Fara í efni
Pistlar

Tengslaröskun geðlæknisins

Í tvö ár hef ég verið iðinn að skrifa á Facebook um geðheilbrigðismál og forvarnir og reynt að gefa fólki innsýn í starf og fagheim geðlæknisins. Ég hef lagt mig fram um að vera jákvæður og fræðandi í löngun minni til þess að gera gagn. Viðtökur hafa verið góðar og því kom mér á óvart þegar aðgangi mínum var skyndilega lokað án skýringa.
 
Þegar ég hafði komist yfir samsæriskenningar og var farinn að jafna mig aðeins yfir þessari miskunnarlausu höfnun stofnaði ég nýjan reikning til þess að reyna að endurheimta gömul vinatengsl. Það var ekki gott að finna að frekar fáir höfðu áttað sig á brotthvarfi mínu og lífið í netheimum virtist bara hafa haldið áfram ótruflað. Án mín. Samsærishugsunin varð aftur sterkari. En þetta átti eftir að versna. Þegar ég svo fór að senda vinabeiðnir til gamallra og tryggra vina minna vildu þeir ekkert kannast við mig og leiddu beiðnirnar hjá sér, sáu mig hvorki né heyrðu. Létu eins og ég væri ekki til. Skilaboð með hjartnæmum skrifum mínum um tillögu um endurnýjun vináttu lágu ósvaraðar. Mér leið bara eins og í gamla daga í dansskóla Heiðars Ástvaldssonar þegar manni var, í dömufríinu, boðið upp allra síðast. Það var bara eins og ég væri eitraður, smitandi, óalandi, óferjandi.
 
Já höfnunin er beitt vopn að verða fyrir og það svíður. Ætli almættið hafi ekki hugsað sér, þegar það smíðaði þessa kennd í okkur, að þetta gæti verið gott verkfæri til að lækka í okkur rostann af og til.
 
En ég gafst ekki upp og hélt áfram að ítreka vinabeiðnirnar og nú með nýrri aðferð sem tryggja átti að ég gæti sannað hver ég væri og staðfest að ég væri mennskur.
 
Körlunum sendi ég einföld skilaboð með mynd af bílnum mínum og texta sem sagði: Minn bíll er stærri en þinn. Eða Arsenal er best. Og þeir svöruðu auðvitað strax með metingi. Verkefnið varð aðeins flóknara og fjölbreyttara hjá konunum. Einni sendi ég mynd sem ég átti frá skíðaferð okkar fyrir 50 árum síðan. Annarri sendi ég lýsingu á klæðnaði hennar þegar við hittumst fyrst og þriðju, sem er úr sveit, sendi ég fjármarkið hennar. En þegar ég sóttist eftir endurupptöku í lokaðan hóp lækna þá vandaðist málið því þá þurfti ég að svara ýmsum spurningum sem tengdust starfinu og mér leið bara eins og í vorprófunum í Læknadeildinni áður fyrr. M.a. þurfti ég að gera grein fyrir helstu meðferð við ákveðnum bráðavandamálum. Það eru sko meira en þrír áratugir síðan ég vann á bráðamóttökunni. En þetta rifjaðist upp og ég komst inn og þessari vefrænu tengslaröskun er að ljúka. Enn og aftur hef ég verið áminntur um mikilvægi tengsla og vináttu og nú birtast gömlu góðu vinirnir hver af öðrum og það gleður mig líka að sjá ný andlit þar á meðal.
 
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Nokkur grunnhugtök um vatn í jarðvegsauðlindinni

Sigurður Arnarson skrifar
02. apríl 2025 | kl. 08:30

Rauðkál

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 11:30

Fíkn og viðhorf

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 09:45

Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 07:45

Selur í eldhúsvaski

Jóhann Árelíuz skrifar
30. mars 2025 | kl. 09:00

Erum við kjánar?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
29. mars 2025 | kl. 06:00