Forboðnir ávextir, æsingur og æðibunugangur á Melum

LEIKHÚSEpli geta verið varhugaverð. Þau eru sennilega sá ávöxtur, sem birtist hvað oftast í sögunni og hefur úrslitaáhrif á framvindu mála. Newton fékk eplið í höfuðið og uppgötvaði þyngdaraflið. Mjallhvít beit í eitrað epli og lifði það tæpast af. Herkúles þurfti að tína gullin epli, sem ein af þrautunum tólf. William Tell þurfti að hæfa epli af höfði sonar síns með boga sínum og örvum til þess að bjarga þeim. Heppilegt, í því tilviki, að það var ekki vínber!
Það eru fá epli í sögunni jafn örlagarík, eins og eplið í Eden. Forboðni ávöxturinn, sem óx á Skilningstrénu. Eina tréð í aldingarðinum sem Adam og Eva, hið fyrsta mannfólk samkvæmt Biblíunni, máttu alls ekki borða af. Við vitum flest hvernig fór, enda hefur mannfólk enn í dag mikið fyrir því að fara eftir settum reglum. Freisting er eitthvað sem leiðir ansi mörg í ógöngur, eins og Evu forðum. Hún leyfði snáknum að plata sig og saman bitu hún og Adam í forboðna eplið. Þá skildu þau loksins, að þau voru nakin og þau skömmuðust sín. Þau lifðu ekki lengur áhyggjulaus í allsnægtum. Síðan hefur enginn lifað áhyggjulaus í allsnægtum á þessari jarðarkringlu.
Talandi um að vera áhyggjulaus, þá á það alls ekki við um leikritið Epli og eikur hjá Leikfélagi Hörgdæla. Þar eru flestar, ef ekki allar persónurnar þjakaðar af áhyggjum af stöðu sinni í tilverunni. Sífelld eftirför, ástarsorg, misskilningur og eplaskrælun skilur áhorfendur eftir með fleiri spurningar en svör. Undirrituð mætti á frumsýningu verksins á Melum, fimmtudagskvöldið 27. febrúar. Ástæðan fyrir því, að upphaf þessa pistils hverfist um táknmyndir eplanna í gegn um tíðina, er að þau spila stórt hlutverk í sýningunni. Svo stórt, að ég lagðist í rannsóknarvinnu eftir leikhúsferðina, til þess að leita svara.
Ég vildi finna dýpri þýðingu í verkinu. En leikverkið Epli og eikur er farsi – og býður upp á allt það sem á að einkenna góðan farsa. Kannski er óþarfi að leita að dýpri meiningu, þó að eplapælingarnar hafi verið skemmtilegar. Steve Jobs hefði orðið stoltur. En sem sagt; FARSI. Aðdáendur æðibunugangs, ástarbríma, húmors og misskilnings eiga gott í vændum og eiga alls ekki að láta þessa sýningu fram hjá sér fara.
Atburðarrásin á sér stað í almenningsgarði í Reykjavík. Allt gerist þar, á sama stað. Fyrir miðju á sviðinu er rauður bekkur, sem hýsir allskyns vesen í gegnum verkið. Kossa og káf, rifrildi og ástarjátningar, löðrunga og faðmlög. Þungamiðja persónugallerísins er fjölskylda, sem er óneitanlega frekar losaraleg. Fjölskyldufaðirinn er ekki allur þar sem hann er séður og dæturnar tvær virðast ekki skipta hann miklu. Móðirin er upptekin af útliti og kvenleika, en þó helst hefur hún áhyggjur af því hvar eiginmaðurinn er. Þroskasaga hennar í verkinu er reyndar mjög áhugaverð. Persónur sem ekki tilheyra fjölskyldunni eru til dæmis læknir með ansi óheilbrigðar viðreynsluaðferðir og forhert glæpakvendi. Svo eru allir rosalega sjúkir í tyggjó.
Eitt, sem vakti spurnir í ofhugsunarheilabúi mínu, er dýrðarljómi illskunnar í þessu verki. Þarna gæti ég ef til vill seilst aftur í eplarannsóknirnar og tínt til spurningar um trúarbrögð og baráttu góðs og ills. En þar væri hætta á því að fá höfuðverk, þar sem tilgangurinn er sennilega, þegar allt kemur til alls, bara að skemmta sér og skilja ofhugsunina eftir heima. Það er ung kona í verkinu, ein af aðalpersónunum, nafna mín – Rakel. Það sem heillar hana umfram allt, er það þegar fólk er skuggalegt og fremur glæpi. Hún misskilur reyndar ásetning persónunnar sem hún verður ástfangin af og það er ekki alltaf auðvelt að vera vondur. Það virðist samt vera normið, í tilveru leikritsins, að það sé töff að vera óheiðarlegur.
Fyrst og fremst, er leikritið skemmtilegt. Atburðarrásin er hröð, það gerist fullt og ég skal glöð gefa þeim gesti fimmu sem skilur allt sem á sér stað. Ég er ekki ein af þeim og var oft eitt spurningarmerki, en mátti ekki vera að því að dvelja við það þar sem næsta sena var hálfnuð. Verkið er söngleikur, en höfundurinn, Þórunn Guðmundsdóttir, er tónlistarkona og það er mikið af sönglögum í verkinu. Mig langar að taka það sérstaklega fram, að söngurinn var flottur. Tónlistaratriðin voru mörg hver mjög skrítin, í anda verksins, sem er svolítið skemmtilega skrítið, en lögin voru mjög vel flutt og pípurnar á leikurunum í toppstandi.
Leikararnir voru líflegir og skemmtilegir, og leikstjórinn Jenný Lára Arnórsdóttir var greinilega búin að skrúfa vel upp í þeim, þar sem orkusviðið var mjög smitandi. Ég er ekki frá því að ég hafi verið svolítið æst þegar ég labbaði út í myrkrið eftir sýninguna. Mig langar ekki að draga neinn sérstakan fram, mér fannst leikhópurinn standa sig mjög vel í heild. Það er krefjandi að leika ýktar persónur í ýktum aðstæðum og þau gerðu það listavel.
Það er alltaf gaman og hlýtt í hjartað að mæta á frumsýningu hjá áhugaleikfélagi. Spennan liggur í loftinu, og ólíkt atvinnuleikhúsunum, er oft hægt að sjá leikarana og aðstandendur sýningarinnar rölta um í hópnum fyrir og eftir sýningu. Maður verður vitni af þeim heilsa fjölskyldu og vinum sem eru mætt til þess að horfa. Sjá loksins með eigin augum þessa sýningu, sem hefur rænt viðkomandi undanfarnar vikur á hverju einasta kvöldi og um helgar.
Ég hafði sérstakt dálæti á móttökusal á flugvöllum áður fyrr. Ég kom nokkrum sinnum á Kastrup þegar ég bjó í Kaupmannahöfn, til þess að taka á móti einhverjum, og oft þarf maður að bíða svolítið. Það var yfirleitt ekki langur tími liðinn, þegar ég var orðin stútfull af tilfinningum, eftir að horfa á fólk taka á móti ástvinum sem birtust í hliðinu. Það er til dæmis hefð fyrir því í Danmörku, að vera með móttökunefnd þegar einhver kemur heim úr langri ferð. Allir með litla danska fána og einu sinni sá ég meira að segja hóp sem var með köku í fanginu. Að fylgjast með þeim, gera sig klár, brosandi og hlæjandi, sífellt að kíkja á hliðið og tvístíga, var svo gaman! Ég var nánast jafn spennt og þau, að sjá manneskju sem ég vissi ekkert hver væri, birtast brosandi og sólbrúna eftir ár í skiptinámi eða hvað það nú væri.
Ég fæ svolítið svipaða tilfinningu stundum á frumsýningu í áhugaleikhúsi. Ég veit aðeins um það, hvað fólk leggur gríðarlega vinnu í þessar sýningar. Bara fyrir sig, fyrir hópinn og fyrir ástríðuna. Faðmlögin, hláturinn og brosin sem einkenna salinn eftir sýningu, láta engan ósnortinn. Allir svo stoltir og glaðir.
Það er um að gera að mæta á Epli og eikur á Melum, sérstaklega þið sem elskið farsa.
Passið ykkur bara á eplunum.


Brúsaburður

Síðbuxur

Næfurhlynur – Tegund í útrýmingarhættu

Hús dagsins: Aðalstræti 52
