Fara í efni
Pistlar

Broddgreni

TRÉ VIKUNNAR - LXXXVIII

Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar voru ýmsar trjátegundir reyndar á Íslandi. Eins og vænta mátti reyndust sumar tegundir vel, en aðrar síður. Ein af þeim tegundum sem þá var dálítið ræktuð kallast broddgreni eða Picea pungens Engelm. og er ættuð úr Klettafjöllum Norður-Ameríku. Hún reyndist standa mörgum öðrum grenitegundum töluvert að baki í vaxtarhraða og þrifum og ræktun hennar lagðist að mestu af. Þó má enn finna tegundina í skógarreitum frá þessum tíma.

Broddgreni er í nokkrum reitum Skógræktarfélagsins og þar setja trén svip á umhverfi sitt. Þau er einnig að finna víðar í skógarreitum frá þessum tíma. Að auki getur hentað að rækta þessa tegund í görðum þar sem það getur talist kostur að tré vaxi ekki of hratt.
 

Af þessum ástæðum viljum við nú skenkja broddgreni nokkra þanka.

 

Broddgreni í Leyningshólum í september 2021. Mynd: Sig.A.

Lýsing

Í heimahögum sínum í Klettafjöllum Bandaríkjanna verður broddgreni allt að 40 metra hátt og þvermál stofnsins getur orðið allt að 1,5 m. Það er nær alltaf einstofna (Eckenwalder 2009). Hér á landi er bgrroddeni hægvaxta en þó er talið að með tímanum geti þau náð að minnsta kosti 20 metra hæð. Í erlendum lýsingum er sagt að krónan sé keilulaga, létt með margar láréttar greinar. Þær geta þó sveigst niður eða upp í endann. Greinarnar eru að jafnaði frekar stuttar, þannig að krónan verður oftast fremur mjóslegin (Eckenwalder 2009). Hér á landi verður krónan þó oft mjög breiðvaxin með tímanum en grannar krónur þekkjast líka.

Aðalgreinar bera margar stuttar hliðargreinar í allar áttir. Nýjar greinar eru hárlausar.
 
 

Börkur broddgrenitrjáa er grófari en á flestum öðrum grenitrjám sem ræktuð eru á Íslandi. Það getur stutt við greiningu tegundarinnar. Þetta broddgreni er í kirkjugarðinum á Akureyri. Mynd: Kristín Elfa Bragadóttir.

Brumin eru gulbrún, snubbótt og 6-12 mm löng. Barrið oftast blágrænt til grágrænt og nokkuð fjölbreytt að lit eftir einstaklingum. Stundum er liturinn jafn dökkgrænn og á til dæmis sitkagreni eða blágreni. Aftur á móti getur barrliturinn einnig verið ljós og mjög bláleitur. Í raun miklu blárri en á blágreni. Þess vegna er broddgreni gjarnan nefnt blue spruce á ensku. Það merkir beinlínis blátt greni eða blágreni. Blái liturinn getur verið í nokkrum tónum og stundum er nánast eins og greinarnar séu hélaðar. Ef gengið er um villta broddgreniskóga ber ekki mikið á þessum bláa hélulit. Flest trén eru græn eins og vera ber. Aftur á móti má stundum finna svona hvítblá tré inn á milli eða í litlum lundum (Clapp & Crowson 2023). Ef til vill er þetta eitthvað svipað og þegar við finnum hvítar lúpínur í lúpínubreiðum. Oftast eru blóm lúpínunnar blá en á stöku stað má oft finna nokkrar hvítblómstrandi. Rétt eins og ljósu grenitrén vekja athygli, vekja hvítar lúpínur athygli þegar þær finnast.

 

Ungt broddgreni í um 170 metra hæð yfir sjávarmáli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Stafafurulundur veitir skjól fyrir norðaustanátt og aspir veita einnig nokkuð skjól. Mynd og upplýsingar: Ari Egilsson. Sjá má á myndinni hvað nálarnar eru stinnar. Á þeim má þekkja broddgreni.

Barrnálarnar eru vaxbornar 1,5 til 3 cm á lengd og vaxa örlítið fram. Nálarnar eru ekki flatar (eins og hjá sitkagreni) heldur ferstrendar og með áberandi loftaugarákum, þrjár til sex á hverri hlið. Nálarnar eru stífar og stingandi. Fræðiheitið pungens kemur úr latínu og merkir skarpur. Það vísar í það hversu skarpar nálarnar eru. Íslenska heitið broddgreni er því bein þýðing á latínuheitinu Picea pungens.

Enn er ónefnt einkenni sem sést á trjám á Íslandi. Svo virðist sem brum broddgrenis opnist seinna á vorin en hjá flestum öðrum grenitrjám. Þetta er áberandi lungann úr júnímánuði ár hvert. Þetta bendir til þess að nánast engar líkur séu á vorkali hjá broddgrenitrjám. Þó er rétt að slá þann varnagla að ef til vill eru til kvæmi hér á landi sem vakna eitthvað fyrr á sumrin en þau tré sem höfundur þessa greinarkorns þekkir.

 

Stoltur ræktandi með broddgreni í fanginu í Sólskógum í Kjarnaskógi. Myndin tekin nálægt sumarsólstöðum árið 2024. Á seinni myndinni sést hvað vöxtur er kominn skammt á veg þótt heggurinn á bakvið sé farinn að strá blómum sínum í kringum grenið. Önnur grenitré í Sólskógum voru komin mun lengra en broddgrenið þegar myndin var tekin. Myndir: Sig.A.

Þrátt fyrir að broddgreni vaxi hátt til fjalla í Norður-Ameríku hefur það ekki hangandi greinar eins og svo algengt er með tré á snjóþungum svæðum. Aftur á móti er krónan fremur grönn í Klettafjöllunum og tekur því ekki mikinn snjó á sig. Eins og að ofan greinir á það ekki alltaf við um eldri tré á Íslandi (Kaflinn að mestu byggður á Eckenwalder 2009).

 

Þrjú broddgreni í Lystigarðinum á Akureyri. Það fyrsta lítur vel út þrátt fyrir endurtekið toppkal sem skilar mörgum toppum. Það er ekki mikið um sig. Miðtréð er ákaflega frjálslegt í vextinum. Sennilega stóð einhver stór runni undir því um tíma sem hefur aflagað vöxtinn. Síðasta myndin sýnir ungt tré við jaðar garðsins. Við hlið þess stendur grasafræðingur Lystigarðsins, Travis Anthony Þrymur Heafield, sem alltaf er boðinn og búinn að veita aðstoð og upplýsingar þegar eftir þeim er leitað. Myndir: Sig.A.

Könglar

Eins og hjá öðrum trjám þallarættarinnar, Pinaceae, myndar hvert tré bæði karlkyns og kvenkyns köngla. Þeir fyrrnefndu eru fallega rauðir og um 20-30 mm stórir. Þeir geta birst nánast um allt tréð.

 

Eins og á svo mörgum grenitegundum eru karlkönglarnir eða karlblómin, mikið augnayndi. Einnig sést að barrið snýr fram og nálarnar eru hvassar. Mynd fengin héðan af síðu Yale.

Kvenkönglar eru að jafnaði 6-10 cm stórir. Þeir eru fyrst grænir en þegar þeir þroskast verða þeir ljósbrúnir. Þá er fyrst og fremst að finna efst í krónum trjánna. Þegar könglarnir opnast og fræin falla er mikill kostur að hafa þá sem hæst í trénu. Það tryggir meiri dreifingu fræjanna. Þetta er vel þekkt hjá flestum, ef ekki öllum, grenitegundum.

 

Lítt þroskaðir könglar á broddgreni. Myndin fengin héðan þar sem sjá má fleiri myndir af könglum.

 

Fullþroskaðir könglar á broddgreni í Kristnesi í Eyjafirði. Hingað til hefur það verið fremur fágætt að sjá broddgreni þroska köngla á Íslandi. Mynd: Helgi Þórsson.

Staða í vist

Broddgreni vex að jafnaði sunnar og neðar í Klettafjöllunum en blágreni en vaxtarstaðirnir geta sem best skarast. Fyrir sunnan útbreiðslusvæði blágrenis getur broddgreni vaxið allt að skógarmörkum.

Tegundina er að finna í um 1.800 til 3.350 m hæð yfir sjávarmáli í ríkjunum Arizona, Colorado, Idaho, New Mexico, Utah og Wyoming í Bandaríkjunum. Stundum vex það á þurrum stöðum innan um önnur barrtré. Ef meiri raki er í boði tekst tegundinni stundum að mynda hreina lundi. Þannig lundi má gjarnan finna nálægt ám í fjöllunum (Eckenwalder 2009). Á slíkum stöðum má stundum finna aspir þar sem yngri broddgrenitré er að finna. Þegar trén eldast og stækka láta aspirnar oftast undan og þá standa eftir hávaxnir grenilundir með glæsileg og beinastofna tré. Það er á svona stöðum sem trén ná mestum og bestum þroska. Hæsta þekkta tré árið 2001 var 38,7 m hátt og með þvermál stofns í brjósthæð upp á 1,5 m. Krónan var 13,1 m í þvermál.

 
 

Stundum getur broddgreni náð góðum þroska þótt jarðvegurinn sé hvorki jög djúpur né frjór. Þarna er þó nægilegt vatn að hafa fyrir grenið. Myndin sýnir ágætlega hversu grannar krónurnar eru að jafnaði hjá villtu broddgreni. Myndin er fengin af síðunni Conifers and Trees of the American West.

Þegar gengið er um þessa hávöxnu skóga má sjá krónur trjánna hátt yfir höfðum ferðalanga. Að ganga um slíka greniskóga er ekki ósvipað og að ganga um stórar, evrópskar dómkirkjur. Birtan, kyrrðin og fegurðin er áþekk.

Þar sem tegundin vex villt í Klettafjöllunum er mest um hin dæmigerðu dökkgrænu tré sem stundum bera bláa tóna. Þau hafa sama lit og flest þau broddgrenitré sem borist hafa til Íslands. Þar heyrir til algerra undantekninga að rekast á villt tré með annan barrlit en þann dökkgræna þótt sumir sjái örlítið blárri lit en algengast er á greni (Peattie 2007 o.fl.).

 
 

Mjóar krónur broddgrenis í Klettafjöllum Norður-Ameríku. Höfundur myndar ókunnur.

Blendingar

Þrátt fyrir að blágreni og broddgreni myndi sárasjaldan blendinga voru þau áður taldar náskyldar tegundir og í eldri heimildum er stundum gert meira úr þessari blöndun en efni standa til. Jafnvel var talið að broddgreni væri aðeins afbrigði af blágreni, enda eru tegundirnar nokkuð áþekkar. Samkvæmt DNA rannsóknum er það alrangt. Broddgreni er skyldara asískum tegundum eins og roðagreni, P. likiangensis og japansgreni, P. jezoensis, en mörgum Norður-Amerískum tegundum að sögn Eckenwalder (2009). Hann greinir einnig frá því að jafnvel í stýrðum tilraunum gangi illa að láta blágreni og broddgreni mynda blendinga en aftur á móti getur broddgreni sem best myndað blendinga með hvítgreni ef tegundirnar eru ræktaðar saman. Náttúruleg útbreiðsla broddgrenis og hvítgrenis skarast ekki svo þetta kemur dálítið á óvart. Sérstaklega þegar haft er í huga að samkvæmt grein eftir nokkra kínverska vísindamenn (Feng o.fl. 2019) kemur fram að hvítgreni og blágreni eru náskyldar tegundir og ekki teljandi munur á hvor þeirra geti verið þróunarfræðilega líkari broddgreni.

Þeir Feng of félagar (2019) taka undir að broddgrenið sé nokkuð fjarskylt nágrönnum sínum í Klettafjöllunum. Þeir skipta öllu greni í fjóra skyldleikahópa (lineage). Í fyrsta hópnum eru japanskar tegundir í fjalllendi í miðhluta Asíu. Þær tegundir standa utan við þessa sögu. Annar hópurinn inniheldur margar evrópskar og asískar tegundir sem vaxa norðar en fyrsti hópurinn. Blágreni og fleiri tegundir eru í þriðja hópnum en broddgrenið í þeim fjórða ásamt tveimur amerískum tegundum sem vaxa ekki í fjalllendi í vesturhluta álfunnar. Meðfylgjandi myndrit sýnir hvernig broddgrenið, ásamt hinum skyldu tegundum, svartgreni og brúngreni, tengjast erfðafræðilega öðrum hópum grenitrjáa.

 
 

Klippa úr stærra myndriti úr grein þeirra Feng og félaga (2019) sem sýnir þróunarfræðilegan skyldleika nokkurra tegunda. Amerísku tegundirnar eru skrifaðar með bláu letri, þær evrópsku með grænu, en asískar með fjólubláu. Þrjár neðstu tegundirnar, broddgreni, P. pungens, brúngreni, P. rubens og svartgreni, P. mariana, eru ekki neitt skyldari öðrum amerískum tegundum en asískum og evrópskum tegundum, ef marka má myndritið.

Frekari rannsókna er þörf til að staðfesta niðurstöður um skyldleika broddgrenis við aðrar grenitegundir að mati Eckenwalder. Rannsóknir Feng og félaga renna stoðum undir margt af því sem hann segir í sinni bók en margt er enn óljóst. Við getum ekki sagt skilið við erfðafræðikaflann án þess að geta þess að allar svona rannsóknir byggjast að hluta til á eldri rannsóknum. Það bætist alltaf við þekkinguna með auknum rannsóknum og betri tækni. Við, Íslendingar, eigum heiðurinn af því að frumathuganir á rannsóknum á erfðamengi grenitrjáa vann dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson í doktorsnámi sínu. Hann átti stóran þátt í að leggja þann grunn sem allar aðrar erfðafræðirannsóknir á genamengi grenitrjáa byggjast á.

Heimkynni broddgrenis (fyrri mynd) samkvæmt Wikipediu. Til samanburðar er útbreiðsla blágrenis (seinni mynd) samkvæmt Wikipediu. Eins og sjá má vex blágreni á miklu stærra svæði en broddgrenið, en útbreiðslustaðirnir skarast. Þegar harðnar á dalnum (eða á fjallatoppunum) virðist blágrenið hafa vinninginn.

Þessi skyldleiki broddgrenis við asískar og evrópskar tegundir vekur upp margar spurningar. Getur verið að forfeður og -mæður broddgrenisins hafi borist frá Asíu? Ef það er þannig: Hvernig og hvenær barst fræ þaðan til Ameríku? Eða barst tegundin upphaflega frá Evrópu og náði til Klettafjallanna úr austri? Er það þá afkomandi þeirra tegunda sem vaxa austar í álfuna? Er það ef til vill afkomandi brúngrenis eða svartgrenis? Getur verið að broddgreni hafi tiltölulega litla útbreiðslu í Ameríku vegna þess að stutt er síðan tegundin þróaðist þar? Hefur það haft styttri tíma til að þróast og breiðast út um Norður-Ameríku en aðrar amerískar tegundir? Ofangreindar spurningar eru bara vangaveltur og við vitum ekki svarið við þeim. Ef til vill munu rannsóknir framtíðarinnar varpa frekara ljósi á þróunarsöguna.

 

Aftan við Valaskjálf á Egilsstöðum vex þessi þyrping broddgrenitrjáa. Mynd: Jón Kr. Arnarson.

Ræktun í útlöndum

Broddgreni, ásamt hvítgreni og rauðgreni, eru þær tegundir grenitrjáa sem ræktaðar eru á stærra svæði og í meira magni en aðrar grenitegundir í norðausturhluta Bandaríkjanna (Eckenwalder 2009). Peattie (2007) bætir því við að í ríkjunum nálægt austurströnd Bandaríkjanna sé tegundin mest ræktaða grenitegundin frá vesturströndinni. Þetta stangast ekki á, því rauðgreni er frá Evrópu og hvítgreni vex í norðurhluta Ameríku. Bæði sitkagreni og blágreni eru frá vesturhluta Norður-Ameríku og hér á landi eru þær mun algengari í ræktun.

 

Víða í Evrópu má sjá ljósleit broddgrenitré við hús. Handan við húsið er miklu dekkri rauðgreni- og þinskógur ásamt ljósari lauftrjám. Þessi mynd er úr Salzburgarlandi í Austurríki. Mynd: Sig.A.

Í Evrópu er tegundin ræktuð töluvert til skrauts og yndisauka. Sennilega er þetta sú grenitegund sem mest er notuð í garðrækt í heiminum en hún er miklu minna ræktuð til skógræktar. Svo algengt er hið ameríska broddgreni í garðrækt að það má jafnvel finna við Kremlarmúra í Moskvu. Þar hefði ef til vill verið meira viðeigandi að planta rauðgreni.

Broddgreni við Kremlarmúra. Fyrri myndin sýnir ljósblá tré við grafhýsi Leníns. Myndin var fengin af Flickr-síðu en höfundurinn kallar sig lemank. Seinni myndin sýnir hvað barrtré geta verið falleg þegar snjór er yfir öllu. Þarna má sjá broddgrenitrén við hið fræga Rauða torg. Myndin fengin héðan af síðu sem Arthur Lookyanov heldur úti.

Fjöldi yrkja er til í ræktun. Flest yrkin voru valin vegna óvenjulegra blágrárra nála. Þess vegna er tréð kallað blágreni á enskri tungu. Þessi bláleitu tré eru ræktuð í görðum beggja vegna Atlantshafs og í raun alls staðar þar sem trén þrífast. Liturinn getur verið á öllu litrófinu frá grænbláu og yfir í nánast bláhvítt. Stundum eru þessi ljósu tré flokkuð sem sérstakt litaafbrigði sem kallast glauca. Það er samt ekki yrkisheiti, þótt stundum sjáist það notað þannig. Nær er að kalla þetta staðbrigði eða tilbrigði. Þegar slík tilbrigði eru nefnd í fræðiheitum eru þau kölluð forma og oftast er látið duga að skammstafa þetta með bókstafnum f. Því ætti að standa Picea pungens f. glauca.

Til eru mörg yrkisheiti og þá er glauca oft haft sem hluti af nafninu. Má nefna sem dæmi: Picea pungens 'Glauca Globosa' sem alltaf verður runni.

 

Eitt af fjölmörgum yrkjum í útlöndum af broddgreni heitir 'Glauca Globosa' og er svona ljómandi laglegt. Myndin fengin héðan.

Við vitum ekki til þess að ræktun þessara Glauca-trjáa hafi heppnast að neinu marki á Íslandi, en þau eru auðþekkt ef þið rekist á þau í útlöndum. Samt er sennilega betra að forðast árekstur, því öll yrkin stinga. Hér á landi eru þó til frætré af svona trjám en þau þurfa ekki endilega að fá þennan ljósa lit, enda stunda grenitré kynæxlun. Við hana verður uppstokkun erfðaefnis þannig að afkomendurnir geta haft aðra svipgerð en foreldrarnir. Einnig má á fáeinum stöðum, meðal annars í Leyningshólum, sjá ljós tré innan um þau dökku. Ef til vill má taka af þeim græðlinga og fjölga kynlaust eða græða á stofn af öðru greni. Slíkir einstaklingar ættu að halda litnum.

Broddgreni, Picea pungens f. glauca við Wolfgangsee í Austurríki. Myndir: Sig.A.

Þar sem undirritaður hefur séð þessi tré í Evrópu eru þau oftast stök eða fá saman í görðum og oft innan um önnur tré. Þannig setja þau mikinn lit á umhverfi sitt. Í Bandaríkjunum eru þau einnig ræktuð sem stakstæð tré, ein sér eða í blönduðum beðum, en þau eru líka notuð í þétt og vel klippt limgerði að sögn Peattie (2007). Þannig limgerði hefur sá er þetta ritar hvergi séð.

Í garðrækt virðist tegundin geta vaxið við fremur fjölbreytt skilyrði. Það getur vel passað ef tekið er mið af vaxtarstöðum tegundarinnar í Klettafjöllunum eins og sagt er frá í kaflanum hér að framan. Þar finnast trén í fjölbreyttri vist.

Tvær myndir af broddgreni úr ræktun Sveins Þorgrímssonar í Deild í Fljótshlíð. Fyrri myndin sýnir plöntu þar sem fræ var tekið af f. glauca. Það tré var gróðursett árið 2015 og er nú um 1,7 m á hæð. Seinni myndin sýnir kvæmið Arizonica. Fræið var tekið í Apache National Forest á verndarsvæði Apache Reservation í Arizona. Trén á myndinni voru gróðursett árið 2017 og eru nú um 1,5 m á hæð. Þótt það sjáist ekki vel á myndinni eru þessi tré mun blárri en trén á fyrri myndinni. Í báðum tilfellum voru trén í forræktun í um 2 til 3 ár fyrir gróðursetningu. Myndir og upplýsingar: Sveinn Þorgrímsson.

Notkun á Íslandi

Fyrst var broddgreni reynt á Íslandi árið 1936. Þá var því plantað á Hallormsstað, í Múlakoti og Skorradal og þaðan breiddist það nokkuð um landið (Ásgeir 1989). Á 6. og 7. áratug síðustu aldar var töluvert gróðursett af broddgreni á Íslandi. Það reyndist almennt frekar illa. Að auki vex það hægar en margar aðrar grenitegundir og þar sem það var gróðursett í rýra lyngmóa þreifst það ekki. Sennilega er sumarið heldur í svalara lagi fyrir tegundina hér á landi. Því er ekki talin ástæða til að mæla með tegundinni til skógræktar og alls ekki í skógrækt á skjóllausu landi þar sem lyng er ríkjandi tegund í sverði. Aftur á móti eru til nokkrir einstaklingar, frá þessum tíma, sem náð hafa sæmilegum eða jafnvel góðum þroska. Þeir setja svip sinn á skóga frá þessum tíma. Einkum á þetta við á Norður- og Austurlandi.

Þegar haft er í huga hversu hægt tegundin vex gefur það vonir um að hún geti hentað í garðrækt.

 

Tvö broddgrenitré í Hallormsstað. Þar var þeim fyrst plantað á Íslandi. Myndirnar teknar við sumarsólstöður árið 2024 en vöxtur trjánna er ekki hafinn. Myndir: Skúli Björnsson.

Það er gott að hafa í huga að vegna þess hversu íslensk sumur eru svöl getur þurft að gefa ungum trjám sérstakan gaum. Það er óvíst að þau hafi lokið vexti sínum og þroska á haustin þegar fyrstu frostin koma. Því getur þurft að verja ung tré fyrir frostskemmdum, til dæmis með því að skýla þeim með striga eða öðru tiltæku. Þegar trén eldast dregur úr hættu á skemmdum.

Í einum garði við Kringlumýri á Akureyri eru nokkur broddgreni. Eins og sjá má er eitt af þeim stakstætt og mjög fallegt. Hin hafa karakter. Myndir: Sig.A.

Hin svölu, stuttu sumur valda því að mörg tré, einkum ung tré, verða oft fyrir haustkali. Það getur aflagað vöxt trjánna. Einnig eru til fullorðin tré í ræktun sem eru með marga toppa eftir kal að hausti á efri árum. Framar í þessum pistli eru myndir af broddgreni í Lystigarðinum og eitt þeirra trjáa hefur ágætlega formaða krónu en fjölmarga toppa.

Broddgreni í Akureyrarkirkjugarði. Endurtekið haustkal hefur aflagað vöxtinn. Þess vegna hefur það ekki jafn fallegt vaxtarlag og hitt grenið á myndinni. Mynd: Kristín Elfa Bragadóttir.

Almennt má segja að tegundin sé mjög kuldaþolin yfir vetrarmánuðina eftir að sumarvexti er lokið. Því þarf ekki að hafa áhyggjur af vetrarkuldum að öllu jöfnu. Þetta á reyndar við um margar tegundir sem eru í ræktun á Íslandi. Það er sjaldan þannig að veturnir séu of kaldir, heldur er það skortur á sumarhita sem reynist trjánum erfiður þröskuldur, eða umhleypingar á vetrum.

 

Þétt og fallegt broddgrenitré í sumarbústaðalandi í Stóra-Lambhaga ofan við Akranes. Tréð var gróðursett árið 2003 og vex hægt. Mynd og upplýsingar: Sólveig Jónsdóttir. Svona tré eru til mikillar prýði þótt þau keppi ekki við aðrar grenitegundir þegar kemur að hefðbundinni skógrækt. Eins og sjá má er vöxtur sumarsins varla farinn af stað, ólíkt greninu á bak við það. Í forgrunni er allaufguð súlublæösp sem komin er með sumarlitinn sinn.

Broddgreni í reitum félagsins

Í fræskrá Skógræktarfélagsins má sjá hvar og hvenær broddgreni var plantað í reiti félagsins. Upp úr 1970 lagðist það alveg af, en næstum allt broddgrenið er af kvæminu Sapinero.

Í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar í ritstjórn Bjarna E. Guðleifssonar (2000), eru teknar saman upplýsingar um alla reiti félagsins og því þurfum við ekki að fara yfir alla fræskrána til að finna hversu miklu hefur verið plantað af broddgreni. Þegar þessar tölur eru skoðaðar og þær bornar saman við trén í skógræktarreitunum sést að afföll af broddgreninu hafa verið frá því að vera mikil og upp í það að vera mjög mikil. Þess vegna er fjöldi plantna í hverjum reit heldur í minna lagi um þessar mundir ef tekið er tillit til þess hversu mörgum trjám var upphaflega plantað.

Við segjum nú frá þessum gróðursetningum og hversu mörgum plöntum var plantað á hverjum stað.

Vaðlaskógur 570 plöntur

Við höfum birt sérstakan pistil með myndum sem teknar voru í reitnum á 6. áratug síðustu aldar. Þar má sjá bláleitt greni á nokkrum myndum sem okkur sýnist vera broddgreni. Þeim var plantað í Vaðlaskóg á meðan hann var enn Vaðlareitur.

Smám saman fækkaði trjánum og hin síðari ár hafa sum þeirra einfaldlega orðið undir í samkeppninni. Enn má þó finna nokkur broddgrenitré í skóginum. Við höfum einnig birt pistil um Hálogalundi í skóginum, þar sem ýmsum barrtrjám var plantað á árunum 1937-1939. Þar er sagt nánar frá afdrifum broddgrenisins.

Mynd úr bókinni Ásýnd Eyjafjarðar af broddgreni og reynivið í Vaðlaskógi. Mynd: Aðalsteinn Svanur Sigfússon.

Hánefsstaðir 2975 plöntur 

Þrátt fyrir þennan fjölda sem plantað var eru nú aðeins fáar plöntur af þessari tegund í skóginum. Þeim hefur farið nokkuð fram hin síðari ár en vekja hvorki athygli fyrir fegurð né tilkomumikinn vöxt. Öðru nær. Þau eiga samt sinn tilverurétt og setja svip á reitinn.

 

Broddgreni á Hánefsstöðum. Gárungarnir segja að þekkja megi broddgreni á Íslandi frá öðru greni á því að það sé einfaldlega ljótara. En fegurð er afstæð. Mynd: Sig.A.

Miðhálsstaðaskógur 5400 plöntur

Þetta er þónokkur fjöldi en sennilega er þetta vanmat. Í einum reit í skóginum, þar sem skráð er að blágreni hafi verið plantað, má finna nokkuð mörg broddgreni. Þau standa flest blágreninu töluvert að baki. Þar sem útbreiðsla blá- og broddgrenis getur skarast er ekki ósennilegt að fræið hafi einfaldlega verið tekið af svæði þar sem einmitt þannig háttar til. Þess vegna eru báðar tegundirnar í partýinu. Að auki má finna nokkur broddgreni í skóginum sem voru rétt greind í upphafi. Þau hafa goldið þess að vaxa verr en aðrar grenitegundir.

Kjarnaskógur 9000 plöntur
 

Finna má broddgreni á nokkrum stöðum í Kjarnaskógi. Afföll hafa greinilega orðið mikil því víðast hvar eru þau núna stök eða aðeins fá saman innan um önnur tré. Óvíst er að nokkurt þeirra geti nokkurn tímann gert tilkall til verðlauna í fegurðarsamkeppni trjáa, frekar en önnur broddgreni í reitum félagsins.

Einar einmana situr einn framan við broddgreni í Kjarnaskógi. Þeir sem vita hvar viðarstyttan er geta auðveldlega fundið þetta dökka greni. Á neðri myndinni sést að þetta eru ekki fegurstu trén í skóginum. Ef til vill má fara með þessar ljóðlínur þegar þessi frjálslegi vöxtur er skoðaður: „Prúð og frjálsleg í fasi / fram nú allir í röð.“ Myndir: Sig.A.

Leyningshólar 13.000 plöntur

Fyrir löngu höfum við lagt af þann sið að planta trjám í Leyningshóla. Þar er fyrst og fremst að finna náttúrulegt birki sem vaxið hefur þar af sjálfsdáðum og var bjargað frá útrýmingu á síðustu stundu.

Engri tegund hefur verið plantað í hólana í jafn miklu magni og broddgreninu. Í öðru sæti er lerki með 8000 plöntur. Er það mun meira áberandi en þessir smáslattar af broddgreni sem þarna má finna. Það vekur athygli að sumu af greninu var plantað í mjög þurrt land. Þar lifir það núna alveg þokkalega en vex hægt. Annað, sem þarna vekur athygli, er að finna má örfá tré sem gætu gert tilkall til að teljast til ljósa tilbrigðisins eða forma glauca. Það er gaman að sjá þau innan um dekkri trén.

 

Broddgreni á þurrum stað í Leyningshólum. Sjá má f. glauca innan um dekkri tré. Upphafsmynd pistilsins er einnig tekin í Leyningshólum. Mynd: Sig.A.

Að auki vitum við fyrir víst að broddgreni var plantað í Kóngsreit í Skíðadal, Vöglum á Þelamörk og sjálfsagt víðar í Eyjafirði. Ekkert broddgreni er á Laugalandi á Þelamörk, enda var ekki farið að planta þar á vegum félagsins fyrr en 1981 en þá var skógrækt með broddgreni aflögð. Það er ekki heldur í Naustaborgum þar sem gróðursetning hófst árið 1985.

Einhverra hluta vegna var broddgreni aldrei plantað í Garðsárreit, ef marka má Ásýnd Eyjafjarðar. Þó var plantað þar á þeim tíma sem broddgrenið var í tísku sem skógartré.

 

Broddgreni í Kristnesi í Eyjafirði. Fyrirsætan er hinn tveggja ára Ásbjörn Björnsson. Myndir: Helgi Þórsson.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00