Bjóðum þjófa og slordóna velkomna

„Manstu hvað lífið var einfalt og friðsælt í gamla daga þegar við seldum Bretum og nokkrum öðrum þjóðum fisk og áttum í góðu viðskiptasambandi við Sovétríkin, seldum þeim gaffalbita, rækjur og annað niðursoðið dót og keyptum Lödur og olíu í staðinn og við fluttum út gærur, lopa, skinn og jafnvel hross á fæti til Þýskalands? Svo var það hvalkjötið og feita lambakjötið. Einhvern veginn lifðum við á landsins gæðum og hingað komu nokkrir stóreygir ferðamenn sem villtust hér um en ekkert stresss, enginn asi. Svo fór allt til fjandans. Við flytjum ekki bara inn ferðamenn heldur vinnuafl til að þjónusta þá og þjófa til að stela af þeim!“ hvein í Aðalsteini vini mínum þennan sólbjarta morgun hins fyrsta sumardags.
Eitthvað höfðu fréttirnar og umræðan í samfélaginu farið öfugt ofan í hann og tilraunir mínar til að benda honum á að vonlaust væri að lifa í fortíðinni fóru út um þúfur. Ég sagði honum að gamlir skarfar eins og við værum liðin tíð; yngra fólkið ætti að stjórna því hvernig samfélag nútímans og framtíðar ætti að líta út, hvernig þjóðin væri samsett, hvaða tungumál við töluðum og almennt hvaða leikreglur giltu. Ljúfar stundum frá sjöunda og fram á níunda áratug síðustu aldar kæmu ekki aftur.
„Jæja, eigum við bara að bjóða alls kyns þjófa og slordóna velkomna með sitt hrognamál þangað til síðasti heiðvirði og íslenskumælandi maðurinn deyr út?“ hváði þá Aðalsteinn og ekki að ástæðulausu að hann tók sér eftirnafnið Öfgar. „Ferðaþjónusta er vitaskuld ágætis búbót en stjórnvöld þurfa að setja harðari reglur og ramma. Þetta er að verða yfirgengilegt vandamál hér og víða annars staðar, offjölgun ferðamanna, átroðningur, græðgisvæðing, húsnæðisbólan; ungt heimafólk á ekki séns lengur.“
Og Alli færðist bara í aukana. „Þú hlýtur á sjá hvað þetta er vitlaust, Stefán. Tvær milljónir ferðamanna. Óteljandi erlendir farandverkamenn og kostgangarar til að vinna á hótelum og veitingastöðum, þjóna og þrífa. Hótelin sum bara erlendar keðjur. Aðföng að stórum hluta erlend. Rútufyrirtækin og leigubílstjórarnir erlendis frá. Þetta er alls herjar hrærigrautur á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi. Það er misjafn sauður í mörgu fé og þess vegna þarf líka að flytja inn vændiskonur og fíkniefni til að geta þjónustað ferðamenn. Hugsaðu þér, það er talað um offramboð á innfluttum vændiskonum á Íslandi! Og nú eru það vasaþjófarnir. Til að geta líkt eftir Róm og römblunni í Barcelona stöndum við fyrir stórfelldum innflutningi á vasaþjófum til að stela af ferðamönnum, eins og við séum ekki einfær um það hér með okri og íslenskri græðgi.“
Nú þurfti ég að hvíla eyrað sem var orðið rauðglóandi undan símanum. Eflaust er eitthvað til í þessu hjá honum en eftir stendur að það er misjafn sauður í mörgu fé. Íslendingar hafa verið fullfærir um að sýna betri og verri hliðar þjóðarinnar og þarf ekki útlendinga til en vissulega skekkir þessi mikli ferðamannafjöldi og þjónustan í greininni myndina mikið og þá er stutt í upphrópanir. Ég veit reyndar ekki hvaða „við“ erum að flytja inn vasaþjófa, eins og Alli orðaði það en kannski gætu þeir hinir sömu flutt inn lögreglulið eða slatta af viljugum mótorhjólatöffurum til að herja á vasaþjófana og sýna þeim hvar Davíð keypti ölið.
Annars vonum við bara að þetta leiti allt jafnvægis og óskum landsmönnum og ferðamönnum gleðilegs sumars.
Stefán Þór Sæmundsson er Akureyringur og fæst við kennslu og skriftir


Amma Kristín

Júdasartré

Saumaherbergi

Lútur á grænni flösku
