Fara í efni
Pistlar

Þroskasaga jólahyskisins í stórskemmtilegum söngleik

Íslensku jólasveinarnir hafa ákveðna sérstöðu. Ólíkt þessum 'eina sanna' í Ameríku og á fleiri stöðum, eru þeir þrettán talsins. Svo eru þeir líka allt annar pappír en þessi rjómaglaði og rauðklæddi. Jólasveinarnir okkar á Íslandi eru neflinlega ekki neinir dýrlingar, heldur í raun hluti af tröllafjölskyldu sem býr í helli og hefur stundum fengið að bera þann vafasama titil 'jólahyski'. 

Tröllin í þjóðsögunum eru nánast aldrei skemmtileg og góð. Né sérstaklega spennt fyrir því að gefa mönnunum gjafir, svona af því bara. Þau hafa meira gaman af því að pína okkur, stela af okkur börnum og éta okkur, svo eitthvað sé nefnt. Í raun ekki mjög jólalegt. Við erum þó öll farin að þekkja og kunna að meta jólahyskið. Grýla og Leppalúði, foreldrar jólasveinana, eru til dæmis ekki talin borða börn lengur. Sumir telja þau vera dauð. En þessi fjölskylda hefur alltaf verið heillandi, og fylgir jólunum, sem eru náttúrulega fyrst og fremst hátíð barnanna. 

Þess vegna er einstaklega skemmtilegt að fá að kynnast nýrri og skemmtilegri hlið á þeim í Freyvangsleikhúsinu fyrir þessi jólin, en um síðastliðna helgi var þar frumsýnt nýtt jólaleikrit. Verkið heitir 'Fjórtándi jólasveinninn', og er leikgerð eftir samnefndri barnabók Ásgeirs Ólafssonar Lie. Undirrituð skellti sér á frumsýningu með sjö ára syni sínum og ekki laust við að jólaskapið hafi jafnvel látið á sér kræla, þó að ég reyni oftast að fresta því fram í desember.

Jólasveinarnir amast yfir látunum í yngsta bróður sínum. Mynd: Freyvangsleikhúsið

Í stuttu máli langar mig að segja að sýningin var skemmtileg, lífleg og tónlistin sérstaklega góð. Ég var ennþá að raula fyrir mér eitt lagið úr sýningunni fram undir kvöldmat, en það er varla í frásögu færandi nema vegna þess að öll tónlistin er frumsamin fyrir verkið og ég hafði því aldrei heyrt viðkomandi lagstúf áður. Tónlistin eftirminnilega er samin af Eiríki Bóassyni og stórskemmtilegir textarnir eru úr smiðju Kristnesbóndans Helga Þórssonar. Mér þykir líka alltaf gaman af því þegar tónlistin er flutt af hljómsveit, en ekki af bandi, og hljómsveitin er á áberandi stað á sviðinu. 

Persónur sýningarinnar eru langflest góðkunningjar okkar úr Grýluhelli. Jólasveinarnir þrettán, jólakötturinn, Grýla og Leppalúði eru öll á sínum stað. En, leikritið heitir jú 'Fjórtándi jólasveinninn'. Það er vegna þess að í þessari sögu urðu synir tröllahjónanna óvart fjórtán. Hér er það neflinlega þannig, að Grýla og Leppalúði gerðu samning um að gefa börnunum í þorpinu gjafir þrettán nætur fyrir jól, en ekki fjórtán. Sem þýðir að fjórtándi jólasveinninn hefur ekki neitt hlutverk í aðdraganda jólanna eins og bræður hans. Þó að verkið sé í eðli sínu glaðlegt og jólalegt, er þó ákveðinn undirtónn á alvarlegri nótum, sem tengist einmitt þessu tilgangsleysi aðalpersónunnar.

Ólátabelgur er fjórtándi jólasveinninn. Mynd: Freyvangsleikhúsið

Ólátabelgur heitir sá fjórtándi, sá sem lítur fyrst dagsins ljós í sögu Ásgeirs og leikgerð Freyvangsleikhússins. Hann er yngstur af jólasveinunum og þegar sagan gerist, er hann að stálpast og það er farið að renna upp fyrir honum að það sé óréttlátt að allir hafi verkefni fyrir jólin nema hann. Tilvistarkreppan birtist helst í ólátum, eins og nafnið gefur til kynna, og athyglisþörf frá hinum fjölskyldumeðlimunum. Það kemst vel til skila, hvað það getur verið erfitt að finnast maður ekki tilheyra. 

Leikhópurinn stendur sig vel, þar er gríðarlegur munur á aldri og reynslu á leiksviði, en það er skemmtilegt að sjá fjölbreytnina og það ríkir mikil leikgleði og samheldnin er áþreifanleg. Allir jólasveinarnir eru skemmtilegir og ólíkir og mig langar að hrósa ungu leikkonunni Sólveigu Maríu sem stendur sig vel í hlutverki Ólátabelgs. Það er burðarhlutverk og Sólveig fer vel með að sýna ólíkar hliðar Ólátabelgs, sem er í senn gríðarlega orkumikill og hávaðasamur en einnig lítill í sér og svolítið týndur í tilverunni oft á tíðum. 

Ég ætla ekki að ljóstra upp um söguþráðinn meira en þörf er á. Til þess að kynnast Ólátabelgi og vegferð hans til vegs og virðingar mæli ég með að skella sér í Freyvang. Mig langar hins vegar að nefna nokkur atriði sem standa eftir hjá mér þegar heim er komið.

Ótal útgáfur af jólahyskinu hefur maður séð og hitt í gegnum tíðina. Grýlu hef ég þekkt frá því að ég man eftir mér, myndin af henni með hófana, dragandi pokann af óþekkum börnum, gleymist seint. Svo kunnum við öll lagið um það að hún sé dauð og nenni ekki að róla sér meira. Fréttinni af andláti hennar tók maður þó með temmilegum fyrirvara.

Grýla í Freyvangi er ferskur blær í vitundina, miðað við Grýlur fyrri tíðar. Hún er mild og í stað þess að sýna hana sem einhverja arga og reiða tröllskessu er hún hugsunarsöm og góð mamma. Móðurhjartað hennar á bersýnilega erfitt með að horfa upp á yngsta barnið sitt í tilvistarkrísu. Leppalúði er reyndar svipað utan við sig og vitlaus og hann hefur verið, en hann sýnir þó líka manngæsku sem maður hefur ekki kynnst áður hjá þessum tröllahjónum. Ferðalag þeirra frá hræðilegum mannætum til mildra og hlýlegra foreldra er merkilegt, og kannski einmitt í takt við tíðarandann sem hefur breyst töluvert. Hallur Örn Guðjónsson og Heiðdís Björk Gunnarsdóttir leika þessi þroskuðu hjón sem taka óvænt tillit til tilfinningalífs barna sinna og standa sig mjög vel. 

Jólakötturinn er önnur persóna úr Grýluhelli sem hefur vakið ótta í hjörtum barna í gegnum tíðina. Í kvæðinu sem við þekkjum öll, eftir Jóhannes úr Kötlum, er hann hræðileg ófreskja sem étur börn sem ekki fá nýja flík fyrir jólin. Í Freyvangi er hann hins vegar nær því að vera hefðbundinn heimilisköttur. Frekar pirrandi stundum og snöggur að nýta sér aðstæður sér í hag, en í grunninn einfaldlega háður eigendum sínum og finnst best að kúra sig upp við fólkið sitt. Samband hans og Ólátabelgs er fallegt og kisi er til staðar fyrir ráðvilltan jólasveininn. Það er svolítið skemmtilegt að fylgjast með Katrínu Ósk Steingrímsdóttur túlka kisa, en oft er hún að bralla eitthvað furðulegt í bakgrunni, sem vakti kátínu mína. 

Framvinda sögunnar er í öruggum höndum sögumanns í þessari sýningu, en Jón Friðrik Benónýsson er sem fyrr hlýr og glettilegur í hlutverki sögumannsins. Hann hefur einstakt lag á því að ná áhorfendum á sitt band með frásagnarlist og svo má alveg skjóta hrósi á rauðu jakkafötin sem hann skartaði á sviðinu. 

Það er óhætt að mæla með þessari skemmtilegu sýningu fyrir fjölskyldufólk í jólastemningu, og fyrir mér stendur upp úr að heyra öll þessi nýju og skemmtilegu lög og verða vitni að áður óþekktri tilfinningagreind jólahyskisins.

Til hamingju með þessa flottu sýningu Freyvangsleikhúsið! 

Allur leikhópurinn stoltur eftir frumsýningu ásamt leikstjóranum Jóhönnu Sigurbjörgu Ingólfsdóttur. Mynd: Freyvangsleikhúsið

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00