓLI


Rabbabari á skúrþaki

Hörmungar á hundavaði

Tók stigann í ólöglega fáum stökkum

Tengslaröskun geðlæknisins
