Er hægt að vera falleg eftir fertugt?

Fegurð. Hvað er það? Er það bara útlitið? Symmetría andlitsins eða gljástig húðarinnar? Er fegurð kannski mæld í kremdollu? Skiptir þá máli, hvað þú ert búin að smyrja á þig miklu af kremi, eða hvað kremið kostaði mikið?
Er fegurðin blóm sem vex á köldum mel og bíður þess í kvíðakasti að fölna, krumpast og drepast fyrir fullt og allt?
–
Er hægt að vera falleg eftir fertugt?
Það væri óðs konu æði, að reyna að eldast í friði, án þess að streitast á móti. Undirrituð kemst ekki á samfélagsmiðla lengur en í nokkur andartök áður en að búið er að stinga upp á líkamsræktarkraftaverkum fyrir fólk sem er ekki í formi, bjóða upp á afslátt í andlitsjógameðferð á appi, sýna myndir af klæðaburði sem hentar konum sem vilja eldast án þess að mikið beri á því eða auglýsa hræðilegar grímur með innrauðum ljósabúnaði til þess að laga það sem lagað verður í svona gömlu og skorpnu andliti.
Dæmi um auglýsingar sem undirrituð, rétt tæplega fertug konan, fær daglega. Leiðbeiningar um það, hvernig ég get klætt mig á kynþokkafullan hátt án þess að hætta á það að sýnast öldruð. Svo eru allskonar hugmyndir um æfingar sem gera mig að kynþokkafullri sál, í staðin fyrir þessa hallærislegu og fráhrindandi sál sem ég er núna. Myndir: skjáskot af samfélagsmiðlum.
Sumir íslenskir fjölmiðlar taka hlutverk sitt sem boðberar fegurðarinnar mjög alvarlega. Smartland á Mbl og Lífið á Vísi þreytast ekki á því að minna okkur á það sem skiptir máli.
Ætlaði útlitsáróður ekki að víkja með aukinni meðvitund?
Ég verð fertug á næsta ári, og ég er greinilega komin í hóp þeirra kvenna, sem fá ekki frið fyrir fegrunarráðum. Auglýsingarnar og greinarnar dynja fastar á mér í takt við hrun minnar líkamlegu tilveru og æskuljóma. Þetta eru ekki bara útlensk öpp og auglýsingar. Líka greinaskrif, viðtöl, hlaðvörp og orðræða í íslenskum samtíma. Það sem veldur mér þó meiri áhyggjum, er að nú er ekki aðallega ráðist á fullorðnar konur.
Ungar stúlkur sjá daglega hóp áhrifavalda á samfélagsmiðlum sem kenna morgunrútínur með fimm mismunandi húðvörum og telja sig verða að eignast þetta sull til þess að halda í æskuljómann - sem er ekki á neinum faraldsfæti þegar kona er fimmtán ára.
Ég var að vona, að með aukinni meðvitund í samfélaginu, myndi útlitsáróður gegn konum fara að deyja út. En það er aldeilis ekki, og við verðum að standa saman og fræða ungu stúlkurnar okkar og reyna að minna þær á að þær eru fallegar eins og þær eru frá náttúrunnar hendi.
Ég svaraði því aldrei í upphafi pistilsins, hvað fegurð er. Enda er það afstætt hugtak.
Er fegurð kannski frekar fólgin í hlýjum augum? Reynslu og vitrum orðum? Mjúkum mömmu- eða ömmufaðmi? Samkennd og virðingu fyrir öðru fólki?
Er fegurð kannski fólgin í sátt við að vera til? Feta brautina sem er okkur öllum gefin, þar sem líkaminn breytist og hverju tímabili fylgja ný ævintýri og ný spegilmynd? Hvað ef nýja spegilmyndin fengi nú bara að brosa við þér án eftirsjár? Eftirsjár eftir ungu konunni sem vissi ekki allt sem þú veist núna. Skildi ekki allt sem þú skilur núna.
Hún er þarna ennþá, bara betri, vitrari og fallegri.
Rakel Hinriksdóttir er blaðamaður á Akureyri.net


Rabbabari á skúrþaki

Hörmungar á hundavaði

Tók stigann í ólöglega fáum stökkum

Tengslaröskun geðlæknisins
