Fara í efni
Pistlar

Ýviður í Evrópu

TRÉ VIKUNNAR XXVIII

Í sögu Evrópu skipar ýviður stóran sess. Trén verða mjög gömul, geta myndað áberandi holrými og voru nýttir til vopnasmíði í margar aldir. Þetta er annar pistill okkar um ývið og nú verður kastljósinu beint að ofantöldum eiginleikum tegundarinnar og hvar hana er að finna.

Óvenjulegur vaxtarstaður ýviðar í Wakehurst, Englandi. Mynd: Wim Wille.

Vaxtarstaðir

Þótt ýviður teljist til barrtrjáa tilheyrir hann ekki hinu eiginlega barrskógabelti. Hann vex á því svæði þar sem barrtré og lauftré vaxa hvert innan um annað. Það er sunnan við hina eiginlegu barrskóga. Í Evrópu finnst aðeins ein villt tegund ýviða en hún hefur stærsta útbreiðslusvæði allra ýviðategunda í heimi. Aðrar tegundir eru staðbundnari og á afmörkuðum svæðum og yfirleitt í fremur fáliðuðum stóðum á hverjum stað. Tegundirnar eru mjög skyldar innbyrðis og sumir telja að í raun ætti að flokka þær sem sérstök afbrigði, frekar en tegundir. Fullorðinn ýviður vex á allt annan hátt en barrtrén sem mynda barrskógabeltið. Þau er flest þannig vaxin að þau standi betur af sér snjóþyngsli. Það kann að eiga sinn þátt í þessari útbreiðslu. Yngri ýviðir eru oft með mjórri krónu sem minnir meira á greni og ættu því að þola betur snjóþyngslin. Þetta er þó ekki algilt eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Taxus baccata ´Dovastoniana´ í grasagarðinum í Edinborg. Mynd: Sig.A.

Í grein um ývið í Bændablaðinu árið 2016 segir Hafsteinn Hafliðason frá því að evrópuýviðinn sé að finna „frá Kaspíahafi, vestur um Kákasus og Evrópu alla leið til Skotlands og Írlands. Til norðurs nær hann til suðurhluta Skandinavíuskagans og yfir Kirjálabotn til syðstu byggða Finnlands síðan um Rússland, Hvítrússland og Úkraínu austur til Úralfjalla.“ Svo heldur hann áfram og segir: „Til Bretlandseyja barst hann meðan England og Írland voru landföst meginlandinu sem hæstu toppar á geysivíðfeðmu en láglendu svæði sem náði yfir þar sem nú er Skánn, Danmörk, Norðursjór og nokkuð vestur fyrir Írland.“ (Hafsteinn 2016). Suðurmörkin eru í Íran og við sunnananvert Miðjarðarhafið í Atlasfjöllum í vestanverðri Norður-Afríku (Phillips 1978). Þótt finna megi ývið í mörgum löndum sem liggja að Miðjarðarhafi, er hann þar víða horfinn vegna ofnýtingar. Hann er t.d. orðinn mjög sjaldgæfur í Grikklandi, þótt hans sé oft getið í fornum sögum frá því landi. Á kortinu hér að neðan sést líka að hann er óvíða í Tyrklandi.

Útbreiðslukort af ývið. Taxus baccata, fengið frá Wikipediu. Græni liturinn á að tákna náttúrulega útbreiðslu en sá gulbrúni þau svæði þar sem tréð hefur numið land fyrir tilstuðlan manna.

Þrátt fyrir þessa víðfeðmu útbreiðslu ýviðar í Evrópu á hann víðast hvar í vök að verjast og er hvergi mjög algengur í náttúrulegu skóglendi nema í afmörkuðum, litlum reitum. Hafsteinn (2016) segir að varla séu nú til nema um ein milljón uppvaxinna ýviða í álfunni. Þess vegna er villtur ýviður víðast hvar undir eftirliti og alfriðaður. Samkvæmt mörgum ritum var ýviður mun algengari áður fyrr. Sjálfur Sesar skrifaði um ývið: „Magna in Gallia, Germanique copia est“ (Lowe 1897). Þessi trjátegund hefur þá varla verið mjög sjaldgæft í Frakklandi (Gallía) og Þýskalandi (Germania) þegar Sesar segir að í þeim löndum sé mikil gnægð eða magn (magna) þessara trjáa. Nú á dögum eru þetta sjaldséð tré í þessum löndum og þá helst á afskekktum stöðum til fjalla. Þessi tilvitnun í Sesar passar ekkert sérlega vel við útbreiðslukortið hér að ofan.

Við þetta má þó bæta að víða eru til ungir ýviðir sem hefur verið plantað í skóga í Evrópu og hann er mjög algengur í görðum. Svo er það þannig að samkvæmt Miles (2021) og reyndar fleiri heimildum, er ýviðir víða nokkuð áberandi í suðurhluta Englands. Þar myndar hann víða myrka trjálundi þar sem fátt annað vex. Sennilega er lundurinn við Kingley Vale nálægt Lavant í Sussex frægastur þeirra allra. Þessi lundur er sagður glæsilegastur allra ýviðarskóga Evrópu.

Óvenjulegt sjónarhorn á einn af öldungunum við Kingley Vale. Myndina tók Pippa Hamshaw en hún er fengin af síðu Woodland Trust.

Þótt villtur ýviður eigi víða undir högg að sækja segir Wells (2010) að sennilega hafi aldrei verið til meira af ývið í heiminum. Ástæða þess er hversu algengur hann er orðinn í görðum út um allan heim. Sá sem þetta skrifar er ekki sannfærður um að garðplönturnar séu svo margar að það toppi í magni þann ývið sem forðum óx villtur í Evrópu, en sjálfsagt er hann algengari nú en lengi áður. Ývið má meðal annars finna í íslenskum görðum.

Kröfur

Eins og mörg önnur barrtré er ýviður mjög skuggþolinn. Sérstaklega á það við um ungar plöntur. Í miklum skugga vex hann hægt, en honum liggur ekkert á. Hann er langhlaupari. Rótarkerfið er fremur grunnt og fer víða. Undirritaður hefur séð nokkur dæmi þess í Skotlandi að fremur ung tré hafa fallið í skógum þar í landi. Hugsanlega tengist það rótarvanda í plöntuuppeldi.

Fallinn Ýviður í Lord Ancrum´s Wood í Skotlandi. Hann er samt ekkert á því að drepast. Greinarnar mynda einfaldlega nýja stofna. Hvernig á að meta aldur þessa trés? Mynd: Sig.A.

Ýviður er ekki mjög kræsinn á jarðveg ef hann fær nægan raka, en sjálfsagt er að gera vel við hann á Íslandi enda er hann hér býsna nálægt þolmörkum. Erlendis þykir hann nægjusamur og getur jafnvel vaxið upp úr berum klöppum ef þar finnast smugur sem vatn safnast í. Sums staðar er eins og ýviður hafi verið ræktaður þar sem fá önnur tré geta þrifist. Gott er þó að hafa í huga að honum líkar ekki við of súran jarðveg.

Ýviður í Lord Ancrum´s Wood í Skotlandi. Þarna stendur hann ofan á kletti en vex samt ágætlega. Mynd: Sig.A.

Kjörlendi

Beykiskógar í Evrópu hleypa mjög litlu ljósmagni í gegnum sig og til jarðar. Til að tré geti vaxið upp í beykiskógum þurfa þau að komast af með lítið ljós. Aftur á móti er í þeim feikigott skjól fyrir öllum vindum og jarðvegurinn er frjósamur og góður. Þetta eru kjöraðstæður fyrir ývið. Því má gjarnan finna stöku ýviðartré í beykiskógum og reyndar einnig í askskógum. Þar liggur þeim ekkert á en vaxa hægt en örugglega. Við þessar aðstæður getur það tekið heila öld að ná um tíu metra hæð. Það gerir ekkert til. Ýviðurinn er ekkert að flýta sér. Í bjartara umhverfi má búast við örari vexti.

Margt getur hent tré í uppvexti sem vaxa svona hægt. Ef til vill kemur hjartardýr og étur af því eins og einn áratug af greinum. Eða eitt beykitréð fellur og kremur ýviðinn undir sér. Við þessu hefur tegundin brugðist með því að leggja óvenju hátt hlutfall kolefnisbindingar sinnar í ræturnar. Ef eitthvert áfall hendir tréð búa ræturnar yfir varaforða sem nýtist trénu ljómandi vel til að bæta fyrir skaðann. Af þessum sökum er ýviður æði oft margstofna í skógum Evrópu. Meginstofninn hefur mátt þola margt en tréð gefst ekki upp. Þar sem ýviðurinn getur orðið miklu, miklu eldri en beyki, eða önnur lauftré sem það vex með, er alveg öruggt að það mun að lokum komast upp í ljósið (Wohllenben 2016 bls. 76-77). Þolinmæði er dyggð.

Þetta er gott að hafa í huga þegar reynt er að rækta ývið á Íslandi. Veitum honum gott skjól en verum ekkert að eltast við of sólríka staði.

Samt er það svo, eins og með svo margar aðrar trjátegundir, að þegar tréð eldist (sem gerist mjög hægt hjá þessari tegund) vill það meiri birtu. Því er það svo að eldgömul ýviðartré eiga það til að missa neðstu greinarnar sem hann sjálfur skyggir of mikið á. Það gerir trénu samt ekkert til.

Þegar ýviður kemst í meiri birtu eykur hann vöxt sinn. Stærstu, villtu ýviðirnir á Bretlandseyjum vaxa gjarnan í skógarjöðrum og hafa oft verið skilin eftir sem landamerki milli jarða eða einskonar vörður á þekktum ferðaleiðum. Stundum standa slík tré stök á okkar tímum þótt þau hafi á sínum tíma vaxið upp í skógum sem nú hafa verið höggnir niður (Miles, 2021). Eflaust gildir þetta víðar í Evrópu.

Á meginlandi Evrópu eru stærstu ýviðarlundina að finna í Sviss. Þar vex hann helst með beyki í Júrafjöllunum upp í um 1400 metra hæð yfir sjávarmáli.

Ýviður í Cremines í Sviss. Talið er að tréð sé að minnsta kosti 1500 ára og er sennilega elsta tréð í Sviss. Mynd og upplýsingar: Pius Ineichen.

Stærð

Almennt er talið að ýviðurinn sé að jafnaði fremur lítið eða miðlungshátt tré. Þau eru oftast um 10-20 metrar en þekkt eru tré sem náð hafa 28 metra hæð. Nafngreind yrki, sem ræktuð eru í húsagörðum um nær alla Evrópu, eru mun minni en þetta.

Stofnar villtra trjáa geta orðið býsna sverir. Ekki er óalgengt að þeir verði um 2 metrar í þvermál en stöku tré fara létt með að tvöfalda þá stærð.

Mynd frá Woodland trust á Bretlandseyjum. Stórt og mikið tré í þéttum skógi. Ekki kemur fram hver tók myndina.

Aldur

Líklegt er talið að ýviður verði að jafnaði allra villtra trjáa elst í Evrópu. Reyndar er ekki alveg hlaupið að því að aldursgreina gömul ýviðartré og að auki eru menn ekkert endilega sammála um hvernig meta beri aldur trjáa, svona almennt. Því er það sérstaklega flókin íþrótt að greina aldur ýviða, enda hefur hún verið stunduð öldum saman. Sumir hafa þó fullyrt að segja megi að ýviður sé orðinn gamall þegar hann heldur upp á 900 ára afmæli sitt.

Með því að bora inn í bol trjáa, alveg inn að kjarna þess, má ná í sýni samfelldra árhringja sem síðan er hægt að telja og aldursgreina. Þannig má slá því föstu hvað stofn viðkomandi trés er gamall. Fyrstu áratugina og jafnvel fyrstu aldirnar getur verið tiltölulega auðvelt að greina aldur ýviða á þennan hátt. Árhringir þeirra eru greinilegir. Svo fer málið að vandast. Ýviður vex hægt. Mjög hægt. Hann rétt tosast áfram og bætir litlu við sig ár hvert. Oftast nær er það þannig að þegar hann hefur náð um tólf til fimmtán metra hæð hægir hann enn frekar á hæðarvextinum en fer þess í stað að vaxa meira á alla kanta (Hafsteinn Hafliðason 2016 o.fl.). Grönn og spengileg tré eru að jafnaði ung að árum. Eldri trén eru plássfrek. Þau fara jafnvel að senda upp nýja boli frá rótarhálsi og mynda því þykk knippi af bolum. Eykur það mjög á umfang þeirra. Sumir ýviðir setja meiri rótarskot en aðrir. Má nefna einn sem stendur við skosku ána Griffe og er kallaður Craigends Yew. Þessi miklu rótarskot hafa gert þennan ývið svo frægan að hann á sína eigin Wikipediusíðu. Líklegt er þó að hann hafi ekki sjálfur skrifað hana.

Craigends Yew er frægur fyrir sín miklu rótarskot. Tréð er talið vera sex til sjö alda gamall en rótarskotin eru yngri. Mynd og upplýsingar héðan.

Þar að auki geta bolir gamalla trjáa vafist saman þvers og kruss. Tilsýndar lítur þetta ekki endilega út fyrir að vera margstofna tré, heldur þykkur stofn. Stundum virðist það gerast að svona þykkni af stofnum myndi ekki eiginlegan kjarnvið. Bolir margra öldunga eru svo afmyndaðir að erfitt getur verið að átta sig á hvar kjarninn er. Að auki geta trén smám saman orðið hol að innan með tímanum og því ekki nokkur leið að telja árhringi. Nánar um það síðar í þessum pistli. Það er hreint ekki einfalt að átta sig á aldri trjáa ef enginn viður í trénu er jafngamall stofninum sem myndaði hann!

Til að flækja málið enn frekar eru menn ekkert endilega sammála um hvernig meta beri aldur trjáa. Algengast er að tala um aldur standandi trjáa en rótin getur í mörgum tilfellum verið umtalsvert eldri en stofninn. Því er það sérstaklega flókin íþrótt að greina aldur ýviða. Miles (2021) segir frá vandkvæðum við að aldursgreina tré, rétt eins og Hafsteinn. Miles segir frá því að grasafræðingar geti á góðum degi hnakkrifist um hvort ýviður eða linditré verði eldri. Þess háttar rifrildi hafa staðið í hátt í tvær aldir án þess að endanlegur dómur hafi fallið.

Hafsteinn Hafliðason (2016) segir frá því í sinni grein að mörg tré á meginlandi Evrópu eigi sér bókfærða sögu í þrettán til fimmtán aldir. Á Bretlandseyjum er sagt að elsti ýviðurinn sé að minnsta kosti þrjú þúsund ára gamall.

Við getum tekið sem dæmi frægan ývið við Fortingall við Perthfjörð í Skotlandi. Þetta er sá sami og við sögðum frá í síðasta pistli okkar um ývið vegna þess að hann skipti um kyn á gamals aldri. Rætur hans eru taldar vera að minnsta kosti tvö til þrjú þúsund ára gamlar og eru jafnvel enn eldri. Miles (2021) segir þetta frægasta ývið Bretlandseyja. Hann segir að maður að nafni Thomas Pennant hafi heimsótt tréð árið 1768 og mælt ummál stofnsins upp á tæpa 18 metra. Þessi ýviður stendur enn og er hinn glæsilegasti. Stofn hans er samt yngri en ræturnar. Því getum við ekki fullyrt neitt um hvað það er í raun gamalt. Við getum að minnsta kosti fullyrt að standandi tré geti orðið mörg hundruð ára gömul og jafnvel enn meira en það.

Nánar verður fjallað um þetta tré þegar fjallað verður um fræga ýviði í sérstökum pistli.

Ýviður. Myndin fengin héðan en hana á C.J. Earle.

Holrými

Þegar sneiðar úr stofni trjáa eru skoðaðar má vel sjá muninn á kjarnvið og rysju, sem þar er utan við. Í kjarnvið myndast hart og sterkt efni úr tréni. Kjarnviðurinn er í raun dauður. Ekkert vökvastreymi er þar lengur. Hjá sumum, gömlum trjám eyðist kjarnviðurinn smám saman og trén verða hol að innan. Þetta gerist einfaldlega á þann hátt að kjarnviðurinn tekur upp á því að rotna. Það er samt alls ekki slæmt fyrir tréð. Öðru nær. Þegar rotnunin hefst getur tréð endurnýtt næringarefnin sem losna og notað þau til frekari uppbyggingar. Ýviður myndar sérstakar rætur sem vaxa inn í rotnandi viðinn (Miles 2021). Kjarnviðurinn er því einskonar næringarforðabúr eldri trjáa. Rotnun kjarnviðar getur því lengt ævi ýviðartrjáa. Sama á við um önnur háöldruð tré sem mynda svona holrými, eins og t.d. eikur. Þessi tilhneiging trjánna til að mynda holrými gerir mönnum enn erfiðara um vik að meta aldur þeirra. Elsti hlutinn er einfaldlega horfinn.

Stundum hefur rotnunin gengið svo langt hjá gömlum trjám að stofnarnir fara að klofna. Einn stofn getur orðið að tveimur og jafnvel fleiri stofnum. Þá stendur eftir eitt tré með marga stofna. Á myndinni hér að neðan er þetta ferli hafið.

Þessi myndun holrýma hefur leitt til þess að mörg, gömul ýviðartré eiga sér merkilega sögu um að holrýmin hafa verið nýtt á mismunandi hátt. Nánar verður fjallað um fræg holrými í öðrum pistli um ývið.

Mikið rotnaður ýviður sem þó á langt líf enn fyrir höndum (eða greinum). Ekki er hægt að telja árhringi í svona trjám. Myndina tók Janice Lane og birti á Flickr síðu. Þar hefur verið safnað saman myndum af fornum trjám.

Notkun

Ýviður í Evrópu er fyrst og fremst notaður í garðrækt og sem glæsilegt augnakonfekt í landslagsmótun. Þar sem rými er nægt fær ýviður að vaxa frjálslega og vekur þá mikla athygli fyrir formfegurð. Að vísu getur þurft að bíða í um það bil eina öld áður en trén ná því að verða áberandi. Til eru stakstæð 200 til 250 ára gömul tré sem eru einstaklega glæsileg. Aftur á móti líta þessi tré ekki eins glæsilega út ef þau standa of þétt. Ef vel á að vera þurfa þau sitt pláss til að vöxturinn njóti sín sem best.

Eitt af því sem hefur gert ývið vinsælan víða um heim er að hann er almennt talinn mjög harðgerður. Hann þolir ekki bara mikla klippingu og át dádýra (sem virkar ef til vill svipað) heldur hefur hann oft þurft að þola sérlega slæma umhirðu án þess að gefast upp og drepast.

Auðvelt er að fjölga yrkjum af ývið með græðlingum og eru mjög mörg yrki í ræktun. Að auki er sveiggræðsla auðveld. Þar sem greinar lenda á jörðu skjóta þær auðveldlega rótum. Þannig geta ýviðir endurnýjað sig nær endalaust.

Um ývið í íslenskum görðum verður fjallað í sérstökum pistli í fyllingu tímans.

Smellið hér til að lesa allan pistilinn.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00