Fara í efni
Pistlar

Tinnuviður

TRÉ VIKUNNAR - XIII

Þann 29. mars 1982 gaf Paul McCartney út lag sem hann söng með Stevie Wonder. Lagið heitir Ebony and Ivory og var mjög vinsælt á sínum tíma og alger eyrnaormur. Síðar kom lagið út á plötunni Tug of War með Paul. Lagið náði fyrsta sæti á vinsældarlistum bæði vestan hafs og austan, en var bannað í Suður-Afríku þar sem aðskilnaðarstefnan, Apartheit, var enn í fullum gangi. Lagið er myndlíking um að þjóðir heims eigi að lifa saman í sátt og samlyndi eins og svörtu og hvítu nóturnar á lyklaborði píanós. Hvítu nóturnar eru sem fílabein (ivory) en svörtu nóturnar sem tinnuviður (ebony). Það er þó fremur ólíklegt að þessi efni séu í raun notuð á lyklaborð píanóa á okkar dögum. Fyrr á dögum voru þessi efni samt einmitt notuð á þennan hátt.

Umslag smáskífunnar frá 1982.

Fílabein er í raun ekki bein úr fílum, heldur skögultennur þeirra. Þar sem fílabein er ekki úr tré verður ekki mikið fjallað um það hér. Öðru máli gegnir um tinnuviðinn. Þó er ekki auðvelt að fjalla um annað án þess að nefna hitt.

Skjáskot út tónlistarmyndbandi með laginu Ebony & Ivory.

Samræmi

Löngu áður en dúettinn með Paul MacCartney og Stevie Wonder var gefinn út höfðu menn spyrt þessi tvö hugtök rækilega saman. Það er meira að segja gert í Gamla testamenti Biblíunnar (Esekíel 27;15, sjá síðar) og í ýmsum skáldsögum allt fram á okkar daga.

Sólsetur og tinnuviðartré. Myndin fengin héðan. Þar má finna fleiri myndir.

Tinnuviðurinn, dekkstur viða, og hið ljósa fílabein (Ebony & Ivory) harmónera vel saman. Hugtökin lýsa tvennu sem er ólíkt en samt svo líkt. Bæði efnin eru hörð en mjúk viðkomu og eins konar tákn fyrir andstæður sem samt mynda fullkomið samræmi, rétt eins Jin og Jang. 

Jin og Jang (eða Yin & yang) eru andstæður sem ekki geta án hvors annars verið. Jin og Jang minna dálítið á tinnuvið og fílabein.

Bæði efnin eru dýr og hafa alla tíð talist til lúxusvarnings. Samt eru þau bara náttúruleg efni, tréni og hyrni. Grunnefnið er hið sama; kolefni. Að auki virðist sem þau eigi sér sameiginlegan orðstofn í mörgum málum. Rót orðsins ebu (ebony) kemur úr grísku og merkir fíll. Það mikla dýr heitir ebenos á grísku.

Mynd af tinnuviðartré fengin héðan.

Það verður því að teljast einstaklega vel til fundið hjá gamla bassaleikara Bítlanna að nota hugtökin í textann sinn. Hann er birtur hér í viðauka. Boðskapurinn á ekkert síður við í dag en fyrir 40 árum þegar hann var bannaður í Suður-Afríku. Löngu áður var Tómas Guðmundsson ef til vill í svipuðum hugleiðingum þegar hann orti: „Hve hjörtu mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu“.

Fílastyttur úr tinnuvið og fílabeini. Myndin er héðan.

Svartviður

Eins og vikið verður að hér á eftir eru til nokkur heiti yfir tinnuvið á íslensku, bæði að fornu og nýju. Til eru aðrar tegundir sem einnig hafa nánast svartan, eða alveg svartan við. Þær tegundir eru nýttar á sama hátt. Samheiti þeirra allra er svartviður. Tilheyra þær ekki færri en þremur ættum trjáa. Ekki getum við fjallað um tinnuvið án þess að nefna þær. Fyrst ber að nefna belgjurtir, Fabaceae. Á þessum síðum hefur áður verið fjallað um trjátegund sem kallast dalbergia sem einmitt er þekkt fyrir sinn dökka við. Svo er það Mahoníviðarætin, Meliaceae, en Mahoní, Swietenia mahoganii, myndar einmitt dýran og dökkan við. Sá viður er meðal annars nýttur í rándýr húsgögn. Að lokum er það svo ættin sem þessi tegund tilheyrir; Ebenaceae. Okkar tegund er megintegundin í þeirri ætt. Innan hverra þessara þriggja ætta eru fleiri en ein tegund sem myndar dökkan við. Allar eiga þær það sameiginlegt að eiga undir högg að sækja, í bókstaflegri merkingu.

Rysja tinnuviðar er ljós en vel afmörkuð frá dökkum kjarnviðnum. Myndin er héðan.

Latínuheitið; Diospyros ebenum

Furðumargar tegundir hafa verið nýttar sem tinnuviður. Sumar þeirra eru nefndar hér að framan og kallast einu nafni svartviður. Hinn eini rétti tinnuviður heitir Diospyros ebenum á latínu. Ættkvíslarheitið: Diospyros er sett saman úr orðunum Dios og pyros. Samkvæmt Wells (2010) merkir það guðafæða. Það er sama merking og á ættkvísl kakóplöntunnar, Theobroma. Innan ættkvíslarinnar Diospyros eru fleiri tegundir en okkar tré. Sum þeirra bera æta og góða ávexti og latínuheitið vísar í það. Má þar nefna tegundir eins og persímónutré, D. virginia og gallaldintré, D. kaki. Nöfnin eru fengin héðan, en á ensku kallast þessi tré persimmon.

Diospyros kaki er ekki sígrænt eins og D. ebenum. Myndin er fengin héðan.

Aldinið á tinnuvið er líka ætt en það er lítið og tréð er ekki ræktað þeirra vegna. Um tíma töldu menn reyndar að tréð væri eitrað. Kemur það meðal annars fram í verkum Shakespeares (sjá hér á eftir).

Aldin tinnuviðartrés. Myndin fengin héðan.

Viðurnefnið ebenum vísar einfaldlega í alþjóðlega nafnið á við trjánna; ebony. Hér ofar er greint frá því að stofn orðsins gæti verið ebu og er þá úr grísku.

Diospyros kaki er ræktað vegna ávaxtanna. Sama ættkvísl og tinnuviður. Myndin fengin héðan.

Íslensk heiti

Samkvæmt Íðorðabanka Árnastofnunar heitir tréð tinnuviður og er það heiti notað í þessari grein. Þar eru gefin upp samheitin svartviður, íbenviður og íbenholt. Svartviður er óheppilegt heiti því það er notað sem samheiti yfir allan svartan við eins og frá er greint hér ofar. Orðið tinnuviður á sér langa sögu í íslensku og alþekkt er að Þyrnirós var „svört á hár sem tinnuviður“.

Íbenviður og íbenholt eru alveg ágætis heiti og vísar í heiti sem notuð eru í öðrum tungumálum. Íbenviður er heitið sem notað er í skáldsögunni Guðsgjafarþulu eftir Halldór Laxness og í íslenskri þýðingu á Biblíunni. Í eldri þýðingar hennar var notast við heitið hebenviður. Það nafn er nánast alveg dottið úr tísku. Orðið íbenholt er greinilega á sömu bókina lært og íbenviður. Orðið holt, sem þarna er notað sem viðskeyti, merkir upprunalega skógur. Þá fæst botn í málsháttinn „Oft er í holti heyrandi nær“ sem fær nútímamenn til að klóra sér duglega í hausnum þegar þeir hugsa um holt nánast sem andstæðu skóga. Orðið er samstofna þýska orðinu Holz sem merkir viður. Íbenholt og íbenviður eru því augljós samheiti. Samkvæmt leit með algengri leitarvél á netinu er íbenholt algengasta orðið yfir þessa tegund, en hér förum við eftir tillögum Árnastofnunar.

Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að átta sig á af hverju þetta kallast tinnuviður. Myndin fengin héðan.

Ættfræði

Tinnuviður, Diospyros ebenum, tilheyrir ættbálknum Ericales. Innan hans eru um 9450 tegundir í 24 ættum. Ein þeirra, tinnuviðarætt eða Ebenaceae, er nefnd eftir tinnuvið. Innan þeirrar ættar finnast bæði tré og runnar í nær öllu hitabeltinu og örfáar tegundir finnast einnig í heittempraða beltinu. Þess vegna er tilgangslaust að reyna tegundirnar hér á landi, nema í stórum gróðurhúsum. Stærsta og merkasta ættkvíslin er Diospyros spp. Innan hennar eru taldar vera 450 tegundir. Þar af um 200 frá Malasíu, þónokkrar í regnskógum Afríku, færri í Mið- og Suður-Ameríku, nokkrar í Ástralíu og Indlandi og örfáar sem finna má nálægt Miðjarðarhafinu, syðstu ríkjum Bandaríkjanna (sem sumir vilja reyndar kalla Sundrungarríki um þessar mundir) og jafnvel í Japan. (Tudge 2005). Til eru tegundir af þessari ættkvísl sem mynda dökkbrúnan kjarnvið með brúnu eða svörtu mynstri. Tinnuviðurinn, sem er nánast alveg svartur, þykir þó bera af. Aðrar tegundir ættkvíslarinnar eru samt einnig seldar sem tinnuviður.

Helstu einkenni plöntunnar. Myndin fengin héðan.

Lýsing

Hinn eiginlegi tinnuviður, Diospyros ebenum, vex villtur um Indland, Indónesíu og Sri Lanka. Hann er sígrænt og hægvaxta tré sem getur orðið tæpir 20 metrar á hæð. Samkvæmt Tudge (2005) er algengast að tréð verði um 15-18 metrar á hæð með stofn sem getur orðið um 60 cm þykkur. Viður hans er svo harður að vonlaust er að negla í hann og erfitt að vinna á honum almennt. Aftur á móti má pússa hann og verður hann þá svo glansandi fínn að hann lítur hreint ekki út eins og viður. Viðurinn er það þungur að hann flýtur ekki í vatni. Eðlisþyngd hans er 1,19g/cm3. Náskyldar tegundir, sem oft ganga undir sama nafni, vaxa í Austur-Afríku.

Smellið hér til að lesa allan pistilinn

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils sama dag og hann kemur á vef félagsins í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00