Fara í efni
Pistlar

Júdasartré

TRÉ VIKUNNAR - 110

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Þegar Júdas Ískaríot hafði svikið mentor sinn, með frægasta kossi heimssögunnar, fékk hann vænan silfursjóð og alveg heiftarlegan móral. Hann hafnaði silfrinu, gekk út og hengdi sig. Í Nýja testamentinu er sagt frá þessu í Matteusarguðspjalli en þar kemur ekki fram um hvaða tré var að ræða. Það hindrar samt ekki þjóðsögurnar. Samkvæmt Wells (2010) hafa fíkjutré, aspir og elri verið meðal þeirra trjátegunda sem nefndar hafa verið til sögunnar. Sum þeirra eru ólíklegri en önnur, meðal annars vegna þess að þau vaxa ekki öll í Palestínu. Ein trjátegund er þó nefnd oftar en aðrar. Það er eins og sögur um það tré hafi öðlast fætur, ef ekki vængi þegar kemur að þessu hlutverki. Það heitir Cercis siliquastrum á fræðimálinu og hefur verið nefnt júdasartré á mörgum tungumálum.

 
Ungt, glæsilegt tré. Þetta tré stendur við Burford House í Englandi sem er langt utan náttúrulegra heimkynna tegundarinnar. Mynd: Owen Johnson en við fundum hana á þessari síðu.
Ungt, glæsilegt tré. Þetta tré stendur við Burford House í Englandi sem er langt utan náttúrulegra heimkynna tegundarinnar. Mynd: Owen Johnson en við fundum hana á þessari síðu.

Heimkynni

Júdasartré vex villt í þurru loftslagi við Miðjarðarhafið í Suður-Evrópu og í Asíu fyrir botni þess sama hafs og allt austur til Afganistan. Þar með vex það villt í Palestínu og í Ísrael og hefur eflaust vaxið á sömu slóðum þegar Júdas var á lífi. Því kemur það betur til greina í þetta sorglega hlutverk en sum þeirra trjáa sem nefnd eru í inngangskaflanum. Þegar Júdas var upp á sitt besta var landið nefnd Júdea. Á frönsku er tréð kennt við það forna land. Þar kallast tréð arbre de Judée. Vel má vera að þarna sé komin fram skýringin á nafninu sem tréð ber á flestum tungumálum. Það gæti vel verið að Júdea hafi orðið að Júdasi í máli manna og það hafi orðið grunnurinn að þjóðsögunni.

 
Á þessari mynd frá WFO má sjá útbreiðslusvæði tegundarinnar. Grænu svæðin tákna þau lönd þar sem tegundin vex villt en brúnu svæðin sýna lönd þar sem tegundin telst ílendur slæðingur. Það kemur ekki á óvart að svona glæsileg planta, sem að auki blómstrar mikið, skuli víða hafa verið plantað og þaðan sáð sér út. Utan brúnu svæðanna er það víða ræktað í görðum án þess að hafa numið land í náttúrunni.
 
Á þessari mynd frá WFO má sjá útbreiðslusvæði tegundarinnar. Grænu svæðin tákna þau lönd þar sem tegundin vex villt en brúnu svæðin sýna lönd þar sem tegundin telst ílendur slæðingur. Það kemur ekki á óvart að svona glæsileg planta, sem að auki blómstrar mikið, skuli víða hafa verið plantað og þaðan sáð sér út. Utan brúnu svæðanna er það víða ræktað í görðum án þess að hafa numið land í náttúrunni.

Júdasartré hefur verið ákaflega lengi í ræktun í heiminum. Það á bæði við um heimaslóðir og að auki hefur það lengi verið ræktað víða á svæðum allfjarri þeim. Má sem nefna að samkvæmt síðunni Trees and Shrubs Online hefur tegundin verið ræktuð í Englandi í meira en þrjú hundruð ár. Á kortinu hér að ofan má sjá að júdasartré hefur víða orðið ílendur slæðingur en það á ekki við í hinu svala loftslagi Englands.

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Saumaherbergi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
21. apríl 2025 | kl. 11:30

Lútur á grænni flösku

Jóhann Árelíuz skrifar
20. apríl 2025 | kl. 06:00

Hrossafóður í morgunmat

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
19. apríl 2025 | kl. 06:00

Þjálfarinn tæklaður upp í stalla

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. apríl 2025 | kl. 10:00

Snípur í skógi

Sigurður Arnarson skrifar
16. apríl 2025 | kl. 08:45

Hús dagsins: Aðalstræti 66a; Smiðjan

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. apríl 2025 | kl. 20:00