Kjósendur eiga betra skilið
Það ætti að vera öllum í fersku minni að s.l. laugardag gengum við til sveitarstjórnarkosninga og voru niðurstöðurnar nokkuð skýrar, stór hluti Akureyringa kallaði eftir breytingum. Í aðdraganda kosninganna fór Flokkur fólksins af stað með undirbúning fyrir framboð sitt þar sem forsprakkararnir voru hópur eldri borgara hér á Akureyri. Að þeirra mati og margra fleiri hefur þessi ágæti hópur fólks og þarfir þeirra verið hunsaðar alltof lengi. Þessi hópur óánægðra Akureyringa er stór og það þýðir ekkert fyrir komandi bæjarstjórn að líta framhjá því. Flokkur fólksins á Akureyri náði 12.2 % fylgi og það í fyrsta framboði sínu til sveitarstjórnarkosninga. Flokkur fólksins er stoltur af þeim árangri og munaði ekki mörgum atkvæðum að tveir fulltrúar næðu kjöri en niðurstaðan varð einn fulltrúi. Annar sigurvegari kosninganna var L listinn sem bætti við sig fulltrúa en Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin töpuðu báðir fimm prósentustigum og sínum fulltrúanum hvor. Aðrir flokkar stóðu nokkurn veginn í stað. Þegar þessar niðurstöður liggja fyrir hefði flestum þótt eðlilegt að þeir flokkar sem biðu ósigur í kosningunum héldu að sér höndum eins og flestir gera þegar þeir tapa. Því skýtur það skökku við að þessir hinu sömu flokkar séu komnir í meirihluta samningaviðræður frekar en að leggja höfuðið í bleyti og reyna að skilja skilaboð kjósenda til þeirra. Því miður er mikil hætta á því að þessir BDSM flokkar sem ætla að ganga í eina sæng verði búnir að gleyma eldri borgurum og þörfum þeirra fyrir sumarfrí. Þrátt fyrir þessa dapurlegu niðurstöðu mun Flokkur fólksins á Akureyri ekki bregðast kjósendum sínum þó svo að hlutverk hans verði í minnihluta. Flokkur fólksins mun veita BDSM flokkunum strangt aðhald og þeir munu ekki fá tækifæri til að svæfa mál eldri borgra, öryrkja og annarra minnihluta hópa á Akureyri.
Málfríður Þórðardóttir skipaði 2. sæti á lista Flokks fólksins í bæjarstjórnarkosningunum síðastliðinn laugardag