Snípur í skógi

TRÉ VIKUNNAR - 109
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _
Skógar á Íslandi eru af mörgum stærðum og gerðum og lífríki þeirra er fjölbreytt. Mismunandi skógar fóstra mismunandi líf og þar með mismunandi fugla. Meðal þeirra fugla sem finna má í íslenskum skógum eru þrjár tegundir sem tilheyra svokölluðum snípum. Einn af þessum fuglum á sér nafnið mýrisnípa en hann er miklu betur þekktur undir nafninu hrossagaukur. Hann velur sér gjarnan skóga sem búsvæði og er alveg sérstaklega hrifinn af kjarrskógum og vel grisjuðum og opnum skógum þar sem finna má rjóður og mikla fjölbreytni. Hrossagaukur er einnig að finna utan skóga, til dæmis í mýrum, enda telst hann til vaðfugla. Hann er mjög algengur á láglendi um land allt en sjaldgæfur til fjalla. Í pistli dagsins fjöllum við um þennan skógarfugl og hvernig skóga hann kýs sér. Einnig fjöllum við um náskylda ættingja hans. Annar þeirra, dvergsnípan, er gjarnan vetrargestur á landinu en hinn, skógarsnípa, telst nú til íslenskra varpfugla. Þökk sé skógum landsins.

Útlit

Hnegg
Eins og önnur hross geta hrossagaukar hneggjað. Nafnið á honum er án efa dregið af þessu hljóði. Hann er jú kenndur við hross. Þetta ljúfa hnegg gleður marga á Íslandi og í huga margra skiptir miklu máli hvaðan fyrsta hnegg vorsins kemur, enda telst hrossagaukurinn vera spáfugl. Nánar um það í sérstökum kafla. Hvernig hrossagaukurinn hneggjar vafðist lengi vel fyrir fólki. Nú er talið víst að hljóðið sé framkallað með stélfjöðrunum. Í öllum tilfellum er það karlfuglinn sem hneggjar. Þegar hann gerir það hnitar hann hringi yfir óðali sínu. Hann flýgur fyrst nokkuð bratt upp og lætur sig svo falla í átt að jörðu í um 45° horni og sperrir þá ystu stélfjaðrirnar út. Á sama tíma er hann með svo stutt og hröð vængjatök að það er eins og vængirnir titri. Hin hröðu tök kljúfa loftstrauminn 11 sinnum á hverri sekúndu og loftstraumurinn, sem titringurinn myndar, leikur um stélfjaðrirnar sem þá mynda þetta hljóð. Það má segja að stélið sé hljóðfærið en á það spilar fuglinn með vængjunum (Guðmundur Páll 2005 og Hjálmar R. 1986). Í upphafi varptímans flýgur fuglinn um nokkuð stórt svæði og hringurinn getur verið allt að hálfur kílómetri í þvermál. Smám saman minnkar hringurinn yfir hreiðrinu. Eftir að varptíma lýkur hættir hrossagaukurinn alfarið þessu flugi. Stundum gerist það, einkum ef varp fyrirferst, að fuglarnir verpa aftur og þá hefur karlinn aftur þetta hringflug sitt með tilheyrandi hneggi.
Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn


Hús dagsins: Aðalstræti 66a; Smiðjan

Njóli

Uss í görðum

Skelfilegur er skorturinn
