Um aldur trjáa
Hversu gömul geta tré orðið? Það fer sjálfsagt eftir því hvernig við mælum aldur þeirra. Mörgum þykir eðlilegast að mæla aldur stofnanna eða aldur „standandi trjáa“ eins og stundum er sagt. Aðrir vilja taka aldur rótarinnar með í reikninginn eða jafnvel að reyna að reikna út hvenær fræið spíraði.
Í þessum pistli höldum við okkur við fyrsta möguleikann og reynum að skoða aldur standandi trjáa.
Hvergi mynda broddfurur stóra, samfellda skóga. Þær vaxa frekar í litlum hópum nálægt skógarmörkum til fjalla. Þar er allra veðra von. Stundum er vaxtartíminn svo stuttur að ekki vinnst tími fyrir þær, sem standa á erfiðustu stöðum, að mynda nýja árhringi. Ef árhringir eru taldir hjá þessum trjám gefur það aðeins hugmynd um lágmarksaldur.
Tegundir
Samkvæmt heimasíðu, sem haldið er úti af vísindamönnum Kew Gardens, World Flora Online eru þetta núna taldar þrjár tegundir.Allar þrjár (eða báðar, ef þær eru tvær) tegundirnar eiga heilmargt sameiginlegt og sumir telja þær til einnar tegundar sem skipta megi í tvö eða þrjú afbrigði. Aðeins ein þeirra er eitthvað ræktuð í görðum í heiminum. Hún hefur ratað til Íslands og gengur undir þessu sameiginlega nafni: Broddfura. Því verðum við sennilega að kalla hinar eitthvað annað til að valda ekki ruglingi, en þegar við tölum um broddfurur í fleirtölu getum við sem best verið að tala um þennan hóp trjáa. Broddfuran sem hér er ræktuð kallast Pinus aristata og verðskuldar sérstakan pistil. Hann mun birtast síðar. Önnur tegund kallast Pinus balfouriana og er ekki í ræktun hérlendis og er stundum talin afbrigði af P. aristata. Þriðja tegundin heitir Pinus longaeva. Hún verður elst þessara trjáa og þessi pistill er fyrst og fremst um hana. Það er hún sem vex í Hvítfjöllum. Sumir vilja setja þessar tegundir saman í sérstakan hóp og kalla hann Balfourianae.
Samkvæmt þessu korti eru broddfurutegundirnar tvær en ekki þrjár. Tegundin sem vex á Íslandi er rauðmerkt en tegundin sem myndar elstu trén er blámerkt. Kortið fengið héðan. Þriðja tegundin, sem ekki er merkt inn á kortið, vex í Kaliforníu.
Um barrnálar
Furur eru af þallarætt, Pinaceae. Öll helstu barrtré sem ræktuð eru á Íslandi til nytja eru af þessari ætt. Má þar nefna lerki, Larix spp. og greni, Picea spp. Furur má þekkja frá þessum frændgarði á því að hinar sígrænu nálar vaxa í knippum út úr greininni. Lerkið hefur líka nálar í knippum en þær eru ekki sígrænar. Myndin hér til hliðar sýnir grein af rindafuru. Sjá má barr og köngul með broddum. Myndina á C.J. Earle og er hún héðan.
Allar furur mynda barrnálar í knippum og má líta á það sem einkenni þeirra. Í grófum dráttum má skipta þeim í tvo meginhópa. Þeir eru reyndar það ólíkir að sumum þykir með ólíkindum að þeir skuli enn vera taldir tilheyra sömu ættkvíslinni. Ef til vill er það fremur hefð en nokkuð annað sem veldur því. Annar hópurinn er með fimm nálar í hverju knippi, hinn með tvær eða þrjár. Fimm nála fururnar hafa langar og mjúkar nálar á meðan hinn hópurinn er með hvassari og styttri nálar. Undantekningin frá þessu eru þessar tvær eða þrjár tegundir af broddfurum. Þær hafa fimm nálar í knippi en þær eru ekki langar, mjúkar og þokkafullar heldur stuttar og stífar. Þær verða varla nema 2 eða 3 cm að stærð. Það gerir það að verkum að þessar furur minna pínulítið á broddgelti. Nafnið „broddfura“ vísar samt ekki í það heldur í könglana.
Annað sem greinir þessar furur frá öðrum fimm nála furum er að hver barrnál lifir að jafnaði mun lengur á þessum trjám.
Öll barrtré þurfa að endurnýja nálarnar. Sum þeirra, eins og lerkið, gerir það árlega. Aðrar endurnýja þær jafnt og þétt þannig að á hverju ári fellur hluti nálanna af trjánum, gjarnan einn árgangur eða svo og nýjar spretta fram. Hjá broddfurum getur hver nál lifað í allt að 10 til 40 ár ef ekkert óvænt hendir. Samkvæmt þessari síðu getur hinn hái aldur nálanna hjálpað trjánum að lifa af á löngum þurrkatímabilum. Þá einfaldlega bíða trén en vaxa ekki og geta því ekki endurnýjað nálarnar. Ef þær dræpust og féllu af án þess að nýjar kæmu fram væru dagar furunnar taldir.
Stofnar á rindafurum geta verið snúnir á alla kanta. Myndina á Maureen Price og birti hana á Facebooksíðunni Unique Trees.
Broddfurur hafa annað einkenni sem skilur þær frá öðrum fimm nála furum. Nálarnar eru með harpix útfellingar svo á þeim má sjá litla, hvíta bletti sem ekki sjást á öðrum heilbrigðum furum. Þegar allt þetta er tekið saman má segja að þessi gerð nála gerir þessar furur alveg einstakar og auðþekktar frá öllum öðrum furum. Aftur á móti er ekki hlaupið að því að greina þær í sundur. Ef til vill skiptir það okkur engu máli því aðeins ein þeirra vex á Íslandi og eins og áður segir má vel halda því fram að þetta séu fremur afbrigði en tegundir.
Harpix útfellingar á nálum broddfuru framan við Ráðhúsið á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Rindafura
Elst allra broddfurutrjáa og þar með elstu standandi trjástofnar í heimi tilheyra tegundinni Pinus longaeva Bailey. Til að forðast misskilning leitum við til Orðabanka íslenskrar málstöðvar. Þar er þessi tegund broddfuru kölluð rindafura. Við höldum okkur við það nafn. Tegundarheitið longaeva er úr latínu og merkir langur aldur eða ævaforn. Er það vel til fundið enda er talið að hver stofn geti orðið allt að 5000 ára gamall. Þá erum við að tala um að einn stofn sem hefur vaxið upp af einu fræi en ekki endurnýjað sig með rótarskotum eða á annan sambærilegan hátt. Fyrir fimm þúsund árum var mannkynið á bronsöld og enn voru fimm hundruð ár í að pýramídarnir miklu í Egyptalandi yrðu reistir og enn lengra í að nokkur maður álpaðist til Íslands. Á þeim tíma var meiri úrkoma í fjöllunum þar sem þessi tré lifa í dag og aðstæður allar betri. Framan af æfi sinni hafa þær eflaust lifað hinu ágætasta lífi. Svo fóru fjöllin að þorna og kólna og þar með versnuðu skilyrðin. En þessi tré neituðu að gefast upp og eru þarna enn (Spadea 2022).
Margskipt lífvera
Rindafura á það sameiginlegt með öðrum broddfurum að búa yfir einni sérhæfingu sem hjálpar þeim að komast af við erfiðar aðstæður. Auðvitað má líta á eina broddfuru, greinar, stofn og rætur, sem eina lífveru. En tréð býr yfir þeim hæfileika að deila sjálfu sér í smærri einingar. Tiltekinn hluti rótarkerfisins tengist fyrst og fremst tilteknum greinum í gegnum stofninn. Það merkir að ef hluti rótarkerfisins drepst, til dæmis vegna jarðvegseyðingar, hefur það einungis áhrif á hluta af greinunum. Stundum má sjá tré, þarna í fjöllunum, sem eru dauð að stórum hluta en hluti stofnsins og greinarnar þar ofan við eru sprelllifandi. Þetta hjálpar trjánum að lifa af ýmiss áföll sem kunna að henda, jafnvel þótt hluti trésins gefist upp og drepist (Great Basin National Park).
Þessi fura er dæmigerð fyrir öldunga. Hluti trésins er dauður en tréð lifir! Myndina tók Shiraz Bosman og birti á Facebooksíðunni Unique Trees.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga