Fara í efni
Pistlar

Runnamurur

TRÉ VIKUNNAR - XXXV
 

Í tempraða beltinu nyrðra eru til margar tegundir af runnum og trjám sem þrífast vel á Íslandi. Þar á meðal er runnamura. Hún hefur lengi verið vinsæl í görðum um land allt. Þær eru flestar í fullum blóma um þessar mundir og munu halda áfram að blómgast langt fram á haust. Því má segja að hennar tími sé núna og því birtum við þennan pistil.

Runnamura er að jafnaði uppréttur, fíngerður og þéttgreindur runni. Oftast um einn metri á hæð en einnig eru til jarðlæg yrki. Oft eru runnamurur meiri á breiddina en hæðina. Börkurinn er gulbrúnn og flagnar mikið. Blöðin eru oftast þrífingruð eða fimmfingruð.

Tvær runnamurur í blönduðu runnabeði framan við hús. Þarna má greina brodd, gullsóp, mispil, gullregn o.fl. með hinum gulblómstrandi runnamurum. 
Blómin eru með fimm krónublöð, líkt og svo margar aðrar plöntur, t.d. sóleyjar. Þau eru 2-3 cm í þvermál. Villtar runnamurur hafa að jafnaði gul blóm en til eru ræktuð yrki með öðrum litum. Hér á landi má finna hvít, rauð, bleik og appelsínugul blóm á runnamurum ásamt afbrigðum með liti sem ég kann ekki að nefna. Líta má á þá sem afbrigði hinna litanna. Runnamurur standa lengi í blóma og halda sér oft langt fram á haustið þegar aðrar plöntur eru farnar að láta á sjá vegna frosta. 
 
Mynd úr Sólskógum. Nær er 'Goldteppich' en fjær er 'Goldfinger'. Töluverður stærðarmunur er á yrkjunum. Yrkið sem er fjær vex upp í bogana en ekki yrkið sem er nær.

Nafnið og ættingjarnir

Lengst af hefur runnamura gengið undir fræðiheitinu Potintilla fruticosa. Plöntur af þessari ættkvísl hafa verið kallaðar murur á íslensku og finna má villtar murur í íslenskri náttúru. Má nefna gullmuru, Potentilla crantzii og tágamuru, P. anserina (sjá mynd) sem dæmi. Þær bera gul blóm sem eru býsna lík blómum runnamurunnar. Einnig eru ýmsar murur algengar sem garðblóm og er ein þeirra sýnd hér að neðan.

Talið er að allt að 500 tegundir geti verið innan ættkvíslarinnar en nýlegar rannsóknir hafa fækkað tegundunum nokkuð.

Viðurnefnið fruticosa merkir runnakenndur og vísar í það að plantan er runni en ekki fjölæringur Því er íslenska heitið bein þýðing á fræðiheitinu. Annars er runnamura af rósaætt, Rosaceae. Nær allar villtar tegundir þeirrar ættar hafa fimm krónublöð á hverju blómi, en margar tegundir mynda stundum ofkrýnd blóm eins og við þekkjum hjá rósum. Hvergi höfum við samt rekist á ofkrýndar runnamurur.

 
Dæmigert að sjá skrautrunna kominn í fulla haustliti en runnamuran lætur ekkert á sig fá.

Ræktun

Þessi tegund er alla jafna harðgerð og vindþolin en yrkin eru þó misjafnlega dugleg. Almennt má segja að gul og (sum) hvít yrki séu harðgerðust. Hin þurfa aðeins betra atlæti ef vel á að vera og blómstra stundum minna. Runnamurur þrífst um allt land. Þær þurfa góða birtu en gera ekki miklar kröfur um frjósemi jarðvegs. Þær þrífast prýðilega í miðlungsfrjórri jörð. Það getur beinlínis verið slæmt að gefa þeim of mikinn áburð, einkum ef hann er gefinn seint á vaxtartímabilinu. Ef ástæða er til að gefa runnamuru áburð er best að gera það snemma á vorin. Annars er blómgun engu minni í fremur rýrum jarðvegi. Annars er það svo að tegundin virðist laga sig að allskyns jarðvegi. Í lausum og frekar þurrum jarðvegi leita ræturnar djúpt til að ná í vatn. Í rakari mold liggja ræturnar frekar grunnt. Því er miklu auðveldara að flytja plöntur (ef þess þarf) sem vaxið hafa á góðum stöðum en erfiðum.

Hluti af þessari lágvöxnu runnamuru var í skugga og blómstraði þar mun minna en í birtunni. Greinarnar sem voru í skugga eru líka teygðari. Dæmigerð hegðun fyrir runnamurur.

Runnamurur eru notaðar í blönduð runnabeð, í hefðbundin blómabeð eða sem stakir runnar eða lágvaxin limgerði. Það getur þurft að grisja runnanna á nokkurra ára fresti. Það yngir þá upp og viðheldur unglegu útliti og mikilli blómgun. Ef þörf er á má jafnvel klippa þá alveg niður til að yngja þá upp, en þá blómstra þeir lítið fyrst á eftir. Almennt má segja að varast skuli að klippa runnamurur of mikið því þá dregur verulega úr blómgun. Runnarnir eru mjög blaðfallegir en blómin eru samt aðal skrautið. Yfirleitt eru runnamurur lausar við ásókn skordýra og sveppa og oftast heilbrigðir og flottir runnar.


Haustmynd af yrkinu 'Goldteppich'. Blöðin farin að hausta sig en blómin láta ekkert á sjá þrátt fyrir nokkrar frostnætur.

Í þessum pistli birtum við myndir af helstu yrkjum sem í ræktun eru á Akureyri en ekki er alltaf auðvelt að aðgreina gulblómstrandi yrki, þar sem atlæti getur haft áhrif á útlit. Sumar fá meiri áburð en aðrar, meiri sól, betra skjól eða tíðari vökvun. Allt slíkt hefur auðvitað áhrif. Til eru fleiri yrki en hér verða nefnd til sögunnar en þessi fást í gróðrarstöðvum í bænum og því nefnum við þau sérstaklega. Við fengum einnig upplýsingar um reynslu yrkja úr Lystigarðinum á Akureyri og nýttum okkur þær.

Smellið hér til að lesa allan pistilinn.
 
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00