Fara í efni
Pistlar

Ljós og skuggi á jólum

Það að fylgjast með 21. desember koma og fara er eins og að velta þungum steini yfir háa hæð. Vetrarsólstöður ber upp á þennan dag og hann er eins og hver annar dagur, fyrir utan það að í dag byrjar ferðalag birtunnar til okkar aftur. Héðan af, mun sólin faðma okkur örlítið lengur með hverjum deginum sem líður. 

Ljós og skuggi eru tvær hliðar á sömu tilveru. Jafnvægið þarna á milli er viðkvæmt og þess vegna getur svartasta skammdegið verið þungur róður. Þessir örfáu ljósgeislar sem við njótum um miðjan daginn eru eins og vatnsdropar. Sem ná rétt svo að minna okkur á það hvað við erum ótrúlega þyrst.

Jólin eru haldin í kring um þetta leyti. Hátíð ljóss og friðar. Við eigum að vera að fagna fæðingu Krists, en flestir vita að það þótti aðeins þægilegt að hafa þessa kristnu hátíð á sama tíma og heiðið fólk hafði haldið upp á sigur ljóssins. Að daginn skyldi taka að lengja á ný eftir langan og dimman vetur. Hvort Jesú fæddist hér eða þar, í desember eða mars, þá eða nú, skiptir litlu í dag. Í raun og veru erum við að fagna ljósinu, en Jesú og tilvera hans á jörðinni er ein birtingarmynd ljóss í tilverunni.

Á stuttum tíma, í stóra samhenginu, hafa jólin færst fjær því að snúast um ljós og frið, og nær því að snúast um skyldur og sýndarmennsku.

Hvað bakaðir þú margar sortir? Ég gekk frá öllum jólagjafakaupum í nóvember á Black Friday. Ég borgaði tuttugu þúsund til þess að fara á jólatónleika. En það er nú eiginlega bara skylda. Hvernig á ég annars að komast í alvöru jólaskap? Ég vildi að alla daga væru jól. Ef ég nenni.

Ég fæ jólagjöf. Ég fæ jólagjöf. Sem foreldri með ung börn í dag, fallast mér hendur við að reyna að kenna börnunum mínum að vera þakklát. Það er ekki hægt. Við höfum það allt of gott. Börnin mín eru góðar manneskjur, en þau halda að það sé endalaust streymi af ókeypis peningum í símtækinu mínu og greiðslukortinu. Þú notar bara símann þinn mamma! Þetta er ekkert dýrt.

Ég velti því fyrir mér hvort að hann áttaði sig á því að myndirnar sýndu sama heim og hann býr í.

Það færðist skuggi yfir andlit sex ára sonar míns um daginn. Sjaldséður skuggi. Við vorum að horfa á fréttatímann, þar sem örugg og falleg kona tilkynnti okkur að tala látinna í Gaza væri komin upp í tíu þúsund og þar af fjögur þúsund börn. Fréttinni fylgdu gráar og rykugar myndir af rústum í fjarlægu landi. Angistarfullu fólki. Grátandi börnum. Ég velti því fyrir mér hvort að hann áttaði sig á því að myndirnar sýndu sama heim og hann býr í.

Ég las erlenda frétt um að engin jólaljós væru í Betlehem. Presturinn vill ekki hafa guðsþjónustu. Fólkið vill engin jól. Þar er ekkert ljós, enginn Jesú og engin jólagjöf. Ég fer sjálf að efast um að ég skilji að við búum í sama heimi. Líf mitt heldur áfram þrátt fyrir nístandi fréttir og hræðilegar myndir af lífvana útlimum ungra barna. Kannski voru þau sex ára eins og sonur minn. Litli fóturinn er óþægilega líkur fætinum hans.

Ég held áfram að sinna skyldum mínum, kaupa jólagjafir og mæta í vinnuna. Ég vinn á öldrunarheimili og á þessum tíma þykir okkur gaman að stytta okkur stundir við söng. Ég kann að glamra á gítar og tek með mér hefti af jólalögum sem við syngjum á jólunum. Lögin sem allir kunna. Nú er Gunna á nýju skónum. Nú skal segja. Bráðum koma blessuð jólin. Bjart er yfir Betlehem.

Lauguð í mínum forréttindum og öryggiskennd, upplifi ég samt gapandi holrúm innra með mér.

Ég kemst illa í gegn um lagið án þess að brotna. Hér stend ég og spila og syng um blikandi jólastjörnu í Betlehem með yndislegu vinum mínum sem búa á öldrunarheimilinu. Lauguð í mínum forréttindum og öryggiskennd, upplifi ég samt gapandi holrúm innra með mér, þar sem jólatónleikar, smákökusortir og Guð má vita hvað munu ekki fylla upp í tómið.

Mig langar að trúa að við getum gert eitthvað gagn með því að tala um óréttlæti. Lofa okkur að finna til með þeim sem óréttlætið bitnar á. Gráta. Deila á samfélagsmiðlum. Skrifa undir undirskriftarlista um vopnahlé. Styrkja hjálparstarf. Tala um fólkið sem vill engin jól. Elska þau. Kannski, ef nógu margir elska, gerist eitthvað gott. Kannski fer ljósið smám saman að vinna á myrkrinu aftur.

Rakel Hinriksdóttir er fjölmiðlakona, grafískur hönnuður og listakona.

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00