Hirðingjareynir

TRÉ VIKUNNAR - 106
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _
Í vikulegum pistlum okkar um tré hefur okkur orðið skrafdrjúgt um ýmsar reynitegundir. Auðvitað höfum við fjallað um íslenska ilmreyninn eða reyniviðinn en einnig höfum við fjallað um ýmsar aðrar reynitegundir. Ber þar einna mest á tegundum frá Asíu sem mynda svokallaðar örtegundir sem stunda geldæxlun og finnast aðeins á afmörkuðum svæðum. Það er samt hreint ekki þannig að allar asískar tegundir séu örtegundir. Tré vikunnar er ein af þeim asísku reynitegundum sem treystir á hefðbundna kynæxlun og vex á stóru svæði.
Hirðingjareynir, Sorbus tianschanica Rupr., er snotur tegund sem að ósekju mætti vera meira ræktuð í görðum og skógarteigum á Íslandi.

Blómin á hirðingjareyni eru mjög snotur. Mynd: Sig.A.
Heimkynni
Tegundin vex á nokkuð stóru svæði í Mið-Asíu. Það þarf ekki einu sinni að miða við allan þann fjölda af örtegundum sem þar vaxa á litlum, afmörkuðum svæðum til að sjá það. Hirðingjareynir vex í Asíulýðveldunum sem áður voru hluti af Sovétríkjunum og eru stundum nefnd einu nafni stanlöndin eða Langtíburtistan því þau enda öll á viðskeytinu -stan. Rétt er þó að taka það fram að tréð vex ekki villt í Trumpistan við Ameríkuflóa. Hirðingjareynir vex einnig í Afganistan og Pakistan sem hafa sömu endingu og gömlu Sovétlýðveldin og svo í Kashmirhéraði við landamæri Indlands og Pakistan og einnig í Kína (McAllister 2005). Hann vex villtur hátt til fjalla á þessu svæði. Vanalega er hann í 2000 til 3200 metra hæð. Oftast vex hann í fjalladölum og gjarnan meðfram ám eða í skógarjöðrum þar sem birtu nýtur.

Inn á þetta kort frá World Flora on Line eru þau landsvæði merkt þar sem hirðingjareynir vex. Þarna eru Kazakhstan, Kirgistan, Pakistan, Afganistan, Uzbekistan, Taszhikistan, vesturhluti Himalaja (Kashmir) og Xinjiang og Qinghai í Kína.
Útlit
Þetta er tegund sem myndar nokkuð stóra runna eða lítil tré. Í heimkynnum sínum verður hún allt að 10 m há. Oft eru plönturnar þó töluvert minni og í kínverskri flóru er sagt að tegundin verði aðeins 5 metra há. Bendir þetta til mikillar erfðafjölbreytni innan hennar.
Hér á landi eru plönturnar jafnan klipptar þannig að þær myndi lítil tré. Oftast nær halda þau krónu sinni alveg niður að jörðu ef birta er næg.
Eitt af því sem einkennir hirðingjareyni er að ársprotarnir glansa óvenjumikið. Þeir geta verið rafbrúnar á litinn. Eldri greinar verða grábrúnar og stofninn verður grár og hann springur með aldrinum.
Brumin eru keilulaga, rauðleit og allt að 10 mm að lengd og bláendinn er áberandi ljóshærður ef ekki beinlínis gráhærður eins og sjá má á myndinni.

Brum hirðingjareynis eru allt að 10 mm löng, rauð eða rauðbrún að lit með hvít hár. Hárin eru mest áberandi á endum en eru einnig á jöðrum brumhlífarblaðanna. Oft hjálpar það til við greiningu trjátegunda að þekkja brumin. Mynd: Sig.A.
Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn


Saknaðarilmur: Sært fólk særir annað fólk

Lífsgæði

Ómegð

Jói Víglunds
