Fara í efni
Pistlar

Stórkostlegt ferðalag LMA og Dórótheu í Hofi

LEIKHÚS

Á hvaða vegferð erum við? Erum við á hraðferð? Hvert erum við að fara og hvaðan erum við að koma? Er þetta spurning um áfangastaðinn, eða ferðalagið sjálft? Sagan um Galdrakarlinn í Oz er eitt frægasta ævintýri heims um vegferð og þroskasögu manneskju í tilverunni. Dóróthea býr í upphafi ævintýrisins í Kansas hjá frænku sinni og frænda, og eini vinur hennar er hundurinn Tótó. Kröftugur hvifilbylur feykir þeim einn daginn til töfraheimsins Oz, þar sem Dóróthea reynir allt sem hún getur til þess að finna leiðina heim aftur. Það er þó á ferðalaginu sjálfu, sem hún eignast vini, kemst að því hvers hún er í raun megnug og lærir að trúa á sjálfa sig. 

En hvað eru menntaskólaárin, annað en ferðalag? Er þetta spurning um áfangann? Stúdentsprófið?

Eða er þetta spurning um ferðalagið í gegn um skólann?

Um nýliðna helgi fékk ég að sjá söguna um Dórótheu og Galdrakarlinn í Oz á sviðinu í Hofi, þar sem nemendur Menntaskólans á Akureyri settu leikgerðina upp undir styrkri stjórn Egils Andrasonar leikstjóra. Ég er eiginlega ennþá orðlaus yfir gæðum þessarar sýningar, svo það sé sagt strax og ekki skafið af því. Hæfileikum unga fólksins sem tók þátt í þessu eru sennilega engin takmörk sett. Tónlist, leikur, söngur, dans, sviðsmynd, búningar og öll umgjörð upp á tíu. Það eru um það bil 90 krakkar sem koma að sýningunni á einn eða annan hátt, og hvergi er laus endi. Lítil sinfóníuhljómsveit skipuð nemendum spilar alla tónlist og það voru nemendur sem útsettu tónlistina, sem var alveg frábær og hreif mig og syni mína lóðbeint til Oz og skilaði okkur ekki aftur fyrr en tjaldið var dregið fyrir. 

Líf Dórótheu í Kansas, áður en hvirfilbylurinn breytir öllu, er heldur litlaust. Það sem við fáum að sjá er ung stúlka sem er utanveltu, lendir upp á kant við fólkið í kring um sig og fær ekki þá athygli og viðurkenningu sem við eigum öll skilið. Svo ég haldi áfram að bera söguna saman við menntaskólagönguna, þá er oft talað um að fólk hafi fundið sína hillu á þessum árum. Sjóndeildarhringurinn víkkar, við kynnumst fleirum, oft frá ólíkum stöðum og við lærum eitthvað nýtt um okkur sjálf. Árekstrarnir eru á hverju horni, en sigrarnir líka. 

Þegar Egill Andrason tók við hópnum síðasta haust, sem langaði að taka þátt í að setja upp árlega sýningu LMA, hófst ferðin. Þau fóru saman frá Kansas og einbeitingin og samhent átak allra þessara krakka skín í gegn, og skilar okkur áhorfendum glæsilegri sýningu. Ég var svo troðfull aðdáunar þegar þau komu öll upp á svið í lokin og gleðin, stoltið og samheldnin fyllti Hamraborg. Vegna þess, að þegar þú leggur mikið á þig, þá uppskerð þú eftir því. Það er lærdómurinn sem ég tók með mér, bæði saga Dórótheu, en miklu frekar saga hópsins sem bjó til sýninguna. Þeirra vegferð og þeirra ferðalag snerti mig djúpt. 

 

 

Mig langar að nýta þennan pistil til þess að gerast pólitísk. Mig langar að benda á, að stytting framhaldsskólans voru mistök. Rifjum upp spurninguna sem ég kastaði fram hérna í upphafi pistilsins - Er þetta spurning um áfangastaðinn eða ferðalagið? Stúdentsprófið eða skólagönguna? Allan daginn ferðalagið og skólagönguna! Gula múrsteinsveginn sem á ekki að bjóða upp á það að stytta sér leið, heldur ganga hann rólega og njóta, læra og vaxa með honum. 

Hvað ætli þessir krakkar í LMA hafi lært af því að taka þátt í þessari metnaðarfullu uppsetningu, sem er bókstaflega á atvinnumannaleveli að mínu mati? Öll vinnan sem liggur þarna að baki? Lærdómurinn verður aldrei metinn til eininga, fjár eða neins veraldlegs. Lærdómurinn er í hjartanu, sjálfstraustinu og samvinnunni. Og það er erfitt fyrir krakkana að koma svona vinnu að, í samþjöppuðu skólastarfi. Ég hef heyrt ótal sögur um krakka í MA og VMA sem eru að sligast undan álagi, og fyrir hvað? Að fá stúdentspróf einu ári fyrr? 

Sjáum bara hvað þau geta gert, þegar þau fá tíma. Þegar þau fá traust og rými til þess að blómstra í sínum hæfileikum og elju. Það kristallast í Hofi um þessar mundir - og ég einfaldlega banna fólki að missa af þessari sýningu! Nú eru þrjár sýningar eftir, og ekki hika! 

Til hamingju með sýninguna kæru menntskælingar og Egill leikstjóri, þið eruð stórkostleg.

Rauðkál

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 11:30

Fíkn og viðhorf

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 09:45

Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 07:45

Selur í eldhúsvaski

Jóhann Árelíuz skrifar
30. mars 2025 | kl. 09:00

Erum við kjánar?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
29. mars 2025 | kl. 06:00

Saknaðarilmur: Sært fólk særir annað fólk

Rakel Hinriksdóttir skrifar
28. mars 2025 | kl. 11:00