Fara í efni
Pistlar

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Hann var búinn að greiða sér vandlega, eyddi meiri tíma í það en aðra daga. Því næst var komið að því sem hann var búinn að hlakka til að geta loksins gert, að klæða sig í jakkann. Fallegi, rústrauði jakkinn með svarta kraganum og ljómandi ísaumuðu merki kórsins. Nú var hann tilbúinn.

Hún hafði hagrætt dagskránni sinni og gefið sér tíma til þess að setjast niður og ná virkilegu flugi í skrifunum. Ná að flæða með orðum, hugsunum og samtölum við persónurnar sem hún hafði skapað. Kannski að hluta til byggðum á eigin reynslu. Kannski ekki. Einhversstaðar sótti hún nú samt þessa konu. Persónuna sem lék aðahlutverk í nýju skáldsögunni hennar.

Þessi tvö þekkjast ekki. Og þetta augnablik í lífi þeirra, sem ég skrifa hér um, er í raun hugarburður minn. Ímyndun mín um aðstæður þessa fólks. Bæði höfðu þau mikil áhrif á mig á þessum tíma. Síðustu viku ársins. Ég fór á tónleika og ég las bók. En það var miklu meira en það. Ég fékk að njóta þess, þegar aðrar manneskjur hafa lagt hjartans list, tíma sinn og kærleika í eitthvað.

Hópur karla sem mynda Karlakórinn Heimi komu saman og héldu tónleika um síðastliðna helgi. Þar stóðu þeir í fallegu jökkunum sínum, lögðu hversdagslífið til hliðar og sungu. Sameinuðust hver öðrum, stjórnanda sínum og undirleikara í fallegum tónleikum sem hreyfðu við öllum gestum samkomunnar. Ég ætla að lofa mér að halda því fram, en auðvitað er ekki útilokað að einhver hafi ekki fundið til neins. Ég hins vegar táraðist þrisvar sinnum og heillaðist. Eins og ég hef alltaf gert á svona tónleikum, frá því að ég fór fyrst sem lítil stelpa og afi minn söng með Karlakórnum Hreim.

Áður en ég mætti á þessa tónleika hafði ég lesið bókina ‘Eldri konur’, eftir Evu Rún Snorradóttur. Ég fékk hana í jólagjöf frá kærri vinkonu sem gaf hana áfram eftir að lesa hana sjálf. Ég hafði aldrei lesið neitt eftir þessa konu, enda er hún tiltölulega nýfarin að gefa út verk, þrátt fyrir að hafa haft þörfina fyrir að skrifa frá unga aldri. Miðað við umfjöllun um hana á skald.is.

 

Ég ætla ekki mikið að fara ofan í saumana á því, hvað bókin fjallar um, en það sem skín í gegn og hreif mig inn að hjartarótum, er hrá og aðdáunarverð hreinskilni. Þá á ég ekki við hreinskilni á milli fólks. Heldur hreinskilni við sjálfið. Spegilmyndina. Þarna er bersýnilega á ferð skáldkona sem hefur átt erfiðu samtölin við sjálfa sig. Að minnsta kosti kafað djúpt í sinn eigin breyskleika og sár. Annars gæti hún ekki skrifað svona. Í viðtali við mbl.is segir Eva að sagan sé ekki byggð á eigin reynslu en margt í henni sé afrakstur mikillar rannsóknarvinnu og að einhverju leyti á tilfinningum sem hún hefur verið að skoða hjá sjálfri sér. En það er einhvernvegin ekki aðalmálið, hvort atburðarrásin sé skáldskapur. Aðalmálið er að persónan og sagan eru sannfærandi. Mannlegar.

Sagan er um konu sem á erfitt og líður skort vegna erfiðleika í uppeldi. Sára sem hún varð fyrir sem ungt barn. Til þess að reyna að troða í götin, sem þekja sjálfsmynd hennar, grípur hún til óvenjulegrar fíknar. Þó að ég tengi ekki við nákvæmlega þessa persónu eða hennar sögu, þá tengi ég sterkt við það að líða skort. Vera svona og hinsegin vegna einhvers sem meiddi einu sinni. Við erum þar flest. Enginn átti fullkomna æsku þar sem tilfinningagreind og rými til þess að finna til var í hávegum haft. Við berum öll einhverja krossa, hverjir sem þeir eru.

Það er kannski skrítið að nefna í sömu andrá jafn ólíkt fólk og bónda í Skagafirði sem syngur í kór og konu fyrir sunnan sem skrifar bækur. Í raun er ég að lýsa þakklæti mínu fyrir þau bæði. Fyrir framlag þeirra til mennskunnar.

Ég er þakklát fyrir listafólk. Fólk sem kafar djúpt og sýnir okkur það sem það finnur. Hvort sem það er söngur, bók, listaverk, ljóð, dans, kvikmynd eða eitthvað allt annað. Það er listin, sem tengir okkur saman á dýpinu. Ekki bara fjölskylduböndum eða þjóðarböndum. Það þarf hugrekki til þess að berskjalda sig. Til þess að gefa út bók sem er svo stútfull af hreinskilni og erfiðum hugsunum. Til þess að standa upp á sviði og þenja sig í söng fyrir fullu húsi.

Það er í sköpunarkraftinum sem við sýnum hvort öðru tilfinningar og gerum okkur ljóst, hvað við erum í raun öll lík. Öll í sömu baráttunni við sjálfið og tilveruna. Það er gott að finna að við erum ekki ein. Ósk mín fyrir nýtt ár, sem senn gengur í garð, er að við sköpum meira og sækjum menningarviðburði hjá öðrum. Því við erum öll listafólk.

Rakel Hinriksdóttir er blaðamaður á Akureyri.net

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Prentvillupúkinn leikur lausum hala

Haraldur Ingólfsson skrifar
31. desember 2024 | kl. 20:00

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00