Fara í efni
Pistlar

Um nöfn og flokkunarkerfi – fyrri hluti

TRÉ VIKUNNAR - 105

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Eitt af því sem virðist vera sameiginlegt einkenni alls mannkyns er þörfin til að flokka alla skapaða hluti. Þegar rýnt er í eldri flokkunarkerfi lífvera er ekki endilega byggt á skyldleika, heldur tilteknum atriðum sem auðvelt er að greina. Það má til dæmis skipta öllum dýrum í skríðandi dýr, ferfætt dýr, fljúgandi dýr, sunddýr, tvífætt dýr og svo framvegis. Þá lendum við í vandræðum þegar einstakir hópar eru skoðaðir nánar. Hvar á að flokka flugfiska? Strútar fljúga ekki og eiga þá ef til vill betur heima með mönnum og öpum, enda tvífættir. Leðurblökur fljúga og geta því verið í hópi með fljúgandi fuglum frekar en spendýrum og svona má áfram telja. Frægt er þegar fyrrum sjávarútvegsráðherra Íslands sagði að frá Seyðisfirði hafi lengi verið stundaðar veiðar á hvölum og öðrum fiskum.

 
Ljómandi falleg en smá blóm á Stellaria media. Media getur merkt miðlungs, algengur eða jafnvel venjulegt. Því mætti þýða nafnið sem algenga stjörnublómið eða miðlungs stjörnublóm. Þetta er ekki talin skrautjurt og er víða óvinsæl. Á íslensku kallast hún haugarfi. Arfinn er blómplanta. Mynd: Sig.A.
Ljómandi falleg en smá blóm á Stellaria media. Media getur merkt miðlungs, algengur eða jafnvel venjulegt. Því mætti þýða nafnið sem algenga stjörnublómið eða miðlungs stjörnublóm. Þetta er ekki talin skrautjurt og er víða óvinsæl. Á íslensku kallast hún haugarfi. Arfinn er blómplanta. Mynd: Sig.A.

Lengi vel var flokkun manna á náttúrunni fólgin í því að reyna að raða tegundunum eftir því hversu fullkomnar þær töldust vera. Samkvæmt því var maðurinn talinn hátindur sköpunarverksins enda talinn eftirmynd Guðs. Allar aðrar lífverur voru svo flokkaðar eftir þessari trúarlegu nálgun. Sumar lífverur töldust „óæðri verur“. Þær mátti líta á sem einhverskonar æfingu máttarvalda eða missmíði. Ekki er laust við að enn eimi eftir af þessari stigveldishugmynd í flokkun plantna. Einfaldar plöntur eins og þörungar eru þá óæðri en flóknari plöntur eins og tré og runnar. Það er auðvitað engin ástæða til þess að telja að svo sé. Heildarvirkni lífheimsins byggir á öllum lífverum tiltekinna vistkerfa. Þar er ekkert líf öðru æðra nema ef til vill í augum okkar manna. Þetta er fyrri pistill okkar af tveimur um flokkunarfræði og nafngiftir. Í þessum hluta beinum við sjónum okkar að tvínafnakerfinu en í seinni pistlinum fjöllum við um frekari flokkun.

Flokkun plantna

Sennilega eigum við flest einhvers konar flokkunarkerfi fyrir plöntur í huga okkur. Sumir flokka þær í illgresi og aðrar plöntur, eða blóm, grös og tré svo dæmi séu nefnd. Fyrrum framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga var á dögunum spurður hvort hann teldi að fíflar væru blóm. Það bendir til þess að spyrjandinn hafi haft aðra skilgreiningu í huga á blómum en almennt er viðurkennd meðal líffræðinga. Fyrirspyrjandi taldi fífla ekki til blóma, heldur til illgresis.

 
Eru fíflar illgresi aða blóm? Geta þeir verið bæði illgresi og blóm? Mynd: Sig.A.
Eru fíflar illgresi aða blóm? Geta þeir verið bæði illgresi og blóm? Mynd: Sig.A.

Við höfnum því að plöntur séu góðar eða vondar enda er slík flokkun ekki skynsamleg. Við kunnum enga gagnlega skýringu á því hvað kalla beri illgresi eða amagresi, nema þá helst það að planta sem vex á vitlausum stað, miðað við þarfir okkar manna, telst vera illgresi. Þá er birki, sem sáir sér í grenisáningu illgresi og greni sem kemur sér fyrir í birkibakka er líka illgresi. Það sem kann að vera nytjaplanta í dag getur verið illgresi á morgun.

Sumir hafa jafnvel stungið upp á því að flokka plöntur á Íslandi í flokkana góðar plöntur og vondar plöntur. Sú flokkun virðist byggjast á því hversu duglegar eða áberandi plönturnar eru. Einnig virðist skipta máli hvaðan og hvenær þær komu upphaflega til landsins. Þetta er ekki mjög vísindaleg flokkun. Á þessu sést að flokkun lífvera, þar með talin trjáa og blóma, getur verið breytileg milli manna, tímabila, staða og jafnvel sjónarhorna. 

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Rauðkál

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 11:30

Fíkn og viðhorf

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 09:45

Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 07:45

Selur í eldhúsvaski

Jóhann Árelíuz skrifar
30. mars 2025 | kl. 09:00

Erum við kjánar?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
29. mars 2025 | kl. 06:00

Saknaðarilmur: Sært fólk særir annað fólk

Rakel Hinriksdóttir skrifar
28. mars 2025 | kl. 11:00