Fara í efni
Pistlar

Tré og upphaf akuryrkju í heiminum

TRÉ VIKUNNAR - LXXXIII

Eins og lesendur okkar vita er okkur ekkert óviðkomandi þegar kemur að trjám og öllu því sem þeim tengist. Nú fjöllum við um tré sem tengist sterkum böndum elsta þekkta dæmi um einhvers konar landbúnað eða akuryrkju í heiminum. Það er samt ekki þannig að sjálf trén séu ræktuð á ökrum eða neitt slíkt. Aftur á móti byggja afkomendur þeirra er stóðu að elstu, þekktu akuryrkju í heimi, afkomu sína á laufum þessara trjáa. Þú, kæri lesandi, mátt gjarnan taka þér smá pásu núna og velta því fyrir þér hvar þetta tré vex og hvaða landbúnaður þetta er. Hver ætli afurðin sé sem kemur úr þessari ræktun? Fyrir hverja var hún ætluð? Hvað var fyrst ræktað í heiminum svo vitað sé?

Við byrjum á því að segja stuttlega frá þessu tré og síðan hvernig það er nýtt í akuryrkju, hverjir það eru sem nýta það, hver afurðin er og hverjir neyta hennar.

Þetta gæti komið á óvart.
 
 

Nú kynnum við til sögunnar Protium heptaphyllum. Myndin er fengin héðan en hana tók Tarciso Leão. 

Ættfræði

Það er ýmsum vandkvæðum bundið að finna einhverjar lýsingar á þessu tré. Samt er það af vel þekktri ætt. Heitir hún kyndilviðarætt (Árnastofnun 2024) eða Burseraceae. Þetta er fræg ætt. Innan hennar eru tré og runnar sem þekkt eru fyrir ilmefni sín. Má þar nefna myrru, Commiphora myrrha og ættkvísl sem kallast Boswellia. Innan hennar eru nokkrar tegundir sem kallast reykelsistré. Afurðir þessara trjáa voru tvær af þremur gjöfum sem vitringarnir eru sagðir hafa fært Jesúbarninu fyrir meira en 2000 árum.

 

Myrrutré, Commiphora myrrha, er af kyndilviðarætt eins og tré vikunnar. Myndin fengin héðan en þar kemur ekki fram hver tók hana.

Þannig að þótt ættkvíslin sem við fjöllum um í dag sé ekki mjög vel þekkt af almenningi í Evrópu, þá er ættin það svo sannarlega. Að minnsta kosti afurðir hennar. Innan ættarinnar eru 19 ættkvíslir tvíkímblöðunga samkvæmt WFO (2024). Þær mynda tré eða runna og eru útbreiddar í hitabeltinu. Innan allra ættkvíslanna eru ákaflega vel lyktandi tré. Clapp & Crowson (2024) segja að góð lykt sé helsta einkenni ættarinnar í heild og hljóti því að koma frá sameiginlegum forföður.

Það verður að teljast ólíklegt að þessi ilmefnaframleiðsla trjánna sé fyrst og fremst til að gleðja þefskyn okkar manna eða til að hægt sé að gefa guðlegum nýburum hentugar gjafir. Líklegra er að efnin eigi að virka sem einhvers konar vörn gegn sjúkdómsvaldandi örverum, sveppum eða smádýrum.

Tegundin

Tré vikunnar kemur úr frumskógum Suður-Ameríku og á sér ekkert íslenskt heiti sem við þekkjum. Úti í hinum stóra heimi gengur það gjarnan undir nafninu almécega með áherslu á annað atkvæði. Orðið kemur úr portúgölsku, enda er tréð einna algengast í Brasilíu þar sem portúgalska er ríkjandi tungumál.

Fræðiheiti tegundarinnar er Protium heptaphyllum Marchand. Á meðan við höfum ekkert almennilegt, íslenskt heiti getum við notað fræðiheitið eða brasilíska heitið, sem er víða notað. Við gætum líka myndað heiti sem dregið er af fræðiheitinu og nefnum við það hér aðeins neðar. Það hefur þó ekki unnið sér neina hefð.

 

Útbreiðsla Protium heptaphyllum samkvæmt WFO (2024).

Innan þessarar ættkvíslar má bæði finna tré og runna í regnskógum Suður-Ameríku, einkum á þurrari svæðum þeirra. Algengastar eru tegundirnar í Brasilíu, enda er mest af Amazonskóginum þar.

Samkvæmt Damasko og félögum (2021) ber heimildum illa saman um fjölda trjátegunda í hinum fjölskrúðugu skógum Amazon. Hann er talinn vera frá 6.727 tegundum trjáa og runna og upp í rúmlega 16.000 tegundir. Sumar þeirra eru mjög sjaldgæfar og mörkin á milli tegunda eru oft óglögg. Af þessum trjám er Protium heptaphyllum einna algengast og best þekkt meðal grasafræðinga (Damasco o.fl. 2021).

Þeir Damasko og félagar segja að tegundin sé fjölbreytt og skiptist í eina átta mismunandi hópa sem vel mætti kalla mismunandi tegundir. Ef það er gert fjölgar tegundum trjáa í skógunum um sjö. Hægt er að líta á þær sem undirtegundir þar til flokkunarfræðingar hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu. Þessir hópar vaxa á mismunandi stöðum í skógunum og við mismunandi aðstæður. Þetta kann að vera sambærilegt við það sem við lýstum í þessum pistli um stafafurur þótt hópar þeirra séu færri. Því ræðum við það ekki frekar í þessum pistli en bendum á stafafurupistilinn til frekari glöggvunar. Við getum einnig bent á pistilinn frá síðustu viku þar sem við sögðum frá nýrri ættkvísl reynitrjáa og ferlinu í kringum það.

Lýsing 

Þrátt fyrir að þetta tré eigi sér merkilega sögu og fræga ættingja eru fremur takmarkaðar lýsingar á því á þráðum alnetsins á tungumálum sem sá er þetta ritar fær einhvern botn í. Þó má benda á þessa myndasíðu, ef fólk vill skoða tréð nánar. Myndir eru alþjóðlegar.

Þetta tré, almécega, er sígrænt og getur vel náð um 20 metra hæð þarna í regnskógunum. Trén mynda lítil gulgræn blóm við blaðfótinn og samkvæmt myndum geta krónublöðin verið fjögur, fimm eða sex saman.
 
 

Blómin eru gulgræn og lítt áberandi eins og sjá má. Myndin fengin héðan en hana tók Célio Moura Neto.

Blómin mynda lítil, græn aldin sem eru næstum jafn stór og kirsuber. Þegar aldinið þroskast myndast skærrautt hýði utan um það. Þessi litur vekur athygli margra dýra sem geta étið aldinin og dreift fræjunum. Ef það gerist ekki þá springur hýðið og fellur af. Þá verður berið mjallahvítt og enn girnilegra í augum ýmissa apa og fugla en rauðu berin. Inni í hverju aldini er eitt fræ. Er það svart að lit og á stærð við rúsínu (Clapp & Crowson 2024).

 

Aldin á þremur stigum. Græn og óþroskuð, rauð og þroskuð og neðst eru hvít aldin sem sprengt hafa af sér rauða hýðið. Myndin er fengin héðan en hana tók Guillaume Léotard.

 

Önnur mynd af aldinum trésins. Hér eru þau öll orðin rauð eins og sjá má og ekkert þeirra búið að sprengja af sér hýðið. Myndin fengin frá Wikipediu en hana á João Medeiros.

Laufin á þessari tegund sverja sig mjög í ættkvíslina. Þau eru samsett eins og á reynivið og aski en smáblöðin eru töluvert stærri. Hér ofar má sjá mynd af frænku þessa trés sem kallast myrrutré. Það er líka með fjöðruð blöð. Blöðin eru dökkgræn en æðstrengurinn gulur eða gulgrænn og nokkuð áberandi. Eitt af því sem einkennir þessa tegund (eða allar tegundirnar ef þær eru átta) er að smálaufin eru alltaf sjö að tölu. Viðurnefni, eða viðurnafn, trésins, heptaphyllum, vísar í það (Clapp & Crowson 2024). Á alþjóðlega fræðimálinu merkir hepta- töluna sjö eins og sjá má hér. Orðhlutinn phyllum merkir laufblað.

 

Hvert laufblað er sett saman af sjö smáblöðum. Af því hlýtur tegundin viðurnafn fræðiheitisins. Ef til vill má nota fræðiheitið til að gefa tegundinni íslenskt nafn. Kemur þá orðið sjöblöðungur upp í hugann. Við bíðum þó með að stinga upp á því ef betra og styttra nafn finnst. Myndin fengin héðan en hana tók Víctor de Paiva.

Börkurinn sver sig einnig í ættina. Hann er mjúkur og grár á litinn. Það sem meira er um vert er að hann ilmar dásamlega eins og vænta má. Reyndar lyktar allt tréð vel og gerir það vinsælt meðal heimamanna. Þessi lyktarefni hafa tré í ættinni þróað til að berjast gegn sveppum, pöddum og ýmsum örverum eins og áður er getið.

Heimamenn hafa öldum saman gjarnan farið og gert skurð í börkinn á trjánum. Þá rennur út trjákvoða sem lokar sárinu. Hún harðnar og þá má safna henni og þurrka og mylja í duft til að fá ilmefni. Leysa má duftið upp í vatni eða setja dálítið af því á varðeldinn til að njóta ilmsins. Kvoðuna má einnig nota í lækningaskyni, ef marka má Clapp & Crowson (2024). Hún mun vera sérlega græðandi eins og vænta má af efnum sem náttúran hefur sjálf framleitt til að berjast við örverur.
 
Hin siðari ár hefur ilmolía stundum verið unnin úr laufunum og seld víða um heim.
 

Enn á þó eftir að nefna það sem mestu máli skiptir í okkar sögu.

 

Trjákvoða lokar sári á berki trésins. Hún er mikið nýtt í Suður-Ameríku. Myndin fengin héðan en þar kemur ekki fram hver tók hana.

Söfnun laufa

Svo er að sjá að þótt tréð verji sig með ilmefnum þá fer því víðs fjarri að það virki á allar þær fjölbreyttu lífverur sem lifa í regnskógunum. Einn hópur lífvera er sérstaklega hrifinn af þessu tré. Hópinn skipa maurar. Sérstaklega er það sérhæfður hópur maura sem hrífst af þessari tegund. Kallast þeir laufskurðarmaurar. Þetta er ekki ein tegund maura heldur margar. Þeir eru af ættkvísl sem kallast Atta. Meira en 250 tegundir eru til af Atta-maurum, allir í Ameríkunum tveimur. Allar stunda tegundirnar einskonar akuryrkju en hver tegund hefur sinn háttinn á. Ein af best þekktu tegundunum er Atta sexdens L. Bókstafurinn fyrir aftan fræðiheitið segir okkur að það var sjálfur Linnæus hinn sænski sem gaf þessum maurum nafn. Hann kom víða við, blessaður. Maurarnir Atta sexdens búa við flókið þjóðfélagsskipulag. Má greina stöðu mauranna í samfélagsstiga maurabúanna á stærð þeirra og höfuðstærð. Eftir því sem þeir eru stærri og hafa stærri haus, þeim mun hærra eru þeir í þjóðfélagsskipulaginu.

Á toppnum í hverju búi er drottningin. Hún er stærst og með stærsta hausinn.
 

Skurðarmaurarnir, sem fara út úr búinu og skera laufin, eru með næst stærstu hausana ásamt sérstökum varnarmaurum eða hermaurum sem verja búið. Lítill hluti þeirra fylgir einnig skurðarmaurunum eins og lífverðir. Aðrir minni maurar skipa sér einnig í lífvarðasveitina eins og nefnt verður hér á eftir.

 

Laufskurðarmaurar með feng sinn af almécega-laufum. Myndin fengin úr hlaðvarpsþætti sem Clapp og Crowson (2024) halda úti. Hann er meginheimild þessa pistils.

Með minni hausa eru njósnamaurar sem fara um allan skóginn í leit að hentugum trjám. Þeir geta gefið frá sér hávær hljóð með því að nudda saman framfótunum ef þeir finna sérlega gómsæt lauf. Að auki gefa þeir frá sér lyktarefni þannig að laufskurðarmaurarnir vita hvert þeir eiga að fara. Oftast eru það laufin á okkar tré sem sóst er eftir en á því eru undantekningar.

Þegar maurarnir skera laufin nýta þeir tækifærið og drekka úr því safann. Þannig fá þeir ekki bara næringu, heldur geta þeir í leiðinni metið magn þeirra varnarefna sem tréð framleiðir og dælir í laufin. Ef þau eru of mikil, þá hætta maurarnir að skera laufin á viðkomandi tré og hlusta eftir framfótaköllum njósnamauranna. Maurarnir sitja gjarnan á laufpartinum sem skornir eru af. Það leiðir til þess að þegar laufin falla, þá getur einn maur fylgt hverjum laufbút. Þetta er vissulega fljótlegasta leiðin niður úr trénu. Aðrir maurar sýna meiri varúð og klöngrast niður stofninn á trénu með feng sinn á bakinu. Svo röltir öll hersingin af stað í búið með laufbitana.

 

Laufskurðarmaurar að störfum. Myndin er skjáskot úr þessu myndbandi.

Þegar laufskurðarmaurarnir eru á leiðinni heim eru þeir nokkuð áberandi þar sem þeir halda á stórum laufbitum og ganga í löngum röðum. Til eru sníkjuvespur sem leita þá uppi og vilja verpa eggjum í þá. Á meðan maurarnir halda á laufunum eru þeir varnarlausir gegn slíkum árásum. Þá koma til sögunnar enn minni maurar. Þeir bíða eftir að laufklippararnir haldi heim á leið. Þá hoppa þeir upp á laufin og hreinsa þau af öllu sem kann að vera á þeim og ekki á heima í búinu. Myndin hér að ofan sýnir einmitt slíkan maur sem fær far á laufblaði. Ef vespurnar koma, þá ráðast þeir á þær og reyna að hrekja í burtu. Það virðist vera þeirra helsta hlutverk.

 

Maurar með nýskorin lauf. Myndin er skjáskot úr þessu myndbandi.

Hver maur tekur ekki mikið í einu af sama trénu, en þar sem fjöldi maura skiptir milljónum í hverju búi þá klippa þeir heil ókjör af laufi. Sumir telja að enginn annar hópur dýra í skóginum fjarlægi jafn mikið af laufum trjáa og þessir maurar.

Heimkoman

Þessi maurategund býr í ótrúlega stórum neðanjarðarbúum sem eru full af allskyns göngum og klefum. Í þessum neðanjarðarborgum búa 5 til 10 milljón maurar. Það er svipaður fjöldi og fjöldi fólks sem býr í sumum af stórborgum Evrópu.

Maurarnir arka inn í búin með laufin en þeim dettur ekki í hug að éta þau. Til þess eru þau of dýrmæt. Þeir fara djúpt niður í búin þar sem minnstu maurar búsins eiga heima. Þeir taka við laufunum og mauka þau með munnlimum sínum. Síðan koma þeir þeim fyrir í litlum hólfum til að fóðra húsdýrin sín. Þessi húsdýr eru reyndar ekki dýr, heldur sérstök tegund af sveppum. Í hverju hólfi er sveppur sem lifir á þessu blaðmauki. Þessi tegund sveppa lifir hvergi nema í þessum búum og það eru þeir sem eru meginfæða ungviðisins í búinu.

 

Ef drottning yfirgefur búið til að stofna nýtt bú tekur hún með sér svepp og geymir hann á bakinu. Án hans verður ekkert bú. Myndin er skjáskot úr þessu myndbandi.

Akuryrkja manna og maura

Allar tegundir laufskurðarmaura stunda landbúnað þar sem sveppir eru ræktaðir. Um 50 tegundir af þessum rúmlega 250 tegundum sem til eru af laufskurðarmaurum stunda svipaðan landbúnað og Atta sexdens. Hver þeirra ræktar sérstaka sveppategund sem hvergi finnst villt í heiminum, heldur aðeins í ræktun maura. Hinar 200 tegundirnar stunda ekki eins sérhæfða svepparækt. Þær rækta gjarnan sveppi sem má enn finna villta í náttúrunni og sumar tegundir geta skipt um sveppategundir ef þörf er á.

Samband mauranna og sveppsins sem þeir rækta er svipað og samband mannsins og sumra plantna sem hann ræktar. Þær geta ekki lifað af án okkar en við ræktum þær til átu. Sama á við um maurana og sveppina. Sveppirnir gegna sama hlutverki og plönturnar og geta ekki án mauranna verið. Maurarnir geta heldur ekki án sveppanna verið, því ungviðið étur þá í hvert mál. Fullorðnir maurar éta þá líka en þeir geta einnig numið aðra fæðu.

 

Niðurklippt lauf eftir maura og maurar út um allt. Myndin er skjáskot úr þessu myndbandi.

Í mannheimum höfum við gefið sumum tegundum nöfn til að minna á að þær finnast hvergi villtar, heldur aðeins í ræktun. Þá er alltaf miðað við ræktun manna en hvorki maura né annarra dýra. Þannig heita mergertur eða garðertur, sem oft eru kallaðar grænar baunir á íslensku, Pisum sativum á fræðimálinu. Sativa merkir einmitt að tegundin er ræktuð, en satus merkir gróðursettur (Sigurður 2014). Sama á við um ýmsar aðrar tegundir svo sem hvítlauk, Allium sativum, refasmára, Medicago sativa og hrísgrjón, Oryza sativa. Allar þessar tegundir, og margar aðrar, eru hvergi til villtar í náttúrunni þótt þær eigi sér villta forfeður og -mæður. Ræktun þeirra í margar kynslóðir hefur gert það að verkum að þær teljast nú til sérstakra tegunda. Sama á við um sveppinn sem Atta sexdens rækar í maurabúunum sínum.

 

Mynd af garðyrkjumaurum að rækta sveppi. Myndin er skjáskot úr þessu myndbandi.

Þótt fræðiheiti sveppsins sé ekki af sama ranni og fræðiheitin hér að ofan, þá bendir heitið engu að síður til þess að hann sé aðeins til ræktaður. Og þá aðeins af maurum. Hann ber nafnið Leucoagaricus gongylophorus en hét áður Leucocoprinus gongylophorus og það heiti má enn finna í sumum heimildum. Auðvitað var það sveppafræðingurinn í stjórn Skógræktarfélgas Eyfirðinga, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sem benti okkur á þetta þegar hún las pistilinn yfir fyrir birtingu.

Þetta viðurnafn, gongylophorus, á sér samsvörun í orðinu gongylidium sem í fleirtölu er gongylidia. Það er notað á kúlulaga fyrirbæri sem vaxa upp af sveppunum. Það eru þessar kúlur sem nýttar eru til að fóðra lirfur mauranna og einnig sjálfa maurana í búinu. Þetta fyrirbæri þekkist ekki hjá neinum sveppum sem vaxa villtir í náttúrunni. Þetta finnst aðeins hjá sveppum sem maurar af ættkvíslinni Atta rækta í búum sínum.

Tvær myndir af vef Wikipediu sem sýna gongylidia (merkt g á ljósmynd) sem vex á fyrirbæri sem kallast staphylae (merkt s á ljósmynd). Myndirnar eiga Henrik H. De Fine Licht, Jacobus J. Boomsma og Anders Tunlid.

Litlu vinnumaurarnir sem búa til gumsið eru einnig sérstakir garðyrkjumaurar. Þeir sjá um að sveppir séu í hverju hólfi og ef eitthvað er í þeim sem ekki á að vera er það fjarlægt eins og hvert annað illgresi. Þeir fara líka út úr búinu með dauða maura og annað sem ekki á heima í því, eða setja ruslið í sérstök ruslahólf í búinu. Það kann tré vikunnar vel að meta eins og við komum að hér á eftir.

Talið er að þetta sambýli sveppa og maura hafi orðið til fyrir um 60 milljónum ára. Þar með má halda því fram, með góðum vilja, að maurar séu fyrstu lífverurnar á jörðinni sem stunduðu landbúnað og akuryrkju. Ljóst er að þessi tegund landbúnaðar hefur breyst og þróast mikið á 60 milljón árum. Það er til dæmis alveg óvíst hvaða lauf maurarnir nýttu til að byrja með eða hvaða sveppi.

 

Drottning og vinnumaurar. Stærðarmunurinn er mjög mikill eins og sjá má ef þið finnið vinnumaurana. Myndin er skjáskot úr þessu myndbandi.

Önnur fæða

Það er rétt að taka það fram að fullorðnu maurarnir velja ekki eingöngu laufblöð Protium heptaphyllum í matinn en þau henta sveppunum best. Maurarnir velja þau lauf sem eru ferskust og með minnst af varnarefnum hverju sinni. Helst af öllu velja þeir lauf af tré vikunnar en fúlsa ekki við öðrum gómsætum bitum fyrir sveppina sína. Í sumum tilfellum hafa Atta-maurar lagst á uppskeru mennskra bænda. Einkum eru það ósérhæfðar tegundir sem gera það. Þegar maurarnir eru svo heppnir að finna heppilegt tré með ferskum laufum koma þeir í stríðum straumum til að klippa af þeim laufbúta. Tréð kann ekkert sérstaklega vel að meta það og fer að framleiða meira af sínum vellyktandi varnarefnum. Fullorðnu maurarnir drekka smávegis af safanum sem lekur úr sárunum. Það er þeirra helsta fæða. Í leiðinni geta þeir fundið á bragðinu, að því að talið er, hvort of mikið sé komið af varnarefnum í tréð. Varnarefnin geta nefnilega skaðað hina dýrmætu sveppi í búinu þótt þau skaði ekki fullorðnu maurana.

Það er merkilegt til þess að hugsa að tré, sem framleiðir vellyktandi varnarefni gegn sveppum, skuli vera meginfæða sveppanna sem þessir maurar rækta. Náttúruvalið getur stundum dregið þróunina út á snúnar brautir. Efnasamsetning laufanna virðist henta þessum tilteknu sveppum sérstaklega vel þar til þau fyllast af varnarefnum. Þá eru þau sveppunum hættuleg. Þetta þurfa maurarnir að geta skynjað og metið til að maurabúin virki.

Þegar því stigi er náð hætta allir maurarnir að klippa þessi lauf og fara að hlusta og þefa eftir skilaboðum frá njósnamaurunum. Á meðan getur tréð jafnað sig og smám saman dregur það úr framleiðslu varnarefna og hringrásin hefst að nýju.

 

Menjar um heimsókn laufskurðarmaura. Myndin er skjáskot úr þessu myndbandi.

Dreifing fræja

Þótt maurarnir séu fyrst og fremst frægir fyrir að klippa lauf eiga þeir það til að koma með blóm og fleira í búið. Meðal annars fara þeir stundum með aldinin af Protium heptaphyllum heim til sín. Litlu garðyrkjumaurarnir búa til mauk úr þeim og fóðra sveppina. Gerjunin, sem þá á sér stað, virðist hafa svipuð áhrif á fræin eins og þegar fræ fara í gegnum meltingarkerfi dýra. Sveppirnir ráða ekki við að melta fræin. Þess í stað fara garðyrkjumaurarnir með þau út úr sveppaklefunum og henda á haugana. Þeir eru mjög frjóir og því má oft sjá mörg tré af þessari tegund á öskuhaugum laufskurðarmauranna. Hér er sagt frá rannsókn þar sem fram kemur að um 20% af fræjum almécega sem spíra í skógarbotninum hafi verið flutt með maurategundinni Atta sexdens og að meðaltali hafi maurarnir farið með fræin í 3,4 metra fjarlægð frá móðurtrénu. Þannig að þótt trén tapi töluverðu laufi í mauranna, þá nýta þau sér þjónustu þeirra við að dreifa fræjum sínum.

 

Á þessari mynd sést stærðarmunur mauranna vel. Þeir tilheyra engu að síður sömu tegund en gegna mismunandi hlutverki. Drottningin er enn stærri. Myndin er skjáskot úr þessu myndbandi.

Samantekt

Tré vikunnar er Protium heptaphyllum. Tréð er mikilvæg fæða laufskurðarmaura sem nota laufin til að rækta sveppi. Sveppirnir eru fæða fyrir maurana og eina fæðan sem ungviðið étur. Talið er að þessi ræktun hafi hafist fyrir um 60 milljónum ára. Það gerir svepparækt að elsta landbúnaði sögunar. Við viljum geta þess að til eru fleiri tegundir skordýra sem rækta sveppi. Þannig eru til barkarbjöllur og ambrósíubjöllur sem lifa í trjáberki og ala sínar litlu lirfur á sveppum sem teknir eru með að heiman. Þessum sveppum er sáð eða klínt í göngin sem bjöllurnar mynda í trénu. Það er vel þekkt að svona bjöllur geta skaðað bæði trén og viðinn sem þau mynda. Hluti af þessum skaða getur verið að sveppirnir leggjast á sömu sveif. Ræktun mauranna er samt miklu þróaðri en ræktun bjallanna. Til eru fleiri dæmi um svipaða ræktun en of langt mál yrði að telja það allt saman upp, enda er það utan við efni pistilsins.

Þakkir fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrir vandaðan yfirlestur og ábendingar sem að gagni komu.

 

Heimildir

Þessi pistill er fyrst og fremst byggður á hlaðvarpsþætti úr þáttaröðinni Completely Arbortrary fá 11. júlí 2024. Við skoðuðum aðrar heimildir til að fá nánari upplýsingar og staðfestingu á því sem fram kemur í þættinum.

Casey Clapp & Alex Crowson (2024): Ants and Fungiculture (Almécega). Hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni: Completely Arbortrary frá 11. júlí 2024. Sjá: ANTS AND FUNGICULTURE (ALMÉCEGA) — Completely Arbortrary. Sótt 20. júlí 2004.

Aðrar heimildir og frekari upplýsingar

Árnastofnun (2024): Íðorðabankinn. Sjá: https://idordabanki.arnastofnun.is/. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Árnagarði við Suðurgötu, 101 Reykjavík.

GBIF - the Global Biodiversity Information Facility (2024). Opin myndasíða sem geymir myndir af líffjölbreytni heimsins og er öllum aðgengileg. Sjá: Occurrence search (gbif.org). Sótt 22. júlí 2024.
 

Gabriel Damasco, Christopher Baraloto, Alverto Vicentini, Douglas C. Daly, Bruce G. Baldwin & Paul V. A. Fine (2021): Revisiting the hyperdominance of Neotropical tree species under a taxonomic, functional and evolutionary perspective. Úr Scientific Reports 5. maí 2021, Article number: 9585 . Sjá:

PBS Eons (2022): When Ants Domesticated Fungi. Sjá: When Ants Domesticated Fungi (youtube.com). Sótt 8. ágúst 2024.

SciELO (2007) Harvesting of Protium heptaphyllum (Aubl.) March. seeds (Burseraceae) by the leaf-cutting ant Atta sexdens L. promotes seed aggregation and seedling mortality. Sjá: https://doi.org/10.1590/S0100-84042007000300019 Sótt 9. ágúst 2024.

Sigurður Arnarson 2014; Belgjurtabókin. Tré, runnar og blómjurtir af ertublómaætt. Sumarhúsið og garðurinn, Selfossi.

Paulo D. Silva, Inara R. Leal, Rainer Wirth & Marcelo Tabarelli (2007): Harvesting of Protium heptaphyllum (Aubl.) March. seeds (Burseraceae) by the leaf-cutting ant Atta sexdens L. promotes seed aggregation and seedling mortality. Úr Brazilian Journal of Botany, 30 (3), sept. 2007. Sjá: https://www.scielo.br/j/rbb/a/b8sf4fvcS9N45YNrnNrGpqc/?lang=en Sótt 23. júlí 2024.

WFO, The World Flora Online (2024): Protium heptaphyllum Marchand. Sjá: Protium heptaphyllum Marchand (worldfloraonline.org) Sótt: 23. júlí 2024.

 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir yfirleitt hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum, en pistill dagsins er birtur í heild.

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00