Næfurhlynur – Tegund í útrýmingarhættu

TRÉ VIKUNNAR - 102
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _
Heimurinn er fullur af allskonar lífi. Athafnir okkar manna eru því miður þannig að mikill fjöldi dýra, sveppa og plantna á undir högg að sækja. Það er beinlínis okkur að kenna að margar tegundir ramba á barmi útrýmingar. Það er svo sem ekkert nýtt að tegundir deyi út. Sennilega hafa hið minnsta 99,9% allra tegunda, sem til hafa verið, horfið af jörðinni. Eftir því sem fleiri aukastöfum er bætt við töluna þeim mun nær erum við réttu svari.
Næfurhlynur í grasagarðinum í Edinborg. Takið eftir hvað stofn og greinar eru flott á litinn. Mynd: Sig.A.
Fimm skeið hafa gengið yfir jörðina í fortíðinni þar sem fjöldaútrýming hefur átt sér stað. Hvert skeið um sig leiddi til þess að verulegur hluti tegunda hvarf af yfirborði jarðar. Þessar fjöldaútrýmingar voru af völdum náttúrulegra þátta eins og eldvirkni, áreksturs við smástirni og náttúrulegra loftslagsbreytinga. Það sem er nýtt er að ein dýrategund skuli með eyðingu búsvæða, ofnýtingu, mengun og almennt slæmri meðferð eiga svo stóran þátt í ferlinu að skeiðið má kenna við tegundina og kalla mannöld. Slíkt á sér enga hliðstæðu í sögu lífs á jörðu.
Við stöndum frammi fyrir sjöttu fjöldaútrýmingu tegunda á jörðinni.
Í þessum pistli segjum við frá einni tegund, næfurhlyn, eða Acer griseum (Franch.) Pax, sem á undir högg að sækja og það í bókstaflegri merkingu. Þessi tegund stendur þó betur að vígi en margar aðrar. Það er ekki of seint að snúa blaðinu við og bjarga henni — ef við viljum.
Tegundir ættkvíslarinnar eru einn mikilvægasti hópur skrauttrjáa og -runna í grasflötum, meðfram götum, í almenningsgörðum og einkagörðum á stórum svæðum í Evrópu, Asíu og Ameríku. Hlynir eru til í ýmsum stærðum og formum og flestar tegundir fá glæsilega haustliti en nokkrar suðrænar tegundir eru sígrænar. Sumar tegundir eru ræktaðar til viðarframleiðslu (Augustyn 2024).
Allir hlynir eiga það sameiginlegt að mynda fræ í vængjuðum pörum. Vængirnir sjá til þess að í golu geta fræin borist langar leiðir frá móðurtrénu. Þá snúast fræin í loftinu fyrir tilstilli þessara vængja, líkt og spaðar á þyrlu. Ef fræin eru látin falla til jarðar áður en þau verða fullþroskuð þá falla þau lóðbeint niður rétt eins og steinar væru.
Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
- Smellið hér til að sjá allan pistilinn


Heilagfiski

Bílnum stolið

Féll af kústhestbaki

Vatnsmiðlun skóga
