Fara í efni
Pistlar

Hvað er svona merkilegt við greni?

TRÉ VIKUNNAR - XII

Á stórum svæðum barrskógabeltisins eru grenitegundir nær algerlega ríkjandi tegundir. Hvernig stendur á því? Hvað veldur því að ein tegund verður ríkjandi á ákveðnum svæðum en aðrar tegundir skógarins sjást varla nema sem einhverjir undanfarar eða þau fá að vaxa í skjóli trjánna eins og fyrir einhverja miskunn? Af hverju er greni ríkjandi frekar en aðrar tegundir? Hér verður fjallað um þarfir grenitrjáa og gerð tilraun til að útskýra hversu mikilvæg tegundin er þar sem hún vex.

Víða um heim eru ýmsar grenitegundir ræktaðar utan sinna náttúrulegu heimkynna, enda er mikið gagn af þeim í hvers kyns skógrækt. Myndin tekin í hálöndum Skotlands þar sem rauðgreni og sitkagreni vaxa með ágætum. Mynd: Sig.A.

Almennt um þarfir

Þarfir trjáa eru mjög mismunandi. Sum tré gera miklar kröfur til hita, birtu, skjóls og næringarefna á meðan önnur geta komist af á stöðum þar sem hörgull getur verið af einhverju af þessu. Sum svæði eru þannig staðsett að sumarið er allt of stutt fyrir flestar tegundir trjáa. Í köldustu mánuðunum getur jafnvel fryst og þá þarf stór hluti líffélagsins að taka sér einhvers konar pásu þar til betur viðrar með hækkandi sól. Almennt má segja að frost takmarka mjög hvaða tegundir geta vaxið. Hér á landi er þó skortur á sumarhita jafnvel enn meira takmarkandi.

Sitkagreni vex upp á Hafnarsandi ásamt alaskaösp og jörfavíði. Hér var áður ber sandur. Frábær vöxtur í greni þar sem lúpínan hefur numið land. Framar á myndinni er sitkagreni sem fær ekki enn hjálp frá lúpínunni. Tiltölulega fáar trjátegundir í heiminum þola svona vist. Sem dæmi má nefna að á þessum söndum þrífst birki mjög illa. Mynd: Sig.A. 

Ísland er einmitt á einum af þessum stöðum þar sem margt getur hamlað vexti trjáa. Stutt sumar og kaldur vetur er ekki endilega óskastaðan fyrir margar trjátegundir. Samt eru mjög stór svæði í heiminum sem eru einmitt þannig. Þau má finna um allan norðanverðan hnöttinn, norðan við laufskógabeltið en einnig í háfjöllum sunnar. Reynslan hefur kennt okkur að vel má rækta ýmsar tegundir trjáa á svona stöðum en þeir villtu skógar sem á slíkum stöðum vaxa standa langoftast saman af tiltölulega fáum tegundum þar sem barrtré skipa heiðurssess. Þetta köllum við barrskógabeltið. Ein ættkvísl trjáa er áberandi algengust í barrskógabeltinu. Það er ættkvísl grenitrjáa eða Picea eins og ættkvíslin kallast á útdauðu heimstungunni. Við höfum áður fjallað um þessa ættkvísl en nú skoðum við ættkvíslina frá öðru sjónarhorni og veltum fyrir okkur hvernig á velgengninni stendur.

Þessi mynd er frá Your Northwest Forests sem Skógarþjónusta Bandaríkjanna (USDA Forest Servise) heldur úti. Hún er fengin héðan. 

 

Þar sem grenið skipar stærsta sessinn í svona vistkerfum skoðum við það sérstaklega. Samt er það þannig að sumt af því sem hér er sagt á við um fleiri tegundir barrtrjáa. Annað á fyrst og fremst við um grenið.

Einn mesti grenisérfræðingur Íslands segir frá serbíugreni, P. omorika, í Laugatungu í Kópavogi á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands árið 2019. Mynd: Sig.A. 

Vaxtarstaðir

Greni getur vaxið alls staðar í heiminum þar sem sumrin eru stutt og veturnir kaldir. Það vex í nyrstu skógum heimsins og í fjalllendi í Evrópu, Ameríku og Asíu þar sem aðstæður fyrir margar aðrar ættkvíslir trjáa eru óheppilegar (Kole 2007). Greni vex mjög oft nærri skógarmörkum en sums staðar fara aðrar tegundir þó hærra eða norðar.

Sígræn barrtré. Myndin fengin af síðu um sígræn tré.

Margar tegundir grenitrjáa geta vaxið við betri skilyrði en þar er samkeppnin við önnur tré að jafnaði meiri. Í sumum tilfellum líkar greni stórvel að vaxa upp með öðrum trjám. Þau eru þó ekki til skaða bundin af þakklæti enda ná þau oft og tíðum að verða algerlega einráð. Á Íslandi sjáum við vel að greni getur vaxið ljómandi vel í blandskógum með ýmsum trjám, bæði öðrum barrtrjám og lauftrjám. Líkast til verður þó grenið að endingu ofan á, ef mannshöndin skiptir sér ekkert að málum.

Þar sem greniskógar vaxa á stórum, samfelldum svæðum geta aðstæður verið mjög misjafnar þegar horft er til þátta eins og næringarástands, raka eða jarðvegsgerðar. Því geta verið misjafnlega stór svæði þar sem aðrar tegundir eru meira áberandi (Heinrich án ártals).

Horft yfir blandskóg í Kjarnaskógi. Margar tegundir grenis vaxa prýðilega í íslenskum blandskógum. Merkilegt að sjá hvað yfirhæð trjánna er svipuð. Mynd: Sig.A.

Þegar sunnar dregur er þessu ekki þannig háttað. Þegar greni og til dæmis beyki vex saman á láglendi Evrópu kemur að því, fyrr eða síðar, að beykið sigrar í hinni eilífu samkeppni. Það er betur aðlagað slíkum aðstæðum og því hæfari til að lifa af. Nú er svo komið í heimssögunni að barrtré, sem fyrir óralöngu lifðu um allan heim, hafa víðast hvar látið undan fyrir lauftrjám nema þar sem aðstæður eru hvað erfiðastar. Í Síberíu, Alaska, Kanada og á Norðurlöndunum er vaxtatímabilið stutt. Þar nær beykið tæplega að laufgast, ljóstillífa og ljúka vexti á svona stuttum tíma. Að auki geta síðbúin vorfrost eða snemmbúin haustfrost skemmt vaxtarvefina. Þar er grenið í essinu sínu. Sama á við um fjöll þegar sunnar dregur.

Uppruni og skyldleiki

Í bók um erfðamengi ýmissa trjátegunda (Kole 2007) er að sjálfsögðu fjallað um greni. Þar segir frá því að elstu þekktu steingervingar grenis séu um 45 milljón ára gamlir. Þar segir líka að líkindi bendi til þess að ættkvíslin sé upprunnin í Austur-Asía og hafi dreifst þaðan um allt norðurhvelið. Einnig kemur fram að vísindamenn hafi komist að því að erfðabreytileiki ættkvíslarinnar sé ekki mjög mikill ef miðað er við aðrar stórar ættkvíslir barrtrjáa. Mun meiri breytileiki er t.d. að finna í ættkvísl furutrjáa, Pinus spp. Það segir okkur að það er ekkert óeðlilegt við það að eiga auðveldara með að þekkja mismunandi tegundir eða hópa furutrjáa en grenitrjáa. Vel má vera að ástæða þessarar tiltölulega litla breytileika sé einfaldlega sú hversu vel grenitrjám hefur tekist að halda við veldi sínu í margar milljónir ára. Það er eitthvað spes við þessi tré. Til hvers að breyta því sem virkar vel?

Þessi glæsilega mynd er fengin frá þessum ljósmyndara. Ari Egilsson segir að myndin sýni hæsta fjall kanadísku Klettafjallanna. Það heitir Mt. Robson, er 3.954 m hátt og er í Bresku Kólumbíu. Í forgrunni er hvítgreni með fremur mjóa krónu. Eins og títt er má sjá lauftré eða -runna í jöðrum skógarins.

Þótt genasúpa ættkvíslarinnar sé talin fremur lítil miðað við margar ættkvíslir er það ekki endilega svo innan hverrar tegundar. Kemur þar til að sumar tegundir vaxa á mjög stóru svæði. Má sem dæmi nefna að erfðamengi hvítgrenis, Picea glauca, er nokkuð fjölbreytt, enda vex það á mjög stóru svæði (Kole 2007).

Smellið hér til að lesa allan pistilinn

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils sama dag og hann kemur á vef félagsins í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00