Velferð fyrir alla – líka öryrkja
Undanfarnar vikur hafa streymt inn greinar um hin og þessi málefni þar sem stjórnmálaflokkar lofa að auka og bæta þjónustu gagnvart íbúum Akureyrar. Flestir tala um þéttingu byggðar og skipulagsmál, varla nokkuð annað kemst að. Flokkur fólksins virðist vera eini flokkurinn sem hefur það á sinni stefnuskrá að auka velferð öryrkja hér á Akureyri. Það er nefnilega ekki eingöngu ríkið sem þarf að bæta kjör öryrkja heldur líka sveitarfélagið.
Engin ákveður að verða öryrki þegar hann verður stór eins og margir virðast halda. Fólk veikist á lífsleiðinni eða lendir í slysi. Hver sem er, getur lent í þeim sporum og það eitt er mikið áfall og erfitt að sætta sig við. Öryrkjar er fjölbreyttur og breiður hópur einstaklinga. Sumir glíma við andleg veikindi sem hindrar þá í atvinnuþátttöku og aðrir glíma við erfiða sjúkdóma og sjaldnast stendur það utan á þeim hvað það er sem hrjáir þá.
Flestir eru sammála um að það sé þjóðfélagslega hagkvæmt að reyna að virkja öryrkja upp að því marki sem þeir treysta sér til en það verður alltaf að vera á forsendum þeirra sjálfra. Akureyrarbær gæti auðveldlega komið eitthvað til móts við þennan hóp t.d. í formi menningarkorta eins og tíðkast í Reykjavík. Þá fá öryrkjar kort frá borginni sem veitir þeim frían aðgang að söfnum og sýningum. Með því er reynt að draga úr einangrun þeirra og auka virkni. Að sama skapi væri hægt að veita öryrkjum hreyfi- og tómstundastyrki sem þeir gætu nýtt sér til uppbyggingar á sál og líkama. Í Reykjavík fá öryrkjar frítt bókasafnskort og það ætti að vera auðvelt að koma því í framkvæmd á Akureyri. Öryrkjar fá frítt í sund og það má hæla Akureyrarbæ fyrir það framtak en það væri mikið framfaraskref að öryrkjar fengju líka frían skíðapassa eins og tíðkast bæði í Bláfjöllum og Skálafelli. Öryrkjar hafa þörf fyrir hreyfingu og félagslega þátttöku eins og aðrir en það kostar mikið að fara á skíði þannig að fæstir geta leyft sér það því að flestir öryrkjar eiga erfitt með að ná endum saman. Akureyrarbær hefur gefið öryrkjum afslátt á fasteignagjöldum og væri auðveldlega hægt að hafa þann afslátt meiri til að létta undir með þeim.
Því má ekki gleyma að öryrkjar eiga oftast börn. Þau börn þurfa að eiga rétt á hærri tómstundastyrk en börn foreldra sem geta aflað fullra tekna. Samkvæmt rannsóknum segist þriðjungur öryrkja ekki geta greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda barna sinna og sama hlutfall segist ekki geta veitt börnum sínum næringarríkan mat. Það að skapa börnum þær aðstæður að alast upp við fátækt skaðar íslenskt samfélag til framtíðar. Það þarf að gera betur og koma til móts við barnafjölskyldur þar sem foreldrar eru á örorku.
Málefni öryrkja á Akureyri er eitt af stóru stefnumálum Flokks fólksins í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ef Akureyrarbær ætlar að geta kallað sig velferðarbæ þá verður að koma til móts við þarfir öryrkja og reyna af öllum mætti að hvetja þá frekar en letja. Flokkur fólksins mun beita sér fyrir bættum hag öryrkja og fjölskyldna þeirra því að Akureyri á að vera fyrir alla - líka öryrkja.
Málfríður Þórðardóttir skipar 2. sæti á lista Flokks fólksins í komandi sveitarstjórnarkosningum