Fara í efni
Umræðan

Er tækni framtíðin?

Sértu spurður þessarar spurningar, kæri lesandi, reikna ég fastlega með því að svarið sé játandi. Við höfum séð gríðarlega hraða þróun tækninnar á síðustu árum og kemur tæknin núna að flestum þáttum hins daglega lífs og auðvitað ætti skólastarf ekki að vera undanþegið þar. Þeir nemendur sem nú eru í grunnskóla hafa margir hverjir ákveðnar hugmyndir um það hvað þeir sjá fyrir sér í framtíðinni og kemur tæknin þar mikið við sögu. Aðrir eru óvissir sem er ekkert skrítið þar sem störfin sem mörg þessara barna koma til með að starfa við í framtíðinni eru ekki til núna. Á síðustu árum höfum við séð ný störf koma fram á sjónarsviðið eins og t.d. áhrifavaldar sem ekki þekktist fyrir nokkrum árum síðan. Það er samt hlutverk starfsfólks grunnskóla að undirbúa börnin sem best fyrir framtíðina þrátt fyrir að hún sé í mörgum tilvikum óljós en við vitum samt að tæknin á eftir að spila þar stórt hlutverk.

Ég vil búa þannig um hlutina að skólarnir okkar geti nýtt tæknina til að bæta nám og kennslu. Það eykur enn meira á fjölbreytni í skólastarfi og gefur fleiri nemendum tækifæri á að nýta sína hæfileika til fulls, sem er það sem við viljum öll. Við þurfum að snjallvæða skólana með það að leiðarljósi að nemendur verði notendur tækninnar en ekki neytendur hennar. Það hefur mikið verið ritað og rætt undanfarið um farsímanotkun nemenda á skólatímum. Nokkrir skólar hafa valið þá leið að banna síma alfarið á skólatímum. Ég vil ekki setja snjalltæki í skólastarfi undir sama hatt og símtæki barna. Í skólunum eru nemendur notendur tækninnar og nýta hana til efla sig í námi og læra nýja hæfni sem nýtist þeim til framtíðar. Tækni í skólastarfi snýst um að mæta nemendum á forsendum hvers og eins og tæknin nýtist til að undirbúa nemendur undir líf og starf í nútímasamfélagi.

Skóli án aðgreiningar eykur álag í starfi kennara. Með snjalltækjum getum við stutt betur við bakið á kennurum og um leið aukið fjölbreytileika nemenda til náms, öllum til hagsbóta.

Í takt við aukna snjallvæðingu þurfum við að gera gagngerar breytingar á skólastofum grunnskólanna sem margar hverjar eru eins og þegar þú varst í skóla, lesandi góður. Skólastofur verða að geta komið til móts við ólíkar þarfir nemenda og stutt við nútíma kennsluhætti. Borð og stólar gera það ekki einir og sér. Það er nauðsynlegt að betrumbæta innviði skólanna með tilliti til þarfa nemendanna en til þess þarf fjármagn. Ég tel að það sé nauðsynlegt að fjárfesta í framtíðinni og æsku Akureyrar en ekki vera með niðurskurðarhnífinn á lofti eins og hér hefur tíðkast síðan eftir hrun. Hverjir eru best til þess fallnir að segja til um það hvað hentar best í skólastarfi í dag? Það er starfsfólk grunnskólanna sem þarf að vera með í ráðum þegar skólarnir verða endurnýjaðir.

Það er fúlt til þess að hugsa að þarfir og væntingar skólabarna fari eftir því hversu vel stætt sveitarfélag er. Eða hversu miklu fjármagni sveitarfélaginu þóknast að setja í rekstur skólanna. Ég horfi til þess að mörg sveitarfélög, eins og t.d. Kópavogur og Hafnarfjörður hafa fjárfest gríðarlega í skólunum með því að setja sér ákveðna stefnu í málefnum skólanna þegar kemur að því að nútímavæða kennsluhætti og gera skólastarf merkingarbærara. Þetta hefur ekki verið gert hér í okkar sveitarfélagi þrátt fyrir að flestir séu sammála um að góðir skólar séu einn af lykilþáttum góðs og eftirsóknarverðs sveitarfélags.

Við þurfum að undirbúa nemendur fyrir framtíðina og hvað bíður þeirra í framtíðinni. Það er því enn mikilvægara en áður að nútímavæða skólasamfélagið. Framtíðin liggur í auðlindum nemenda skólakerfisins.

Við eigum að auka áhuga nemenda til náms þar sem fjölbreytni er höfð að leiðarljósi. Það er nemenda að koma með hugmyndir sem síðan er hægt að framkvæma með aðstoð starfsfólks grunnskóla en þá þarf að vera til ákveðinn tækjakostur. Þegar þú sem nemandi finnur leið sem hentar þér þá mun sjálfstraust þitt til námsins aukast og um leið auka vellíðan þína öllum til hagsbóta.

Því fyrr sem við nútímavæðum skólasamfélagið þeim mun betra. Akureyri má ekki við því að dragast meira aftur úr í þessum málum en nú er orðið.

Inga Dís Sigurðardóttir er kennari og skipar 2. sæti á lista Miðflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 14. maí.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00