Fara í efni
Pistlar

Kasjúhnetutré og hin lygilega líffræði þeirra

TRÉ VIKUNNAR - XLVII

Kasjúhnetur eru bragðgóðar. Um það ættum við öll að geta verið sammála. Þær má borða sem einskonar snakk eða nota í eldamennsku, einkum í asískri matargerð. Hvaðan koma þessar hnetur og á hvernig trjám vaxa þær? Af hverju eru þær dýrari en flestar aðrar hnetur og hver er saga þeirra? Þessum spurningum reynum við að svara í þessum pistli. Við nefnum líka fleiri atriði sem tengjast tegundinni eins og lesandinn getur sannfærst um. Við byrjum samt á því að skoða hina einkennilegu líffræði sem tengist fjölgun tegundarinnar.

 
Kasjúhnetur neðan á svokölluðum kasjúeplum. Myndin fengin héðan. Mynd: Colleen Ballinge.

Villtar kasjúhnetur

Villt kasjúhnetutré er að finna í hitabeltinu í Suður-Ameríku, nánar tiltekið í strandhéruðum í norðurhluta Brasilíu. Þar vex það sem sígrænt tré sem getur orðið allt að 14 metrar á hæð sem á þessum slóðum telst miðlungshátt tré. Colin Tudge (2005) segir í sinni bók að kasjúhnetutré þrífist best við heldur þurrari skilyrði en flest önnur ávaxta- og hnetutré í hitabeltinu. Lýsingar á þessu tré eru ekki sérlega glæsilegar. Það hefur kræklóttar greinar og ójafna krónu og leðurkennd blöð. Breidd krónunnar getur orðið allt að tvöfaldri hæð trésins. Þessi lýsing er ekkert sérstaklega sexý enda er tréð á engan hátt glæsilegt eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Það sem gerir þetta tré merkilegt og ólíkt flestum öðrum trjám sem við þekkjum er hvernig það fjölgar sér.

 
Kasjúhnetutré eru oft frjálslega vaxin og þykja ekkert sérstakt augnayndi en fegurð er afstæð. Þessi mynd fylgir hlaðvarpsþættinum My Favorite Treess sem er aðalheimild þessa pistils.

Almennt um blómgun

Segja má að fjölgun lífvera sé að jafnaði töluvert flókið fyrirbæri. Það á líka við um tré. Svo má minna á að ekkert í heiminum er svo einfalt að ekki megi flækja það með skýringum. Almennt má segja að æxlunarfæri blóma séu annaðhvort karlkyns eða kvenkyns. Karlkyns æxlunarfæri framleiða frjó sem berast þarf á fræni kvenblómanna svo frjóvgun geti orðið. Það er samt ekki svo að öll tré séu annaðhvort karlkyns eða kvenkyns. Öðru nær. Hjá sumum ættum trjáa er það samt þannig. Má nefna víði og ösp sem dæmi. Hjá þeim er það þannig að trén eru annað hvort karlkyns (og framleiða karlkyns blóm) eða kvenkyns (og framleiða kvenkyns blóm). Þetta er samt ekki án undantekninga frekar en hjá mannfólkinu. Svo eru það tegundir þar sem hvert tré er af báðum kynjum. Sum þeirra, eins og birki, framleiða bæði karlkyns og kvenkyns blóm. Þá þarf stundum flóknar aðferðir til að koma í veg fyrir sjálffrjóvgun. Svo eru til tré sem framleiða blóm sem eru tvíkynja. Hvert blóm myndar þá bæði karlkyns og kvenkyns æxlunarfæri. Einnig er þekkt að sum tré hafa skipt um kyn. Þau hafa karlkyns æxlunarfæri framan af ævinni en hætta því svo (stundum eftir eitthvert áfall) og fara að framleiða kvenkyns æxlunarfæri. Þetta getur einnig verið í hina áttina. Að auki má nefna að til eru tegundir sem mynda fræ án undangenginnar frjóvgunar. Það þekkist til dæmis hjá sumum reynitrjám. Um þetta höfum við allt saman fjallað áður og þetta mun halda áfram að koma fram í pistlum okkar. Það er víðar en hjá okkur mannfólkinu sem kyn og kynvitund getur verið flókið fyrirbæri. Hvernig ætli þessu sé háttað hjá kasjúhnetutrjám?

 
Mynd sem sýnir helstu einkenni kasjúhnetutrjáa er fengin héðan úr grein eftir Georgette Kilgore.

Blómgun kasjúhnetutrjáa

Hjá kasjúhnetunum hefst þetta með mjög mörgum en fremur smáum blómum. Þau mynda ax eða hálfsveip sem getur orðið hátt í 30 cm á lengd. Blómin eru í fyrstu grænleit og vekja ekki mikla athygli. Þau verða síðan rjómahvít og stundum með bleika eða jafnvel rauða tóna í krónublöðunum. Krónublöðin eru fimm á hverju blómi. Þau eru lítil og grönn og verða aðeins 7 til 15 millimetrar að lengd. Hvert tré myndar ótrúlegan fjölda af blómum. Mörg hundruð blóm ef ekki þúsundir blóma birtast í hverju axi. Um það bil 96% hinna mörgu blóma sem hvert kasjúhnetutré framleiðir er karlkyns. Þau fjögur prósent sem eftir eru skiptast svo í tvennt. Annars vegar eru það blóm sem eru bæði karlkyns og kvenkyns og svo hins vegar þau sem bera eingöngu kvenkyns æxlunarfæri. Með öðrum orðum: Kasjúhnetutré framleiða þrjár gerðir blóma. Langflest eru karlkyns en sum eru kvenkyns og önnur tvíkynja. Það eru aðeins um fjögur prósent blómanna sem fræðilega geta framleitt hnetur. Samt er það svo að aðeins eitt af hverjum 10 kven- og samkynja blómum frjóvgast og myndar hnetur. Það eru því aðeins um 0,4% blómanna sem mynda fræ. Eins gott að blómin eru mörg! Það eru þessi fræ sem við köllum hnetur og bragðast svona ljómandi vel. Ýmsar tegundir skordýra sækja í blómin og geta borið frjó á milli þeirra en einnig er talið að vindfrjóvgun eigi sér stað. Hvoru tveggja reyndar með ákaflega litlum árangri ef við miðum við hlutfall blóma sem bera hnetur. Þetta er samt ekki það undarlegasta við fræframleiðsluna.

 
Mynd frá The World Flora Online sem sýnir blóm kasjúhnetutrésins. Mynd: © Rodolfo Vásquez.

Kasjúepli

Það fyrsta sem bendir til að frjóvgun hafi tekist er að þá myndast grænt aldin sem lítur út eins og nýrnabaun. Þetta er hið eiginlega aldin trésins og inni í því er það sem við köllum kasjúhnetu. Þegar hér er komið við sögu gerist undrið. Blómbotninn þrútnar og efri hluti aldinsins fer að vaxa og stækka og myndar það sem kallað er kasjúepli. Það er þó töluvert líkara papriku eða peru en epli, en látum það liggja á milli hluta. Kasjúepli geta verið litskrúðug. Þau eru græn í fyrstu en geta orðið rauð, gul eða borið lit sem er blanda þeirra lita. Neðan úr þeim hanga kasjúhneturnar í fræhúsi sínu, eitt fræ undir hverju epli. Ef þið farið inn í frumskóga Amazon og sjáið eitthvað sem lítur út eins og nýrnabaun sem hangir neðan í litskrúðugri papriku hafið þið rambað á kasjúhentutré.

 
Óþroskaðar hnetur og aldin. Ekkert bólar enn á kasjúeplunum. Myndin er úr grein eftir Vilmund Hansen (2020).

Ef við berum þetta saman við venjuleg epli er þetta svipað og að fræin væru ekki inni í eplakjarnanum heldur héngu þau neðan í eplinu. Ekki er í fljótu bragði hægt að sjá hvaða hlutverki sjálft kasjúeplið gegnir eða hvaða þróunarfræðilegi ávinningur getur verið fólgin í þessu fyrir tréð, en þetta virkar og þannig er það. Má vera að ávinningurinn sé enginn en þróunin svo sem enginn dragbítur heldur. Þannig hefur þetta furðufyrirbæri ef til vill náð að halda velli. Oftast nær gegnir svona þróun þó einhverju hlutverki við að dreifa fræjunum eða vernda þau. Litur þeirra gerir þau áberandi sem getur laðað að dýr sem éta ávöxtinn. Hvernig það gagnast fræinu er óljóst, enda er það ekki inni í ávextinum. Samt verður að telja líklegt, samkvæmt Tudge (2005) að þessir áberandi litir eigi að laða að einhver dýr. Kasjúeplin eru æt en rotna hratt þegar þau falla af kasjúhentutrénu. Þau endast varla nema örfáa daga. Því eru þau aldrei á boðstólum í verslunum á okkar breiddargráðum. Aftur á móti er hægt að vinna úr þeim áfengi og það er stundum selt á norðlægum slóðum. Helst er það drykkur sem nefndur er kaju sem bruggaður er úr kasjúeplum. Sums staðar, þar sem hneturnar eru ræktaðar, er ávextinum samt einfaldlega hent. Ef til vill gegnir þessi skjóta rotnun kasjúeplanna einhverju hlutverki til að auðvelda hnetunum að spíra og vaxa, en það er hulið okkur mörlandanum.

Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00