Regnbogagífur og börkur gífurtrjáa
TRÉ VIKUNNAR - LXXVI
Úti í hinum stóra heimi eru til allskonar tré. Við höfum sagt frá sumum þeirra en fjöldi merkilegra og jafnvel furðulegra trjáa í heiminum er svo mikill að af nægu er að taka. Nú veljum við tré sem tilheyrir ættkvísl gífurviða, Eucalyptus L'Hér., en um þá ættkvísl eru væntanlegir einir þrír pistlar hið minnsta. Innan ættkvíslarinnar eru mörg eftirtektarverð tré og ef til vill segjum við seinna nánar frá einhverjum þeirra í sérstökum pistlum. Regnbogagífur, Eucalyptus deglupta Blume, er einstakt á heimsvísu vegna þess að börkur þess er öðruvísi en á öllum öðrum trjám sem við þekkjum. Í þessum pistli segjum við frá þessari merku tegund og segjum ykkur líka almennt frá fjölbreyttum berki gífurviða.
Á latínu ber þetta tré hið hljómfagra nafn Eucalyptus deglupta. Þetta hljómar dálítið eins og einhverjum hafi svelgst á þegar tréð fékk nafn. Það var þýsk-hollenskur grasafræðingur að nafni Carl Ludwig Blume sem gaf tegundinni nafn árið 1850. Þess vegna er nafn hans aftan við latínuheitið hér að ofan þegar fræðiheiti tegundarinnar er fyrst nefnt.
Annars er orðið deglupta komið úr latínu og merkir að skræla eða afhýða með vísan í börkinn á trénu. Ef við vildum þýða latínuheitið á íslensku gætum við kallað tréð skrælingjagífur. Það gerum við ekki.
Börkurinn á regnbogagífur gefur honum fræðiheitið. Myndina á Paxson Woelber en hana fengum við á Wikipediu.
Þegar kemur að því að gefa blómum og trjám nöfn á íslensku er venjan sú að nota ættkvíslarheitið sem viðskeyti á hverja tegund. Má sem dæmi nefna ígulrós af ættkvísl rósa, Rosa, og skriðsóley af sóleyjarættkvíslinni, Ranunculus. Þess vegna er heppilegt að nöfn ættkvísla séu ekki mjög löng nema hægt sé að vísa til þeirra með styttingum. Þannig heitir ættkvíslin Aster stjörnufífill á íslensku en þar sem það nafn er langt sem viðskeyti er það stytt og tegundirnar kallaðar stjörnur. Þannig verða til heitin kvöldstjarna, Aster tongolensis og fjallastjarna, Aster alpinuss, svo dæmi séu tekin.
Tveir stofnar, hlið við hlið, af regnbogagífur. Litirnir samt gjörólíkir en báðir eru stofnarnir ótrúlega skrautlegir. Myndin fengin héðan.
Íslenska heiti ættkvíslarinnar Eucalyptus er nokkuð á reiki. Lengi hefur hún verið kölluð tröllatré með vísan í stærð þeirra, en það er nokkuð erfitt í samsetningum. Það mætti þó stytta það og nota annað hvort -tröll eða -tré í samsett orð, en það er langsótt að telja að ljóst sé að það vísi í ættkvíslina. Tegundarheiti sem enda á -tré geta vísað í mjög margar ættkvíslir, eða enga sérstaka og þegar orð enda á -tröll kemur fæstum tré í hug. Það orð á sér svo ákveðna merkingu að erfitt er að yfirfæra hana á eitthvað annað. Stungið hefur verið upp á að nota fræðiheitið Eucalyptus og laga það eitthvað að okkar stafsetningu. Koma þá fram tillögur eins og evkalyptus eða evkaliptus og jafnvel júkalyptus. Við getum ekki séð að það sé neitt hentugra í samsetningum en tröllatré. Aftur á móti er mjög alþjóðlegt að nota fræðiheiti, svona til að auðvelda fólki að setja nöfnin í alþjóðlegt samhengi, tengja við eitthvað annað sem við hugsanlega þekkjum og leita tegundanna í bókum eða á leitarvélum alnetsins. Í þeim tilfellum er alveg óþarfi að breyta stafsetningunni enda flækir það málin.
Ungt og stakstætt regnbogagífur sem klæðir sig nokkuð vel með laufi. Það getur gerst þegar tréð stendur á björtum stað. Trjástofninn er ekki farinn að sýna jafn glæsilega liti og stofnar gera þegar trén eldast og stækka meira. Þá flagnar stofninn meira og litirnir undir berkinum koma í ljós. Myndin fengin héðan þar sem sjá má fleiri myndir.
Okkar tré er á mörgum tungumálum kennt við regnboga eins og útskýrt verður hér á eftir. Ef við notum það heiti og setjum á gamla nafn ættkvíslarinnar kemur út heitið regnbogatröllatré. Það er langt og óþjált nafn og sama má segja um regnbogajúkalyptus. Þess vegna finnst okkur bráðsnjallt að nota nafn sem Pétur Halldórsson stakk upp á. Hann benti á að nafnið gífur er gamalt hvorugkynsnafnorð yfir tröllskessur en er nánast horfið úr málinu nema sem forliður og merkir þá eitthvað voðalega stórt. Má nefna gífurlega, gífuryrði og fleira. Þess má geta að í Njálu kemur þetta orð fyrir í skemmtilegri samsetningu. Þar segir um Þórhildi skáldkonu, sem Þráinn Sigfússon frá Grjótá í Fljótshlíð sagði skilið við í brúðkaupi til að biðja sér unglingsstúlku: „Hún var orðgífur mikið og fór með flimtan. Þráinn unni henni lítið.“ Þarna er nú aldeilis orð sem nota má meira! Hver kannast ekki við orðgífur í netheimum?
Dæmi um flimtan sem orðgífur lætur frá sér fara. Hér er það sá sem þetta ritar sem verður fyrir skeytunum. Sú breyting hefur orðið að áður var sagt frá orðgífrum á skinnhandritum en nú eru þau í netheimum. Það er þó óvenjulegt við þetta orðgífur að áður en það fer með flimtan og ofsóknir lætur það vita að slíkt sé ekki í lagi. Það er vel hægt að taka undir það. Mynd: Skjáskot af Facebooksíðu.
Þegar orðið gífur er notað um tré er það ekki ósvipuð hugsun og þegar orðið tröll er notað, nema hvað við teljum orðið gífur heppilegra í samsetningum. Orðið tröll, eitt og sér, á sér allt aðra merkingu í hugum fólks, en flest hafa gleymt sögufrægum gífrum og orðgífrum. Þess vegna stingum við upp á að nefna ættkvíslina gífur eða gífurvið og notum svo heitið -gífur sem viðskeyti á heiti hverrar tegundar fyrir sig. Þá fáum við út heitið regnbogagífur á okkar tré. Okkur þykir þetta nafn næstum eins hljómfagurt og fræðiheitið deglupta.
Við veltum þessu mikið fyrir okkur og enduðum á að setja könnun inn á Facebookhóp sem heitir Trjáræktarklúbburinn. Þar fékk heitið regnbogagífur flest atkvæði. Auðvitað vitum við samt ekkert hvort þetta nafn vinnur sér hefð. Ef til vill verður þetta tré kallað skrælingjaevgalyptus í framtíðinni eða eitthvað allt annað. Hver veit? Þeir gífurviðir sem mynda tré getum við kallað gífurtré en þeir sem eru almennt lægri og margstofna getum við kallað gífurrunna. Nánar verður fjallað um það í næstu pistlum um gífurviði.
Ættkvísl gífurviða, Eucalyptus, er mjög stór og hægt er að finna ákaflega fjölbreyttan börk innan ættkvíslarinnar. Sumar tegundir hafa trjábörk sem í litlu er frábrugðinn trjáberki eins og við þekkjum hann á þeim trjám sem við getum ræktað hér á landi. Börkurinn er þá í hefðbundnum gráum og brúnum eða jafnvel nær hvítum litum. Aðrir gífurviðir hafa allt öðruvísi börk.
Sumar tegundir gífurviða hafa tiltölulega venjulegan trjábörk. Börkurinn á þessu tré minnir dálítið á börkinn á platanviðum eða Platanus tegundum.
Sumar tegundir hafa þykkan börk sem ver þau gegn skógareldum. Aðrir gífurviðir hafa annan hátt á. Mjög algengt er að ysta lagið af berki gífurviða flagni af í löngum lengjum, næfrum eða flekkjum. Sumir gífurviðir endurnýja ysta barkarlagið jafnvel árlega og jafnvel alveg látlaust. Reyndar er það furðualgengt innan ættkvíslarinnar. Til eru tegundir þar sem börkurinn fellur ekki strax alveg af, heldur hangir á trénu ekki ósvipað og næfur á næfurhegg eða næfurhlyn og sumum birkitegundum, nema hvað þetta er enn meira áberandi á gífurtrjánum. Gefur þetta trjánum mjög einkennilegan svip. Á öðrum tegundum fellur þessi börkur af trénu og getur myndað nokkuð þykkt lag í kringum það. Hjá þeim gífurviðum sem losna við börkinn árlega getur verið um býsna mikið magn að ræða hjá stórum trjám. Það hefur sína kosti fyrir tegundirnar því það tefur fyrir og hindrar jafnvel alveg að annar gróður, sem getur keppt um vatn og næringu, fái þar þrifist. Í berkinum eru ýmsar olíur sem seytla út og hjálpar það ekki öðrum gróðri að vaxa. Auk þess skyggir börkurinn á hugsanlegan nýgræðing.
Þessi einkennilegi börkur getur haft margt óvænt í för með sér. Eitt er það að lagið undir ysta barkarlaginu, sem flettist af, getur haft ýmsa óvenjulega liti sem við almennt sjáum ekki á berki trjáa. Auðvitað sjást svona hefðbundnir brúnir og gráir litir en einnig aðrir litir svo sem rautt eða grænt. Á myndinni hér að ofan sjást nær hvítir stofnar þegar börkurinn flagnar af tegundinni E. rubida.
Ein tegund sker sig samt alveg frá öðrum hvað þetta varðar. Það er tré vikunnar.
Dæmi um mismunandi börk gífurviða fengin úr þessari grein. Þarna er mikil fjölbreytni.
Tré af þessari ættkvísl hafa olíurík lauf og það sama á við um ysta hluta trjábarkarins sem mörg tré losa sig við árlega. Það gerir börkinn mjög eldfiman. Þegar eldur kveiknar er hann stundum svo heppinn að hafa heilu haugana af olíuríkum trjáberki liggjandi í kringum gífurtrén til að næra sig á. Þessi börkur brennur mjög hratt og við mikinn hita. Þegar það gerist veldur hitinn því að megnið af þeim gróðri, sem er undir trjánum, drepst. Það skilur eftir mjög heppilegt set fyrir fræ sem mynda næstu kynslóð gífurviða. Hinn nýi börkur, sem trén mynda, hefur mun minni olíu og er því ekki eins líklegur til að brenna og það virðist fara betur með trén að eldurinn logar tiltölulega stutt á hverjum stað, þótt hann sé mjög heitur (Tudge 2005). Innri börkurinn nær að vernda mörg trjánna fyrir skógareldum svo þeim verður ekki meint af.
Sum trén hafa þann háttinn á að halda þykkum berki á neðri hluta stofnsins. Ofar flagnar börkurinn af í löngum næfrum. Þannig tekst sumum gífurtrjám að nýta það besta úr báðum gerðum. Neðri hlutinn ver trén þegar skógareldar geisa en ofar flagnar börkurinn og kemur í veg fyrir að ásætur geti vaxið. Nánar verður fjallað um þessa aðferð við að losna við ásætur í næsta kafla.
Gallinn við þetta kerfi er sá að stundum geta skógareldarnir orðið óvenju miklir. Þá nær eldurinn upp fyrir þykka börkinn og allt fer í skrúfuna og trén drepast. Þá skapast pláss fyrir næstu kynslóð trjáa.
Þegar eldur berst í svona börk á gífurtrjám getur hann fokið af og borið eldinn víðar. Þessi tré eru í Portúgal. Mynd: Guðrún Eggertsdóttir.
Margar tegundir stóru gífurtrjánna hafa tiltölulega litla krónu sem er efst á trjánum og þangað kemst eldurinn ekki. Þannig getur tréð varið viðkvæmasta hluta sinn þegar eldar eira engu á jörðinni langt neðan við krónuna. Þó ber að geta þess að þrátt fyrir allan þennan viðbúnað geta skógareldar verið svo öflugir að þeir verði trjánum að aldurtila. Gífurrunnar eru lægri en gífurtré og geta ekki beitt þessum vörnum. Þeir eiga annað tromp uppi í erminni og segjum við frá því í sérstökum pistli um þá.
Skógareldur í gífurviðarskógi. Myndin fengin héðan.
Regnbogagífur er einn af þeim gífurviðum sem endurnýjar ysta lag barkarins árlega. Ysta lagið er dautt eins og á öðrum trjám og ver stofninn fyrir allskonar áföllum. Þar sem þetta tré vex geta sveppir, skordýr og allskonar ásætur sest að í berkinum og jafnvel skaðað tréð. Með því að skipta honum hratt og reglulega út losnar tréð við þessa truflun. Í tilfelli þessa trés gerist það stöðugt. Það er alltaf einhver dauður börkur að flagna af. Þetta þekkist hjá fleiri trjám í regnskógum, enda eru ásætur þar mjög fjölbreyttar og heppilegt fyrir flest tré að losna við þær (Tudge 2005). Þeim sem vilja fræðast frekar um ásætur í erlendum skógum er bent á þennan pistil okkar, sem fjallar almennt um ásætur í útlöndum og þennan pistil sem fjallar um eina tegund sem byrjar líf sitt sem ásæta en verður að stóru tré með tímanum. Líf trjáa í heiminum er svo sannarlega fjölbreytt og kemur sífellt á óvart.
Regnbogagífur á eyjunni Mindanao sem er í suðurhluta Filippseyja. Sumir vilja kenna tréð við þessa eyju og tala um the Mindanao gum eða mindanogúmtré ef við snörum því. Heimamenn nota orðið bagras og má sjá það víða á þráðum alnetsins. Mynd og upplýsingar frá Anthony Aquino sem fjallað hefur um tréð á Facebooksíðunni Big Tree Seekers.
Ysta lagið af berki regnbogagífurs er í nokkrum tónum. Það getur verið dökkappelsínugult á litinn eða grænt til grágrænt. Litirnir eru mest áberandi þegar tréð er blautt. Þar sem tréð vex í regnskógum er það oftast tilfellið.
Þetta er ekki það eina með börkinn. Þegar hann flagnar af og fellur til jarðar birtast undir honum einskonar ílangt mósaíkmynstur með nánast öllum litum regnbogans. Af því hlýtur þetta tré nafn sitt á vorri tungu. Þar má sjá ýmiss tilbrigði við grænt, rautt og appelsínugult. Einnig eru brúnir og fjólubláir tónar. Ef birtan er rétt og rakinn nægur má jafnvel sjá bláa liti. Ekkert annað tré í heiminum hefur jafn bláan trjábörk, svo vitað sé. Ekki liggur fyrir hvers vegna í ósköpunum litirnir eru svona fjölbreyttir og af hverju hvert tré hefur sína eigin litapallettu.
Önnur mynd sem Anthony Aquino birti á Facebooksíðunni Big Tree Seekers. Var þetta gífur sem breyttist í tré er það breiddi út faðminn?
Eins og fram kemur í óbirtum pistli okkar um gífurviði er þessi ættkvísl, Eucalyptus, mjög stór. Flestar tegundirnar innan ættkvíslarinnar eru frá Ástralíu. Regnbogagífur er ein af undantekningunum. Það vex ekki villt í Ástralíu heldur í frumskógum Taílands, Indónesíu, Papúa Nýju-Gíneu og suðurhluta Filippseyja. Stundum er Sri Lanka talin með þegar heimkynni tegundarinnar eru tíunduð.
Formæður og -feður þessarar ættkvíslar eru talin vera regnskógartré þótt flestar tegundirnar í dag vaxi í mun þurrara umhverfi. Er það afleiðing þróunar og aðlögunar í kjölfar þess að Ástralía tók upp á því að þorna. Þá drógust skógar saman og eyðimerkur mynduðust. Það kann reyndar að hafa verið á hinn veginn. Fyrst hurfu skógarnir og þá þornaði landið. Að þessum breyttu skilyrðum tókst mörgum tegundum gífurviða að aðlagast. Því eru fjölmargar tegundir vel aðlagaðar þurrum svæðum. Samt er það svo að enn eru til tegundir innan ættkvíslarinnar sem best þrífast í regnskógum. Það á reyndar við um öll gífurtré í Suðaustur-Asíu að sögn Stirling Macoboy (1991). Ef til vill er regnbogagífur líkara fyrstu gífurtrjánum en þau sem vaxa í eyðimörkum Ástralíu.
Ungur drengur stendur við skrautlegt regnbogagífur á Filippseyjum. Myndina birti Anthony Aquino á Facebooksíðunni Big Tree Seekers. Þetta er þriðja myndin hans í þessum pistli.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
- Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.