Fara í efni
Pistlar

Hin mörgu heiti ýs

TRÉ VIKUNNAR - LVIII

Ýr Ívarsdóttir hitti vin sinn Eoin Eoghnachta frá bænum Tyrone í Írlandi við barrlindina sem stundum er kölluð bogviður. Þau ætluðu að fara saman í frí. Ýr vildi helst fara til Ystad á Skáni en Eoin vildi fara til New York. Hvernig þetta tengist efni pistilsins ætti að vera auðskilið eftir lestur hans.

 

Fremur ungir ýviðir við Traquair House í suðurhluta Skotlands. Myndin fengin héðan.

Hvers er að vænta?

Við höfum í nokkrum pistlum fjallað um hinn stórmerkilega ývið sem tengist órjúfanlegum böndum allskonar sögum um alla Evrópu. Þessar tengingar ná einnig til Íslands, þótt við áttum okkur ekki alltaf á því. Í þessum fjórða ýviðarpistli okkar skoðum við nokkur staðarnöfn sem dregin eru af heiti þessu trés og mannanöfn í mörgum tungumálum sem einnig eru dregin af heiti trésins. Þar á meðal eru mannanöfn sem við eigum á Íslandi og eru vel þekkt.
 

Ýviðurinn tengist líka fornri menningu okkar í gegnum rúnaletur. Rúnin ýr er ákaflega dularfull eins og þú, lesandi góður, getur fræðst um.

 

Eldgamall ýviður í Kingley Vale á Englandi. Þar eru margir fornir ýviðir. Mynd: AndreA og birti hún myndina á Pinterest.

Íslensk heiti á trénu
Þeir sem lesið hafa fyrri pistla okkar um þessa trjátegund vita sjálfsagt að hún kallast ýviður eða ýr á íslensku. Síðara nafnið getur einnig merkt bogi í fornu máli. Ýviður er þá tré sem hægt er að brúka til bogasmíði. Íðorðabanki Árnastofnunar gefur upp samheitin bogviður og barrlind. Bogviður er nánast eins og uppfærsla á eldra heiti. Síðast talda nafnið, barrlind, hefur sennilega borist hingað frá Norðurlöndum. Á norsku bókmáli heitir tegundin barlind og það heiti segir Hafsteinn Hafliðason (2016) að þekkist einnig í Danmörku og í sænskum málískum. Það er ljómandi fallegt nafn en óþarfi að nota það yfir tegundina þegar við eigum miklu eldra, germanskt nafn á hana sem tengist fornri sögu okkar og menningu.
 

Stutta heitið ýr er minna notað en ýviður. Það er fyrst og fremst notað sem viðskeyti þegar tilgreina þarf tegundir. Þannig kallast japanski ýviðurinn, Taxus cuspidata, japansýr, T. canadensis kallast kanadaýr, T. brevifolia er nefndur kyrrahafsýr og svo framvegis.

Á íslensku hefur ýviður af mörgum verið kallaður taxus. Það er fræðiheiti ættkvíslarinnar og er notað víða um heim. Það heiti notar til dæmis Sigurður Þórðarson í góðri grein sem birtist í Garðyrkjuritinu árið 2023. Frændur okkar í Færeyjum nota þetta heiti líka en hafa lagað stafsetninguna. Þar kallast tréð taksviður. Svo er að sjá sem frændur okkar noti jöfnum höndum latínuheitið og segi og skrifi taxus í stað taksviður.

 

Taksviður í færeyskum garði. Myndina á Sonja Jensen og birti hana á Facebooksíðunni Urtagarðs áhugaði. Sonja segir á síðunni að hún: „Havi 3 stk sum standa á ymiskum støðum í havanum, haldi allir veksa væl.“

Íslensk mannanöfn
Ýr er vel þekkt kvenmannsnafn á Íslandi og er úr frumíslensku eða jafnvel einhverri frumgermönsku. Á vef Hagstofu Íslands er hægt að skoða hversu margir bera ákveðin nöfn. Þar kemur fram að þann 1. janúar 2023 voru 42 einstaklingar sem báru nafnið Ýr sem fyrsta eiginnafn en 1383 sem báru það sem annað eiginnafn. Samtals bera því rúmlega fjórtán hundruð Íslendingar þetta nafn. Að auki eru 5 Íslendingar sem bera nafnið Ýrr sem fyrsta eiginnafn og 68 sem bera það sem annað eiginnafn. Á Íslandi er það nokkuð algengt að nota ýmiss heiti trjáa sem mannanöfn. Má þar nefna Björk, Birki, Reyni, Hlyn, Ösp og Víði sem dæmi. Samt er rétt að halda því til haga að sumt fólk telur að nafnið Ýr tilheyri ekki þessum hópi. Það getur nefnilega líka verið kvenkyns úruxi. Okkur þykir samt líklegra að þetta nafn sé til heiðurs trénu en útdauðri dýrategund. Það er samt ekki einsdæmi að nöfn, sem kunna að vera dregin af þessu tré, geta einnig átt sér annan uppruna. Nánar um það síðar í þessum pistli.
 

Það vekur furðu að þrátt fyrir að nafnið sé svona algengt virðist ekki öllum gefið að beygja orðið. Á það jafnt við um kvenmannsnafnið Ýr og karlkynsorðið ýr sem notað er á trén. Því birtum við meðfylgjandi töflu, byggða á upplýsingum frá Árnastofnun. Sennilega er fullt eins algengt í daglegu tali Íslendinga að segja Ýr í þf. og þgf. þegar kvenmannsnafnið er beygt, en sú beyging er ekki gefin upp hjá Árnastofnun.

 

Beygingar sérnafnsins og kk. nafnorðsins samkvæmt Árnastofnun.

Í grein í Bændablaðinu frá árinu 2016 segir Hafsteinn Hafliðason að mannsnafnið Ívar sé af sama stofni og hafi upphaflega merkt bogmaður. Hér að neðan er sagt frá rún í hinu forna rúnaletri fúþark. Þar er ein rún sem kallast iwaz og er talin tákna ývið. Þar kemur fram að /s/ getur þróast yfir í /r/ í gegnum /z/. Þá sést hvað orðin Ívar og iwaz eru í raun lík. Bæði orðin væntanlega dregin af nafni trésins í fornri germönsku.

Í upphafi ársins báru 662 Íslendingar nafnið Ívar sem fyrsta eiginnafn samkvæmt Þjóðskrá og 194 sem annað eiginnafn. Samtals eru því að minnsta kosti á þriðja þúsund Íslendingar sem bera nafn sem hægt er að tengja við þetta tré. Þá eru ónefnd erlend sérnöfn með sömu eða sambærilega merkingu.
 
 

Limgerði úr ývið geta verið ákaflega tilkomumikil og þétt. Myndin fengin af þessari auglýsingasíðu.

Grikkland og toxicon

Í fyrsta ýviðarpistlinum okkar sögðum við frá því að merking ættkvíslarheitisins, Taxus, er að líkindum komin frá Grikkjum. Talið er að nafnið gæti bæði verið dregið af grísku orði yfir eitur og yfir boga. Í þeim pistli lofuðum við grískum sögum þessu til stuðnings.
Wells (2010) segir að í einni sögunni um átök og árekstra grískra guða komi Artemis og Niobe við sögu. Niobe hafði hælt sér af því að hún væri frjórri en móður Artemisar. Artemes brást við með því að senda sjö börnum Niobe örvar sem bleyttar höfðu verið með ýviðareitri. Skilaði það tilætluðum árangri í þessum rökræðum. Þessar eitruðu örvar Artemesar voru kallaðar toxicon, en latínuheiti ættkvíslarinnar er Taxus. Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að sjá þarna eitthvert samhengi. Víðar í grískum sögum er orðið toxicon notað yfir eiturörvar. Upphaflega eitrið var úr ývið en orðið hélst þótt annað eitur yrði fyrir valinu. Alþjóðlega orðið Toxic yfir það sem er eitrað er af sama stofni, hvort sem eitrið er úr ývið eða einhverju öðru.
 

Í grískri goðafræði er mikið úrval af gyðjum. Ein af þeim var Hekata sem stundum var talin drottning í neðra. Eins og sumar guðlegar verur þróaðist Hekata töluvert á þeim öldum sem hún tilheyrði guðagalleríi Grikklands hins forna. Verður ekki nánar farið í þá sálma hér, nema hvað Hekata virðist hafa haft allgóð tengsl við ývið og hvítlauk. Hið síðarnefnda er utan við efni þessa pistil en ýviðurinn var helgaður Hekötu. Um tíma var tíska að fórna nautum til heiðurs þessari gyðju. Um háls fórnarnautanna var settur krans úr ýviðargreinum fyrir athafnir svo ljóst mætti vera hverjum þau væru fórnuð. Þegar gyðjan var tilbeðin þótti líka bráðgott að brenna greinar ýviðar til að bænirnar næðu örugglega til hennar.

Tengingin milli ýviðar og Hekötu mun hafa verið táknræn vegna stöðu hennar sem drottningar í undirheimum. Það gat gefið henni vald til að skilja á milli lifenda og dauðra. Því þótti heppilegt að helga henni plöntu sem bæði mátti tengja við boga, eitur og dauða en getur jafnframt verið tákn um eilífð og óendanleika, eins og fram kemur í fyrri pistlum okkar.

 

Hekata hafði prýðileg tengsl við ývið og myrk öfl. Myndin fengin héðan.

Þýsk og ensk heiti

Diana Wells (2010), sem sagði okkur frá latínuheitinu og merkingu þess hér ofar, segir líka frá hugsanlegum uppruna enska heitisins. Það er dæmigert fyrir þessa tegund að nöfnin er bæði hægt að tengja við dauða og eilífð. Má vera að það sé vegna þess að dauðinn er af mörgum talinn endanlegur og varir að eilífu. Á ensku er þetta tré kallað yew og borið fram sem /jú/. Wells segir að orðið gæti sem best hafa borist úr þýsku eða fornri germönsku. Nú merkir þýska orðið Ewigkeit eilíf og lýsingarorðið ewig merkir eilífur. Ewig á að hafa orðið að yew á enskri tungu en nú kallast þessi ættkvísl Eibe á þýsku eða jafnvel Eibenbaum.
 

Ekki verður betur séð en þessi orð geti vel verið af sömu rót. Í fornu máli var tegundin nefnd Iwa á þýsku. Gæti það vel hafa breyst í Eibe og verið komið frá orðinu Ewig. Önnur tilgáta er sú að fornir Germanar hafi fengið orðið frá Göllum sem kölluðu tréð ivos. Á bretónsku, sem töluð var á Bretanskaga, hét tréð ivin. Frakkar hafa tekið þetta nafn upp og kalla tréð if. Það er mjög ólíkt heitinu sem notað er í öðrum latneskum tungumálum eins og fram kemur hér síðar. Sjálfsagt er þetta allt sama rótin. Nánar um þennan orðstofn þegar við skoðum gelískuna hér aðeins neðar.

Hafsteinn Hafliðason sagði frá því í grein í bændablaðinu (2016) að uppruni enska heitisins sé annar en að ofan greinir. Hann segir það af sömu rót og íslenska heitið og hafi sömu merkingu. Orðið gat áður fyrr merkt bogi en er nú fyrst og fremst notað yfir tegundina sem notuð var í boga. Þetta getur þó allt staðist og passað ef orðið er komið inn í forna germönsku frá Göllum.

 

Óvenjuleg klipping á þýskum ývið. Myndin fengin héðan þar sem fjallað er um hvað hafa beri í huga við klippingu á Eibenbaum.

Írsk gelíska

Landnámsmenn Íslands höfðu margir hverjir tengsl við Írland eins og kunnugt er. Í þeirri gelísku sem þá var aðaltungumálið á Írlandi hét ýviðurinn eo. Gelískan er ekki germanskt tungumál eins og þýska og norðurlandamálin en orð úr henni hafa ratað í germönsk mál eftir allskonar krókaleiðum. Í ensku hafa orð ratað úr mjög mörgum tungumálum. Þar á meðal bæði úr germönskum málum og gelískum. Heitið eo er enn til í staðar í ýmsum myndum á Írlandi. Á vesturströnd landsins er sýsla að nafni Mayo. Ber hún nafn sitt af samnefndu þorpi sem upphaflega hét Maigh Eo. Maigh mun merkja slétta, svo þorpið hét upphaflega eitthvað í líkingu við Ýslétta eftir trénu (John Lowe 1897). Enska orðið yew má vel vera af sömu rót og framburðurinn var sjálfsagt svipaður í eina tíð. Írar notuðu orðið eo en í Veils hét tréð ywen. Það er svo nálægt enska orðinu að skyldleikinn verður varla dreginn í efa. Upphafleg merking þessa orðs, samkvæmt Wikipediugrein, er liturinn brúnn með vísan í rauðbrúnan lit stofns og viðar. Samkvæmt áðurnefndri Wikipediugrein kom sama hugmynd upp í Íran, þótt tungumálin væru gjörólík. Persar kölluðu tréð سرخدار. Fyrir þá fáu sem ekki kunna að lesa persneskt letur er rétt að geta þess að þetta er borið fram sorkhdār og merkir bókstaflega: Rauða tréð.
 
 

Niðursagaður stofn af ývið. Rauðir og brúnir tónar hafa gefið trénu nafn á sumum tungumálum. Skil milli rysju og kjarnviðar eru mjög glögg. Myndin fengin héðan.

Á vefsíðunni A Letter from Ireland er grein sem heitir: The Yew Tree of Ireland. Þar er það haft til sannindamerkis um áhuga Íra á ývið að hið forna heiti eo, hefur varðveist í staðarnöfnum (sbr. Mayo hér að ofan), nöfnum ættbálka (tribe) og mannanöfnum. Á það jafnt við um eftirnöfn og skírnarnöfn. Meðal staðarnafna sem í greininni eru nefnd eru nöfnin Tyrone, sem upphaflega hét Tír Eoghain og Inishowen, sem upphaflega hét Inis Eoghain. Þarna sjáum við gelíska orðið eo í báðum örnefnunum.

Írska drengjanafnið Eoghan hafi verið við lýði á eyjunni grænu í margar þúsaldir samkvæmt áðurnefndri grein. Nafnið er borið fram eins og Owen, sem vel getur upphaflega verið sama nafnið en tíðkast meira í Englandi en á Írlandi og er þar ættarnafn. Bein þýðing þess er eitthvað í líkingu við „Fæddur af ýviðartré“. Þetta var mjög algengt nafn á sínum tíma og margir frægir leiðtogar og stríðsmenn Íra báru það. Í greininni segir að það sé sennilega þess vegna sem nafnið hafi ratað á heilu ættbálkana. Nefnd eru sem dæmi ættbálkarnir Cenél Eoghain og Eoghnachta í Munster. Svo hafa margir lesendur þessa pistils sjálfsagt gluggað í unglingabækurnar um Artemis Fowl. Þær eru eftir írska rithöfundinn Eoin Colfer. Nafn hans er greinilega af sömu rót sprottið.

Til er síða um merkingu sérnafna sem tíðkast á enskri tungu. Þar segir að öll ofangreind sérnöfn: Eoin, Eoghan og Owen sé úr írskri gelísku eins og við vissum nú þegar. Þar segir reyndar líka að þau tengist hebresku. Þar segir að merkingin sé allt önnur en að ofan greinir. Hún á að vera sú sama og er í John, Ian, Sean og fjölda annarra. Það eru sömu heiti og Jón og Jóhannes á íslensku og merkir upphaflega eitthvað í líkindum við „Guð er mikill“. Ekki verður annað séð en þetta geti sem best stangast á og við getum ekki skorið úr um hvaða tilgáta er rétt, eða hvort þetta sé allt saman bæði satt og rétt.

Laglega klipptur ýviður í almenningsgarði í Boston. Ljósmyndari gat ekki greint þær með vissu til tegunda innan ættkvíslarinnar. Myndir: Sig.A.

Þess má geta að til Íslands bárust fjölmörg heiti úr gelísku á landnámsöld. Má þar nefna mannanöfnin Melkorku og Kjartan. Einnig fuglsheitið jaðrakan sem undirritaður lærði í æsku að ætti að beygjast eins og Kjartan. Því er Árnastofnun ósammála. Svo bárust hingað ýmiss örnefni sem talin eru úr gelískum tungum. Má þar nefna orðið Skeið sem mun upphaflega hafa merkt flæðiland eða eitthvað álíka. Það getur vel passað bæði við Skeiðará á samnefndum sandi og Skeiðin á milli Hvítár og Þjórsár. Þrátt fyrir þessi dæmi og fjölmörg önnur um áhrif gelísku á íslensku virðist heitið Eo ekki hafa borist hingað, enda óx tréð ekki á Íslandi við landnám. Þetta hljóð er þó til í íslenskum örnefnum. Má þar nefna Jófriðastaði í Hafnarfirði sem sumir segja að hafi áður kallast Ófriðastaðir og þar er enn Ófriðastaðahóll. Ekki er hægt að útiloka að sérnafnið Jófriðarstaðir sé komið úr gelísku. Vel gæti verið að einhver hafi einfaldlega tekið heitið með sér frá Írlandi. Sama má segja um fleiri staðarnöfn sem hafa þetta hljóð. Ef til vill eru einhverjir staðir á landinu sem við viljum kenna við hesta (jór merkir hestur) sem upphaflega hafa verið kenndir við ývið ef fólk hefur tekið með sér sérnöfn frá gamla landinu. Slíkur flutningur sérnafna þekkist víða. Má nefna ýmiss örnefni sem Vestur-Íslendingar tóku með sér og eru nú hluti af vesturheimsku sem töluð er í Vesturheimi.

 

Taxus baccata ´Fastigiata´ er frá Írlandi og er víða kallaður írskur ýviður. Hér er það gula yrkið ´Fastigiata Aurea´. Myndin fengin af þessari auglýsingasíðu þar sem yrkið er kallað Golden Irish Yew eða gyltur írskur ýr.

Jól

Til gamans setjum við inn þá hugmynd að ef til vill megi sjá þennan orðstofn í orðinu jól. Hugmyndir manna um hvaðan þetta forna orð er komið eru mjög óljósar. Helst er talað um að orðið sé samstofna orðinu hjól og tákni hina eilífu hringrás. Ef orðið hefur borist hingað úr gelísku eða öðru keltnesku tungumáli (sem er öldungis óvíst) má vel vera að þarna sé orðstofninn yfir ývið (eu, jú eða jó) lifandi kominn. Vel má trúa því að við sólstöður sé haldin hátíð til að fagna hækkandi sól og kenna hana við sígrænt tré sem getur táknað eilífðina. Ef til vill er ýviðurinn tengdari jólum en við höfum hingað til haldið. Það sem mælir helst gegn þessari tilgátu er að orðið er til í öðrum norrænum málum. Gelísk orð finnast að jafnaði ekki í öðrum norrænum málum. 
 
 

Er ýviður hið upphaflega jólatré? Myndin fengin héðan.

Skotland

Það er kunnara en frá þurfi að greina að gelískan á Stóra Bretlandi og Írlandi er ekki eins, þótt tungumálin séu skyld. Í Skotlandi hafa gelísk heiti ratað í örnefni sem eo eða iubhar. Þar fyrir utan er til örnefnið Isle of Yews eða Ýviðareyja Í vatninu Loch Lomond. Það er 80 ha eyja sem heitir Inchlonaig á gelísku. Reyndar merkir gelíska heitið ekki ýviðareyja, heldur eitthvað í líkingu við mýraeyja. Skoska þjóðhetjan Robert the Bruce er sagður hafa plantað ývið í eyjuna til að endurnýja þau tré sem hann hjó niður til að búa til langboga fyrir baráttuna við Englendinga. Nú er talið að á eyjunni séu um 800 ýviðir og þeir elstu frá 14. öld eða frá tíma Roberts. Þar má finna nokkur eintök af ýviðum sem hafa fallið en neitað að gefast upp og haldið áfram að vaxa. Slík tré mynda einskonar þykkni. Því hefur verið haldið fram að eyja þessi sé einstök á Bretlandseyjum og trúlega einstök á heimsvísu vegna þess hversu margir gamlir ýviðir vaxa þar. Heimildin fyrir þessu er þessi pistill á Facebooksíðunni Rewilding Scotland. 
 
Þrjár myndir frá Ýviðareyju eða Inchlonaig. Fleiri myndir má sjá hér. Myndir: Paul Greenwood
Fleiri ýviðir eru tengdir nafni skoska herkonungsins, Robert the Bruce. Samkvæmt þessari grein áði hann, á flótta undan Englendingum, með liði sínu undir trénu sem hér má sjá að neðan.
 
 

Undir þessum ývið áði Robert the Bruce árið 1306 og sagði mönnum sínum sögur af Artúri konungi og riddurum hringborðsins. Mynd og upplýsingar eru héðan.

Önnur fræg skosk hetja er William Wallace. Á leiði hans stendur mjög gamall ýviður eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

 

Wallace-ýrinn má muna sinn fífil fegurri. Myndin er fengin héðan.

Fleiri frægir Skotar eiga sín tengsl við ývið. Sjálft höfuðskáld Skota, Walter Scott (1771 – 1832), hafði dálæti á þessum trjám og til eru lifandi tré sem talið er að hann hafi sjálfur gróðursett á sínum tíma nálægt landamærum Skotlands og Englands. Að auki orti hann um tegundina.

Jórvík

Á heimasíðunni um írsku heitin, sem vísað er í hér ofar, er vitanlega ekkert talað um borgir og bæi í Englandi. Þar er bær sem var stofnsettur árið 71 eftir Krist af Rómverjum undir stjórn Quintus Petilius Cerealis. Heimamenn, sem þá töluðu einhvers konar gelísku, kölluðu bæinn Eburākon. Wikipidia segir að orðið sé dregið af orðinu eburos sem heimamenn notuðu sem nafn á ývið. Þarna er kominn stofn sem við þekkjum vel og áður var nefndur, enda er ekki langur vegur á milli orðanna ebu og eo. Rómverjarnir latínuseruðu nafnið svo það varð Eboracum. Nafnið á þessum bæ hefur þróast töluvert síðan þá. Samkvæmt þessari heimasíðu hét bærinn Eoferwic þegar Englar og Saxar tóku við af Rómverjum. Árið 866 lögðu víkingar svæðið undir sig og löguðu nafnið að sínu máli og að sínum framburði og bættu við viðskeytinu -vík. Þeir nefndu bæinn Jórvík. Enn er bærinn til og enn hefur hann þennan forna orðstofn yfir ývið í nafni sínu. Nú heitir bærinn York, eins og kunnugt er. Sá bær á sér nafna vestur í Ameríkuhreppi sem kallast Nýja Jórvík. Sú borg á engar sérstakar tengingar við ývið, nema nafnið.
 
 

Garðaýr, Taxus x media 'Densiformis' í Auburn í Nex York. Myndin fengin héðan frá Dickman Farms.

Latnesk tungumál

Hið forna tungumál Rómverja var latína. Eins og kunnugt er lögðu þeir undir sig stóra hluta Evrópu. Hvarvetna fylgdi tungumálið. Það hefur síðan tekið ýmsum breytingum en orðstofnarnir eru oft þeir sömu. Fræðiheitið á þessari ættkvísl er Taxus, eins og klifað hefur verið á. Þessi orðstofn er í flestum latnesku málunum. Nú nefna Ítalir þetta tré tasso, Spánverjar tejo og Portúgalir teixo. Í Katalóníu heitir það teix, á Korsíku tassu, í Rúmeníu tisă og svo mætti áfram telja.
 

Slavneskar þjóðir hafa tekið upp þennan sama orðstofn. Pólverjar kalla tréð cis, Úkraínumenn, Slóvakar og Rússar tis og svo framvegis.

 

Þessi ýr er sagður vera elsta tré Póllands. Myndin fengin héðan.

Hljóðfræði og rúnin ýr

Hið forna rúnaletur hefur verið nefnt fúþark eftir sex fyrstu rúnunum. Þjóðminjasafnið hefur á vef sínum eldri og yngri útgáfu af letrinu. Þrettánda rúnin í eldri gerð hefur stundum verið nefnt iwaz eða eitthvað álíka. Mynd af henni er hér til hliðar. Hún er af mörgum talin tákna ývið. Rétt er að rifja upp að hér að ofan segir að tréð hafi verið kallað Iwa á fornri þýsku. Orðstofninn er sá sami.
 

Hvaða hljóð þessi rún átti að tákna upphaflega er eitthvað málum blandið og til eru nokkrar tilgátur. Hjá Þjóðminjasafninu er sagt að það tákni /ei/. Ef marka má Hafstein Hafliðason (2016) er hljóðið einhvers konar ei-hljóð eða blásið i-hljóð í frumgermönsku. Þetta hljóð virðist hafa orðið að /íð/ eða /ið/ Í norrænu. Þetta hljóð heldur sér nokkuð í sænsku þar sem ýviður heitir id eða idegran. Þetta forna heiti getur sem best, samkvæmt sömu heimild, tengst mörgum staðar- og mannanöfnum. Má þar nefna að æsir hittust á Iðavöllum. Iðunn er fulltrúi eilífrar æsku og endurnýjunar og svo má áfram telja. Nefna má Ydre kommúnu á Norður-Gautlandi, bæinn Ystad á Skáni og Idstedt í Norður-Þýskalandi. Hann tilheyrði áður Danmörku og hét þá Isted. Hafsteinn segir að um alla Vestur-Evrópu megi finna staðarnöfn sem tengd eru þessu forna heiti yfir ývið. Það er þó erfitt að fullyrða um það þar sem hljóðið hefur breyst og þróast. Það er ýmist táknað með y, ý, i, í eða ei eftir tungumálum og tímabilum (Hafsteinn 2016).

Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00