Fara í efni
Umræðan

Akureyri – þar sem gott er að eldast

Við í Framsókn viljum gera gott samfélag enn betra – fjölbreytt og lifandi samfélag þar sem allir hafa tækifæri til að blómstra og búa við góð lífsgæði ævina á enda. Að tryggja rétt okkar allra til farsællar öldrunar er stórt og mikilvægt verkefni, ekki síst í ljósi þess að hlutfall eldra fólks fer hækkandi hér á landi rétt eins og annars staðar í heiminum. Langlífið og aðrar samfélagsbreytingar kalla á breytt viðhorf gagnvart skipulagi og þjónustu við eldra fólk. Því er mikilvægt að framtíðarsýn okkar um aldursvænt bæjarfélag sé skýr.

Hvernig tryggjum við farsæla öldrun?

Eldri borgarar á Akureyri er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir en forsendurnar fyrir sjálfstæðu, innihaldsríku og heilbrigðu lífi eru í grunninn víðast hvar þær sömu þótt aðstæður séu breytilegar. Hvar svo sem við búum – í dreifbýli, borg eða bæ – er mikilvægt að horfa heildstætt til allra þátta samfélagsins. Að í boði sé nægilegt framboð af húsnæði sem hentar þörfum aldraðra er dæmi um aðgerðir sem gera okkur kleift að lifa sjálfbjarga og sjálfstæðu lífi lengur. Samstillt heilbrigðis- og félagsþjónusta styður við það markmið og stuðlar að því að fólk geti búið heima sem lengst. Fjölbreytt félags-, íþrótta-, og tómstundastarf styrkir líkamlega, andlega og félagslega heilsu og vinnur gegn einmanaleika. Samgöngur sem auðvelda þátttöku í félagsstarfi, íþróttum og annarri virkni styðja ekki síður við heilsusamlegar lífsvenjur. Það sama á við um ytra umhverfi okkar, þegar það er aðlaðandi og aðgengilegt og þegar skipulag tekur mið af þörfum og ferðavenjum eldri borgara, styður það þessa þætti. Allt eru þetta undirstöður að farsælli öldrun.

Hver er stefna Framsóknar í málefnum eldri borgara?

Framsókn mun beita sér fyrir því að Akureyri verði aldursvænt samfélag þar sem gott er að eldast. Síðastliðið ár setti Akureyrarbær fram fyrsta hluta aðgerðaáætlunar í málefnum aldraðra sem tekur á heilsueflingu, félagsstarfi og upplýsingagjöf. Það er brýnt að þær aðgerðir komist til framkvæmda sem fyrst og að hafin verði vinna við annan hluta áætlunarinnar sem horfir m.a. til húsnæðismála. Við leggjum áherslu á að samþætta verkefni og þjónustu ríkis og sveitarfélaga við eldra fólk, t.a.m. með samþættingu heimahjúkrunar og stuðningsþjónustu. Við viljum skoða nýjar og fjölbreyttar lausnir í þjónustu við eldra fólk og nota tæknina í auknum mæli til að auka lífsgæði og sjálfræði einstaklinga. Þá viljum við að áfram verði unnið að eflingu Birtu og Sölku félagsmiðstöðva fólksins og unnið að stækkun samveru- og þjónustukjarna. Að endingu horfum við til þess að bærinn úthluti lóðum til aðila sem vilja byggja fjárhagslega hagkvæmar íbúðir fyrir eldri borgara.

Sameiginleg velferð með samvinnu

Allir eiga að geta elst með reisn og notið þjónustu heima hjá sér eins lengi og heilsa leyfir. Það er áríðandi að ríki, sveitarfélög, þjónustuaðilar og félög aldraðra vinni saman að aukinni farsæld fyrir aldraða og að samstaða sé um sveigjanlega þjónustu í takt við breytilegar þarfir. Við þurfum nýja nálgun í málefnum eldri borgara ef við ætlum að tryggja fjölbreytta þjónustu sem uppfyllir allar gæðakröfur nútímans. Framsókn er framsækinn miðjuflokkur sem vinnur að stefnumálum sínum með samvinnu og jöfnuð að leiðarljósi. Eru það ekki gildin sem við þurfum að byggja á þegar við sköpum aldursvænt samfélag fyrir okkur öll?

Gunnar Már Gunnarsson er fulltrúi Framsóknar í fræðslu- og lýðheilsuráði og skipar 2. sæti á lista Framsóknar á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum

Höfuðborgin Reykjavík og aðgengi landsbyggðarbúa

Franz Árnason skrifar
25. janúar 2025 | kl. 06:00

Sjá, þannig skal vandað til þess, sem á lengi að standa

Hlín Bolladóttir skrifar
24. janúar 2025 | kl. 17:30

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30