Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis á erindi við þig

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis, KAON, er félag til almannaheilla (góðgerðarfélag) sem rekið er fyrir frjáls framlög frá almenningi og fyrirtækjum. Félagið er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélags Íslands og fær hluta sinna framlaga frá Velunnurum þess en að öðru leyti berast framlög beint til félagsins. Þar á meðal eru árgjöld félagsmanna sem eru mjög mikilvægur grunnur í rekstri félagsins. Fyrir velvilja og stuðning allra þessara aðila, fyrirtækja og einstaklinga, hefur félaginu tekist að byggja upp góða þjónustu við fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur þeirra. Fyrir þennan stuðning erum við þakklát.
Um þriðjungur Íslendinga fær krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Lífshorfur fara þó stöðugt batnandi, ekki síst vegna framfara í meðferð og áherslu á að greina meinið nógu snemma. Þegar horft er til framtíðar erum við að horfa til mikillar aukningar í greiningu krabbameina. Samkvæmt spám munu árið 2040 tæplega 3000 manns greinast með krabbamein hér á landi, sem er 57% hlutfallsleg fjölgun á nýjum tilfellum miðað við um 1900 greiningar árið 2022. Veigamesta ástæðan liggur í aldursbreytingu í samfélaginu. Meðalaldur fer hækkandi. Þrátt fyrir að nýgreiningum hafi fjölgað á síðastliðnum árum þá hefur fjöldi þeirra sem látast lítið breyst. Það þýðir að hlutfallslega fækkar þeim sem látast af völdum krabbameina. Það er áhyggjuefni að vissar tegundir krabbameina færast í aukana í yngri aldurshópum.
Ljóst má vera að bregðast þarf við til að hægt sé að veita þeim sem greinast nauðsynlega þjónustu og stuðning. Að greinast með krabbamein hefur margvísleg áhrif á líf fólks. Ekki bara líkamlega heldur einnig andlega. Mörg okkar hafa haft einhver kynni af krabbameini, hjá ættingja eða vini, jafnvel á eigin skinni. Þegar þessi óvelkomni gestur bankar upp á er mikilvægt að hafa aðgang að öflugri stuðningsþjónustu á heimaslóðum.
Á vegum KAON er margvísleg þjónusta í boði. Við erum svo lánsöm að hjá KAON eru starfandi ráðgjafar á vegum Krabbameinsfélags Íslands. Eftirspurn eftir þjónustu þeirra hefur farið jafnt og þétt vaxandi, enda mikilvæg bæði fyrir þá sem greinast með krabbamein og ekkert síður fyrir aðstandendur. Jafningjahópar eru starfandi fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein, bæði kvenna- og karlahópar. Félagið stendur fyrir margháttaðri fræðslu, s.s. fræðslufundum, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands. Félagið stendur einnig fyrir forvarnarstarfi og hefur m.a. styrkt leikskóla á svæðinu með sólarvörn fyrir börnin. Við mundum gjarnan vilja bæta í þennan þátt í starfinu. Félagsmenn sem hafa lokið meðferð eiga ekki jafn marga kosti til endurhæfingar og þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þó reynum við að gera okkar besta í endurhæfingarferlinu, meðal annars í hópastarfi og með því að bjóða upp á Yoga Nidra í samstarfi við Sjálfsrækt sem hefur vakið mikla ánægju.
Ástæða er til að vekja athygli á því að félagið veitir dvalarstyrki til félagsmanna sem þurfa að sækja þjónustu um lengri veg, s.s. þeirra sem þurfa geislameðferð sem einungis er veitt á Landspítalanum. Dvalarkostnaður þeirra sem þurfa að dvelja fjarri heimili sínu um lengri tíma getur orðið mjög íþyngjandi. Þá er félagið í samstarfi við Eirberg um þjónustu, t.d. fyrir konur eftir brjóstnám. Loks skal nefnt að félagið hefur í vissum tilvikum stutt við kaup á búnaði á heilbrigðisstofnanir sem nýtast þeim sem glíma við krabbamein.
Auk þeirrar þjónustu sem nefnd hefur verið þá stendur KAON af og til fyrir stærri viðburðum s.s. í tengslum við Bleikan október og Mottumars. Við vekjum einnig athygli á Facebook síðu félagsins sem veitir góða innsýn í starfsemina. Það gefur augaleið að það er ómetanlegt að hafa þessa þjónustu í heimabyggð eða sem næst henni. Sá mikli stuðningur og velvild sem KAON nýtur er ómetanlegur. Á okkur sem stýrum félaginu, stjórn og starfsfólki, hvílir sú ábyrgð að fara vel með þá fjármuni sem okkur er treyst fyrir og nýta þá til að veita sem besta þjónustu við þá sem glíma við krabbamein og þeirra nánustu.
Við vonum að þið sem ekki eru þegar skráð í félagið séuð tilbúin að leggja okkur lið í að byggja áfram upp öfluga þjónustu og skrá ykkur í félagið. Hægt er að skrá sig hér: https://www.kaon.is/is/styrkja-starfid/skraning-i-felagid Einnig er hægt að hafa samband í síma 461-1470. Árgjaldið er 4.800 kr. Við bendum einnig á flipann Styrkja starfið á heimasíðunni kaon.is þar sem vakin er athygli á fleiri leiðum til að styðja við félagið.
Pétur Þór Jónasson er formaður KAON, Inga Bára Ragnarsdóttir er varaformaður KAON


Hörmungarástand við Lundargötu

Samfélagssáttmáli íbúa um samfélagsmiðlanotkun- og skjátíma barna

Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Það er vá fyrir dyrum – Börnin okkar
