Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar

- Akureyri.net bauð oddvitum allra flokka í bæjarstjórn Akureyrar að skrifa grein til birtingar fyrir seinni umræðu um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar sem fram fer á morgun. Hér birtist grein oddvita VG.
Hjá Akureyrarbæ hafa margar breytingar orðið á fjárhagsáætlun frá fyrstu umræðu, þar hefur tekjuhliðin helst breyst, en auknar tekjur úr jöfnunarsjóði sem og aukið fjármagn frá ríki í málaflokk fatlaðra.
Helstu áherslur VG í kosningunum voru m.a. að fjármagn yrði tryggt í aðgerðir Umhverfis- og loftslagsstefnu, að nýtt leiðarnet strætó yrði innleitt, að gagnsæi í stjórnsýslu og íbúasamráð yrði eflt og stefnt yrði að gjaldfrjálsum leikskóla ásamt því að hækka frístundastyrki til barna og festa frístundastrætó í sessi.
Af þessum fimm áherslupunktum eru tveir í vinnslu, en vinna við stefnu um íbúasamráð er í gangi sem og að frístundastyrkir verða eitthvað hækkaðir. Ég myndi vilja sjá heildargjald, fyrir barn í leikskóla í 8 tíma með fæði, lækka en miðað við breytingar á gjaldskrám mun það hækka. Sama á við um gjald fyrir heimsendan mat fyrir eldri borgara. Þessar gjaldskrár eru nokkuð háar ef þær eru bornar saman við önnur sveitarfélög. Ekki er að sjá á fjárhagsáætlun að teknir séu frá fjármunir í aðgerðaráætlun með nýsamþykktri Umhverfis- og loftslagsstefnu, en í meirihlutasamningi var talað um að fjármagna þá aðgerðaráætlun. Á bæjarstjórnarfundi 4. október síðastliðinn tók undirrituð upp umræður um framtíðarsýn í almenningssamgöngum á Akureyri og lagði til að þjónustustig SVA yrði hækkað, nýtt leiðanet útfært og gert ráð fyrir fjármögnun þess í fjárhagsáætlun. Þeirri tillögu var hafnað af meirihluta og ljóst að innleiðing á leiðaneti sem átti að hefjast í júní 2021 verði ekki á árinu 2023 og jafnvel mun síðar. Með stækkun bæjarins og fjölgun íbúa þarf að stórbæta leiðanet SVA og gera notendavænna, ásamt því að frístundastrætó verði á forsendum sveitarfélagsins.
Á síðasta fundi bæjarráðs var samþykkt að farið yrði í breytingar á gjaldskrám fyrir félagslegt húsnæði. Nauðsynlegt er að gera kerfið eins sjálfbært og kostur er. Hins vegar þarf samhliða því að fjölga íbúðum og stytta biðlista. Bæjarstjórn á að hafa frumkvæði að því, hér er ekki hægt að treysta eingöngu á einkaframtakið. Öruggt húsnæði er forsenda þess að geta lifað eðlilegu lífi.
Ákveðið hefur verið að fara í heimgreiðslur til foreldra í Akureyrarbæ til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Í bókun fulltrúa VG og Samfylkingar á fundi Fræðslu- og lýðheilsuráðs 21. nóvember – sjá hér – síðastliðinn kom fram að brúun á umönnunarbili milli leikskóla og fæðingarorlofs er mikilvægt jafnréttismál. Ég tek heilshugar undir þessa bókun, enda er eitt að tala um bætur vegna skorts á leikskólaplássum og annað að tala um „val“ sem er ekki raunverulegt val fyrir alla hópa samfélagsins.
Að lokum er jákvætt að sjá að hugmyndir minnihlutans, um minni hækkun á gjaldskrám en gert var ráð fyrir, afslátt fyrir forgangshópa í frístund og afslátt á fasteignaskatti til einstaklinga, svo dæmi séu tekin, hafi ratað inn í fjárhagsáætlunargerð. Það eru jákvæð teikn á lofti varðandi fjárhag sveitarfélagsins til framtíðar. Vonandi verður næsta ár farsælt.
Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir er oddviti VG á Akureyri


Töfrar tónlistar

Verði stórveldi með eigin her

Yfirgripsmikið þekkingarleysi

Ferðasjóður ÍSÍ hefur rýrnað frá árinu 2019
