Fara í efni
Umræðan

Gert ráð fyrir 1,4 milljarða afgangi af rekstri bæjarins

Hrísey, „miðbær“ sveitarfélagsins Akureyrarkaupstaðar, þar sem Grímsey er þá „norðurbærinn“ og hin hefðbundna Akureyri „suðurbærinn“. Mynd: María Helena Tryggvadóttir

Gert er ráð fyrir rúmlega 1,4 milljarða afgangi af rekstri Akureyrarbæjar á næsta ári skv. fjárhagsáætlun fyrir 2025 sem lögð var fram til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í gær. Bæjarstjórn Akureyrar fundaði þá í Hrísey af því tilefni að um þessar mundir eru 20 ár síðan Akureyrarkaupstaður og Hríseyjarhreppur sameinuðust.

Rekstrarafkoma A- og B-hluta er áætluð jákvæð um 1,4 milljarða króna eftir fjármagnsliði og tekjuskatt, en gert er ráð fyrir að um 242 milljóna króna tap verði á A-hluta sveitarfélagsins.

  • Til A hluta telst sveitarsjóður, sem er aðalsjóður sveitarfélagsins, auk annarra sjóða og stofnana er sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti eru fjármögnuð með skatttekjum. Auk aðalsjóðs er um að ræða Eignasjóð gatna o.fl., Fasteignir Akureyrarbæjar og Framkvæmdamiðstöð.
  • Til B hluta teljast stofnanir sveitarfélagsins og fyrirtæki sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu sveitarfélagsins og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri segir á vef sveitarfélagsins að áætlunin endurspegli „þann mikla kraft sem búi í sveitarfélaginu og að fram undan sé mikil uppbygging á flestum sviðum.“

Hún segir: „Hér horfir að mínu mati allt til betri vegar með lægra skuldahlutfalli og sterkum fjárhag Akureyrarbæjar. Það býr mikill slagkraftur í samfélagi okkar sem verður nýttur til að byggja upp félagslega innviði á næstu árum eins og verið hefur.“ 

Bæjarstjórn ásamt bæjarstjóra á fundinum í Hrísey í gær. Frá vinstri: Hulda Elma Eysteinsdóttir, Ásthildur Sturludóttir, Ásrún Ýr Gestsdóttir, Hlynur Jóhannsson, Halla Björk Reynisdóttir, Gunnar Már Gunnarsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Lára Halla Eiríksdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Jón Þorvaldur Heiðarsson, Jón Hjaltason og Heimir Örn Árnason. Mynd af vef Akureyrarbæjar.

Áhyggjuefni að A-hluti sé ekki sjálfbær

Þrír bæjarfulltrúar minnihlutans, Framsóknarmennirnir Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson, og Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, létu bóka eftirfarandi:

„Venju samkvæmt eru mörg brýn og jákvæð verkefni í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Hins vegar er áhyggjuefni að ekki sé gert ráð fyrir sjálfbærum rekstri A-hluta næstu fjögur árin, þrátt fyrir mikla tekjuaukningu sveitarfélagsins. Samkvæmt áætluninni stefnir í taprekstur af aðalsjóði um rúman milljarð á næsta ári og gert ráð fyrir áframhaldandi taprekstri næstu ár. Veltufé frá rekstri og handbært fé fer jafnframt lækkandi, á sama tíma og líklega aldrei hefur verið framkvæmt jafn mikið og fyrirhugað er á næsta ári, en stefnt er að lántöku upp á 1700 m.kr. í óhagstæðu vaxtaumhverfi. Þrátt fyrir að fyrirhugað sé að framkvæma mikið, eru engar framkvæmdir þess eðlis að þær séu líklegar til að draga úr rekstrarkostnaði til framtíðar, heldur þvert á móti auka hann. Þá er áhyggjuefni að ekki séu á áætlun framkvæmdir sem gætu mögulega komið í veg fyrir fjárhagslegt tjón í framtíðinni t.d. endurbætur á þaki Síðuskóla og Ráðhússins. Þess utan er áhyggjuefni að á áætluninni er ekki gert ráð fyrir bættum húsakosti leikskólans Lundarsels, sem er löngu tímabært.“

Hér eru helstu punktar úr fjárhagsáætluninni:

  • Skatttekjur sveitarfélagsins eru áætlaðar rúmir 20 milljarðar, tekjur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga rúmir 6 milljarðar og aðrar tekjur rúmlega 13 milljarðar króna. Heildartekjur eru áætlaðar um 39,4 milljarðar króna.
  • Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi samstæðunnar mun veltufé frá rekstri nema 5,6 milljörðum króna.
  • Fjárfestingahreyfingar nema samtals tæpum 5,9 milljörðum en fjármögnunarhreyfingar 678 milljónum.
  • Áætlað er að afborganir langtímalána verði 1,7 milljarðar en ný langtímalán eru áætluð 2,5 milljarðar króna. Handbært fé sveitarfélagsins í árslok er áætlað 2,6 milljarðar króna.
  • Heildarlaunagreiðslur ásamt launatengdum gjöldum hjá samstæðunni eru áætlaðar 20.715 milljónir – 20,7 milljarðar króna. Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins, í hlutfalli við rekstrartekjur þess, eru áætluð 52,6%. Annar rekstrarkostnaður er áætlaður 30,2% af rekstrartekjum.
  • Skatttekjur sveitarfélagsins og tekjur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru áætlaðar um 1,3 milljónir króna á hvern íbúa en tekjur samtals 1,9 milljónir á hvern íbúa. Árið 2024, skv. útkomuspá, eru skatttekjur ásamt tekjum frá Jöfnunarsjóði áætlaðar um 1,2 milljónir á hvern íbúa og heildartekjur um 1,8 milljónir króna.
  • Áætlað er að eignir sveitarfélagsins í efnahagsreikningi 31.12.2025 verði bókfærðar á 73,6 milljarða en þar af eru veltufjármunir tæplega 7 milljarðar króna.
  • Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum nema þá samkvæmt efnahagsreikningi 44,3 milljörðum en þar af verða skammtímaskuldir um 6,7 milljarðar króna.
  • Áætlað er að heildareignir á hvern íbúa nemi um 3,5 milljónum króna og heildarskuldir verði um 2,1 milljón króna.
  • Veltufjárhlutfallið er áætlað 1,04 í árslok 2025 en er áætlað 1,09 í árslok 2024.
  • Bókfært eigið fé er áætlað að verði 29,3 milljarðar króna í árslok 2025. Eiginfjárhlutfall í árslok er áætlað að verði 39,7%.

Seinni umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fer fram í bæjarstjórn 3. desember.

Glærukynning á fjárhagsáætluninni

Smellið hér til að sjá frumvarp til fjárhagsáætlunar í heild

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00