Fara í efni
Pistlar

Minjasafnsgarðurinn á Akureyri

TRÉ VIKUNNAR - XCVI

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli sama dag til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Í Eyjafirði eru þrír merkir trjáreitir frá aldamótunum 1900. Minjasafnsgarðurinn er einn þeirra en hinir tveir eru Grundarreitur og Gamla Gróðrarstöðin. Allir bera þessir reitir brautryðjendastarfi í ræktunartilraunum á Íslandi gott vitni.

Minjasafnið á Akureyri stendur í Innbænum við Aðalstræti 58. Þar eru geymdir margir merkir safngripir. Einn stærsti safngripurinn er garðurinn framan við safnahúsið. Þar er að finna merkileg tré og garðurinn sjálfur á sér merka sögu. Fyrstu fjögur árin eftir stofnun garðsins var hann nefndur Gróðrarstöðin, síðan Trjáræktarstöðin í tæpa þrjá áratugi og jafn lengi var hann nefndur Ryelsgarður. Síðan árið 1962 hefur hann verið nefndur Minjasafnsgarðurinn.
 
 
Minjasafnsgarðurinn séður frá Drottningarbraut. Til hægri má sjá Minjasafnskirkjuna og þar fyrir aftan er Kirkjuhvoll sem nú hýsir Minjasafnið. Mynd: Sig.A.

Upphafið

Um aldamótin 1900 var mikil vakning í hverskyns ræktunarmálum á Íslandi. Það var á þeim árum sem amtsráð Norðuramts hóf að starfrækja ræktunarstöð. Heimildum ber ekki saman um hvort ræktun hafi hafist árið 1899 eða 1900 (Bjarni 2002) en það breytir ekki öllu. Ræktunarstöðin var afgirt og naut skjóls af Akureyrarkirkju sem þá stóð þar sem Minjasafnskirkjan stendur nú. Mun það hafa verið Páll Briem, amtmaður, sem kom því til leiðar að Akureyrarbær lét landið af hendi rakna. Til að stjórna ræktuninni var fenginn til verks Sigurður Sigurðsson frá Draflastöðum sem hafði kynnt sér trjárækt í Noregi. Mun hann hafa verið fyrstur Íslendinga til að nema skógrækt í útlöndum. Hann varð síðar búnaðarmálastjóri og fyrsti formaður Skógræktarfélags Íslands (Bjarni 2002). Haustið 1900 fór Sigurður utan til frekara náms og við garðinum tók Jón Chr. Stephánsson timburmeistari og Dannebrogsmaður, ásamt konu sinni Kristjönu Magnúsdóttur. Sá hann um garðinn til dauðadags árið 1910 (Bjarni 2002).

 

Fyrstu trén

Elsta varðveitta skýrslan um sáningar og gróðursetningar í garðinum er frá árinu 1900. Þar eru þessar tegundir taldar: Greni, fura, elri, birki, reynir, síberískt baunatré, rósir, lerki, beinviður, gullregn, gulvíðir, hlynur, þyrnar og rifs. Að auki voru þarna reyndar ýmsar matjurtir (Bjarni 2002). Þetta hafa því verið talsverðar tilraunir. Vorið 1902 var strax farið að selja trjáplöntur úr stöðinni. Garðurinn var 0,2 ha að stærð og varð fljótlega svo þröngt þarna að matjurtatilraunum var hætt. Þess vegna var gróðrarstöð Ræktunarfélags Norðurlands stofnuð árið 1903 þar sem nú er „Gamla gróðrarstöðin“. Þar hafa starfsmenn Lands og skóga á Akureyri nú aðsetur sitt. Eftir að tilraunir með matjurtir voru fluttar annað var farið að kalla Minjasafnsgarðinn Trjáræktarstöðina (Bjarni 2002). Það er dálítill galli að ekki eru til neinar skýrslur um árangur þessara fyrstu tilrauna á Akureyri. Aftur á móti standa þarna enn býsna gömul tré sem trúlega eru frá þessum tíma. Sum þeirra eru farin að láta nokkuð á sjá vegna aldurs.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Féll af kústhestbaki

Orri Páll Ormarsson skrifar
21. febrúar 2025 | kl. 20:00

Vatnsmiðlun skóga

Sigurður Arnarson skrifar
20. febrúar 2025 | kl. 15:00

Jesús og Júróvisjón

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
18. febrúar 2025 | kl. 12:30

Dýrtíð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
17. febrúar 2025 | kl. 11:30

Kári og Skúli

Jóhann Árelíuz skrifar
16. febrúar 2025 | kl. 06:00

Borð og stólar upp kirkjutröppurnar

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
14. febrúar 2025 | kl. 06:00