Fara í efni
Pistlar

Rósareynir

TRÉ VIKUNNAR - LXXXII

Innan reyniættkvíslarinnar, Sorbus, eru fjölmargar tegundir. Sumar þeirra vaxa villtar innan um önnur tré hér og þar á stórum, samfelldum svæðum. Aðrar eru mjög sjaldgæfar og finnast aðeins á afmörkuðum svæðum. Sumar þessara tegunda eru meira að segja svokallaðar örtegundir eða microspecies. Þær eru að jafnaði einlendar og lifa villtar aðeins á einum eða örfáum stöðum. Sumar þeirra eru stórglæsilegar og þrífast vel á Íslandi. Ein þeirra er tegund vikunnar. Hún heitir rósareynir eða Sorbus rosea McAll. Skammstöfun á eftir fræðiheitinu segir okkur að grasafræðingurinn Hugh McAllister gaf tegundinni fræðinafnið. Hann gaf út bók um reynitegundir með fjöðruð blöð árið 2005 þar sem þessari tegund er lýst í fyrsta skipti. Þessi bók er okkar helsta heimild við gerð þessa pistils.

 

Blóm rósareynis í Lystigarðinum á Akureyri þann 26. maí 2024. Mynd: Sig.A.

Kynæxlun og kynlaus æxlun reynitrjáa 
 

Íslenski reynirinn, reyniviðurinn eða ilmreynirinn, Sorbus aucuparia, fjölgar sér með hefðbundinni kynæxlun. Þið þekkið þetta ferli sem kennt er við býfluguna og blómið. Þetta merkir að í hvert skipti sem reynifræ myndast verður einhver uppstokkun erfðaefnis. Afkvæmin geta verið býsna ólík innbyrðis sem getur haft sína kosti – en einnig sína galla. Í náttúruvali Darwins hefur þetta ótvíræða kosti. Þetta leiðir til þess að hinir hæfustu lifa af og koma erfðaefni sínu til næstu kynslóða. Hin trén verða undir í samkeppninni og eiga erfiðara með að koma erfðaefninu áfram. Þau gætu jafnvel drepast án þess að mynda afkomendur. Þetta er grundvöllur þróunar.

Gallarnir geta verið þeir að þegar keyptur er reyniviður í garðyrkjustöð vitum við sáralítið um hvernig tréð kemur til með að líta út þegar það vex. Þess vegna er orðið nokkuð algengt að rækta frekar skrautreyni, Sorbus decora, sem er mjög líkur ilmreyninum en miklu einsleitari í ræktun.

 

Rósareynir að hefja vöxt í Lystigarðinum á Akureyri þann 14. maí 2024. Lauf og blómvísar birtast á sama tíma. Mynd: Sig.A.

Sumar tegundir blóma og trjáa hafa snúið baki við hefðbundinni kynæxlun og mynda fræ án undangenginnar frjóvgunar. Kallast það geldæxlun. Þeir sem vilja slá um sig með fræðiheitum geta kallað þetta apomictic æxlun. Þá á engin uppstokkun erfðaefnis sér stað, heldur hafa allir afkomendurnir sama erfðaefni og móðirin. Í garðyrkju getur þetta verið heilmikill kostur. Við vitum nákvæmlega hvernig plönturnar koma til með að líta út þegar þær stækka. Aftur á móti eiga slíkar plöntur ekki auðvelt með að takast á við breyttar umhverfisaðstæður. Allar plönturnar eru jafnhæfar – eða vanhæfar. Því verður ekki frekari þróun nema komi til stökkbreytinga. Þær eiga sér þó vissulega stað.

Tré vikunnar er einmitt eitt af þessum trjám sem stunda geldæxlun.

 

Vormynd af rósareyni í Hellisskógi við Selfoss. Nokkur eintök vaxa í skóginum og þau hafa öll nákvæmlega sama erfðaefnið. Myndin tekin þann 9. maí 2024. Mynd: Örn Óskarsson.

Örtegundir (microspecies) reynitrjáa
 

Hin hefðbundna skilgreining á tegund er hópur lífvera sem saman getur eignast frjó afkvæmi. Að vísu eru á þessu fjölmargar undantekningar, einkum í grasafræðinni. Svo eru það vandræðaplönturnar sem ekki stunda neina víxlfrjóvgun. Þær geta því ekki myndað frjó afkvæmi með öðrum trjám. Hvernig ber að flokka slíkar plöntur?

Grasafræðingar hafa flokkað slíkar plöntur sem örtegundir eða microspecies. Ef stökkbreyting verður í náttúrunni hjá einni örtegund þá myndast ný örtegund. Þessar tvær „tegundir“ geta þá verið miklu skyldari innbyrðis en til dæmis tvö venjuleg reynitré sem stunda víxlfrjóvgun.

 

Þrátt fyrir að rósareynir hafi lagt af kynæxlun mynda blómin fræfla og frævur, rétt eins og reynitegundir sem ástunda kynæxlun. Þekkt eru dæmi þess að blóm kasmírreynis hafi skemmst í snemmbúnum vorfrostum en myndað ber að hausti eins og ekkert sé, enda þjóna blómin ekki lengur þeim tilgangi að koma frjói frá fræflunum yfir á fræni frævunnar. Mynd: Sig.A.

Þannig myndar rósareynir sérstaka örtegund sem mjög líklega er afkomandi kasmírreynis, S. cashmiriana, sem myndar aðra örtegund. Um þá tegund höfum við áður fjallað. Ef þessar tegundir stunduðu hefðbundna kynæxlun er líklegt að rósareynir væri ekki flokkaður sem sérstök tegund, heldur tilbrigði. Það er breytileiki sem getur skotið upp kollinum á útbreiðslusvæðinu og kallast forma á fræðimálinu og er oftast skammstafað með bókstafnum f. Þá væri sjálfsagt skrifað Sorbus cashmiriana f. rosea. Þetta heiti er þó hvergi á skrá því þetta er örtegund en ekki tilbrigði við tegund.

Við verðum líka að geta þess að stundum koma upp stökkbreytingar í ræktun. Einhverra hluta vegna eru slík tré ekki flokkuð sem örtegundir, heldur sem yrki. Þess vegna er til Sorbus cashmeriana 'Pink Fruits' í Lystigarðinum. Auðvelt er að rugla rósareyni og yrkinu 'Pink Fruits' saman.

 

Kasmírreynir, Sorbus cashmiriana 'Pink Fruits' er mjög líkur rósareyni, en sjá má að ekkert rautt litarefni er í miðstreng laufblaðanna. Mynd: Sig.A.

Almenn lýsing 
 

Rósareynir líkist kasmírreyni en hefur meira af rauðu litarefni í allri plöntunni og örlítið minni ber. Tegundin verður ekki alveg jafn hávaxin. Líta má á tegundirnar sem systurtegundir, eða mæðgur, þar sem kasmírreynirinn er móðirin en rósareynir er dóttirin. Þar sem báðar reynitegundirnar stunda kynlausa æxlun teljast þær til örtegunda. Grasafræðingar virðast flestir vera sammála um þessa flokkun og telja mikilvægt að gefa tegundinni nafn. Þar spilar inn í að tegundin þykir það falleg að líklegt er að hún muni verða vinsæl í ræktun (McAllister 2005).

 

Haustlitir rósareynis í Lystigarðinum. Litirnir verða rauðari en hjá kasmírreyni en ekki jafn koparrauðir og hjá koparreyni. Mynd: Sig.A.

Rósareynir telst vera lágvaxið tré eða stór runni. Hann verður aðeins um þriggja metra hár og hefur frekar kúlulaga vaxtarlag.

Lýsingin á tegundinni er fengin frá McAllister (2005) sem er einhver helsti sérfræðingur heimsins í reynitrjám með fjöðruð laufblöð. Árið 2005 gaf hann út bók um slíkar tegundir og þar var í fyrsta skipti birt lýsing á tegundinni og henni gefið fræðiheiti. Þess vegna stendur McAll. á eftir nafni tegundarinnar í inngangskaflanum. Til er listi yfir plöntunöfn, höfundanöfn skammstafanir þeirra og hér er skráning Hugh McAllister.

 

Mynd úr bók McAllister (2005) af rósareyni. Hann teiknaði sjálfur myndina.

Brum og lauf
 

Bæði brum og greinar eru rauðari en á kasmírreyni. Brumin eru um 12 mm löng. Laufin geta orðið allt að 19 cm löng með allt að níu smáblöð á hverju blaði. Smáblöðin verða að jafnaði um 50 x 17 mm. Bæði lauf og smáblöð eru sjónarmun minni en á venjulegum kasmírreyni.

Laufblöðin hafa einnig meira af rauðu litarefni en það kemur ekki í ljós fyrr en á haustin þegar tegundirnar fara í haustliti. Þeir eru rauðari hjá rósareyni en gulari hjá kasmírreyni. Annars eru blöðin nánast alveg hárlaus og jafnvel enn grænni en hjá kasmírreyni samkvæmt McAllister (2005). Þar sem báðar tegundirnar hafa verið í ræktun í Sólskógum hefur sá sem þetta ritar ekki geta greint neinn litamun á grænum blöðum.

Laufin falla frekar snemma af trjánum á haustin, rétt eins og hjá kasmírreyni.

 
Blóm og ber
 

Fræðiheiti sitt hlýtur plantan vegna hins bleika litar á bæði berjum og blómum.

Blómin á rósareyni eru dekkri og bleikari en á móðurtegundinni, en báðar bera bleik blóm. Móðurtegundin ber fölbleik blóm sem stundum eru nánast alveg hvít.

Fyrri myndin sýnir blöð rósareynis en sú síðari blóm kasmírreynis. Tegundirnar eru líkar en mismunur er bæði á lit blóma og berja. Myndir: Sig.A.
Blóm og ber eru helsta aðdráttarafl þessarar tegundar. Berin eru ögn minni á rósareyni en sá munur er ekki mikill. Þau eru fyrst græn en við þroskun verða þau ljósbleik og svo dökkna þau smám saman yfir sumarið og fram á haustið. Um haustið eru berin orðin djúpbleik og dekkri á þeirri hlið sem snýr frá sólu. Það er mjög óvenjulegt. Hjá öðrum tegundum er algengara að það sé sólarljósið sem dregur fram þessa sterku liti. Berin eru kúlulaga og verða 11,5 mm í þvermál. Til samanburðar eru ber kasmírreynis um 15 x 13,5 mm.
 
 

Blóm á rósareyni sem stendur við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Rósareynir vex mjög vel og áfallalaust á Selfossi. Mynd og upplýsingar: Örn Óskarsson.

Fundur 
 

Árið 1983 fóru sænskir grasafræðingar í rannsóknarleiðangur til Norðvestur-Pakistans. Þann fjórða október söfnuðu þeir fræjum af tegund sem þeim sýndist vera einhvers konar kasmírreynir. Plantan óx við jeppaslóða í um 3800 metra hæð í austurhlíð fjallsins Nanga Parvat sem er nálægt Gilgit. Það er gaman að geta þessa ef svo ólíklega vill til að einhver lesandi þekki til helstu kennileita á þessum slóðum. McAllister (2005) setur í sinni bók fram lýsingu frá Svíunum af þeim skógum sem þarna vaxa. „Í skógunum réðu þrjár tegundir ríkjum. Þar uxu Abis spectabilis [þintegund], Pinus wallichiana [himalajafura] og Picea smitiana [grenitegund] . . . lítið eintak af Sorbous cashmiriana [kasmírreynir] . . . óx á þurrum, sólríkum klettum í um 3800 metra hæð yfir sjávarmáli. Þessi tiltekna planta var með berjum sem voru fallega bleik að lit og algerlega ómótstæðileg.“

Frá þessu eina tré er allur rósareynir í ræktun í Evrópu kominn. Þar sem tegundin er örtegund hafa öll trén nákvæmlega sama erfðaefnið. Því má líta á allan rósareyni sem sérstakt klón eða sérstakan klón, eftir því hvaða kyn fólk kýs á þetta tökuorð. Fyrst var hann ræktaður í grasagarðinum í Gautaborg og þaðan hefur hann dreifst um Evrópu.

 

Mynd af berjum rósareynis sem tekin var þann 11. september 2020 í garðinum við Móabarð 24B í Hafnarfirði. Berin eru skuggamegin á trénu en það stendur undir birki og gráelri í norðurhluta garðsins. Mynd og upplýsinar: Árni Þórólfsson.

Reynsla
 

Lítil reynsla er af tegundinni á Íslandi, enda uppgötvaðist hún ekki í heiminum fyrr en árið 1983 og var ekki lýst sem tegund fyrr en árið 2005. Þó var til ljómandi fallegt eintak af tegundinni í Grasagarðinum í Reykjavík, en hann sýktist af reyniátu og er nú dauður (Árni Þórólfsson 2024).

Enn minni reynsla er af henni hér fyrir norðan en almennt er hún góð. Elsta eintakið í Lystigarðinum (sennilega það eina) var gróðursett árið 2007. Það var aðeins tveimur árum eftir að tegundinni var lýst á heimsvísu. Þetta eina tré lofar góðu en varla er hægt að fullyrða of mikið út frá því. Aftur á móti hefur rósareynir fengist í Sólskógum og því mun byggjast upp reynsla á komandi árum.

 

Rósareynir í Lystigarðinum á Akureyri. Þar stendur hann dálítið afsíðis og fer sjálfsagt fram hjá mörgum, nema þegar hann er í fullum blóma eða með fullt af berjum. Mynd: Sig.A.

Ekkert bendir til annars en að rósareynir sé alveg jafn harðgerður og kasmírreynir. Tegundirnar fara á sama eða á svipuðum tíma í haustliti og vaxtartímabilið er mjög áþekkt. McAllister (2005) segir um kasmírreyni í sinni bók að hann sé svo harðgerður að hann þrífist meira að segja vel á Íslandi. Ætla má að þetta gildi líka um rósareyni.

Við leituðum eftir upplýsingum hjá Trjáræktarhópnum á Facebook og fengum þar myndir og ýmsar upplýsingar. Flestir ræktendur hæla þessari tegund, en þá kom í ljós að útsetning fyrir átusvepp er ekki eini gallinn á gjöf Njarðar. Þorsteinn Magni Björnsson sagði okkur að rósareyni sé meinilla við mikla saltákomu og geti kalið mikið ef það hendir. Því er sennilega óþarfi að reyna tegundina nærri opnu hafi.

 

Mynd af berjum rósareynis við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Almennt má segja að saltákoma sé þar ekki stórvandamál í venjulegu árferði. Mynd: Örn Óskarsson.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils en pistill dagsins er birtur í heild.

Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Lýðræði á tímum gervigreindar

Magnús Smári Smárason skrifar
30. október 2024 | kl. 11:45

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Hús dagsins: Aðalstræti 22

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. október 2024 | kl. 06:00

Innskotsborð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. október 2024 | kl. 11:30