Fara í efni
Umræðan

Stoðþjónusta í skólum á Akureyri okkar allra

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri leggur ríka áherslu á að stoðþjónusta leik- og grunnskóla færist í auknum mæli inn í skólana sjálfa þannig að nemendur fái viðeigandi þjónustu sérfræðinga, s.s. talmeinafræðinga, sálfræðinga og þroskaþjálfa innan veggja skólans. Einnig er mikilvægt að kennarar hafi greiðan aðgang að stuðningi og ráðgjöf hvort heldur sem er kennsluráðgjafa eða annarra fagstétta.

Í starfi mínu sem námsráðgjafi síðastliðin tæp þrjú ár hef ég fundið svo vel þörfina fyrir ráðgjöf og aðstoð við börnin okkar. Mörgum þeirra líður því miður illa og margt sem hefur áhrif þar á, til að mynda námsleg staða, einbeitingarörðugleikar og andleg vanlíðan sem síðan getur haft áhrif hvað á annað. Við kennarar búum yfir sérfræðiþekkingu á námi og kennslu barna en þrátt fyrir hana getur verið nauðsynlegt að fá kennslufræðilega ráðgjöf okkur til stuðnings og börnunum til aðstoðar.

Einn er sá nemendahópur sem fer ört stækkandi en það eru börn með íslensku sem annað tungumál (ÍSAT). Það er hópur sem við þurfum að huga vel að. Íslenska sem annað tungumál er nú komin inn sem námsgrein í Aðalnámskrá grunnskóla. Við þurfum að tryggja að þessir nemendur fái góða kennslu í greininni og að kennarar fái ráðgjöf í tengslum við þá kennslu. Einnig eru í þessum hópi einstaklingar, til að mynda börn flóttafólks, sem koma úr mjög erfiðum aðstæðum og því þarf að huga sérstaklega vel að líðan og aðlögun þeirra í samfélaginu.

Með farsældarlögunum er verið að stuðla að snemmtækri íhlutun og meiri samvinnu þeirra sem að börnunum koma. Ég fagna því. En í mínum huga er það ekki nóg. Okkur vantar faglega ráðgjöf við starfsfólk skóla og ekki síður að börnin fái aðstoð annarra fagstétta en okkar kennara inni í skólunum. Þá er ég með í huga t.d. sálfræðinga, þroskaþjálfa, talmeinafræðinga og fjölskylduráðgjafa og/eða félagsráðgjafa. Ég þekki það af eigin reynslu að hafa sálfræðing sem starfsmann skóla um fimm ára bil. Þörfin fyrir aðstoð hans var mikil og dýrmætt að hafa hann innan skólans, bæði fyrir nemendur og einnig fyrir starfsfólkið.

Styðjum vel við börnin á Akureyri okkar allra.

Lára Halldóra Eiríksdóttir skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á morgun.

Afgangur og þrír þræðir jarðtengingar

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
15. apríl 2025 | kl. 16:00

Bjánarnir úti á landi

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson skrifar
15. apríl 2025 | kl. 12:53

Styrk stjórn gefur góðan árangur

Ásthildur Sturludóttir skrifar
11. apríl 2025 | kl. 17:00

Hörmungarástand við Lundargötu

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
11. apríl 2025 | kl. 10:45

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis á erindi við þig

Pétur Þór Jónasson og Inga Bára Ragnarsdóttir skrifa
08. apríl 2025 | kl. 11:45

Samfélagssáttmáli íbúa um samfélagsmiðlanotkun- og skjátíma barna

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
07. apríl 2025 | kl. 19:00