Fara í efni
Pistlar

Oddeyrargötuöspin og hæðarmælingar trjáa

TRÉ VIKUNNAR - LXXII

Við Oddeyrargötu 12 á Akureyri stendur glæsileg ösp. Hún gerir tilkall til að teljast hæsta lauftré á Akureyri. Að minnsta kosti vitum við ekki um hærra lauftré. Aftur á móti vitum við um sitkagrenitré sem sennilega er enn hærra.

Í þessum pistli fjöllum við almennt um trjámælingar og þessa stóru ösp.

 

Það er ekki á hverjum degi sem við birtum svona bláar myndir. Fyrir miðri mynd er Oddeyrargöturisinn. Mynd: Sig.A.

Hæsta tré á Akureyri?
 
Skógræktarfélag Eyfirðinga hélt upp á 75 ára afmælis félagsins árið 2005 með því að gefa út bækling um merk tré á Akureyri. Bæklinginn má sjá hér, en því miður eru sum trén horfin, sem í bæklingnum voru. 
 
 

Mynd úr bæklingnum góða frá árinu 2005 ásamt upplýsingum um tréð. 

Þegar bæklingurinn var gefinn út var talið víst að þessi ösp væri hæsta tré bæjarins. Þá mældist hún 21,5 m á hæð. Samkvæmt nýjustu mælingum okkar er hún 23,2 metrar á hæð. Hún er enn að bæta við sig en það er fátt sem skýlir efstu greinunum.

Það er samt ekki alveg víst að þessar tölur séu 100% réttar. En það munar varla miklu. Svo er rétt að geta þess að sennilega eru til sitkagrenitré sem náð hafa þessari ösp í hæð og eru nú orðin hærri en öspin. Sitkagreni munu verða hæstu trén í bænum næstu áratugina. Er mynd í lok þessa pistils af nokkrum stórum sitkagrenitrjám. Eitt af því gæti sem best verið hæsta tré Akureyrar. Þar sem þau standa ekki í garði, heldur á opnu svæði, er trúlegt að öspin sé hæsta garðtré á Akureyri og hæsta lauftréð í bænum. Ef til er hærra lauftré stendur það sennilega á baklóð og við vitum ekki um það. Þetta er því sannarlega merkilegt tré.

 

Oddeyrargötuöspin að sumri. Hún er svipmikið tré og setur mikinn svip á umhverfi sitt. Mynd: Bergsveinn Þórsson.

Trjámælingar
 

Tré geta verið margskonar. Sum eru lítil en önnur eru stór. Að vera stór getur líka verið margskonar, því eitt tré getur verið hátt meðan annað er svert en bæði eru þó stór. Sum tré eru beinvaxin og einstofna meðan önnur eru margstofna og skökk og snúin. Sum tré eru með einn topp og mjóa krónu meðan önnur eru með marga toppa og breiða krónu og svo mætti lengi telja. Til eru ýmsar leiðir til að mæla tré. Framan af ævi þeirra er einfaldast að nota einhvers konar málband og fá þannig nákvæma mælingu. Aftur á móti getur það verið strembið þegar togna fer á trjánum. Þá þarf að nota aðrar aðferðir.

 

Blómgun þann 14. maí 2024 kemur upp um kynið á öspinni. Hún er karlkyns. Brumin farin að sýna grænan lit. Mynd: Sig.A.

Timbur er til margra hluta nytsamlegt. Úr stofnum trjáa er hægt að fá timbur og úr timbri er til dæmis hægt að smíða stóla, borð, hús og margt fleira. Oft er gott að vita hvað hægt sé að smíða mörg hús úr trjánum í einum skógi. Til að það sé hægt þarf að mæla trén í skóginum og reikna út rúmmál trjástofnanna. Til að geta reiknað rúmmál trjástofns er tvennt sem þarf að mæla. Það þarf að mæla þvermál trjástofnsins í 130 cm hæð yfir jörð (svokallað brjósthæðar-þvermál). Þetta er alla jafna fremur auðvelt að mæla til dæmis með málbandi eða klafa.

 

Hér er klafi notaður til að mæla þvermál á tré. Þessi klafi er allt of lítill til að mæla þvermál asparinnar við Oddeyrargötu. Það má mæla með því að mæla ummálið með málbandi og deila í með π. Það er tveggja manna verk að koma málbandi utan um tröllið við Oddeyrargötu. Mynd: Sigurður Ormur Aðalsteinsson.

Einfaldar hæðarmælingar
 

Til að geta reiknað út viðarmagn í skógi þarf að mæla hversu há trén eru. Það getur verið snúið. Tré sem eru lítil (5m eða lægri) eru oft mæld með útdraganlegri stöng, sem einhverskonar ofvaxinn tommustokkur og er sérstaklega ætlaður í svona mælingar. Aftur á móti getur það orðið ákaflega þreytandi vinna ef mæla þarf mörg, há tré með svona stöng.

 

Annar höfundur pistilsins við trjámælingar í Vaðlaskógi. Utan myndar stendur hinn höfundurinn. Hann lætur vita þegar stöngin hefur náð upp í topp en það er ekki mjög auðvelt að sjá það þegar staðið er undir trénu. Mynd: Ingólfur Jóhannsson.

Hornamælingar
 
Hærri tré eru oftast mæld með einhverri útgáfu af hornamælingu. Ein einfaldasta útgáfan af því er að taka spýtu sem er nákvæmlega jafn löng og handleggurinn á mælandanum og halda henni upp í loftið með útréttri hönd. Svo þarf að standa það langt frá trénu sem mælt er að toppur trésins beri við topp spýtunnar og stofn trésins þar sem hann kemur úr jörð nemi við neðri part spýtunnar. Þegar þessari stöðu er náð er mælingamaðurinn í nákvæmlega sömu fjarlægð frá trénu og tréð er hátt og þá er einfaldlega hægt að mæla fjarlægð frá manni að tré. Þannig má mæla hæð trésins.
 
 

Ef þríhyrningurinn, sem maðurinn myndar með spýtunni, er jafnarma (a=a), þá er þríhyrningurinn sem tréð myndar við manninn einnig jafnarma (A=A). Þá er hæð trésins sú sama og vegalengdin frá manninum að trénu. Í þessu tilfelli þarf reyndar að bæta hæð mælandans við til að fá rétta tölu. Myndin fengin héðan.

Önnur einföld aðferð er að fá sér 1m langa spýtu og mæla lengd skuggans sem hún varpar frá sér og bera hann saman við lengd skuggans sem tréð varpar. Spýtan og skugginn mynda einslaga þríhyrning við tréð og skugga þess. Hlutfallið á milli trésins og skuggans er það sama og hlutfallið á milli spýtunnar og skuggans. Því má reikna út hæð trésins út frá þessum mælingum. 

 

Hér er skuggi af 2 m spýtu borinn saman við skuggann af tré. Þríhyrningarnir eru einslaga og því má reikna út hæð trésins. Myndin er ekki í réttum hlutföllum. Myndin fengin héðan.

Flóknari hornamælingar
 

Þeir sem fást við að mæla tré á hverjum degi eru venjulega með einhverja flottari hornamæla en eina spýtu og málband. Þessi fínu hornamælar eru venjulega með innbyggðum geisla sem mælir fjarlægð mælandans frá trénu. Að auki eru þeir með nákvæma nema sem segja til um hversu mikið mælirinn hallar þegar honum er beint annarsvegar á topp trésins og hins vegar á stofninn þar sem hann kemur úr jörð. Út frá fjarlægðinni frá trénu, horninu að stofni og horninu að toppi trésins reiknar svo mælirinn út hæð trésins (tangens, þriggja punkta mæling).

 

Teikning sem sýnir þriggja punkta tanges mælingu með hornamæli. Myndin er úr grein eftir Kouta, Philippona og Spraggon. Sjá hér.

Þessi mæling er mjög örugg og góð þegar er verið að mæla þar sem er ekki mikill bratti og trén eru beinvaxin, mynda 90°horn við láréttan flöt og eru með einn topp yfir miðjum stofni. þannig eru til dæmis flest grenitré. En eins og áður er getið eru ekki öll tré eins. Þau eru því misjafnlega fallin til mælinga. Því þurfa mælingamenn að gera sér grein fyrir hættu á skekkjum við mælingar.

Annar höfundur pistilsins, Bergsveinn Þórsson, mælir hæð trjáa í Vaðlaskógi með leisermæli. Myndir: Sigurður Ormur Aðalsteinsson. 

 

Horft niður eftir Oddeyrargötu. Fyrir miðju er þessi geðþekki risi. Oddeyrargötuöspin bætir umhverfi sitt á ýmsa vegu. Búið er að fjarlægja neðstu greinarnar þannig að þær skyggja ekki á gluggana í húsinu. Ummál þessa trés í brjósthæð var mælt þann 14. maí 2024 og reyndist vera 225 cm. Mynd: Sig.A.

Aðrar aðferðir 
 

Til að mæla hæð lauftrjáa með mikilli nákvæmni er best að nota einhvers konar málband eins og áður greinir. Þá þarf að koma því upp í topp trésins. Í frumskógum á Borneó hefur fundist tré af tegundinni Shorea faguetiana. Það er stærsta, lifandi lauftré sem mælt hefur verið að nákvæmni. Það reyndist 100,8 metrar á hæð.

Til að mæla þetta tré fóru vísindamenn frá National Geographic að trénu og klifruðu upp í það með málband! Hér er nánar fjallað um þetta og að auki viðtal við náungann sem klifraði upp (Gagen 2019).

Þetta er traust aðferð en okkur óar við að klífa tré sem náð hafa tuttugu metra hæð. Hvað þá 100 metra hæð!

Klifrað upp í hæsta, þekkta lauftré í heimi. Myndin er úr þessari grein en hana tók Unding Jami.
 

Við getum ekki stillt okkur um að birta þessa mynd af nokkrum af hæstu trjám jarðar og til samanburðar má meðal annars sjá Big Ben í London og gíraffa og mann, lengst til vinstri. Þessi mynd er fengin úr þessari grein, en þar er tréð í Borneó, sem nefnt er hér að ofan, ekki nefnt.

Öspin við Oddeyrargötu 12 
 

Í raun og veru er fátt vitað um þetta stóra og glæsilega tré. Við vitum þó að þetta er alaskaösp. Lengst af hefur hún gengið undir fræðiheitinu Populus trichocarpa en nú orðið telja grasafræðingar að réttara sé að flokka hana sem afbrigði af náskyldri ösp, sem kallast balsamösp. Þá er fræðiheitið skráð sem Populus balsamifera ssp. trichocarpa. Það er samt alveg óþarfi að elta ólar við þetta. Í báðum tilfellum er um alaskaösp að ræða.

Margir þekkja að alaskaösp er oftast fjölgað með græðlingum. Þá fá allir afkomendurnir sama erfðaefnið og móðurtréð. Þess vegna er talað um klóna eða klón aspa. Hver klónn, eða hvert klón, fær gjarnan eitthvert heiti. Margt bendir til að þetta sé klónninn 'Randi' sem er víða í bænum. Auðveldast er að þekkja 'Randa' af neðstu greinunum sem svegjast á einkennandi hátt. Allar neðstu greinarnar á þessu tré hafa verið fjarlægðar fyrir löngu og því getum við ekki fullyrt að þetta sé sami klónninn eða klónið. Við höfum áður fjallað um þennan eða þetta klón og um þetta tré í Lystigarðinum sem er líka 'Randi'.

Talið er að þessi ösp hafi verið gróðursett árið 1947 en um það er lítið hægt að fullyrða.

 

Oddeyrargötuöspin, sem þarna er í glæsilegum haustlitum, setur mikinn svip á umhverfi sitt eins og sjá má. Mynd: Sig.A.

Helstu mælingar
 

Bergsveinn Þórsson er einn af þeim sem fengist hefur við trjámælinga í Eyjafirði með horna- og geislamæli. Hann hefur glímt við það skemmtilega vandamál að reyna að mæla þessa ösp.

Eins og sjá má á myndinni hér að ofan stendur öspin í brekku. Ekki auðveldar það hæðarmælinguna. Þegar tréð er allaufgað er mun erfiðara að mæla hana og eykur það enn á hugsanlega skekkju. Eins og sjá má hér að neðan eru mælingarnar ekki fyllilega sambærilegar heldur gefa sterkar vísbendingar um hæð trésins. Mælitölurnar sýna líka að erfitt er að fullyrða neitt um hæðina. Við vitum bara að tréð er mjög hátt og með breiðan stofn.

 

Tafla sem sýnir mismunandi mælingar á Oddeyrargötuöspinni. Nýjasta mælingin segir 23,2 m. Hún var gerð þegar engin lauf voru til að trufla mælinguna en ómögulegt er að segja með fullri nákvæmni hvað tréð er hátt.

 

Samanburður

Fróðlegt getur verið að bera saman hæðina á þessu stóra tré og einhverju þekktu kennileiti. Fyrir okkur verður það Akureyrarkirkja. Á vefnum Akureyri.is má skoða teikningar nokkurra opinberra bygginga í bænum. Þar á meðal eru teikningar Guðjóns Samúelssonar af kirkjunni. Samkvæmt þeirri teikningu eru turnar kirkjunnar 21,4 metrar að hæð. Þá eru turnspírurnar ekki taldir með. Öspin við Oddeyrargötu er þá um það bil mannshæð hærri en kirkjuturnarnir.

 

Horft upp eftir Oddeyrargötu á fallegum vetrardegi. Öspin er um mannhæð hærri en kirkjuturnarnir á Akureyrarkirkju. Mynd: Sig.A.

Önnur há tré í bænum 
 

Ekki standa öll tré bæjarins í görðum. Myndin hér að neðan er tekin árið 2020. Þá var Bergsveinn Þórsson að mæla trén með Vertex laser hornamæli sem á að vera með því skásta fyrir svona mælingar. Við vitum ekki um hærri tré í bænum en þessi sitkagreni en öspin við Oddeyrargötu er ekki langt á eftir.

 

Þetta gætu sem best verið hæstu trén í bænum Þau standa neðan við Spítalaveg. Mynd: Bergsveinn Þórsson.

Nokkur önnur tré í bænum hafa verið mæld yfir 20 metra há. Flest þeirra eru enn í góðum vexti. Öll eiga þau það sameiginlegt að skýla bænum fyrir vindum og draga úr umferðarhávaða og fanga rykagnir þannig að loftgæðin í bænum verða betri. Nýlega fengum við svo upplýsingar í gegn um Facebooksíðu félagsins að nýlega hafi verið felldar aspir í garði Bjargar Guðjónsdóttur. Þær voru, að sögn, frá 23 m og upp í 25 m háar. Risarnir leynast víða. Þessi tré skipta miklu máli fyrir ásýnd bæjarins og þau bæta lífsgæði íbúa og gesta. Því er mikilvægt að standa vörð um svona merk tré í bænum.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn
 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga. Bergsveinn Þórsson er starfsmaður félagsins.

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Lifandi steingervingur: Fornrauðviður

Sigurður Arnarson skrifar
03. júlí 2024 | kl. 10:10

Að temja tæknina II: Í klóm drekans

Magnús Smári Smárason skrifar
02. júlí 2024 | kl. 10:50

Sykur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
01. júlí 2024 | kl. 11:30

Dómgreind

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. júlí 2024 | kl. 06:00

Seigla og linka

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
30. júní 2024 | kl. 06:00

Þú trylltist og varst rekinn út af!

Orri Páll Ormarsson skrifar
28. júní 2024 | kl. 11:00