Fara í efni
Pistlar

Saknaðarilmur: Sært fólk særir annað fólk

LEIKHÚS

Ég fór á Saknaðarilm í gærkvöldi.

Leikrit hefur aldrei haft jafn mikil áhrif á mig. Ég verð að hafa þennan pistil um verkið svolítið hráan, vegna þess að daginn eftir sýninguna er ég ennþá í hafi af tilfinningum og það er stórsjór.

Ég hef lengi haft þá tilfinningu að ég ætti að sjá þetta verk. Ég þekki aðeins til skrifa Elísabetar Jökulsdóttur, hef lesið nokkrar bækur eftir hana. Meðal annars Aprílsólarkulda og ég las vel inn í Saknaðarilm en ég gafst upp. Það var sennilega forðun, ég sé það núna. Þetta efni er ekki auðvelt og maður er ekki alltaf tilbúinn til þess að opna á erfiðar tilfinningar. Bráðna, eins og það er orðað í sýningunni. Flest reynum við eins og lafmóðar rjúpur við staurinn að halda okkur í föstu formi. Sterkar. Heilbrigðar. Uppgefnar. 

Sært fólk særir annað fólk, segir konan á sviðinu. Hún er leikin af Unni Ösp Stefánsdóttur, og er í raun Elísabet. Hún var alin upp af fólki sem var skugginn af sjálfu sér. Vegna þess að þau voru sjálf alin upp af fólki sem var skugginn af sjálfu sér. Og svona gengur þetta, hring eftir hring eftir hring, segir konan á sviðinu. Faðir Elísabetar var þekktur listamaður og alkóhólisti. Hún lýsir honum sem snillingi. Hún notar þetta orð, sem er í raun jákvætt, en í senn er það umhugsunarvert – vegna þess að snilligáfa hans (og fíkn) fjarlægði hann úr fjölskyldunni. Ég grét ekki þegar pabbi dó, vegna þess að ég var löngu búin að missa hann. 

Það er ekki það sama, að vera á staðnum og að vera til staðar.

En nóg um fjarlæga feður. Það er mamma Elísabetar sem er þungamiðja verksins, í rauninni. Það er undirstrikað á svo snilldarlegan hátt, þar sem leikkonan endurtekur oft – og reynir að sannfæra gestina en þó sérstaklega sjálfa sig, um að hún sé að segja sína sögu, ekki mömmu sinnar. ÞETTA ER MÍN SAGA, segir konan á sviðinu. 

En okkar saga er ekki bara okkar saga. Við erum ekki eylönd, eins og einhver frægur sagði einhverntíman. Einn af snillingunum. Við lifum með öðru fólki, og þegar við erum börn, erum við upp á aðra komin. Það er ekkert undan því komist. Ekkert barn á að bera ábyrgð á foreldri sínu á neinn hátt, eða svara fyrir óöryggi foreldis. Afleiðingar þess fylgja fólki út í lífið og hafa mismikil áhrif – oft ósýnileg. Elísabet missir tökin eftir tvítugt eftir mikla óreglu og greinist með geðsjúkdóm, þar sem áhrifin eru langt frá því að vera ósýnileg. Atriðin í leikritinu, þegar hún hverfur alveg inn í geðsjúkdóminn eru svo áhrifamikil að ég fæ gæsahúð aftur núna, við það eitt að hugsa um það. 

Saga Elísabetar er átakanleg, en mikilvæg, vegna þess að þó að birtingarmyndir þess að upplifa vanrækslu foreldra séu mjög ólíkar, þá er þetta saga sem gengur nærri samfélaginu í heild. Svo verður Elísabet móðir sjálf allt of ung. Ég upplifði það sem sárasta viðfangsefni sýningarinnar og hún fer ekki eins djúpt í það eins og hitt. Hún er 17 ára þegar sonur hennar fæðist, og hún hefur ekki getu til þess að annast hann. Sært fólk særir annað fólk. Og svona gengur þetta, hring eftir hring eftir hring.

Unnur Ösp skrifaði leikritið og leikur Elísabetu. Hún er ótrúleg. Ég hef engin orð um það, hversu góð leikkona hún er, vegna þess að ég upplifði hana alls ekkert sem leikkonu, mundi það bara eftir sýninguna. Hún var bara Elísabet. Konan á sviðinu. Alvöru manneskja sem reynir að segja sögu sína, með öll lóðin hangandi um hálsinn. Saknaðarilmur er svo miklu meira en leiksýning. Hún er vitnisburður. Gluggi inn í raunveruleika konu sem hefur átt erfitt líf. En haft hugrekki til þess að bráðna, og leyft öðrum að sjá inn. Sem er ómetanleg gjöf.

Það eru tvær sýningar eftir, og ég mæli heilshugar með. Taktu með þér tissjú.

Rakel Hinriksdóttir er blaðamaður á Akureyri.net

Rauðkál

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 11:30

Fíkn og viðhorf

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 09:45

Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 07:45

Selur í eldhúsvaski

Jóhann Árelíuz skrifar
30. mars 2025 | kl. 09:00

Erum við kjánar?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
29. mars 2025 | kl. 06:00

Lífsgæði

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
28. mars 2025 | kl. 06:00