Fara í efni
Pistlar

Trjárækt nyrðra á 19. öld

TRÉ VIKUNNAR - XCIV

Um áramót tíðkast bæði að spá fyrir um viðburði nýs árs og líta yfir farinn veg. Við erum viss um að árið verði gott. Þar með lýkur okkar spádómum. Við viljum þó líta yfir farinn veg en sleppum því í þessum pistli að fjalla um árið sem nú er nýliðið. Þess í stað förum við aftar í tíma.
 

Árið 1985, eða fyrir réttum fjórum áratugum, birti grasafræðingurinn Ingólfur Davíðsson fróðlega grein í Ársriti Skógræktarfélags Íslands sem bar sama titil og þessi pistill. Nú eru gefin út tvö hefti á hverju ári af þessu riti og því er ekki lengur talað um ársrit, heldur Skógræktarrit. Í því birtist fjöldi fróðlegra greina og hvetjum við allt áhugafólk um skógrækt að gerast áskrifendur.

Við fengum góðfúslegt leyfi Skógræktarfélags Íslands til að endurbirta greinina frá 1985 á þessum vettvangi. Svarthvítu myndirnar í þessum pistli voru í upphaflegu greininni nema annað sé tekið fram. Textinn undir þeim er sá sami og forðum. Við bættum við fáeinum myndum sem tengjast efni greinarinnar. Þar eru í öndvegi myndir úr grein eftir Bergsvein Þórsson og Helga Þórsson sem þeir birtu í Skógræktarritinu árið 2009. Þar segja þeir bræður og félagar í Skógræktarfélagi Eyfirðinga frá sumum af þeim trjám sem Ingólfur segir frá.
_ _ _ _

HÖFUNDURINN

Ingólfur Davíðsson grasafræðingur fæddist á Ytri-Reistará við Eyjafjörð í janúar 1903 og lést 95 ára að aldri í október 1998. Ingólfur lauk magistersprófi í grasafræði frá Kaupmannahafnarháskóla sumarið 1936.

Hann var afkastamikill fræðari og hafði mikinn áhuga þjóðlegum fróðleik, jafnt sem náttúrufræði. Þessi tvö áhugamál tvinnast saman í meðfylgjandi grein. Hann skrifaði mikinn fjölda greina um grasafræði og plöntusjúkdóma í blöð og tímarit. Einnig skrifaði hann kennsluefni. Í samstarfi við Ingólf Óskarsson skrifaði hann tvær bækur sem margir þekkja. Það eru Stofublómabókin árið 1957 og Garðagróður sem var fyrst gefin út þrisvar sinnum en fyrst árið 1951. Sú bók var algert grundvallarrit á seinni hluta síðustu aldar. Að auki þýddi hann og staðfærði nokkrar bækur um grasafræði og er þá aðeins fátt eitt nefnt. Árið 1981 veitti Raunvísindadeild Háskóla Íslands honum heiðursdoktorsnafnbót fyrir rannsóknir sínar.
_ _ _ _

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Lítum í anda til Eyjafjarðar um aldamótin 1800. Þá sást varla hrísla við nokkurn sveitabæ, en líklega ein og ein er við örfá hús danskra kaupmanna á Akureyri. Nú er Akureyri mikill garðabær. „Laufhvelfingar lokast þar langt yfir höfði víðast hvar“. Íslensk tré verða sjaldan meir en 8-12 m á hæð og 60-100 ára gömul.

Elsta trjámynd frá Akureyri. Reyniviður við hús inni í Fjöru. Fjölskylda með hund og þvottur. Myndina gerði Auguste Mayer, málari í leiðangri Frakkans Paul Gaimard 1836.

Rekjum dálítið sögu elstu núverandi trjágarða á Íslandi, en þeir eru á Norðurlandi. Á árunum 1820-1830 gróðursettu þeir Þorlákur Hallgrímsson í Skriðu í Hörgárdal og synir hans Björn og Jón allmörg tré í Skriðu og Fornhaga. Döfnuðu sum þeirra vel og þótti mjög merkilegt á þeim tíma. Ganga ýmsar sögur um hina miklu alúð sem Þorlákur sýndi trjáræktinni. Vinnukonur í Skriðu vildu hengja þvott til þerris á hríslunum, en Þorlákur harðbannaði það og tók sjálfur þvottinn niður, ef þær hlýddu ekki strax. Hann kvaðst heldur vilja missa kú úr fjósinu en hríslu úr garðinum.

 
Tvær myndir úr grein þeirra Bergsveins og Helga Þórssona frá 2009. Trúlega tók Jón Júlíus Árnason neðri myndina einhvern tímann á árabilinu 1879-1899. Hún sýnir heimilisfólkið á Skriðu. Þetta er líklega elsta myndin sem til er af trjánum á Skriðu. Ef hún er borin saman við efri myndina, sem Bruno Schweizer tók árið 1935, frá hér um bil sama sjónarhorni, má sjá mörg sömu trén. Tré sem merkt eru númer 3 og 4 þekkjast vel á báðum myndum, auk þess sem tré 1 og 2 sjást sæmilega. Trén, sem tölusett eru á myndinni voru enn lifandi árið 2009. Á neðri myndinni sjást nokkur tré sem eru horfin á efri myndinni.
 
 

Hér að ofan má sjá þrjár myndir sem settar voru saman fyrir grein þeirra Bergsveins og Helga árið 2009. Þær eru allar teknar frá nánast sama sjónarhorni. Elstu myndina tók Bruno Schweizer árið 1935. Miðmyndina tók Sigurður Blöndal árið 1980 en þá síðustu tók Helgi Þórsson árið 2009. Á henni er Bergsveinn sem ljómandi gott viðmið.

Á myndunum má sjá nokkur þeirra trjáa sem eru á myndinni hér að ofan. Tré 1 hefur misst stóra grein einhvern tímann á árabilinu 1980-2009 og samkvæmt yngstu myndinni, má sjá að margar nýjar greinar hafa vaxið út úr stofninum. Tré 2 hefur misst þriðja stofninn fyrir árið 1980 og hinir stofnarnir eru farnir að hallast nokkuð mikið. Tré 3 má þekkja næsta auðveldlega á öllum myndunum. Tré sem merkt eru með bókstöfum á myndinni frá 1935 eru öll fallin en stubbar flestra þeirra er hægt að finna á staðnum. Tölusettu trén standa enn.

Af þessum myndum má sjá að það standa enn fjögur tré af þeim sem Þorlákur Hallgrímsson gróðursetti forðum með sonum sínum.

 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir lítinn kafla hvers pistils til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Rakel Hinriksdóttir skrifar
01. janúar 2025 | kl. 06:00

Prentvillupúkinn leikur lausum hala

Haraldur Ingólfsson skrifar
31. desember 2024 | kl. 20:00

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00