Fara í efni
Pistlar

Minningabrot í hringformi

MYNDLIST
Á stórum vegg hvíla ferkantaðar myndir. Rammaðar inn og uppraðaðar af mikilli nákvæmni. Á hverri mynd er lifandi hringform, fljótt á litið eru þau öll ólík en þó samhljómur með þeim öllum. Litirnir eiga það sameiginlegt að minna á jörðina. Brúnir, rauðleitir, bláleitir tónar. Lífrænir.

Þegar nánar er að gáð, er nett handskrift neðst á öllum myndunum. Dagsetning og stutt setning. „Maí 2019. Síðasti kaffibollinn í Feneyjum. Keyptur á Bartolomeo torgi.“ Hringformið sem flýtur fyrir ofan þessa setningu er sett saman af ljósbrúnum, handmáluðum hringjum, máluðum ofan á hvern annan, sífellt minni, og myndin minnir á þverskurð af tré þar sem árhringirnir sjást vel. Mér verður ljóst að hringirnir eru málaðir með kaffinu sem listamaðurinn sötraði í maí 2019 í Feneyjum.

Tími og minningabrot. Á myndinni sem er svo einföld við fyrstu sýn, sé ég núna mann við borð á litlu kaffihúsi á Ítalíu. Hann er að drekka síðasta bollann sinn á þessum stað, mála hvern hringinn á fætur öðrum með hægum hreyfingum. Úr penslinum renna minningar um staðinn, fólkið og tilfinningar mannsins á þessum tíma. Kannski sat hann með einhverjum. Kannski var hann einn.

Við eigum öll svona myndir. Litir, orð, líðan, hiti, kuldi eða eitthvað annað sem snertir streng í skynjun okkar varpar myndunum upp í hugann. Ganga í Lystigarðinum um haust getur kveikt á gulum og rauðum perum innra með okkur. Hér stóð ég þá og svona leið mér. Gult asparlauf á stígnum líkist hamingjudegi fyrir mörgum árum á sama stað.

Guðjón Ketilsson á heiðurinn að sýningunni ‘Liquid diary’ sem er hluti samsýningar á Listasafninu á Akureyri sem nefnist ‘Hringfarar’. Guðjóni hefur tekist að setja hugrenningartengsl sín á blað á fallegan og einfaldan hátt, þannig að ég fyllist löngun til þess að finna minningum mínum farveg á einhver önnur blöð, á einhvern annan hátt. Og löngun í góðan kaffibolla.

Rakel Hinriksdóttir er fjölmiðlakona, grafískur hönnuður og listakona.

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00