Fara í efni
Pistlar

Lífviður frá Asíu

TRÉ VIKUNNAR - LXXXVIII

Í görðum og skóglendi er til sígræn ættkvísl trjáa sem á mörgum tungumálum er kennd við lífið sjálft. Heitir hún lífviður á íslensku en fræðiheiti hennar er Thuja L.

Þetta er fjórði pistill okkar um þessa ættkvísl. Áður höfum við fjallað um hinar tvær amerísku tegundir sem til eru, risalífvið og kanadalífvið, en einnig um ættkvíslina í heild. Hér verður fjallað um þær þrjár tegundir asískra lífviða sem til eru í heiminum. Stundum hefur fjórða tegundin fengið að fljóta með. Kallast hún kínalífviður eða Platyclasus orientalis. Eins og sjá má á fræðiheitinu telst tegundin ekki lengur til lífviða (Thuja), þótt íslenska heitið bendi til annars. Áður hét tegundin Thuja orientalis og hlaut þá þetta heiti á íslensku. Nú hefur hún verið flutt í aðra ættkvísl en heldur sínu gamla heiti.

Eftir þessa umfjöllun höfum við sagt frá öllum, þekktum tegundum ættkvíslarinnar.

 

Kínalífviður, Platycladus orientalis, telst ekki lengur til lífviða því könglar hans eru gjörólíkir könglum lífviða (Eckenwalder 2009). Hér vex hann í náttúrulegum heimkynnum sínum í Simatai í Kína. Myndin fengin frá Wikipediu en hana á yeowatzup at Flickr.

 

Kínalífviður er líka til á Íslandi og reynist álíka harðgerður og kóreulífviður. Mikilvægt er að hann fái gott skógarskjól. Þessi er á fermingaraldri. Vex hægt og er mjög þéttur. Hann er nú um einn metri á hæð. Mynd og upplýsingar: Valur Þór Norðdhal.

Almennt
 

Stór svæði Asíu eru alveg lausar við lífviði. Almennt vaxa lífviðir þar sem raki er nægur. Þegar fjær dregur ströndum Asíu er einfaldlega of þurrt fyrir þá. Allar þessar þrjár tegundir lífviða sem vaxa í Asíu eru mun fágætari en amerísku tegundirnar. Tvær af asísku tegundunum hafa borist til Íslands og ekki er að sjá annað en þær þrífist hér ágætlega. Önnur þeirra vex í eyríkinu Japan og hin á Kóreuskaga. Segir það sitt um hvers konar loftslag þær kjósa. Þær þurfa nokkuð hafrænt loftslag eins og er að finna allstaðar á Íslandi. Báðar vaxa þarna til fjalla svo hitasumman er ekki mjög langt frá því sem við getum boðið upp á á skýldum svæðum. Þriðja tegundin kemur frá Kína og var um tíma talin útdauð. Svo reyndist ekki vera en hún er sjaldgæfasta tegund lífviða í heiminum. Það væri mikill fengur fyrir safnara ef hún gæti þrifist hér á landi. Annars vísum við í þennan pistil fyrir þá sem vilja fræðast meira um þessa ættkvísl í heild.

 

Mynd úr þjóðgarðinum Ulsanbawi, Seoraksan í norðurhluta Suður-Kóreu. Þar vex kóreulífviður hátt til fjalla og verður kræklóttur runni. Ef til vill fjölgar hann sér þarna með sveiggræðslu. Myndin fengin héðan en hana á Kallerna.

Kóreulífviður, T. koraiensis T.Nakai

Kóreulífviður vex einkum á Kóreuskaganum. Hann vex um skagann norðanverðan og allt suður til nyrstu héraðanna í Suður-Kóreu. Hann vex einnig norðan landamæranna milli Kína og Norður-Kóreu. Þar vex hann feingöngu í fjallgarði sem kallast Changbai Shan og er þar sjaldgæfur en samt höggvinn til viðarframleiðslu (Eckenwalder 2009). Þessi tegund er auðþekkt frá öðrum tegundum ættkvíslarinnar þegar grannt er skoðað. Ástæðan er sú að laufið, eða barrið, hefur tvo mismunandi liti. Efra borðið hefur allt annan lit en neðra borðið. Gefur þetta tegundinni sérstakt útlit og einmitt þess vegna er tegundin víða nokkuð vinsæl í görðum. Á sumum eintökum er þetta ekki áberandi og sést ekki nema þegar neðra borðið er skoðað sérstaklega.
 
 

Kóreulífviður í Grasagarðinum í Reykjavík. Þarna stendur hann í skjóli hærri trjáa. Það kunna allar tegundir lífviða vel að meta. Mynd: Jakob Axel Axelsson.

Þetta er lágvaxnasta tegund ættkvíslarinnar en sum yrki af kanadalífvið eru enn lægri. Þar sem kóreulífviður vex hátt til fjalla verður hann oft og tíðum aðeins lágvaxinn og kræklóttur runni (Tudge 2005). Annars segja heimildir að hann verði oftast 1-2 metrar en á góðum stöðum getur hann náð um 9 metra hæð en á stöku stað allt að 20 metrum samkvæmt Eckenwalder (2009). Oft er það þannig, segir Eckenwalder, að framan af ævinni virðist hann ekki ætla að mynda einn stofn, heldur marga. Það er þó misjafnt milli einstaklinga hvernig þessu er háttað. Svo er eins og einn daginn ákveði einstaklingarnir að nú sé kominn tími til að verða tré. Tegundin er mjög hægvaxta en hefur reynst harðgerðari en vænta mætti miðað við hvaðan hún kemur. Tvö falleg eintök eru í Lystigarðinum á Akureyri og nokkrar plöntur í Hallormsstaðaskógi sem vaxið hafa frá 1954. Þær vaxa hægt en örugglega og kala lítið eða ekkert.

Þessi kóreulífviður á Hallormsstað hefur oft borið frjótt fræ og hefur verið sáð með ágætum árangri. Komið hefur í ljós að þær plöntur sem upp hafa vaxið sýna mismunandi vöxt. Sumar vaxa eins og efnileg tré meðan aðrar stefna í að verða lágvaxnir runnar. Þetta gæti bent til fjölbreytni í erfðaefninu eða blöndun við aðra lífviði. Ef engin blöndun hefur átt sér stað má vel vera að með tíð og tíma myndi runnarnir einnig stofna og verði tré. Þannig hagar tegundin sér að minnsta kosti í heimalandinu.

Kóreulífviður sem ræktaður var upp af fræi frá Hallormsstað í gróðrarstöðinni Þöll í Hafnarfirði en plantað í Kristnesi í Eyjafirði árið 2021. Seinni myndin sýnir vel hið ljósa neðra borð greinanna. Myndir: Helgi Þórsson.

Kóreulífviður vex til fjalla í Kóreu í um 700 til 2000 metra hæð. Oftast vex hann í blönduðu skóglendi en getur einnig vaxið ofan skógarmarka. Sennilega fjölgar hann sér mest með sveiggræðslu á slíkum stöðum. Mestum þroska nær hann í rökum fjallshlíðum og frjóum dölum.

Kóreulífviður í Hallormsstað sumarið 2019. Stærri plönturnar eru frá árinu 1956. Þær voru lengi að koma sér fyrir en eru nú státnar og fínar og gefa af sér frjótt fræ. Myndir: Sig.A.

Japanslífviður, T. standshii (G.Gordon) Carriére

Japanslífviður vex meðal annars í hinum heilaga Kiso skógi í miðhluta eyríkisins. Þar er lífviðurinn talinn ein af fimm heilögum tegundum sem í skóginum vaxa. Um tíma var það líflátssök fyrir almenning að höggva í leyfisleysi niður tré í Kiso. Það má ekki nota við þessara trjáa nema í hof shintotrúarmanna og í híbýli meiriháttar manna í samfélaginu (Wells 2010, Spade 2023, The Gymnosperm Database). Það vekur upp spurningar um hvort helstu silkihúfur svæðisins standi nær guðum en venjulegu fólki í virðingarstiganum. Ef til vill gætum við tekið mið af þessari hefð í Kiso í Japan og valið eins og fimm fisktegundir við Ísland, sagt þær heilagar og ákveðið að arðinn af þeim megi aðeins nota til að fjármagna kirkjubyggingar eða til að uppfylla fjármagnsþörf íslenskrar elítu. Þá væri hafið umhverfis Ísland orðið að okkar heilaga Kiso skógi.

 

Mynd úr Kiso skógi í samnefndum dal. Þar eru heimkynni japanslífviðar. Þar vex hann í ótrúlega fjölbreyttum og fallegum blandskógum. Myndin fengin héðan.

Kiso skógur er reyndar svo merkilegur að það kemur til greina að skrifa um hann sérstakan pistil og hinar fimm heilögu tegundir sem þar er að finna.

Annars er það að segja um japanslífvið að hann vex í fjalllendi bæði á eyjunum Honshu og Shikoku. Þar vex hann gjarnan með öðrum japönskum barrtrjám en stundum í blandskógum lauf- og barrtrjáa.

 

Japanslífviður í heimkynnum sínum ásamt þarlendum fugli. Sennilega hanga þessar greinar meira en algengast er, en það kann að vera einkenni á gömlum trjám. Á Íslandi eru ekki til nein gömul tré af þessari tegund. Myndin fengin héðan.

Tegundin getur náð allt að 18-20 metra hæð í Japan en óvíst er hversu há hún verður á Íslandi. Stærsta tréð sem þekkt er af þessari tegund í Japan var 22,5 metrar á hæð árið 1998. Það er einnig elsta þekkta tréð og var talið 283 ára gamalt þegar mælingin var gerð (The Gymnosperm Database).

Krónan er breiðkeilulaga og neðstu greinarnar útréttar en vísa örlítið upp á við í endann. Miðað við myndina hér að ofan á þessi lýsing fyrst og fremst við um yngri tré. Stofninn getur orðið 1 til allt að 2 metrar í þvermál. Börkurinn flagnar meira en almennt gerist hjá lífviðum, jafnvel á ungum trjám. Greinarnar eru ekki jafn flatar og hjá öðrum tegundum ættkvíslarinnar heldur mynda smágreinarnar óreglulegan flöt. Þær eru örlítið bogadregnar á efra borði og því er eins og barrið sé dálítið uppblásið. Sjá má hvítleita bletti á neðra borði barrsins. Má nýta þessi atriði til greiningar (Lystigarðurinn, The Gymnosperm Database, Eckenwalder 2009).

Enn sem komið er telst tegundin mjög sjaldgæf hér á landi. Reyndar er hún líka mjög sjaldgæf í Evrópu en engu að síður áhugaverð tegund.

Í Lystigarðinum var aðeins til eitt eintak. Til þess var sáð árið 1999 og það var gróðursett í beð árið 2006. Það óx vel og kól aldrei og virtist þrífast mjög vel. Svo kom eitthvað fyrir og tréð drapst upp úr þurru. Það er full ástæða til að reyna meira við þessa tegund í garðinum.

Í Japan vex tegundin nokkuð víða en er hvergi algeng í náttúrunni. Aftur á móti er hún mjög algeng í ræktun í Japan (Eckenwalder 2009). Viðurnefnið standshii er til heiðurs Englendingum John Standish (1814-1875) en við vitum harla lítið um þann heiðursmann, nema hvað hann mun hafa verið fyrstur til að rækta tegundina í Evrópu af fræi sem safnað var í görðum í Tókýó. Hann fékk fræið sent árið 1860 (Eckenwalder 2009). Því má segja að tegundin hefur verið lengi í ræktun í Evrópu en aldrei komist í tísku.

 

Margstofna japanslífviður á Írlandi. Myndina tók Martin Tijdgat og er hún fengin héðan þar sem finna má fleiri myndir. Á þráðum alnetsins eru til mjög margar myndir af þessu tiltekna tré.

T. sutchuenensis Franchet

Franski presturinn, trúboðinn og grasafræðingurinn P. G. Fargas dvaldist við trúboð og rannsóknir í og við kínversku borginni Chengkou á tímabilinu 1892 til 1900. Þá fann hann nýja tegund af lífvið sem var ókunnug vísindunum á þeim tíma. Hann safnaði eintökum og lýsti tegundinni. Þessi borg er í héraði sem nú kallast Chongking. Áður var það hérað talið hluti af Sichuan en á latínu er tegundin kennd við það hérað. Þessi lífviður hefur ekki neitt íslenskt heiti og ótækt er að kalla hann kínalífvið, því það heiti er notað á allt aðra tegund eins og áður greinir. Lengi vel var þessi tegund aðeins kunn af þeim fáu eintökum sem Fargas trúboði hafði sent til Evrópu. Því miður hafði Fargas aðeins greint lauslega frá því hvar hann fann tegundina og ekki komið henni til kínverskra grasafræðinga.
 

Þegar bæði kínverskir og evrópskir vísindamenn fóru að leita lífviðarins fannst hann hvergi. Því var tegundin talin útdauð (Spade 2023, Farjon 2008, Eckenwalder 2009).

 

Einhvers staðar í þessum skógum Chongking fann P. G. Fargas trjátegund í lok 19. aldar sem var ókunn vísindunum - og týndi henni aftur. Myndin fengin héðan.

Töldu vísindamenn víst að ástæðan væri sú að heimamenn hefðu ekki vitað að um einstakar lífverur væri að ræða og höggvið trén niður og nýtt til eldiviðar og smíða (Spade 2023). Við Íslendingar ættum vel að geta sett okkur í þessi spor. Okkur tókst næstum að útrýma nær öllum skógi á landinu og ef einhvers staðar hefur vaxið fágæt tegund við landnám er hún löngu horfin og hefur ekki skilið eftir sig nein ummerki. Svo var það að árið 1999 fundu grasafræðingar torkennilega plöntu í Daban Shan fjöllum rétt norðan við borgina Chengkou. Það var einmitt þar sem tegundin hafði fyrst fundist en Fargas hafði alveg sleppt því að nefna að plönturnar uxu flestar á mjög óaðgengilegum stöðum og fram að því höfðu grasafræðingar ekki talið líklegt að presturinn hefði þvælst á allra erfiðustu staðina (Spade 2023). Svo má vel vera að meira hafi verið af þessari tegund þegar Fargas var á þessum slóðum því auðvitað vissu heimamenn af þessari tegund og nýttu hana í endingargóða smíðagripi. Þegar grasafræðingar fundu hana var búið að höggva niður öll tré á aðgengilegum stöðum. Eftir voru aðeins runnakennd eintök og stöku tré á mjög óaðgengilegum stöðum í bröttum fjallshlíðum og gljúfrum (Eckenwalder 2009).

Aftur leitar hugurinn heim. Við höfum sagt frá því í þessum pistli að árið 1954 fannst blæösp í Garðsárgili en hún hefur ekki sést síðan. Við höfum enn rúmlega þrjá áratugi til að slá út Kínverjana í endurfundum fágætra trjáa. Í báðum tilfellum var tegundina að finna á mjög óaðgengilegum stöðum.

Það var svo ári eftir að tegundin fannst að nýju, aldamótaárið 2000, að Aljos Farjon, einn mesti barrtrjáasérfræðingur heimsins, skoðaði þessi nýju eintök og staðfesti að um T. sutchuenensis væri að ræða (Farjon 2008). Það verður að teljast merkilegt að þegar fólk taldi tegundina útdauða í rúmlega heila öld þá skuli hún einmitt hafa fundist þar sem hún átti að vera (Spade 2023).

Þetta er fágætasta tegund lífviða í heiminum og vex villt aðeins þarna í fjöllunum en vel má vera að hún hafi áður vaxið víðar, rétt eins og öspin í Garðsárgili.

 

Mynd úr bókinni A Natural History of Conifers sem sýnir teikningu Aljos Farjon frá 1991 af helstu greiningaratriðum Thuja sutchuenensis. Hún er gerð eftir eintökum í Frakklandi. Farjon var rétti maðurinn til að staðfesta greininguna á tegundinni árið 2000.

Eintökin sem franski presturinn Fargas sendi til heimalandsins hafa verið notuð til að fjölga tegundinni í Evrópu og í Norður-Ameríku. Hún finnst sums staðar í görðum í þessum álfum en okkur hefur ekki tekist að grafa neitt upp sem varpar ljósi á hvort tegundin hafi verið reynd hér á landi. Reyndar þykir okkur það harla ólíklegt.

Tegundin getur myndað meðalstórt tré og hugsanlega náð allt að 20 metra hæð ef það er ræktað við góðar aðstæður. Stofninn verður þó sjaldan meira um 30 cm í þvermál. Tegundin er nú friðuð í heimalandinu (Eckenwalder 2009). Aljos Farjon (2008) segir að tegundin sé auðgreind frá öðrum lífviðum í heiminum á því að bæði barrið og könglarnir eru mun minni og fíngerðari en á öðrum tegundum. Á neðra borði barrsins eru ljósar rákir með loftaugum þegar vel er að gáð.

 

Thuja sutchuenensis Mynd: © Bedgebury Pinetum. Myndin fengin héðan. Getur þessi tegund þrifist á Íslandi?

Fágætir frændur

Eins og áður hefur komið fram tilheyrir lífviður ættinni Cupressaceae sem gengur undir nokkrum nöfnum á íslensku. Þar sem við höfum nú sagt frá einni af sjaldgæfari tegundunum innan ættarinnar viljum við til gamans geta annarra fágætra ættingja. Nú er vitað um fimm eða sex aðrar tegundir ættarinnar sem aðeins eru til á einum stað hver, rétt eins og þessi kínverski lífviður. Misræmið milli talnanna stafar af því að ein þeirra, Juniperus bermudiana frá samnefndum eyjum er sennilega útdauð. Þessum eini var fyrst lýst árið 1753 en langt er síðan hann sást síðast. Í þessum fimm eða sex tegunda hópi er ein tegund, Xanthocyparis vietnamensis sem var ókunn vísundunum þar til árið 2002 (Farjon 2008). Það er aldrei að vita nema fleiri fágætar tegundir finnist á óaðgengilegum stöðum í heiminum í framtíðinni. Höskuldarviðvörun: Eftir hálfan mánuð munum við segja ykkur frá einni trjátegund sem fyrst uppgötvaðist fyrir sléttum 30 árum. Hún tilheyrir reyndar allt annarri plöntuætt.
 
 

Xanthocyparis vietnamensis var lengi talin enn fágætari en frændi hans Thuja sutchuenensis. Þar sem tegundin er hitabeltisplanta eru engar líkur á að hún þrífist á Íslandi, nema innan dyra. Hér er að sjá sem tegundin hafi fundist víðar frá því að Farjon (2008) sagði frá henni. Myndin er úr þessari grein en hana tók Wei-Bin Xu.

 

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir yfirleitt hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
01. desember 2024 | kl. 10:00

Öskudagurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
01. desember 2024 | kl. 06:00

Þroskasaga jólahyskisins í stórskemmtilegum söngleik

Rakel Hinriksdóttir skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 08:00

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30