Auðnutittlingur

TRÉ VIKUNNAR - 104
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _
Í fyrndinni bjó allt mannkyn í gleðisnauðum heimi á tiltölulega litlum skika á þessari jörð. Endalaus nótt grúfði yfir og fólkið kunni ekki að kveikja eld. Hann var allur á valdi risabjarndýrs í hinu fjarlæga norðri. Gætti björninn eldsins af svo miklu offorsi að enginn maður vogaði sér að reyna að ná í svo mikið sem sýnishorn. Á þessum tíma var auðnutittlingur óásjálegur smáfugl í skóginum, án allra sérkenna. Hann heyrði mannkynið gráta þessi örlög sín enda skildu fuglar og menn hvorir aðra í þá daga. Þrátt fyrir smæðina var auðnutittlingurinn bæði kotroskinn og hugaður. Nú kom að því að þessi litli fugl vildi hjálpa mannkyni. Hann fór því í hina óralöngu ferð í norður í leit að hinum grimma birni. Á leiðinni lenti hann í margvíslegum ævintýrum sem margar sögur fara af og sannaðist þar að margur er knár þótt hann sé smár. Að lokum tókst honum með klækjum að næla sér í brot af eilífðareldinum. Hann flaug með hann til mannkyns í gogginum og var að sjálfsögðu tekið fagnandi. Litli fuglinn rétti fólkinu eldinn og bað það að gæta hans vel.
Þetta var engan veginn auðvelt fyrir svona lítinn fugl. Hans helsta vandamál á heimleiðinni var hitinn frá glóðinni sem hann bar á kvisti í nefinu. Hitinn skildi eftir sig rauðan blett á kolli fuglsins. Síðan ber hann þetta rauða merki á höfðinu sem vitnisburð um dáð sína, knáleika og hugrekki. Þessa skýringarsögn, um rauða blettinn í enni auðnutittlings, hafði Sigurður Ægisson í svipaðri útgáfu eftir frumbyggjaþjóð í Norður-Ameríku og birti í sinni skemmtilegu bók: Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin (2020).

Auðnutittlingur, Carduelis flammea (syn. Acanthis flammea) er einn af þeim fuglum sem heldur til í skógum og kjarrlendi Íslands allt árið. Má líta á hann sem einn af einkennisfuglum birkiskóganna en hann heldur einnig til í blandskógum og verpir ekkert síður í grenitré en birkitré. Svo er algengt að hann dvelji í görðum landsmanna og þar verpir hann einnig og þiggur fóðurgjafir á vetrum. Hann er algengur og útbreiddur varpfugl og telst til finkuættar, Fringillidae.
Sumir segja að auðnutittlingar hér á landi séu taldir til sérstakrar deilitegundar. Kallast hún Carduelis flammea islandica. Sumar bækur geta þess ekki, svo ef til vill er þetta eitthvað málum blandið. Sigurður Ægisson (2024) fræddi okkur á að nokkur uppstokkun hefur verið að undanförnu í flokkun auðnutittlinga og skyldra tegunda. Það skýrir smávægilegan mun sem sjá má milli heimilda.
Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn


Sandhóllinn

Búsið úti í buskanum

Kobbi er greinilega kona!

Bölvaldur og blessun: Sitkalús
