Fara í efni
Pistlar

Maðurinn í vatninu og vatnið í manninum

DREKADAGBÓKIN - 3

Svartur sandur allt um kring. Hryggir og litlar keilur standa upp úr auðninni og nema við sjóndeildarhringinn hér og þar. Tveir góðkunningjar teygja glæsta tinda sína til himins sín hvoru megin; Snæfell í austri og Herðubreið í norðri. Kóngurinn og Drottningin, eins og sum kalla þau. Mannaferðir á þessum slóðum voru ekki einu sinni hugmynd í tóminu þegar þau kynntust fyrst. 

Við vorum á ferð eftir lokun í skálanum í Drekagili, sennilega var klukkan um það bil tíu að kvöldi til, en eins og ég sagði í Drekadagbók 1, er tímasetning bara tillaga á fjöllum. Eitthvað viðmið og haldreipi mannheima. Við ætluðum að skoða Svartá, en hún er lindá sem rennur undan hrauninu í nágrenni Öskju. Það kemur dæld í sandbreiðuna, sem er ekki sjáanleg fyrr en maður kemur alveg að henni. Þangað til, er eins og heilt fljót hafi orðið til úr engu, þar sem hægt er að sjá Svartá renna í tærum, líflegum bylgjum sem leið liggur til sameiningar við stórfljótið Jöklu, Jökulsá á Fjöllum. 

Ég fann fyrir spenningi. Eins og það væri einhver ólga innra með mér. Ég hef hitt litlar uppsprettur í fjallgöngum, þar sem örlítil buna af tæru vatni rennur út úr klettasprungu eins og gjöf. Ég vissi að ég myndi sjá stærri uppsprettu núna. Öðruvísi.

Þegar ég kom loksins að dældinni í sandinum, þar sem uppsprettan er, er erfitt að útskýra með orðum hver tilfinningin var. Tært og glitrandi ferskvatn hafði sameinast í völundarheimum hraunsins, undir sandbreiðunni, og fundið sér leið til samfundar á yfirborðinu. Uppsprettan birtist mér sem dularfullir, hringlaga pollar, þar sem loftbólur stigu upp með vatninu. Engin læti, ekkert offors. Hægt og örugglega safnaðist vatnið saman úr mörgum svona uppsprettum og á ótrúlega skömmu ferðalagi á yfirborðinu var orðið til fljót. Breið og falleg lindá sem hafði skrýtt svartan sandinn grænum, glaðlegum mosa. Fullkomin andstæða auðnarinnar - líf og litir.

 

Ferskvatn seytlar undan klettum og upp úr sandinum. Mynd RH

 

Við höfðum keyrt yfir sandbreiðuna á leiðinni að ánni, og þá hafði ég með engu móti áttað mig á því að það væri heill heimur undir mér. Risastórt ættarmót straumanna sem smjúga um hraunbreiðuna, hver með sína sögu, sitt upphaf og sinn áfangastað. Svartá rennur aðeins á yfirborðinu í skamma stund, um stutta vegalengd. Svo stekkur hún fram af berghellunni í fossinum Skínanda, rétt áður en hún blandast gruggugu jökulvatni Jökulsár á Fjöllum.

Það fylgja því djúpar tilfinningar að sjá uppsprettu vatns, eitthvað sem helst væri hægt að lýsa sem undrun, tærri hamingju sem fylgir því að finna eitthvað verðmætt. Ekki verðmætt í þeim skilningi að það sé eitthvað á því að græða fyrir okkur mennina, verðmætt í þeim skilningi að í því felst lærdómur. Virðing fyrir lífinu og upprunanum.

 

Upptök Svartár. Mitt í auðninni. Myndir RH

Það fylgja því annarsskonar tilfinningar, að horfa á tvö vatnsföll sameinast og flétta strauma sína saman. Svolítið eins og að samgleðjast gömlum vinum. Hvergi er það áþreifanlegra heldur en þar sem lindá og jökulá mætast. Þar er bókstaflega hægt að sjá flétturnar, þar sem tvennt ólíkt verður að einu. Vatnasvið Jökulsár á Fjöllum er það stærsta á Íslandi. Einstakt svæði þar sem staðir á borð við þennan sem ég lýsi hér eru óteljandi. Vatn, lífgjafi jarðarinnar, leikur hér við hvern sinn fingur þar sem það geysist frá jöklum til sjávar. 

Vatnið bráðnar, úr föstu formi, í lónum skriðjöklanna. Það laumast undan hraunbreiðum virkra eldstöðva norðausturhálendisins. Það er brúnt, glært, grátt, hvítt, blátt, grænt og allt þar á milli. Stundum læðist það, stundum geysist það fram með miklu meiri krafti en við getum nokkurntíman skilið. Það fellur fram af hamraborgum. Það brýtur berg og slípar. Það finnur sér leið. 

Jöklu stendur ekki ógn af mannveru eins og mér. Sem stendur við bakka hennar og má vart mæla fyrir virðingu. En henni stendur ógn af sumum mannverum. Þeim sem horfa á hana og klæjar í lófana. Sjá ekki kraftaverk og hlekk í hringrás náttúrunnar, heldur tapaða orkuvinnslu. Tapaðan gróða. Ég hef heyrt menn tala um að með hverri mínútunni sem fljót á borð við Jökulsá á Fjöllum fær að renna óbeisluð til sjávar, séum við að missa af einhverju. Orku sem við hefðum getað beislað í straumi hennar og selt fyrir peninga.

Enn hefur hún verið vernduð fyrir svona mannverum.

Systir hennar fyrir austan var ekki jafn heppin.

 

Ég gekk upp með bakka Jöklu, í suðurátt. Þá sá ég fleiri staði, þar sem glitrandi ferskvatn birtist undan berghellunni og ég horfði yfir svolítið stöðuvatn sem hafði myndast upp við bergið. Þar sem það beið þess að renna af stað, af mikilli þolinmæði, enda var yfirborðið rennislétt. Í kvöldmistrinu speglaðist greinilegur vangasvipur í vatninu sem heilsaði og minnti á sig. Maðurinn í vatninu og vatnið í manninum. Eitt og hið sama.

Maðurinn í vatninu og vatnið í manninum. Mynd RH

_ _ _

  • Í Drekadagbókinni eru hugleiðingar, frásagnir og myndefni frá dvöl höfundar í Drekagili við Öskju, þar sem hún sinnti skálavörslu sumarið 2024 fyrir Ferðafélag Akureyrar. Höfundur er listakona, skáld, náttúruverndarsinni og blaðamaður Akureyri.net.

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Lýðræði á tímum gervigreindar

Magnús Smári Smárason skrifar
30. október 2024 | kl. 11:45

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Hús dagsins: Aðalstræti 22

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. október 2024 | kl. 06:00

Innskotsborð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. október 2024 | kl. 11:30