Fara í efni
Umræðan

VERÐUR KOSIÐ UM GRAS?

Eins og oft áður eru málefni íþróttafélaga og uppbygging íþróttamannvirkja áberandi í aðdraganda kosninga og nú er umræða um ástand gervigrasvalla afar hávær.

Nýlega kom fram fyrirsögn sem hljóðaði eitthvað á þá leið að stuðningsfólk KA og Þórs þyrftu að hugsa sig um í kjörklefanum og í greininni var áréttað að bæjaryfirvöld þurfi að rífa sig í gang. Þetta er gripið upp úr umræðu um þessi mál sem hafa verið sérstaklega áberandi á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga og virðast hafa magnast þegar leikmaður Stjörnunnar varð fyrir meiðslum í Boganum nýverið og ástandi vallarins kennt um.

En aðeins að ástandi Bogans. Það eru ekki nema rúmlega fimm ár síðan skipt var um gras í Boganum, eða síðla árs 2016. Á þeim tíma var gerð mikil úttekt á því hvaða gras myndi best henta og vonir bundnar við að grasið myndi duga næstu 10 árin. Svo virðist sem að grasið sé ekki jafn endingargott og gert var ráð fyrir. Hvort um er að kenna umhirðu, ofnotkun, lélegu undirlagi eða jafnvel galla skal ósagt látið en hins vegar höfum við tekið þessum athugasemdum alvarlega og hefur verið brugðist við með aðgerðum. Viðgerðum er nýlokið á grasinu, nýtt viðhaldsplan verið sett upp og kallað hefur verið eftir úttekt á grasinu frá óháðum aðila, sem vænta má á næstu dögum. Hvað kemur út úr þeirri úttekt mun væntanlega ráða næstu skrefum í málinu en Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar hefur lagt til að farið verði í endurnýjun á gervigrasi í Boganum á árinu 2023 og tillit verði tekið til þess í fjárhagsáætlun nú í haust.

Í umræðu um málið virðist sem að aðilum sé lítt kunnugt um þær framkvæmdir sem eru að hefjast á KA svæðinu, en þær eru liður í metnaðarfullri uppbyggingaráætlun íþróttamannvirkja . Gert er ráð fyrir að skipta um gervigras á æfingavelli félagsins á sama tíma og núverandi gras verður sett upp á svokölluðum Nývangi sem er í suðvesturhorni svæðisins og nýtt til léttari æfinga og á framkvæmdum þessum á að vera lokið fyrir 1. júní nk.

Því liggur fyrir að strax í sumar verður komið nýtt gervigras á æfingavöll KA sem er sérstaklega valið út frá gæðum og endingu og í nánu samráði við KA. Sem dæmi má nefna að þessi tegund af grasi hefur nýlega verið sett á Valsvöllinn og í nýtt knatthús í Garðabæ. Í framhaldinu mun svo sama tegund af gervigrasi vera komin á nýjan aðalvöll KA á árinu 2023. Verða því strax á næsta ári komnir tveir gervigrasvellir á KA svæðinu í hæsta gæðaflokki auk þess sem eldra gras verður áfram í notkun.

Með þeirri þróun sem orðið hefur á gervigrasi á undanförnum árum, þróun sem hefur verið ótrúlega hröð, hefur margt lærst. Fyrir liggur að með því álagi sem við erum að setja á þessa velli þarf væntanlega að gera ráð fyrir örari endurnýjun og ekki síður að huga betur að viðhaldi. Til þess að mæta þessu hefur nýverið verið samþykkt að kaupa sérstaka vél með búnaði til umhirðu á öllum völlunum og vonandi mun það bæta endingu og viðhalda gæðum þeirra.

Vissulega hefði ástand knattspyrnuvalla hér á Akureyri mátt vera betra á síðustu árum og um það er ekki deilt. Breyttar áherslur knattspyrnuhreyfingarinnar um uppbyggingu gervigrasvalla samhliða sífellt aukinni þróun þeirra hafa magnað kröfurnar og tímabundið ýkt aðstöðumun einstakra félaga. En með framkvæmdum á KA-svæðinu sem og með endurnýjun á gervigrasvelli í Boganum verður Akureyrbær með í rekstri þrjá gervigrasvelli í hæsta gæðaflokki jafnvel strax á næsta ári.

Því má spyrja sig, þegar öllu er botninn hvolft, hvort við séum ekki að gera nokkuð vel og kjósendur hafi jafnvel um annað og fleira að hugsa þegar þeir koma inn í kjörklefann í vor.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson er formaður bæjarráðs Akureyrar. Eva Hrund Einarsdóttir formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrar.

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30