Fara í efni
Pistlar

Birkið og lexíurnar. Birkið við Þórunnarstræti 127

TRÉ VIKUNNAR - LXXVII

Á Akureyri eru mörg tré. Hvert og eitt þeirra á sér sína sögu og sín leyndarmál. Þau eru misjafnlega áberandi en flest þeirra bæta umhverfið á einn eða annan hátt. Að auki eru fjölmörg tré sem kenna okkur lexíur. Það getur verið gagnlegt að læra af dæmum trjánna.

Pistill vikunnar fjalla um eitt af þessum trjám. Það er birki sem stendur á áberandi stað við Þórunnarstræti. Þetta er eitt af þeim trjám sem finna má í kortasjá Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Staðsetning

Þetta svipmikla birkitré, Betula pubescens. stendur í garðinum við Þórunnarstræti 127 nokkuð nálægt lóðamörkunum og teygir limið yfir bílastæði hússins númer 125. Segja má að það standi nánast mitt á milli þessara húsa en þó aðeins framan við þau. Til að fólk átti sig betur á staðsetningunni má nefna að handan við Þórunnarstrætið er leikskólinn Hólmasól og bílastæði við hann.
 
 

Horft yfir Þórunnarstræti við gangbraut á móts við Hólmasól. Birkið er þarna lengst til vinstri með sinn volduga stofn. Mynd: Sig.A.

Vöxtur
 
Samkvæmt mælingum okkar Skógræktarfélagsmanna reyndist þetta tré vera 11 metra hátt í febrúar 2024. Það er nokkuð hátt miðað við íslensk birkitré en vissulega eru til hærri birkitré. Má sem dæmi nefna að í Minjasafnsgarðinum eru hærri tré þessarar tegundar en sumar aðrar trjátegundir verða enn hærri.
 

Þetta tré er nokkuð bolmikið og hefur því bundið mikið kolefni í vefjum sínum. Í brjósthæð er ummál stofnsins einir 111 cm. Það hefur vaxið mjög vel framan af ævinni. Þá hefur það eflaust notið þess að húsin, beggja vegna við tréð, skýldu því. Einnig er ljóst að tréð hefur fengið gott atlæti og mun íbúa í húsinu að nafni Anna Friðriksdóttir (1914-2009) hafa verið umhugað um gróður í garðinum. Hún sinnti garðinum vel og vökvað trén þegar á þurfti að halda. Árangurinn lét ekki á sér standa og birkið sýndi mjög góðan vöxt. Þessar upplýsingar eru komnar frá Unni Hreiðarsdóttur (2024) sem bjó lengi í húsinu og varð vitni að því hversu vel Anna Friðriksdóttir hugsaði um garðinn.

 

Birkitréð í garðinum við Þórunnarstræti 127. Í bakgrunni sér í húsið númer 125. Íbúar beggja húsa njóta skjóls, meiri loftgæða og bættrar hljóðvistar vegna þessa trés. Mynd: Sig.A.

 

Sumarmynd frá svipuðu sjónarhorni og myndin hér að ofan. Í forgrunni er loðvíðir. Mynd: 15. júní 2024: Sig.A.

Húsið var byggt árið 1964 en Anna flutti í það undir lok 7. áratugarins. Þá var húsið ekki að fullu frágengið að sögn sonar hennar, Friðriks Gylfa Traustasonar (2024) og lóðin var ófrágengin. Reyndar voru engar framkvæmdir hafnar í garðinum á þessum tíma og því varlega orðað að hann hafi verið ófrágenginn. Þetta var í fyrsta skipti sem Anna fékk tækifæri til að sjá um garð, en hún flutti í Þórunnarstrætið frá Ólafsfirði þar sem hún hafði búið nánast niður í fjöru (Friðrik 2024). Á slíkum stöðum var fólk trauðla til skaða bundið af garðyrkjuáhuga á þeim tíma, enda ekki auðvelt að rækta garða við fjöruborðið.

Að sögn Friðriks hafði Anna mjög gaman að garðvinnunni og hóf að planta trjám og runnum fljótlega eftir að hún flutti í húsið. Sennilega strax árið 1968 eða 1969. Ekkert vissi Friðrik um uppruna birkisins, sem vonlegt er.

Svo gerðist það að tréð óx upp fyrir skjólið sem húsin veita. Þá breyttist vaxtarlagið. Efsti hluti trésins er ekki jafn teinréttur og neðri hlutinn, enda er hann laminn og barinn af vindum úr öllum áttum.

 

Þráðbeint birki með gildan, ljósan stofn uns það nær upp fyrir hæð húsanna. Eftir það er vöxturinn tóm vitleysa. Mynd: Sig.A.

Nýjar upplýsingar 
 

Þegar höfundur hafði leitað til Friðriks Gylfa Traustasonar, sonar Önnu Friðriksdóttur, fór Friðrik, ásamt konu sinni Björk Pétursdóttur, að skoða málið betur. Það fór svo að Björk (2024) hafði samband við undirritaðan og benti á að í húsinu væru fjórar íbúðir. Tvær sunnan megin og tvær að norðan. Þar sem tréð stendur sunnan við húsið er mun líklegra að íbúarnir í þeim hluta hússins hafi plantað trénu, en Anna plantaði trjánum sem eru norðan megin. Telur Björk því líklegast að hjónin Baldvin Bjarnason og Róshildur Sigtryggsdóttir hljóti að hafa lagt hönd á plóg. Þetta er mjög líkleg tilgáta. Þegar þau Baldvin og Róshildur fluttu úr húsinu þótti Önnu sjálfsagt að hlúa að þessu tré og gerði það vel, eins og Unnur Hreiðarsdóttir varð svo oft vitni að. Þegar þessar upplýsingar lágu fyrir var einboðið að reyna að hafa samband við Baldvin eða Róshildi. Þá kom í ljós að þau fluttu í húsið strax árið 1966 og það var Baldvin (2024) sem plantaði þessu tré ásamt Trausta Gunnlaugssyni árið 1968. Þessar upplýsingar passa vel við það sem Friðrik nefndi hér að ofan. Framkvæmdir í garðinum sátu á hakanum fyrstu árin. Það eru því liðin 56 ár síðan þessu glæsilega tré var plantað. Baldvin sagði okkur frá því að plöntuna keypti hann í gróðrarstöðinni í Kjarnaskógi.

 

Birkið við Þórunnarstræti 127. Sjá má hvernig vöxturinn hefur breyst þegar tréð varð stærra en húsin við götuna. Í bakgarðinum má sjá stóra og myndarlega Grænugötuösp. Hún lætur skjólleysi ekki slá sig út af (vaxtar)laginu. Mynd: Sig.A.

Hlutverk og vistþjónusta
 

Svona stór og áberandi tré gegna mikilvægu hlutverki í bænum. Þetta volduga birki stendur framan við húsin við eina af mestu umferðargötum bæjarins. Frá götunni kemur umferðarryk og hávaði sem getur truflað lífsgæði íbúa. Í þeirri baráttu er mikla hjálp að fá frá trjám. Þau draga bæði úr umferðarhávaða og loftmengun. Sérstaklega á þetta við þegar trén eru allaufguð. Rannsóknir eins og þessi hér staðfesta að tré sem bera hærð lauf binda mikið ryk. Það á einmitt við um ilmbjarkirnar okkar. Þannig bætir þetta tré lífsgæðin í báðum húsunum sem þarna standa og reyndar allra íbúa í nágrenninu.

Tréð skýlir einnig fyrir vindi þegar íbúarnir vilja dvelja í garðinum. Reyndar draga stór og voldug tré svo mikið úr vindi að allur bærinn nýtur góðs af. Þar fyrir utan hefur svona tré bundið mjög mikið kolefni og þar með dregið úr þeirri hamfarahlýnun sem nú ógnar lífi og lífsgæðum um allan heim.

Svo má ekki gleyma að nefna að tréð er fallegt og mildar ásýnd þeirra háu húsa sem standa við götuna. Þannig bætir tréð götumyndina.

 

Þykkur og beinn stofn myndast á þessu birki þegar skjólið er gott. Svona birki segja okkur að hægt sé að rækta birki til viðarframleiðslu á Íslandi ef aðstæður eru réttar. Mynd: Sig.A.

Viðsjár 
 

Við húsið á Þórunnarstræti 125 er bílastæði. Að hluta til liggur það undir krónu þessa mikla trés. Eins og þekkt er þá eru sérstakar brumhlífar utan um brum margra lauftrjáa. Þegar brumin opnast falla þessar klístruðu hlífar af. Þykir mörgum slæmt, sem vonlegt er, að fá klístrið á farartæki sín. Þannig getur það skapað ákveðinn vanda í næstum tvær heilar vikur á hverju ári að tréð skuli standa við bílastæðið. Þó verður að teljast líklegt að fegurð og þjónusta þessa trés, hinar fimmtíu vikur ársins, nái að bæta upp fyrir þetta litla vandamál. Bílastæðið er stórt og vel hægt að leggja fjær trénu í tæpar tvær vikur ef á þarf að halda. Helstu ógnir sem steðja að þessu tré eru þær að óvíst er að fólk átti sig á því mikilvægi sem tréð veitir umhverfi sínu. Það tekur ekki langan tíma að fella tré sem vaxið hefur í meira en hálfa öld en það verður ekki endurnýjað í grænum hvelli. Þess vegna er gott að vanda sig og flana ekki að neinu. Það er önnur lexía sem þetta tré getur miðlað okkur. Vonandi er þó næga vörn, fyrir þetta tré og önnur, að finna í samþykkt um verndun trjáa á Akureyri frá 29. maí 2002. Þar kemur fram að óheimilt er að fella tré sem eru orðin 60 ára gömul eða 8 m á hæð nema með sérstöku leyfi.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn
 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Að temja tæknina II: Í klóm drekans

Magnús Smári Smárason skrifar
02. júlí 2024 | kl. 10:50

Sykur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
01. júlí 2024 | kl. 11:30

Dómgreind

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. júlí 2024 | kl. 06:00

Seigla og linka

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
30. júní 2024 | kl. 06:00

Þú trylltist og varst rekinn út af!

Orri Páll Ormarsson skrifar
28. júní 2024 | kl. 11:00

Að temja tæknina: Frá tilraunum til hagnýtra verkefna

Magnús Smári Smárason skrifar
25. júní 2024 | kl. 20:00