Áfram betri leikskólar!
Á leikskólum Akureyrarbæjar fer fram öflugt og faglegt starf. Við búum svo vel að eiga mikið af faglærðu og reynslumiklu starfsfólki sem hefur virkilegan áhuga á leikskólastarfinu og það er að sjálfsögðu lykillinn að árangri bæjarins í uppeldis- og menntamálum. Við í Framsókn viljum halda áfram að bjóða barnafjölskyldum upp á góða þjónustu og halda í sérstöðu Akureyrar þegar kemur að faglegu starfi leikskólanna. Þá þarf hins vegar öll aðstaða að vera til fyrirmyndar og það þarf að vera tryggt að starfsfólki leikskólanna líði vel við vinnu sína. Framsókn telur því mikilvægt að halda áfram, hefja uppbyggingu og setja kraft í þau verkefni leikskólanna sem nú þegar eru hafin. Starfsfólkið á það skilið og börnin okkar eiga það skilið.
Betri vinnutími fyrir alla, ekki bara suma
Viðvera leikskólastarfsmanna var mikil í gegnum Covid tíma enda krafan frá samfélaginu sú að halda leikskólum opnum svo hjól atvinnulífsins næðu að snúast. Leikskólar sýndu svo um munaði fram á mikilvægi sitt og nú þarf að setja þá í forgang. Á þessum sama tíma var stytting vinnuvikunnar innleidd í leikskólunum en því miður hefur hún ekki tekist nógu vel. Með innleiðingunni fylgdi ekkert fjármagn og sveigjanleiki í útfærslu var lítill sem enginn. Þetta hefur valdið togstreitu og auknu álagi á starfsfólk. Í leikskólunum hefur stytting vinnuvikunnar því haft þveröfug áhrif miðað við upprunalegan tilgang, sem var auðvitað að hafa jákvæð áhrif á vinnuumhverfið og líðan starfsfólks.
Klárum að brúa bilið
Nokkur umræða hefur verið um gjaldfrjálsan leikskóla á Akureyri í aðdraganda þessara sveitarstjórnarkosninga. Framsókn telur það ekki tímabært, enn sem komið er. Í ár náðist sá merkisáfangi að farið var að taka inn 12 mánaða gömul börn í leikskóla. Þetta var mikið fagnaðarefni fyrir foreldra og ekki síður mikilvægur stuðningur við atvinnulífið. Það að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla er gríðarlega stórt verkefni og ef það á að takast vel þarf að aðlaga allt starf og skipulag innan leikskólanna enda þarfir ungra barna gjörólíkar þörfum eldri barnanna. Aðbúnaður þarf að taka mið af aldri og það eru ótal hlutir í umhverfinu sem þarf að huga að ef börnunum á að líða vel. Fyrir litla fætur er gott að hafa hita í gólfum, borð og stólar í réttri hæð, leikföng við hæfi, góð skiptiaðstaða og hanna þarf útisvæðin út frá aldri, leik og þroska. Og svo mætti lengi telja! Nýi leikskólinn Klappir við Glerárskóla var frá upphafi hugsaður út frá þessum þörfum og því klár í þetta verkefni að taka inn yngstu börnin. Það sama á ekki við um alla leikskóla bæjarins og alveg ljóst að víða er mikið verk að vinna. Framsókn vill klára þessa vinnu og samhliða skoða uppsafnaða þörf á endurnýjun, viðhaldi og breytingum á húsnæði leikskólanna.
Mætum vaxandi þjónustuþörf
Stuðningur við börn og fjölskyldur á að vera til staðar til handa þeim sem þurfa aðstoð. Við erum í dag að veita góðan stuðning inn í leikskólana en þörfin fer líka vaxandi. Framsókn vill bjóða börnum sem þarfnast viðbótar stuðnings upp á sérkennslu á ársgrundvelli. Síðast en ekki síst þarf að huga vel að móttöku barna af erlendum uppruna enda ljóst að þeim mun fjölga á næstu árum. Framsókn vill tryggja öllum tækifæri til að læra íslensku og leggur sérstaka áherslu á þá sem eru af erlendu bergi brotnir, fjöltyngdir eða hafa alist upp erlendis. Góð tök á íslensku eru lykillinn að farsælu lífi og þátttöku í samfélaginu. Fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkti nýverið aukinn stuðning inn í grunnskólana til að sinna betur þessari lögbundnu skyldu. Á nýju kjörtímabili er mikilvægt að skoða vel hverjar þarfir leikskólanna eru í þessum efnum.
Þetta eru verkefnin sem liggja fyrir og fjölmörg önnur til viðbótar. Áfram betri leikskólar á Akureyri – fyrir börn, foreldra og starfsfólk.
Gunnar Már Gunnarsson skipar 2. sæti og Sverre Jakobsson 4. sæti á lista Framsóknar á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum