Fara í efni
Pistlar

Skelfilegur er skorturinn

Æ, þetta hefur verið að angra mig alveg frá því rétt eftir jól. Ég finn svo óskaplega til með öllu þessu fólki. Nei, ég er ekki að tala um sjúka, aldraða, utanveltu, jaðarsetta, fátæka, einstæða, búlduleita, hungraða og stjaksetta því ég reyni nú að rétta þeim hjálparhönd gegnum heimabankann og friða samviskuna leiðinni. Hins vegar fallast mér alveg hendur þegar grátkórinn byrjar í sjónvarpinu eftir fréttir á kvöldin og manni verður ljóst hvílík angist, kvöl og skömm hlýtur að fylgja því að skorta svona óskaplega margt og mikið.

Ég vona að ég sé ekki að fara yfir strikið en málið er að fyrir jólin gátu neytendur notið vildarkjara á alls kyns svörtum, stafrænum, einhleypum og rafrænum dögum og margar verslanir hófu svo útsölur rétt fyrir jól eða milli jóla og nýárs. Fólk keypti villt og galið og við bættist gríðarleg verslun á þar til gerðum óhófssíðum erlendum og þegar nýtt ár gekk í garð og ofgnóttin flæddi út úr fataskápum og íbúðum hjá flestum þá upphófst mjög óvænt grátur og gnístran tanna.

„Stínu vantar nýja steikarpönnu. Gunnar verður að fá þrjú pör af íþróttaskóm og það strax. Gerður þarf að eignast spinninghjól til að hafa í bílskúrnum. Össur getur ekki á heilum sér tekið nema hann fái snjóblásara. Lúlli verður að fá nýja úlpu. Sara grætur sig í svefn þangað til hún eignast flottari maskara. Tvíburana vantar snjóbretti og þau mega ekki vera eins. Anna verður aldrei hamingjusöm nema hún eignist flottasta borvélasettið. Friðrik getur ekki lifað án nýrra gleraugna. Öll börnin í fjölskyldunni verða að fá meira af fötum, fleiri leikföng, meira, meira, meira!“

Já, svona öskra auglýsingarnar á mann í sjónvarpinu og nú held ég að flestir kveiki á perunni þótt dæmið sé ef til vill ýkt. Mér finnst bara svo sárt til þess að hugsa að þrátt fyrir allt sem flestir eignuðust fyrir jólin og á útsölum í upphafi árs þá skuli vöntunin og skorturinn vera svona yfirþyrmandi, vonin og þráin eina haldreipið og nánast ákall til þjóðarinnar að aumka sig yfir þetta vesæla fólk sem vantar svo margt. Það mætti halda að stór hluti þjóðarinnar væri á vonarvöl.

Mér finnst eiginlega alveg galið hvernig þetta neysluþjóðfélag hefur þróast. Í stað kurteislegra auglýsinga frá verslunum og fyrirtækjum um hvaða vörur og þjónusta er í boði þá fóru auglýsingastofur að etja fram raddsterku fólki sem öskraði á neytendur og skipaði þeim að kaupa hitt og þetta. Og nú fáum við þessar frekjulegu raddir í auglýsingunni sem ég er að vísa til þar sem alla vantar svo óskaplega mikið og eina leiðin til að uppfylla þörfina virðist vera að kaupa meira gegnum erlenda vefsíðu.

Þeir sem eru komnir til vits og ára segja gjarnan: „Æ, mig vantar ekki neitt.“ Þannig fólki er erfitt að gefa jólagjafir. Aðra virðist vanta allt og aldrei fá nóg þrátt fyrir gegndarlausa verslun árið um kring. Ég held að okkur væri hollt að líta í eigin barm og skilgreina betur hvað er í því fólgið að vanta eitthvað, skorta eitthvað, þurfa eitthvað og hvort lífshamingjan felist raunverulega í kaupum á fleiri flíkum og hlutum. Það gæti runnið upp fyrir fólki að hugsanlega sé nægjusemi, hófsemi, mildi, hjálpsemi, umburðarlyndi, reglusemi og sátt við sjálfan sig vænlegri leið til hamingjuríks lífs en að taka þátt í grátkór markaðsaflanna.

Góðar stundir.

Stefán Þór Sæmundsson er skáld og íslenskukennari

Hús dagsins: Aðalstræti 66a; Smiðjan

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. apríl 2025 | kl. 20:00

Njóli

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. apríl 2025 | kl. 11:00

Uss í görðum

Jóhann Árelíuz skrifar
13. apríl 2025 | kl. 06:00

Ólík erum við

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
11. apríl 2025 | kl. 08:00

Eplabóndi í aldarfjórðung

Helgi Þórsson skrifar
09. apríl 2025 | kl. 10:00

Heilbrigðishagfræði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
09. apríl 2025 | kl. 08:45