Fara í efni
Pistlar

Kaldi geitahirðir og sigurför kaffis

TRÉ VIKUNNAR XXIV

Lengi hefur verið samgangur milli Austur-Afríku og Suður-Arabíu yfir Rauðahafið. Þar sem það er þrengst er það ekki nema um 40 km. Návígið hafði áhrif á samfélög beggja vegna hafsins og reyndar alveg stórkostleg, örvandi áhrif á heimssöguna. Öfugt við marga stórviðburði komu hvorki konungar né hermenn við þessa sögu.

Þessi heimssögulegi viðburður varð þegar kaffibaunir voru fluttar í fyrsta skipti yfir Rauðahafið frá Eþíópíu til Jemen. Fyrir það getum við verið þakklát því þarna var grunnurinn lagður af heimsyfirráðum kaffisins. Nú er svo komið að milljónir manna um allan heim byrja dag hvern á að drekka kaffi.

Ber á kaffirunna og glansandi græn, gagnstæð blöð. Myndin er frá Wikipediu.

Villt kaffi

Í suðvestur hluta þess landsvæðis sem við nú köllum Eþíópíu, en hefur meðal annars verið kölluð Abbesinía, er mikil háslétta með háum fjöllum, eins og kunnugt er. Þar eru miklir skógar. Þar hefur lengi vaxið villt ein plöntutegund sem hefur trjákenndan stofn eða stofna og sígræn, glansandi, gagnstæð og vaxkennd blöð. Þetta er lítið tré eða stór runni og getur orðið um 9-12 metrar á hæð. Best þrífst plantan í skugga stærri og meiri trjáa í skóginum. Planta þessi myndar smágerð, hvít blóm sem lykta vel. Ef allt gengur vel þroskast í blóminu lítið ber. Það er fyrst grænt og verður síðan rautt eða rauðleitt þegar það þroskast. Í hverju beri eru tvö fræ. Við köllum þau kaffibaunir þótt strangt til tekið séu þau ekki baunir. Enginn veit með vissu hvenær eða hvernig maðurinn uppgötvaði þessa gjöf náttúrunnar. Litlu fræin bera með sér undraverða eiginleika þó þau líti ekki merkilega út. Við vitum ekki einu sinni hvaða þjóð eða þjóðarbrot á hálendi Eþíópíu áttaði sig fyrst á gagnseminni.

Ilmandi blóm á kaffirunna. Myndin er frá Wikipediu.

Þjóðsagan

Til er þjóðsaga sem segir til um hvernig maðurinn uppgötvaði mikilvægi kaffitrésins. Í fyrsta þætti sínum um sögu Eþíópíu í þáttaröðinni Í ljósi sögunnar segir Vera Illugadóttir (2020) frá henni.

Sagan segir að einhvern tímann á 9. öld hafi geitahirðir nokkur af þjóð Úrúnóa, sem er hirðingjaþjóð sem lengi hefur flakkað um sunnanverða Eþíópíu, veitt athygli ákveðinni hegðun geita sinna. Geitahirðir þessi hét, samkvæmt sögunni, Kaldi. Hefur það nafn ekkert með bjór að gera. Kaldi sá að geiturnar sem hann gætti virtust öllu hressari en vanalega er þau höfðu tuggið lauf og rauðleit ber á plöntu nokkurri sem óx þarna á hálendinu. Ekki nóg með það. Geiturnar beinlínis stukku um af kæti eftir berjaátið. Minnti það helst á villtan dans. Þetta þótti geitahirðinum svo merkilegt að hann ákvað að prófa berin sjálfur. Hann áttaði sig á því að þegar hann hafði tuggið og borðað nokkur ber hresstist hann allur við og varð miklu kvikari og frjórri í hugsun. Hann fann að hér hafði hann eitthvað alveg sérstakt í höndunum. Sumar sagnir herma að þetta berjaát geitahirðisins hafi fengið hann til að semja ljóð og syngja og dansa af tómum fögnuði með geitunum sínum.

Einhverjir hafa bent á að maður þurfi reyndar að innbyrða heil ósköp af berjum kaffiplöntunnar til að finna fyrir einhverjum örvandi áhrifum í líkindum við þau sem við fáum af einum, sterkum morgunbolla. Hversu mörg ber þarf að tyggja til að taka upp á því að dansa eins og stökkvandi geit er með öllu óþekkt. Berin sjálf hafa reyndar takmörkuð áhrif. Það eru fræin, sem inni í þeim eru.

Kaffiberjatínsla í Eþíópíu. Myndin fengin héðan.

Þessi ssaga er til í nokkrum útgáfum (t.d. Thomas 2023). Nær alltaf heitir hirðirinn samt Kaldi en misjafnt er af hvaða þjóð hann er. Einnig er óljóst, samkvæmt sögunum, hvað gerist næst (Wells 2010). Fer það gjarnan eftir því hverrar trúar menn eru sem segja söguna. Annaðhvort fór Kaldi í næstu kirkju eða í næstu mosku og kynnti runnann fyrir andans mönnum, sem fengu þá snjöllu hugmynd að rista fræin. Í sumum útgáfum er trúarbrögðunum haldið utan við söguna og stundum er það faðir Kalda sem fyrstur manna hóf ræktun á kaffi. Það er þó langur vegur frá því að narta í nokkur þroskuð ber og að búa til gómsætt kaffi. Við getum samt ímyndað okkur samtal þeirra feðga af Úrúnóaþjóð til að sjá hvernig þetta gæti hafa gengið fyrir sig.

Skógar í Eþíópíu. Í þeim eru til villtir kaffirunnar. Myndin fengin héðan. 

Tilgátusaga

Einu sinni var bóndi einn á hálendi Eþíópíu. Við skulum segja að hann hafi verið kallaður Einstakur. Sonur hans, geitahirðirinn Kaldi, hafði kynnt kaffiberin fyrir honum en nú var Einstakur kominn með nýja hugmynd.

Kaffidrykkja undirbúin í Eþíópíu. Myndin fengin héðan. 

Einstakur: Nú er ég búinn að planta þessum kaffirunnum í heilan akur! Kaldi: Til hvers? Einstakur: Vegna þess að ég ætla rækta kaffi!! Kaldi: Getur þú sagt mér nánar frá því, faðir sæll? Einstakur: Ég ætla að láta kaffirunnana blómstra og bera ber! Kaldi: Ég skil. Ætlar þú að borða berin? Einstakur: Nei, mér þykja þau ekki góð. Ég ætla að hirða fræin úr þeim. Kaldi: Ætlar þú þá að borða fræin? Einstakur: Nei, nei. Ég ætla að rista þau þar til græn fræin verða svarbrún á litinn. Kaldi: Ætlarðu þá að borða ristuð fræ kaffirunnans? Einstakur: Nei, ég ætla að mala þau. Kaldi: Já, ég skil. Svo þú getir bakað eitthvað gott úr þeim? Einstakur: Nei, það er vonlaust að baka úr muldum, ristuðum kaffibaunum. Kaldi: Hvað ætlar þú þá að gera við kaffiduftið? Einstakur: Ég ætla að hella yfir það sjóðandi vatni! Kaldi: Verður þá hægt að borða sullið, eða þarf að matreiða það eitthvað frekar? Verður þetta eitthvert deig? Einstakur: Nei, næst ætla ég að sigta sullið. Kaldi: Hvað ætlar þú að gera við blautar, brenndar og malaðar kaffibaunir þegar þú hefur sigtað þær? Einstakur: Ekki neitt. Ég ætla að henda þeim og kalla þær kaffikorg. Kaldi: Nei, hættu nú alveg. Til hvers ertu eiginlega að þessu? Einstakur: Ég ætla að drekka vökvann sem verður eftir. Kaldi: Nei, nú er ég hættur að botna neitt í þér. Þetta verður ekkert nema vesen og engin framtíð í þessari vitleysu. Ég fæ mér frekar geitamjólk.
 

Hér má finna lýsingu á Wikipediu á kaffivinnslu fyrir þá sem vilja kynna sér það ferli nánar.

Nýspíraðar kaffibaunir. Myndin fengin héðan.

Upphaf útbreiðslunnar

Sennilega varð þetta samtal hér að ofan aldrei til, enda kunna Úrúnóar sjaldan neitt í íslensku. Þótt Kaldi geitahirðir af ætt Úrúnóa hafi, samkvæmt sögunni, verið fyrstur til að átta sig á eiginleikum kaffis urðu straumhvörf í kaffiframleiðslu löngu síðar. Á hálendi Eþíópíu var hefðin lengi vel sú að tyggja kaffibaunirnar hráar til að njóta áhrifanna. Hvernig, hvar eða hvenær í ósköpunum einhverjum datt annað framleiðsluferli í hug, er með öllu óþekkt. Það er ekki einu sinni víst að það hafi gerst í Eþíópíu, heimalandi kaffisins. Kemur þar til, eins og áður er getið, að Rauðahafið var lengi eins og þjóðbraut til suðurhluta Arabíu. Þar hafa skip lengi siglt þvers og kruss. Það er miklu sjaldgæfara að ganga yfir það þurrum fótum.

Kaffi. Myndin er fengin héðan þar sem talað er um kaffifíkn.

Talið er að skipuleg ræktun kaffirunna hafi ekki hafist í Eþíópíu, heldur handan Rauðahafsins. Líklegast voru það íslamskir kaupmenn sem fluttu kaffibaunirnar til Jemen. Í frjósömum jarðvegi fjallanna þar í landi er talið að hin fyrsta almenna kaffirækt hafi hafist. Frá Jemen barst síðan kaffið, brennt og bruggað, um allan hinn íslamska heim og þaðan til gjörvallrar heimsbyggðarinnar. Hafi múslimar ævarandi þökk fyrir það. Mun það hafa verið svo snemma sem á 16. öld sem „arabavín“ eins og kaffið var kallað þá, var kynnt fyrir Evrópubúum (Wells 2010, Ragnheiður 1982). Lengi vel var borgin Mocha í Jemen miðstöð útflutningsins. Er það nafn sem allir, sannir kaffidrykkjumenn þekkja, enda hefur nafn borgarinnar lengi lifað í tengslum við kaffirækt og tiltekinn kaffidrykk.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30