Sérfræðingar með sérþarfir
TRÉ VIKUNNAR XXVII
Tré eru sérfræðingar. Hver tegund býr yfir sérþekkingu og sérþörfum sem eru aðrar en hjá næstu tegund. Á þessari sérfræðiþekkingu er samkeppni þeirra um ljós, vatn, næringu og annað sem trén þurfa grundvölluð. Ef til væri sérstakt himnaríki fyrir trjátegundir má gera ráð fyrir að þar sé hæfilegur raki, fullt af aðgengilegum næringarefnum, hlýtt og bjart en þó ekki um of, fullt af sambýlisörverum sem hjálpa til en lítið um sveppi sem leggjast á lifandi vefi og enn minna um plöntuétandi afræningja. Svona staðir eru vandfundnir í henni veröld.
Birki getur þrifist þótt skilyrðin séu ekki til fyrirmyndar. Þarna vex það í klettaeyju í Jökulsá á Dal en sauðfjárbeit kemur í veg fyrir að það vaxi beggja vegna árinnar. Þar gæti það þó náð mun meiri þroska af það fengi að vaxa. Mynd: Sig.A.
Ýmiss tré geta vaxið við mjög sérhæfð og í sumum tilfellum ákaflega erfið skilyrði. Þau lifa ekki af nema skilyrðin henti þeim betur en öðrum trjám sem annars gætu vaxið á sama stað. Þannig kemur sérfræðikunnáttan fram.
Landnám
Tré hafa lítið um það að segja hvar fræ þeirra lenda. Þau treysta gjarnan annað hvort á vind eða dýr til að dreifa fræjunum. Um það hefur áður verið fjallað, t.d. í þessum pistli.
Fræin geta flækst heilmikið um, bæði í tíma og rúmi. En þegar það loks spírar á nýjum stað má segja að teningunum sé kastað. Eftir það getur það truðla fært sig úr stað, nema ef við teljum rótarskot og sveiggræðslu til ferðalaga. Svo má vel vera að spendýrategundin sem telur sig viti borna geti flutt trén, en það er önnur saga. Eftir að fræið spírar, eða trjáplöntu er plantað verður ekki aftur snúið. Tréð verður að gera sitt besta til að lifa við þær aðstæður sem því er skaffað af duttlungum náttúrunnar. Fyrir ung tré getur þetta verið heilmikil áskorun. Það er öldungis óvíst að staðsetningin henti þörfum trjánna. Þá reynir á sérfræðiþekkinguna. Þegar þau vaxa upp er eins og þau hafi sameinast um slagorðið: „Rétt tré á réttum stað“.
Þetta birki vex upp úr malbiki. Það er samt ekki heppilegasti vaxtarstaðurinn en sýnir vel hvað birki getur vaxið við slæm skilyrði. Þarna tókst bleksveppnum ullserk, Coprinus comatus, að sprengja sig upp í gegnum malbikið og það dugði birkinu. Mynd: Sig.A.
Þessi víðir lifir og vex. Þetta er samt ekki heppilegasti staðurinn til vaxtar. Veggir þessa eyðibýlis voru einangraðir með torfi og það dugar víðinum. Mynd: Sig.A.
Áður en við segjum skilið við fræin má nefna sérfræðiþekkingu stafafurunnar, Pinus contorta. Hér á landi eru ræktuð strandkvæmi hennar og innlandskvæmi. Útlitsmunur þeirra er töluverður þegar vel er að gáð og kvæmin hafa þróast til að nýta sér mismunandi aðstæður. Skógareldar eru miklu algengari í meginlandsloftslagi en í röku strandloftslagi. Þetta hefur orðið til þess að innlandskvæmin dreifa fræjum sínum helst í kjölfar skógarelda. Þá eru bestu tækifærin til að fræin geti orðið að trjám. Þess vegna opnast könglarnir ekki nema við mikinn hita. Skógareldarnir opna þá! Ef við viljum ná fræi úr meginlandskvæmum stafafurunnar er einfaldast að setja þá í bakaraofn. Strandkvæmin haga sér ekki svona en opna köngla sína án þess að mikinn hita þurfi til enda skógareldar fátíðir í rakanum.
Stafafuran þarf ekki mikið og getur verið ljómandi góð landgræðsluplanta. Ef vel er að gáð má sjá margar, sjálfsánar furur á myndinni Þarna hefur ekki þurft skógarelda til að opna könglana. Mynd: Sig.A.
Þarfir trjáa
Hvert tré þarf hæfilegt magn af birtu, hæfilegan raka, skjól við hæfi, heppileg næringarefni, hita við hæfi og svo mætti lengi telja. Þarfir og kröfur tegunda geta verið mismunandi. Ekki nóg með það. Þarfir mismunandi kvæma innan tegunda geta einnig verið mismunandi. Mismunandi eiginleikar kvæma og tegunda ráðast af þeim umhverfisþáttum sem þau hafa þróast við. Verður nú lítillega fjallað um suma þessara þátta og sérfræðingar skilgreindir í hverjum flokki.
Stafafurur eru sérfræðingar í að vaxa við ótrúlega erfið skilyrði. Þessi vex út úr berginu við þjóðveginn skammt frá göngunum í gegnum Vaðlaheiði. Mynd: Sig.A.
Steinar veita gott skjól sem plöntur geta nýtt sér. Að auki geta steinar gefið fólki skjól sem þarf að hlýða kalli náttúrunnar. Það getur líka hjálpað gróðrinum. Mynd: Þráinn Gíslason.
Birta
Mjög er misjafnt hvaða kröfur tré gera til birtu. Sum eru ljóselsk, önnur skuggþolin. Svo eru sum sem geta verið skuggþolin framan af ævinni, eins og t.d. reynir, en þurfa meiri birtu með auknum aldri.
Fullt af reynitrjám í skuggsælum greniskógi. Með auknum aldri eykst birtuþörf þeirra. Mynd: Sig.A.
Almennt má segja að svokölluð frumbýlistré, svo sem birki, Betula spp., elri, Alnus spp. og víðir, Salix spp. séu ljóselskar tegundir. Þær vaxa gjarnan fremur hratt í æsku. Aðrar tegundir þurfa minni birtu en þiggja skjólið sem frumbýlistrén veita. Má þar nefna þin, Abies spp. og þallir, Tsuga spp. Skuggþolnu síðframvindutrén vaxa oft hægar en frumbýlingarnir, enda liggur þeim ekkert á. Þeirra tími mun koma.
Ung fjallaþöll, Tsuga mertensiana, við Balmoral kastala í Skotlandi. Þallir geta orðið mjög stór tré en vaxa fremur hægt, enda liggur þeim ekki á. Þær eru sérfræðingar í ljósleysi en vilja gott skjól. Þallir þekkjast meðal annars á toppvextinum. Mynd: Sig.A.
Sumir segja að ungum beykitrjám sé beinlínis fremur illa við mikla sól, enda hafa þau þróast í dimmum laufskógum. Sjálf kasta fullorðin beykitré miklum skugga. Þau hleypa mjög litlu ljósmagni í gegnum krónuna og til jarðar. Það hentar afkvæmum þeirra vel. Að auki er í beykiskógum feikigott skjól fyrir öllum vindum. Þetta eru kjöraðstæður fyrir ungar beykiplöntur en einnig fyrir ývið. Því má gjarnan finna stöku ýviðartré í beykiskógum. Við þessar aðstæður getur það tekið heila öld fyrir ýviðinn að ná um tíu metra hæð. Það gerir ekkert til. Ýviðurinn er ekkert að flýta sér. Margt getur hent tré í uppvexti sem vaxa svona hægt. Ef til vill kemur hjartardýr og étur af því eins og einn áratug af greinum. Eða eitt beykitréð fellur og kremur ýviðinn undir sér. Við þessu hefur tegundin brugðist með því að leggja óvenju hátt hlutfall kolefnisbindingar sinnar í ræturnar. Ef eitthvert áfall hendir tréð búa ræturnar yfir varaforða sem nýtist trénu ljómandi vel til að bæta fyrir skaðann.
Fallinn Ýviður í skóglendi við bæinn Dalkeith í Skotlandi. Hann gefst ekki upp. Sumar greinarnar ákváðu einfaldlega að gerast stofnar. Hvernig ætli þetta tré líti út eftir fimm hundruð ár? Mynd: Sig.A.
Af þessum sökum er ýviður æði oft margstofna í skógum Evrópu. Meginstofninn hefur mátt þola margt en tréð gefst ekki upp. Þar sem ýviðurinn getur orðið miklu, miklu eldri en beykið er nokkuð öruggt að það mun lifa flest beykitrén í skóginum. Þolinmæði er dyggð.
Myndir úr bókinni Elements of Ecology. Sú fyrri sýnir magn ljóss sem berst í gegnum skóga. Tré sem vaxa upp í þéttum skógi þurfa að komast af með lítið ljós. Seinni myndin sýnir dæmigerðan laufskóg og magn þeirrar ljósorku sem kemst niður í skóginn. Það er breytilegt eftir árstíðum og kemur þar bæði til laufmagn og sólarhæð. Rétthafi ©: Pearson Education, Inc.
Aðgengi að vatni
Rétt eins og hjá okkur mannfólkinu geta tré haft mismikinn áhuga á drykkju. Sum tré þrífast prýðilega í þurru landi og ræturnar beinlínis drukkna í of miklum raka. Önnur eru aldrei glaðari en í hálfgerðri bleytu en veslast upp í þurrki. Þau vilja aldrei láta renna af sér. Mjög fáar trjátegundir eru samt þannig úr garði gerðar að þær kjósi að standa í bleytu. Við slíkar aðstæður geta ræturnar beinlínis drukknað og þar með drepst tréð. Of mikil drykkja er engum holl.
Þessi mynd úr Krossanesborgum sýnir okkur að birkinu þykir gott að drekka en vill ekki vera blautt í fæturna. Það raðar sér meðfram mýrinni en þrífast ekki ef of blautt er. Þar sem þurrara er ber ekki mikið á birkinu. Mynd: Sig.A.
Í hinum stóra heimi eru þó ýmiss fenjatré þekkt. Slík tré hafa sérstakar loftrætur sem standa upp úr vatni og sjá til þess að trén drukkni ekki. Á því jarðsögutímabili sem kallast tertíer uxu slík tré á Íslandi. Þegar kólna tók dugði sérfræðingsþekking þeirra ekki til og þau dóu út. Þau gátu ekki aðlagast kaldari tíð. Hér er nánar sagt frá þeim.
Smellið hér til að lesa allan pistilinn.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.