Vaðlaskógur á 6. áratugnum
TRÉ VIKUNNAR - LXX
Ein af perlum Eyjafjarðar er án efa Vaðlaskógur. Þetta er skógurinn sem íbúar Akureyrar hafa fyrir augum er þeir horfa yfir Pollinn. Í skóginn sækir fólk sem vill upplifa skóga sem er ekki eins mikið hirtur og Kjarnaskógur. Þar með upplifir fólk þennan skóg sem villtan, þótt honum hafi vitanlega verið plantað á sínum tíma. Þessi skógur hefur fengið að þróast meira á eigin forsendum en Kjarnaskógur, þótt starfsmenn Skógræktarfélagsins hafi að sjálfsögðu hirt um hann, grisjað og bætt við tegundum í þá tæpu níu áratugi sem þeir hafa séð um skóginn. Skógurinn er samt ekki hirtur eins og skrúðgarður, enda er hann skógur.
Að breyta landi
Þegar félagið fékk landið til umráða, í góðri sátt við þáverandi landeigendur, var alltaf meiningin að planta skógi svo Akureyringar og nærsveitarmenn gætu notið hollrar útivistar. Það stóð alltaf til að planta þarna því sem nú kallast „útivistarskógur“. Að vísu er það orð hvergi að finna í hinum undirritaða samningi frá 1936, enda var orðið ekki til á þeim tíma. Elsta dæmið um notkun þess, samkvæmt tímarit.is er frá 1987. Þarna munar hálfri öld.
Starfsmenn Skógræktarfélagsins, stjórnarmenn og ýmsir sjálfboðaliðar hafa lagt hönd á plóg til að gera þennan stað aðlaðandi. Mörgum kann að þykja það ótrúlegt en þegar félagið fékk svæðið til umráða var það skóglaust með öllu.
Nú laðar skógurinn til sín allskonar fólk og stendur meira að segja til að nýta aðdráttarafl skógarins til að reisa þar hótel. Sennilega hefði það aldrei komið á dagskrá ef ekki væri fyrir óeigingjarnt starf sjálfboðaliða á sínum tíma. Því megum við ekki gleyma, heldur ber okkur öllum að halda því til haga. Annað væri virðingarleysi við gengnar kynslóðir og starf þeirra. Skógræktarfélagið á í fórum sínum dálítið safn mynda. Þar á meðal eru myndir sem teknar voru í Vaðlaskógi á 6. áratugi síðustu aldar. Segja þær heldur betur sína sögu um hversu vel hefur tekist til og hvað ármenn félagsins hafa áorkað miklu. Því miður eru myndirnar ekki merktar ljósmyndurum í safni félagsins en líklegast er að Jón Dalmann Ármannsson hafi tekið þær flestar eða haft hönd í bagga að öðrum kosti. Breytingarnar, frá því myndirnar voru teknar, eru það miklar að ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því hvar í skóginum þær voru teknar. Við reynum okkar besta til að ráða þær gátur. Sjón er sögu ríkari.
Það var Ólafur Thoroddsen, fyrrum formaður félagsins, sem færði myndirnar yfir í stafrænt form svo við gætum birt þær á vefnum.
Á 6. áratug síðustu aldar virðist þetta lerki hafa verið það sem mesta athygli vakti í skóginum, ef marka má fjölda mynda. Við hefjum því leikinn á myndum af því. Helgi Þórsson hefur gert þessu lerki góð skil í ljómandi fínum pistli.
Vaðlaskógur 1956. Í baksýn sér í Valhöll þar sem skátar komu sér upp aðstöðu. Sá skáli er ekki lengur til en margir muna hvar hann stóð. Hér er verið að mæla vöxt Hakaskojalerkisins. Okkur sýnist það vera Jón Dalmann Ármannsson sem mundar tommustokkinn.
Til samanburðar endurbirtum við þessa haustmynd af sama lerkiskógi eins og hann lítur út um þessar mundir. Nú dugar ekki tommustokkur til að mæla hæðina enda eru trén að ná 20 metra hæð. Myndin er úr grein um lerkið eftir Helga Þórsson og tók hann myndina.
Eins og sjá má er þessi mynd tekin úr lofti. Þarna er ekki mikið af trjám að sjá í Vaðlaskógi, nema hvað Hakaskojalerkið er áberandi. Það myndar gulan flekk. Á myndinni sést einnig birki en það er lauflaust og ekki mjög áberandi. Þessi mynd er því tekin síðla hausts eða snemma að vetri.
Þessi mynd var tekin við trjámælingar árið 1956 þegar lerkið er fimm ára gamalt. Lengst til vinstri á myndinni má greina barrtrén degli og sitkagreni sem gróðursett voru skömmu fyrir 1940. Um þau tré má fræðast hér. Einnig má sjá birki frá Vöglum sem komið er vel á veg. Það var á sínum tíma gróðursett til að mynda skjól.
Þessi mynd er einnig tekin af Hakaskojalerkinu árið 1956 en horft er í hina áttina. Lerkinu var plantað 1951 og er þetta ljómandi góður vöxtur á fimm árum.
Hér er Ármann Dalmannsson innan um lerkitrén árið 1959. Þá eru trén aðeins átta ára gömul.
Nokkrar myndir eigum við af furum frá þessum áratug. Helst eru það stálpaðar bergfurur en einnig efnilegar skógarfurur. Því miður fór frekar illa fyrir þeim síðarnefndu þegar furulús fór að herja á þær í byrjun 7. áratugar síðustu aldar. Nú eru flestar þeirra dauðar. Enn eru þó til nokkur glæsileg eintök í skóginum.
Það er erfitt fyrir nútíma skógræktarfólk að setja sig í spor frumkvöðlanna þegar þetta áfall með skógarfuruna reið yfir á sínum tíma. Vonandi þurfum við aldrei að upplifa slíkt. Það er ekki fyrr en seinna sem farið var að planta stafafuru á svæðinu og því sjáum við hana hvergi á þessum myndum.
Á þessari mynd má sjá Jón Dalmann Ármannsson og Hólmfríði Ólafsdóttur skoða furuskóg í heiðinni. Myndin er tekin árið 1956. Bergfurur eru mest áberandi og sennilega er þetta sunnarlega í skóginum. Í bakgrunni má sjá birki og elstu skógarfurugróðursetninguna. Jón Dalmann var ein aðalsprauta félagsins í mörg ár. Hólmfríður var lengi kennari við Oddeyrarskóla.
Hólmfríður Ólafsdóttir árið 1956. Að baki hennar sést í birki sem flutt var yfir heiðina frá Vaglaskógi á sínum tíma og er mjög sunnarlega í skóginum. Fremst á myndinni sjást litlar greniplöntur og furur. Grenið gæti verið broddgreni og furan er líklega skógarfura.
Þessi mynd er einnig frá 1956 og tekin á svipuðum slóðum og myndin hér að ofan. Það má meðal annars ráða á gilinu sem sést í fjarska. Efst til vinstri er opinn melur sem nú er uppgróinn fyrir löngu. Við hann er meðal annars skógarfura. Þegar farið er um svæðið núna er fátt sem minnir á melinn, nema hvað skógarfurunum, sem enn lifa, var ekki plantað þar.
Hér er mjög efnileg skógarfura árið 1958. Upp úr 1960 dundi svo ógæfan yfir þegar furulúsin, Pineus pini, þurrkaði út nánast allar skógarfurur landsins. Enn má þó sjá álitlegar skógarfurur í skóginum.
Mynd af Ármanni Dalmannssyni í skógarfurulundi að vetri til. Myndin er tekin árið 1956. Birkinu, sem er efst til vinstri, hefur verið plantað sem skjólbelti og gefur okkur hugmynd um hvar myndin var tekin. Þess vegna teljum við að þetta sé norðarlega í skóginum. Megnið af þessari efnilegu furu drapst í furulúsarfaraldrinum. Seinna var lerki plantað á þessum stað. Innan um það má í dag sjá örfáar skógarfurur.
Norðurjaðar Vaðlaskógar á 6. áratugnum. Skógarfura fremst og birki fjær. Þarna má enn finna nokkrar skógarfurur og sumar þeirra standa alveg við nýja hjólastíginn. Eins og sjá má liggur enginn þjóðvegur í gegn um skóginn á þessum tíma.
Þrátt fyrir mikil afföll má enn sjá margar fallegar skógarfurur frá þessum tíma. Þessi er ein af litlu furunum hér að ofan. Myndin tekin að vori árið 2023. Mynd: Sig.A.
Þegar Skógræktarfélag Eyfirðinga tók við þessu landi og hóf þar skógrækt til að auðvelda fólki aðgengi að skóglendi, var ekkert birki í heiðinni. Mest af því birki sem þar er nú á ættir að rekja í Vaglaskóg. Þar var það tekið upp og plantað í Vaðlareit sem nú er orðinn að Vaðlaskógi. Árið 1947 var plantað birki í skóginn sem óx upp af fræi frá Bæjarstað og hlýtur af því nafn sitt. Nú eru bæði þessi kvæmi farin að sá sér út um allan skóg og blandast eðlilega saman. Náttúruvalið sér svo um að velja úr þau tré sem best standast þá veðráttu sem þarna ríkir á okkar tímum.
Bæjarstaðabirki sem plantað var árið 1947. Myndin tekin árið 1956. Í skóginn var á sínum tíma var plantað miklu meira af birki úr Vaglaskógi en frá Næjarstað. Þekkja má Bæjarstaðarbirkið á ljósari berki. Að auki fer það seinna í haustliti en birkið úr Vaglaskógi. Myndin er tekin nálægt þeim stað þar sem nú er lítið bílastæði í skóginum vestan við þjóðveginn.
Þessi mynd, sem tekin er út fjörðinn, er ómerkt. Sennilega sýnir hún sama birki og myndin hér að ofan og er tekin neðan við það svæði þar sem nú er neðra bílastæðið við þjóðveginn. Oddeyrin í fjarska.
Þessi mynd er tekin þann 14. febrúar 2024 af neðra bílastæðinu í skóginum. Birkið hefur stækkað þannig að ekki sést yfir það, heldur framhjá því. Mynd: Sig.A.
Nú er birki farið að sá sér út hvar sem það getur. Hér nýtur það niturnáms fyrir tilstuðlan lúpínu. Sjálfsáið birki, sem vex upp svona þétt verður að jafnaði beinvaxið eins og sjá má. Mynd: Sig.A.
Sumar af þessum gömlu myndum sýna nokkrar tegundir og eru teknar víða um skóginn. Birtum við þær hér á eftir. Ekki er auðvelt að átta sig á þeim öllum en við gerum okkar besta. Ef einhver hefur betri upplýsingar væri gott að fá þær og leiðrétta pistilinn. Hafa ber það er sannara reynist.
Mynd frá 1956. Ólafur Jónsson stendur framan við birki sem plantað hefur verið við girðingu í kringum reitinn. Á myndinni sjást girðingarstaurar sem bera við bláan himin. Líklegt þykir okkur að myndin sé tekin við norðurkantinn á reitnum, rétt hjá húsinu þar sem Vignir Sveinsson og Valdís Gunnlaugsdóttir búa nú. Vignir var lengi formaður félagsins. Fremst á myndinni er lerki sem gæti verið af Hakaskojakvæmi. Þarna eru nú örfáar broddgreniplöntur, skógarfura og degli. Ólafur Jónsson var ræktunarstjóri hjá Ræktunarfélagi Norðurlands og var stundum kenndur við gróðrarstöðina.
Á þessari mynd stendur að hún sé tekin árið 1956. Hún er þá tekin norðan við Hakaskojalerkið og sýnir barrtré sem plantað var 1937 eða 1938. Þau eru efni þessa pistils sem birtist þann 3. apríl síðastliðinn. Lengst til hægri gæti verið sitkagreni frá þeim tíma sem hefur tekið forystuna í hæðarvexti. Fremst, hægra megin við miðju, er degli með dálítið sveigðan stofn. Skógarfura til vinstri.
Rauðgreni plantað 1948. Myndin tekin árið 1959. Þetta greni er alveg syðst í skóginum og hefur greinilega verið plantað í birkiskjól.
Í mars 2024 leit þetta svona út. Horft er úr gagnstæðri átt. Mynd: Sig.A.
Þakkir fá allir þeir forgöngumenn sem af framsýni lögðu sitt af mörkum svo Vaðlaskógur gæti orðið að þeim fjölbreytta yndisreit sem hann er í dag. Vonandi tekst okkar kynslóð að halda áfram með þeirra starf, vernda skóginn og efla svo komandi kynslóðir geti einnig notið hans. Einnig ber að þakka þeim forsvarsmönnum Skógræktarfélagsins, starfsmönnum og stjórnarmönnum, sem verja tíma sínum í að vernda skóginn þannig að almenningur geti nýtt hann til eflingar lýðheilsu sinni. Þakkir fá einnig Bergsveinn Þórsson, Helgi Þórsson og Hallgrímur Indriðason fyrir að reyna að staðsetja myndirnar í skóginum. Einnig fær fyrverandi formaður félagsins, Ólafur Thoroddsen, þakkir fyrir að skanna myndirnar í stafrænt form og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fær þakkir fyrir yfirlestur.
Mynd af Vaðlaskógi haustið 2019. Árangurinn er magnaður. Mynd: Sig.A.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
- Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir yfirleitt hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum en hér er pistill dagsins í heild inni.